Út er komin bókin Séra Bragi eftir Hrannar Braga Eyjólfsson. Siglufjörður átti ætíð sérstakan stað í hjarta séra Braga Friðrikssonar og er þeim árum sem hann bjó í bænum gerð góð skil í bókinni.

Séra Bragi lifði ótrúlegri ævi og þjónaði í Garðabæ lengi. Það er fjallað ítarlega um ævi séra Braga í bókinni. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór á milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, í Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri. 

Hann hitti föður sinn í fyrsta sinn 8 ára gamall þegar hann heimsótti hann á Torfustaði í Miðfirði þar sem hann bjó hjá fósturforeldrum sínum. Síðar var ákveðið, þar sem Bragi var skarpgreindur, að hann færi á Siglufjörð til að sækja reglulegt skólanám sem ekki var í boði í Miðfirðinum. Hann flutti því til Siglufjarðar 10 ára gamall, gekk í barnaskólann, hóf að æfa frjálsar með KS, gekk í skátana og ýmsan annan félagsskap, og þjónaði síðan sem lögregluþjónn á sumrin. Hann varð á þessum árum einn fremsti frjálsíþróttamaður landsins og sló fjölda drengjameta og Íslandsmeta, einkum í kúluvarpi og kringlukasti. 

Í bókinni er ítarlega sagt frá tíma hans á Siglufirði, einnig sagt frá föður hans Friðriki Helga Guðjónssyni og bróður hans Ingvari sem létu til sín taka á síldarplönunum. Frásögnin byggir á bréfum sem Bragi skrifaði til fósturforeldra sinna í Miðfirði þar sem hann lýsir lífinu á Siglufirði, en einnig fjölskyldusögum, fréttaflutningu í bæjarblöðunum og viðtölum sem síðar voru tekin við séra Braga. 

Hann flutti svo til Akureyrar til að nema við Menntaskólann þar, en sá tími átti eftir að verða honum örlagaríkur. Hann mátti upplifa barnamissi og svo veiktist hann af Akureyrarveikinni og lamaðist um tíma. Hann hræddist um líf sitt, en þegar hann lá á sjúkrabeði sínum hét hann Guði að helga líf sitt honum fengi hann að lifa. Sú varð raunin og séra Bragi skráði sig til náms í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1949. 

Síðar átti hann eftir að þjóna Vestur-Íslendingum í Kanada árin 1953-1956, var fyrsti framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem hann skipulagði frá grunni æskulýðsstarf borgarinnar, flutti í Garðahrepp sem síðar varð að Garðabæ, stofnaði þar Ungmennafélagið Stjörnuna, skátafélag, Rótarýklúbb, Tónlistarfélag og fleiri félög. Hann var stafnbúi þar og fyrsti heiðursborgari Garðabæjar. Hann var á meðal fremstu þjóna þjóðkirkjunnar og breytti skipan hennar í störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, var aðalhvatamaður á bakvið stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar og sat á kirkjuþingi um árabil. Síðar var útskrifaðist hann elstur manna frá Háskóla Íslands og gaf út bók 80 ára gamall. Hann lést árið 2010. 

Á forsíðumynd má sjá séra Braga ásamt nemendum sínum fyrir framan Siglufjarðarkirkju.

Bókin fæst á www.serabragi.is og í verslunum Pennans Eymundsson og Hagkaup.

Myndir/aðsendar