Í gær laugardaginn 13. okt. kl. 14 var afhjúpuð stytta af Gústa guðsmanni á Ráðhústorginu á Siglufirði.
Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari gerði styttuna af Gústa sem síðar var steypt í brons erlendis. Séra Vigfús Þór Árnason, Kristján L. Möller og Hermann Jónasson voru í forsvari fyrir gerð minnisvarðans.
Fjölmenni var við afhjúpunina, Vigfús Þór Árnason flutti ritningarorð og Kristján l. Möller afhenti bæjarfélaginu styttuna.
Guðmundur Ágúst Gíslason jafnan nefndur Gústi guðsmaður fæddist í Hvammi í Dýrafirði 29. ágúst árið 1897 og andaðist á Siglufirði 12. mars 1985.
Gústi hitti guð sinn á Akureyri, hét honum að róa á hans vegum og láta gott af sér leiða. Hann gerði út bátinn Sigurvin, reri á honum í 40 ár og varði öllu sem hann þénaði til kristniboðs og góðverka.
Gústi gaf allan ágóða af útgerðinni til hjálparstarfs fyrir börn í Afríku. Sjálfur bjó Gústi í gömlum síldarbrakka og lifði einföldu lífi.
Myndir: Ingvar Erlingsson