Eins og mörgum lesendum Trölla.is er kunnugt var vefmyndavélin á Siglufirði biluð í margar vikur í sumar, og einnig síðasta vetur.

Þetta vakti mjög sterk og mismunandi viðbrögð, sem sum eru ekki heppileg í frétt eins og þessa, en önnur mjög vinsamleg og í einstaka tilfellum spurði fólk um reikningupplýsingar til að leggja í púkk fyrir viðgerðarkostnaði.

Það tók nokkurn tíma að finna út hvað var að, m.a. vegna þess að netsamband við vélina var rofið og gekk illa að finna út úr því, en að lokum mældist gott netsamband upp í tankinn sem vélin er á, en allt kom fyrir ekki, vélin var ekki að skila myndum og héldu sumir að hún væri ónýt. Það var því ekki um neitt að ræða annað en fara upp á tankinn, sem er mjög hár og engin einföld leið til að komast þangað upp.

Að lokum varð úr að fengin var vinnulyfta sem náði upp, og þá var hægt að senda menn til að taka vélina niður til skoðunar. Í ljós kom að kapallinn sem tengir vélina við rafmagn og net var illa farinn og var ákveðið að skipta um hann. Spennugjafinn sem sér henni fyrir réttum straum var líka bilaður, hugsanlega vegna þess að skammhlaup hefur orðið í kaplinum.

Ákveðið var að yfirfara myndavélina, skipta um kapal og spennugjafa, og í leiðinni var bætt við fleiri vírstögum á mastrið, sem minnkar titring þegar vindur blæs.

Vélin komst í lag í síðustu viku. Kostnaðartölur liggja ekki fyrir á þessari stundu.

Þúsundþjalasmiðurinn Ægir Bergs leiddi viðgerðarflokkinn og stjórnaði verkinu af sinni alkunnu lipurð og reynslu. Trölli.is vill þakka þessum eðal mönnum fyrir viðgerðina, og Andra Hrannari fyrir myndatökuna. Aggi Sveins tók líka nokkrar af myndunum.

Það voru þeir Ægir Bergs, Alli í Raffó, Aggi Sveins einnig hjá Raffo og starfsmaður frá L7 sem unnu verkið af stakri prýði. Tæknimaður Trölla er erlendis um þessar mundir og komst því ekki með þeim í verkefnið.

Rétt þykir að greina frá því að þessi vefmyndavél er alfarið á vegum Trölla, sem hefur frá upphafi borið kostnað af kaupum, uppsetningu og viðaldi vélarinnar, sem skilar engum tekjum.


Myndir: Andri Hrannar Einarsson og Agnar Sveinsson