Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga segir frá námsferð til Héðinsfjarðar þar sem nemendur lágu úti yfir nótt.

Hluti af námi í áfanganum útivist í snjóleysi, ÚTIV2HR05, felst í þjálfun í að meta aðstæður í náttúrunni með tilliti til öryggis og öðlast sjálfstæði í óbyggðum. Áhersla er lögð á virðingu fyrir náttúrunni og góða umgengni um landið.

 

Nemendur í áfanganum og tveir útivistarkennarar fóru í námsferð fyrir helgina og lágu úti í Héðinsfirði. Eftir vandlegan undirbúning var lagt af stað um miðjan dag á fimmtudag og komið til baka um sólarhring síðar. Farið var frá þjóðveginum, með viðeigandi búnað á bakinu og gengið niður að sjó. Áð var nokkrum sinnum á leiðinni og Gestur, annar kennarinn, sagði sögur af lífinu í Héðinsfirði, meðan þar var enn byggð og fræddi nemendur um örnefni.

Eftir tæplega þriggja klukkustunda göngu var slegið upp tjöldum við slysavarnarskýlið í Vík, austan megin í Héðinsfirði. Þar var eldað og gist um nóttina. Eftir ágætan nætursvefn útbjuggu nemendur morgunverð og neyttu og síðan var komið að því að pakka saman og ganga til baka. Veður var gott, eftir miklar rigningar dagana á undan og nutu nemendur útiverunnar.

Að sjálfsögðu reyndi nokkuð á þá í ferðinni. Sumir höfðu ekki gist í tjaldi áður og það tók á að bera allan farangurinn. Svo var ekkert símasamband!

Kennarar í ferðinni voru Kristín Anna Guðmundsdóttir og Gestur Hansson. Myndir