Á 723. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar mættu þau Tómas Hilmar Ragnarz og Erna Guðjónsdóttir og fóru yfir áform félagsins um opnun skrifstofuseturs Regus á Siglufirði.
Um er að ræða tíu skrifstofurými sem gætu þjónað um 30 starfsmönnum og aðstöðu fyrir 20 opin vinnurými ásamt fundarrými og kaffiaðstöðu. Ætlunin er að bjóða upp á sömu þjónustu og gæði og gert er í Reykjavík og á öðrum stöðum sem Regus er með starfsemi á, en félagið rekur yfir 4.000 skrifstofusetur í 127 löndum, 900 borgum og 850 flugvöllum og er með yfir sjö milljón notendur um allan heim.
Bæjarráð þakkaði greinagóða og fróðlega yfirferð og lýsir yfir ánægju sinni með verkefnið enda er að mati ráðsins um mikið framfaramál að ræða og samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar í bæjarstjórn.