Birt hafa verið til umsagnar drög að reglugerð um meðferð umsókna ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss (þriðjaríkisborgara) sem vilja starfa hér á landi sem heilbrigðisstarfsmenn. Markmiðið er að einfalda og skýra kröfur til slíkra umsókna og stuðla að aukinni skilvirkni við meðferð þeirra. Umsagnarfrestur er til 16. apríl.

Fjallað er um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi í 5. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Íslenska ríkið er með samninga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsfólks í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss. Þetta einfaldar ferlið við mat á umsóknum um starfsleyfi hér á landi í samanburði við meðferð umsókna ríkisborgara frá öðrum ríkjum. Í gildandi reglugerðum um menntun, réttindi og skyldur löggiltra heilbrigðisstétta og skilyrði fyrir starfsleyfi og sérfræðileyfi (34 talsins) eru sérstök ákvæði um meðferð umsókna ríkisborgara utan EES og Sviss. Með reglugerðardrögunum birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að ein reglugerð gildi um meðferð umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstétta frá þeim ríkjum sem ekki falla undir lög nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. 

Áformaðar breytingar

Samkvæmt ákvæði 5. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn er heimilt að gera kröfu um að umsækjendur frá þriðja ríki búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á  hverju sinni. Einnig að fyrir liggi staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt ráðningarsamningi. Þessar heimildir hafa verið nýttar en samkvæmt meðfylgjandi reglugerðardrögum verða gerðar ákveðnar breytingar hvað það varðar, auk annarra breytinga sem miða að því að skýra og einfalda meðferð þessara mála og gera ferlið skilvirkara.

  • Í upphafi umsóknarferlis verður nóg að leggja fram ráðningarsamning, sem má hafa fyrirvara um veitingu starfsleyfis. Atvinnu- og dvalarleyfis verður ekki krafist fyrr en undir lok umsóknarferlis, áður en leyfi er gefið út.
  • Embætti landlæknis verður heimilt að leggja fyrir umsækjanda að standast hæfnispróf eða ljúka aðlögunartíma. Sambærilegar heimildir eru þegar í gildi varðandi ríkisborgara EES og Sviss. Breytingin stuðlar því að auknu jafnræði milli erlendra umsækjenda.
  • Krafa um íslenskukunnáttu verður ekki skilyrði fyrir starfsleyfi, heldur vinnuveitanda falin ábyrgð á að gera kröfur um nauðsynlega tungumálakunnáttu í samræmi við eðli starfs. Þetta er í samræmi við gildandi reglur um umsækjendur frá ríkjum EES og Sviss og eykur því jafnræði milli erlendra umsækjenda.
  • Heilbrigðisstofnanir munu geta sótt um starfs- og sérfræðileyfi fyrir hönd sérfræðinga sem brýn þörf er á að fá til starfa á stofnunni.
  • Embætti landlæknis verður heimilt að forgangsraða umsóknum þeirra sem þegar komnir til landsins, umfram þá sem enn eru erlendis.
  • Nóg verður í sumum tilvikum að framvísa gildu og ótakmörkuðu starfsleyfi frá ríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður hefur starfað, í stað þess að gera kröfu um starfsleyfi frá námslandi eða því ríki þar sem umsækjandi er ríkisborgari.

Reglugerðin til umsagnar í samráðsgátt  

Mynd/Pixabay