Nú líður senn að því að nýr forustumaður Sjálfstæðisflokksins verði kosinn. Í máli þeirra sem leiða núverandi forustu og eru væntanlega í framboði til formanns, kemur fram að forustumenn flokksins hafi ekki opnað faðminn fyrir hinum almenna borgara heldur faðmað að sér fámenna sérhagsmunahópa það fast að að hinn almenni borgari hefur gleymst nema þegar kemur að kosningabaráttu.
Hafa fulltrúar sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð opnað faðm sinn fyrir okkur, hinum almenna kjósanda, og spurt hann álits á þeim málefnum sem efst eru á baugi í bæjarmálum á hverjum tíma?
Hér áður fyrr voru reglulega haldnir fundir í félagi sjálfstæðismanna og hinn almenni félagsmaður fékk að fylgjast með málefnum líðandi stundar og ræða málin.
Nú er öldin önnur.
Fyrir mér virðast málefni líðandi stundar vera rædd/teknar ákvarðanir innan mjög fámenns hóps sjálfstæðismanna í Fjallabyggð.
Eftir lestur nýbirtar skýrslu, stjórnsýslu – og rekstrarúttekt sveitarfélagsins, sjálfstæðismenn hafa tekið þátt í meirihluta um árabil, vakna upp margar spurningar og eftir lestur fundargerðar bæjarráðs frá 17.janúar síðastliðnum virðist þið lítið hafa lært eða tekið mark á fyrrnefndri skýrslu.
Ég vil skora á forystu sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð að boða til fundar sem allra fyrst þar sem við, hinn almenni félagsmaður, getum farið yfir mál eins og t.d. fyrrnefnda skýrslu, Samkaupsmálið, rekstur Hornbrekku, félagsþjónustu, Öldungaráð og önnur mál sem áhugavert er að ræða.
Virðingarfyllst,
Konráð Karl Baldvinsson