Laugardaginn 25. maí brautskráðust 34 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar af 24 fjarnemar. Í desember brautskráðist 21, þannig að á skólaárinu útskrifast samtals 55 nemendur. Frá upphafi hafa 299 brautskráðst frá skólanum. Þrettán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut á laugardaginn, níu af náttúruvísindabraut, fjórir af íþróttabraut – tveir af íþróttasviði og tveir af útivistarsviði, þrír af listabraut – myndlistarsviði, fjórir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs og einn útskrifaðist af starfsbraut. Nemendur við skólann á vorönn voru 346 en starfsmenn 25.

Lára Stefánsdóttir ræddi um það góða í lífinu í ávarpi sínu til nemendanna sem brautskráðust. Hún hvatti þá til að leita gleðinnar en láta vera að tuða yfir því sem væri ekki eins og maður helst vildi eða gæti farið úrskeiðis. Mikilvægt væri að vanda sig í samskiptum við umhverfið og sýna góðvild, jafnt sjálfum sér og öðrum, fjölskyldu, vinum og félögum. Lára hvatti nemendur til að einbeita sér að því að vera góðir stjórnendur í eigin lífi þannig að þeim sjálfum og öðrum liði vel og gengi vel.

Dagný Ásgeirsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagðist útskrifast stolt af því að hafa lokið námi við MTR. Hún sagðist hafa fengið fjölmörg tækifæri á námstímanum og skólagangan hefði styrkt hana sem einstakling og héðan færi hún fullviss um eigin getu og styrk. Þetta þakkaði hún samnemendum og starfsmönnum skólans sem hefðu stutt hana og gefið henni tækifæri til að njóta sín.

Sjá Myndir