Upp úr klukkan 9 í gærmorgun var áhöfn Húnabjargarinnar, björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Skagaströnd, kölluð út eftir að skipstjóri fiskibáts sem var þá staddur utarlega í Húnaflóa hafði haft sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskað aðstoðar. Net höfðu farið bæði í aðalskrúfu bátsins sem og hliðarskrúfu og ekki hægt að sigla bátnum fyrir eigin vélarafli.
Húnabjörgin lagði úr höfn á Skagaströnd skömmu fyrir klukkan 10. Á vettvangi var hæglætis veður og lítil hætta á ferðum. Sigling Húnabjargar, sem er eitt af eldri björgunarskipum félagsins, tók rétt um tvo tíma og um hádegisbil var búið að koma taug á milli og haldið í átt til Skagastrandar.
Dráttur gekk vel, þó hægt væri farið, en skipin sigldu til lands á um 6 til 7 sjómílna hraða.
Komið var til hafnar á Skagaströnd um 5 leitið eftir áfallalausa heimsiglingu.

Myndir/aðsendar