Leki kom að Múlabergi frá Siglufirði í síðustu veiðiferð. Viðgerð mun ekki vera talin borga sig á skipinu sem er orðið fimmtíu ára gamalt.

Þótt Ísfélagið hafi tilkynnt að áhöfninni verði sagt upp segir Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri að engin uppsagnarbréf hafi borist. Því sé óljóst hvað verði um mannskapinn sem hann kveðst telja allt að fimmtán manns með öllu.

„Kannski stendur í bréfinu að það verði reynt að koma mönnum fyrir á öðrum skipum félagsins. Ég bara vona það,“ segir skipstjórinn. Ekkert sé búið að ræða við áhöfnina.

„Ætli karlarnir fari ekki bara að líta í kring um sig eftir öðrum stöðum. Það fer eftir hvað stendur í bréfinu,“ segir Finnur. Kannski verði þeim komið fyrir á nýju Sigurbjörgu sem verið er að smíða í Tyrklandi. „Það hlýtur að þurfa að manna það skip.“

Heimild/Fiskifréttir
Mynd/Ingvar Erlingsson