Í næstu viku stendur til að hafa opið hús á íbúðum við Vallarbraut (gamla fótboltavellinum). Þar gefst áhugasömum tækifæri til að skoða íbúðir sem byggðar hafa verið af fyrirtækinu Verkstjórn ehf í eigu Grétars Sigurfinns Sigurðssonar. Trölli.is mun greina nánar frá tímasetningu á opnu húsi þegar nær dregur.
Athygli vakti á dögunum frétt á Trölla.is, þar sem greint var frá því að Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra væri með fimm fasteignir að Vallarbraut í uppboðsferli og gerðarbeinandi var skatturinn. Þar var átt við fimm fasteignir, nánar tiltekið þær lóðir sem óbyggðar eru. Um var að ræða gamlar skattaskuldir og var gengið að þessum fimm fasteignum. Skuldin hefur verið greidd Sýslumanninum á Norðurlandi eystra og ekki kom til þessa uppboðs.
Í tilefni af opnu húsi hafði Trölli.is samband við Grétar Sigurfinn um opið hús og spurði hann nokkurra spurninga, eins og t.d. orðróm um myglu í húsunum.
Svaraði Grétar Sigurfinnur þeim orðrómi á þennan hátt.
“Varðandi orðróm um myglu þá er alveg ótrúlegt að það sé eitthvað sem sé verið að tala um því það hefur aldrei komið upp nein mygla í húsunum. Ég er meðvitaður um myndband sem gekk á milli manna þegar verið var að opna einingarnar síðasta vetur. Þar sást mikið vatn koma niður þegar plast var skorið. Það hafði verið mikil ofankoma á þessu tímabili. Þetta var fullkomlega eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af. Þetta er hluti af byggingar framkvæmdum, alveg eins og þegar vatn kemst inn í staðsteypt hús á byggingartíma. Þetta myndband sýndi eingöngu þegar vatn var losað milli eininga. Svona var gert allstaðar þegar húsið var sett saman. Síðan stóðu allir veggir opnir í 2-3 mánuði og öllu leyft að þorna áður en að einhverjum veggjum var lokað, eftir að lagnir höfðu verið settir inn í þá. Verkefnastjóri timbureiningaverksmiðjunnar (Seve) ásamt byggingarstjóra fóru yfir alla veggi og öll loft og tóku myndir áður en þeim var lokað. Seve timbureiningaverksmiðja tekur ábyrgð á framkvæmdinni í 5 ár alveg eins og byggingarstjórinn og ef eitthvað kemur upp gagnvart myglu eða einhverju öðru þá bera þessir aðilar ábyrgð og munu laga”.
Einnig var spurt út í áfangaúttektir og lokaúttektir á íbúðunum.
“Byggingarstjórinn er ábyrgur fyrir framkvæmdinni. Hann sér um sínar úttektir, ég fæ engar úttektir til mín. Þær eru gerðar í gegnum kerfi sveitafélagsins til að hver áfangi standist skoðun. Lokaúttekt fer ekki fram fyrr en í vor þegar framkvæmdum á lóðinni er lokið. Ekki er hægt að klára þær fyrr en í vor”.
Trölli.is spurði einnig út í kaupverð íbúða sem Fjallabyggð keypti af Verkstjórn ehf.
“Kaup milli Verkstjórnar og Fjallabyggðar er trúnaðarmál. Þið verðið að leitast eftir svörum við þessu hjá sveitarfélaginu”
Þess má geta að Trölli.is hefur þegar sent inn fyrirspurn til Fjallabyggðar varðandi kaupverð íbúða.