Vísir.is birti frétt fyrir skömmu þar sem segir frá því að ljósleiðari Mílu sem staðsettur er í Siglufjarðarskarði hafi slitnað í sundur um klukkan 14:15 í dag. Er viðgerðateymi á leið á vettvang.

Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu sagði við Vísi að aðilar sem eru í framkvæmdum á svæðinu hafi grafið niður á strenginn og slitið en hún hafi ekki upplýsingar um hverjir þessir framkvæmdaaðilar eru. Strengurinn hafi farið í sundur og þess vegna sé skert þjónusta í gegnum hann á Siglufirði og svæðinu þar í kring.

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, segir bilunina ekki hafa áhrif á internet- og sjónvarpsþjónustu á svæðinu þar sem Siglufjörður sé hringtengdur. Umferð um ljósleiðara sé því beint hinum megin frá en tveir farsímasendar hafi dottið út, annars vegar í Haganesvík og hins vegar í Skeiðsfossvirkjun.


Mynd/Ingvar Erlingsson