Skemma Björgunarsveitarinnar Stráka hefur verið girt af með bifreiðum og vinnuvélum, ekki er hægt að koma búnaði sveitarinnar út ef á þarf að halda.

Það er nágranni Stráka, Valgeir Sigurðsson sem girti lóðina af og segist vera í fullum rétti til þess, því hann eigi lóðina þar sem aðkeyrsla Björgunarsveitarinnar er að tækjaskemmunni. Ef hann eigi að opna verði menn að koma að máli við hann og semja.


Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðum vegna málsins meðal bæjarbúa.

Björgunarsveitarmenn fengu verktaka til að saga sundur vegg til að opna leið fyrir þá út af planinu til norðurs. Tæki björgunarsveitarinnar komast því hvergi eins og staðan er.

Valgeir Sigurðsson tjáði Trölla.is að engin hafi spurt hann um leyfi í gegnum árin hvort megi keyra yfir lóð hans og nú sé kominn tími til að verði samið við hann og að hann fái greitt fyrir aðstöðuna. Nú sé kominn tími til að koma “skikk” á málið.

Einnig sagðist hann hafa orðið fyrir ónæði og átroðningi vegna smíði fjarskiptamasturs á lóð Björgunarsveitarinnar og sagði að “ekki fengi hann afslátt af gjaldskrá símans”.

Trölli.is náði sambandi við Ingvar Erlingsson hjá björgunarsveitinni sem sagði að þetta væri erfitt mál og að þeir væru að leysa aðgengið í góðri samvinnu við nágranna sína til norðurs, Rammann og Primex. Einnig kom fram að þetta mál sé hvatning til að íhuga flutning á starfsemi sveitarinnar.

Frétt uppfærð:
Valgeir Sigurðsson hafði samband við Trölla eftir birtingu fréttarinnar og vildi árétta að björgunarsveitin sé ekki lokuð inni með búnaðinn, þar sem hægt væri að nota austurdyr á skemmu björgunarsveitarinnar. Sú leið hefur þó ekki verið notuð fram til þessa, því eins og myndin hér að neðan sýnir er þessi leið kannski ekki hentug fyrir forgangs-akstur.

Leiðin sem Valgeir bendir á að björgunarsveitin geti notað.