Í einum miðannaráfanga MTR fengu nemendur fræðslu um möguleika akrýlmálningar í víðum skilningi. Áfanginn hófst með umræðu um hvað væri málverk og hvað væri það ekki. Einnig var rætt hvort falleg málverk væru endilega góð listaverk og hvernig líta ætti á ljót málverk! Út frá umræðunni fóru nemendur að prófa sig áfram með efnivið og hugmyndir.
Á öðrum degi fengu nemendur það verkefni að koma með efniðvið sem þeir gætu nýtt sér í því verkefni að breyta einhverju í eitthvað annað. Hvort sem það væri að fegra, laga, gefa annað hlutverk, eyðileggja eða nýta til að túlka hugmynd. Jafnvel aðeins til að sjá hvað gerist þegar eitt leiðir af öðru. Skæri, sagir og límbyssur var mikið notað þennan dag, en notkun akrýlmálningar var skilyrði alla vikuna.
Á miðvikudag komu nemendur með fatnað til að mála á, hugmyndin var að hugsanlega væri hægt að ganga um í sínu eigin akrýlverki. Sokkar, bolir og derhúfur fengu nýtt líf næstu daga því á fimmtudag og föstudag völdu nemendur sjálfir þann efnivið sem þeir kusu að útfæra. Skúlptúrar, nytjahlutir, fatnaður, hefðbundnari málverk, tilraunir og misheppnaðar tilraunir stóðu eftir. Á föstudag var stillt upp sýningu fyrir hópinn og rætt um áfangann og verkin. Nemendur komu sjálfum sér á óvænt á skemmtilegan hátt með hugmyndaauðgi sinni, segir Freyja Reynisdóttir leiðbeinandi í áfanganum. Myndir
Af vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga mtr.is
Forsíðumynd: Akrýlmálun / GK