Samkvæmt nýjum lögum er sveitarfélögum nú skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl. Akureyrarbær hefur komist að samkomulagi við Rauða krossinn við Eyjafjörð um söfnun, flokkun og sölu á textíl. Bærinn er fyrsta sveitarfélagið á landinu sem náð hefur slíku samkomulagi.
Rauði krossinn við Eyjafjörð hefur um árabil séð um að safna textíl á svæðinu, flokka, selja bæjarbúum og senda erlendis til frekari endurvinnslu. Með lögunum hefur ábyrgðin verið færð yfir á sveitarfélögin að sjá til þess að textíl sé safnað og hann endurnýttur eftir bestu getu.
Fataverkefni Rauða krossins við Eyjafjörð er öflugt umhverfisverkefni sem stuðlar að sjálfbærri auðlindanýtingu með áherslu á endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrir utan allan þann fatnað sem er seldur í verslunum félagsins tekur Eyjafjarðardeild virkan og öflugan þátt í verkefnum nærsamfélagsins sem stuðla að því að draga úr sóun. Reglulega koma hópar frá leik- og grunnskólum til að kynna sér fataverkefnið.
Fataverslanir deildarinnar hafa t.a.m. tekið þátt í aðstoð við búningaöflun fyrir leiksýningar og stutt við starfsemi Plastiðjunnar Bjargs, þar sem ósöluvænn textíll er nýttur í vélatuskur. Þessu til viðbótar hefur deildin stutt við fjöldann allan af tilfallandi verkefnum í gegnum árin, hvort sem um er að ræða listasýningar, gjörninga eða verkefni tengd textíl í skólum sveitarfélagsins.
Rauði krossinn við Eyjafjörð sendir árlega um 150-170 tonn erlendis til endurvinnslu. Ekki eru til nákvæmar tölur um heildarmagn textíls sem safnað er af svæðinu, en það má ætla að sú tala sé ívið hærri.
Rauði krossinn við Eyjafjörð sér um fatasendingaþjónustu við aðrar deildir Rauða krossins og hefur sent frá sér sem nemur um einum 40f gám af söluvænum fatnaði í verslanir á minni starfssvæðum á Norður- og Austurlandi, sem og á Reykjanes, þar sem þjónustuþörfin er mikil. Þessi þjónusta veldur því að umfang þess sem þarf að flytja úr sveitarfélaginu minnkar. „Þrátt fyrir þetta þarf að senda mikið magn af textíl úr landi. Besta úrgangsforvörnin er einfaldlega að kaupa minna,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri Eyjafjarðardeildar.
Rauði krossinn við Eyjafjörð er ekki eini aðilinn sem safnar textíl af svæðinu. En allur umfram textíll annarra félagasamtaka endar samt sem áður í útflutningsgám Rauða krossins.
Ingibjörg minnir á þær leiðir sem standa bæjarbúum til boða til að koma textíl í áframhaldandi notkun:
Á forsíðumynd: Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri Eyjafjarðardeildar Rauða krossins.
Fatabúð Rauða krossins, Viðjulundur 2
Nytjamarkaður Hertex, Hrísalundur 1
Nytjamarkaður Norðurhjálpar, Dalsbraut 1
Aftur Nýtt, Sunnuhlíð
Lottan, Kaupangur
Litla saumastofan, Brekkugata 9
Lagabreytingarnar eru samkvæmt 10. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Mynd/af vefsíðu Akureyrarbæjar