Þann 24. apríl sl. tilkynnti Ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að sjóðurinn myndi  verða fyrir skerðingu á tekjum frá ríki og í framhaldi af því lækka áætlaðar mánaðarlegar greiðslur til sveitarfélaga vegna útgjaldajöfnunarframlaga og framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti um 12,5%. Þessi lækkun væri tilkomin þar sem endurmeta þyrfti tekjur sjóðsins vegna efnahagslegra áhrifa af Covid-19 faraldrinum.

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar tók málið fyrir á fundi sínum þann 7. maí og lýsti áhyggjum sínum af skertum framlögum úr Jöfnunarsjóði og skoraði á Ríkið að tryggja tekjugrunn sjóðsins.

Þann 24. júní sl. birti Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið nýjar og endurskoðaðar áætlanir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samkvæmt þeirri áætlun, borið saman við gildandi fjárhagsætlun Dalvikurbyggðar 2020, þá er áætluð skerðing framlaga vegna fasteignaskatts, útgjaldajöfnunarframlags, grunnskólaframlags, framlaga vegna fatlaðra nemenda og íslenskukennslu alls kr. 83.605.903.

Því samþykkti byggðaráð á fundi sínum þann 21. júlí sl. viðauka við fjárhagsáætlun 2020 kr. 83.605.903 vegna lækkunar á tekjuáætlun Dalvíkurbyggðar út frá þessum nýjustu upplýsingum frá Jöfnunarsjóði.

Vert er að geta þess að breytingin á milli áætlana Jöfnunarsjóðs eru um 68,2 milj. króna en fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar var byggð á væntingaspá byggt á reynslu fyrri ára á greiðslum frá Jöfnunarsjóði.  Skerðing á framlagi vegna málefna fatlaðra er ekki tekið með í útreikning þessa viðauka þar sem ekki liggur fyrir skipting þess framlags á milli Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar. Þá munu upplýsingar vegna tekjujöfnunarframlags liggja fyrir síðar á árinu.

Ljóst er að þessi tekjuskerðing hefur mikil áhrif á rekstur Dalvíkurbyggðar og fól byggðaráð sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að kanna fyrir næsta fund byggðaráðs með lántöku til að mæta viðaukanum.