Formleg stofnun Akureyrarklíníkurinnar, þekkingar og ráðgjafamiðstöðvar um ME sjúkdóminn, fór fram á Akureyri sl. föstudag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir verkefnið einstakt á margan hátt: „Með klíníkinni verður unnt að bæta þjónustu á landsvísu við sjúklinga sem glíma við ME sjúkdóminn og styðja við rannsóknir og greiningu á sjúkdóminum.“

Heilbrigðisráðherra, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) innsigluðu stofnun Akureyrarklíníkurinnar með undirritun samstarfsyfirlýsingar við hátíðlega athöfn í Menntaskólanum á Akureyri. Auk þeirra þriggja fluttu ávörp Alma Möller landlæknir, Friðbjörn Sigurðsson læknir, Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala og Jonas Bergquist læknir og prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð, einn helsti sérfræðingur heims í rannsóknum á ME sjúkdómnum. Þá sögðu Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Herdís Sigurjónsdóttir frá reynslu sinni af sjúkdómnum.

Fyrir rúmu ári fól heilbrigðisráðherra SAk og HSN að vinna saman að því að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME sjúkdóminn. Nefnd á vegum SAk og HSN skilaði áliti sl. haust og síðan hefur verið unnið að uppbyggingu þjónustu við ME sjúklinga og þá sem eru með langvarandi eftirstöðvar COVID-19. „Verkefnið hefur nú raungerst með stofnun Akureyrarklíníkurinnar og ég er afar þakklátur þeim sem hafa komið að undirbúningi þess,“ segir Willum Þór. 

Einstakt samvinnuverkefni heilsugæslu og sjúkrahúss

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk segir verkefnið ekki aðeins einstakt á landsvísu, heldur jafnvel á heimsvísu: „Mikil tækifæri gefast með stofnun klíníkurinnar. Með henni getum við betur staðið að skráningu um ME sjúkdóminn og byggt upp gagnagrunn um ME og langvarandi COVID-19, sem gefur vísindafólki okkar ómæld tækifæri til rannsókna og aukinnar þekkingar á sjúkdómnum í þágu ME sjúklinga.“ Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN tekur undir þetta og bætir að full þörf sé fyrir þekkingarmiðstöð um sjúkdóminn,, „stofnun Akureyrarklíníkurinnar er afskaplega þarft verkefni, en við höfum séð töluverða aukningu þeirra sem hafa greinst með ME sjúkdóminn undanfarin ár,, segir Jón Helgi. 

Um ME sjúkdóminn

Myalgic encephalomyelitis (ME) er langvinnur sjúkdómur sem getur valdið mikilli skerðingu á lífsgæðum og langvinnum síþreytueinkennum. Vitað er að ýmsar sýkingar geta valdið ME sjúkdómnum. Hluti sjúklinga sem veiktust af Akureyrarveikinni þegar hún geisaði fyrir 75 árum þróaði með sér ME. Í fyrstu var talið að um mænuveikifaraldur væri að ræða en nú er flest talið benda til þess að um sýkingu hafi verið að ræða þótt sýkillinn hafi aldrei fundist. Fjölmörgum faröldrum eins og Akureyrarveikinni hefur verið lýst í heiminum þar sem sýkill hefur ekki fundist og hluti þeirra sem veikist þróar með sér langvarandi sjúkdómseinkenni líkt og ME.

Mynd/aðsend