Hilda Jana Gísladóttir

Það er algjörlega óásættanlegt að göngudeild SÁÁ á Akureyri verði lokað um áramótin.” Segir Hilda Jana Gísladóttir á facebook síðu sinni.

“Ég hef kafað af miklum eldmóði ofaní þetta mál og verð ég að segja eftir þá vegferð að það sem hefur komið mér lang mest á óvart er viljaleysi bæði SÁÁ og Velferðaráðuneytisins til þess að leita lausna. Báðir aðilar virðast langþreyttir og hundleiðir á hvor öðrum og ég tel engar líkur á því að málið leysist þeirra á milli. Ég er hins vegar ekki reiðubúin til að gefast upp og bæjarstjórn Akureyrar eins og hún leggur sig ekki heldur – miðað við umræður um málið á bæjarstjórnarfundi í gær.”

Mikil umræða hefur skapast um þetta mál, og er greinilegt að margir eru mjög óánægðir með þessa þróun.

Hilda Jana er bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingar á Akureyri.

Á 3439. fundi sínum þann 4. september s.l. samþykkti Bæjarstjórn Akureyrar eftirfarandi:

Bæjarstjórn Akureyrar fordæmir þau áform SÁÁ að loka göngudeild sinni á Akureyri um næstu áramót. Það er að okkar mati algjörlega óásættanlegt að í þjónustusamningi ríkisins við SÁÁ sé ekki skilgreind nein þjónusta utan höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn skorar á SÁÁ og ríkisvaldið að bæta úr þessu hið fyrsta og felur bæjarstjóra að ræða við samningsaðila og leita leiða til að koma í veg fyrir að þjónustan verði lögð niður. 

Bæjarstjórn samþykkir ályktunina með 11 samhljóða atkvæðum.

 

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir