Alþjóðlegur dagur líknarþjónustu er í dag, 9. október.

Tilgangur hans er að vekja athygli á mikilvægi líknarþjónustu og hvers vegna þurfi að tryggja að allir hafi aðgang að henni sama hvar þeir búa, á hvaða aldri þeir eru og hver bakgrunnur þeirra er. Heilbrigðisráðherra staðfesti fyrr á þessu ári aðgerðaáætlun til fimm ára um líknarþjónustu hér á landi sem byggð var á skýrslu tveggja starfshópa og tillögum þeirra um skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar um allt land.

Líknarþjónusta byggist á einstaklingsmiðaðri nálgun þar sem lögð er áhersla á að veita árangursríka meðferð verkja og annarra einkenna ásamt sálfélagslegum og andlegum stuðningi sem er í samræmi við þarfir, gildi og menningarlegan bakgrunn sjúklings og fjölskyldu hans.

Langvinnir sjúkdómar eru taldir vera um 77% af sjúkdómsbyrði Evrópu og er áætlað að 86% allra dauðsfalla í Evrópu megi rekja til slíkra sjúkdóma. Langvinnir sjúkdómar eru að jafnaði hægvaxtandi og stigvaxandi, eru ekki læknanlegir en krefjast oft margvíslegrar meðferðar. Langvinnir sjúkdómar geta einkennst af stöðugum tímabilum, mislöngum, þar sem einstaklingurinn getur tekið að fullu eða að hluta til þátt í athöfnum daglegs lífs og svo tímabilum sem krefjast mismikillar meðferðar og inngripa.

Með hækkandi lífaldri samfélaga eykst þörfin fyrir líknarþjónustu og er áætlað að þörf fyrir líknarþjónustu hjá fólki 85 ára og eldra muni tvöfaldast til ársins 2040. Til að heilbrigðiskerfið geti mætt þessum áskorunum er mikilvægt að grunnheilbrigðisþjónustan sé fær um að sinna almennri líknarmeðferð en að sérhæfð líknarþjónusta sé veitt á efri stigum heilbrigðisþjónustunnar.

Líknarþjónusta á Íslandi hefur þróast allt frá níunda áratugnum, fyrst í takt við þróun krabbameinslækninga en síðar á sérhæfðum líknardeildum og í heimaþjónustu. Í dag er líknarþjónusta einnig veitt á hjúkrunarheimilum og í vaxandi mæli á sjúkrahúsum á landsbyggðinni og í almennri heimahjúkrun. Enn er skipulögð kennsla heilbrigðisstarfsfólks í líknarmeðferð ófullnægjandi og hana þarf að efla til styrkja gæði og fagmennsku þjónustunnar.

Líknardeildir sem reknar eru í tengslum við hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnanir er helsti vaxtabroddur þessarar þjónustu í dag. Þeim er ætlað að styðja við og styrkja þjónustu í nærumhverfi sjúklinga og bæta verulega á möguleika heimahjúkrunar til að sinna sjúkum í heimahúsi. Slík áhersla er í samræmi við aðgerðaáætlun um líknarþjónustu á Íslandi sem birt var í mars á þessu ári og áherslur heilbrigðisþings 2021 um samhæfingu og sjálfbærni í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.

Mynd: Stjórnarráðið