Víðtæk greining á stöðu drengja í íslenska menntakerfinu sýnir alvarlega stöðu sem bregðast þarf við. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynntu á blaðamannafundi í dag. Í skýrslunni er farið yfir helstu áhrifaþætti og lagðar fram tillögur til úrbóta.

Tekin voru yfir hundrað viðtöl við sérfræðinga, hagaðila, kennara, foreldra og drengi og viðamikil greining fór fram á nýjum og fyrirliggjandi tölfræðigögnum. Leitast var við að svara því hvað þyrfti til fyrir bjarta framtíð drengja í Íslensku menntakerfi.

„Mikilvægt er að rétta hlut drengja í menntakerfinu og skapa námsumhverfi sem vekur áhuga þeirra og forvitni. Ég hef trú á því að þær viðamiklu breytingar á menntakerfinu sem nú standa yfir með nýrri menntastefnu stjórnvalda, nýrri stofnun á sviði menntamála og nýjum frumvörpum um eflingu skólaþjónustu og námsgögn, mæti þörfum drengja og bæti árangur þeirra. Nú hefst vinna við að innleiða þessar tillögur inn í aðgerðir stjórnvalda í áframaldandi góðu samstarfi við hina fjölbreyttu aðila sem koma að menntamálum á Íslandi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Þrjár lykilniðurstöður komu í ljós er varða áskoranir drengja:

  1. Menntakerfið á oft erfitt með að veita drengjum stuðning og umhverfi sem mætir þeirra þörfum og stuðlar að bættri líðan, virkni og árangri.
  2. Drengjum leiðist fremur í námi og þurfa skýrari tilgang og fjölbreyttari áskoranir til að efla virkni og námsárangur.
  3. Drengir þurfa meiri tungumálastuðning.

„Við þurfum að tryggja að strákarnir okkar sjái sér hag í því að sækja sér menntun. Við byggjum þann grunn strax í leik- og framhaldsskóla. Öllu máli skiptir að þeir finni áhuga sínum farveg og skólarnir mæti þörfum þeirra. Menntakerfið er helsta verkfærið okkar til að tryggja jöfn tækifæri. Ég og ráðuneyti mitt munum leggja okkar að mörkum til að aðgerðirnar sem hér eru kynntar verði að veruleika,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála

Til að bæta stöðu drengja eru lagðar til átta lausnir með samtals 27 aðgerðum. Hver aðgerð byggir á ráðgjöf og reynslu kennara og sérfræðinga, árangri af vel heppnuðum úrræðum og mælingum á farsæld drengja.

Í lok árs 2022 setti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á fót vinnu við að kortleggja áskorun drengja í íslensku menntakerfi og mögulegar lausnir. Vaxandi fjöldi mælinga gefur til kynna hrakandi námsárangur drengja, aukið brottfall og fleiri áskoranir. Um 47% drengja getur ekki lesið sér til gagns samkvæmt PISA mælingum 2022 við útskrift úr 10. bekk og þriðjungur nær ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum. Einungis þriðjungur nýnema í háskóla eru drengir, eitt mesta brottfall drengja úr framhaldsskólum í Evrópu er á Íslandi, stór hluti þeirra upplifir lítinn tilgang með námi sínu og að fá ekki áskoranir m.v. færni. Þá eru drengir þrefalt líklegri en stúlkur til að vera með einkunnir undir 6,5 í framhaldsskóla.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Tryggvi Hjaltason, skýrsluhöfundur

Skýrslan er unnin af Tryggva Hjaltasyni. Hún er mikilvægt innlegg í vinnu menntayfirvalda og nýrrar Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu í að jafna tækifæri allra barna til náms og koma til móts við þarfir drengja í menntakerfinu.

Myndir/aðsendar