Á stefnulausum alheimsnets göngutúr, hér um daginn, datt ég óvart inn í að hlusta á gamalt Jim Reeves lag og allt í einu er ég í huganum komin heim á Sigló í ljúfar barnæsku minningar. Það var ekki bara sjálft lagið og textinn sem orsakaði þetta skyndilega tímaflakk, heldur einnig þessi merkilega flauelsmjúka Jim Reeves rödd, sem amma Munda var svo hrifin af. Þessi einstaka rödd, dró mig inn í stofuna hjá ömmu, í litla rauða bárujárnsklædda húsinu við Vetrarbrautina.
Amma mín, Mundína Valgerður Sigurðardóttir, var fædd í rafmagnslausum Héðinsfirði 1911 og lést heima á Siglufirði á aldamótaárinu 2000 og þessar Jim Reeves ömmu minninga myndir voru mjög svo sterkar og tengjast líka fallegum jólalögum með sama söngvara. Sá fyrir mér lífslifandi yndisleg horfin jól, með rauðum eplum, Sinalco og appelsínu Vallas í flöskum.
Máttur tónlistar minninga er sterkur og þær draga okkur oft skyndilega til baka í minningar um ákveðin stað og stund, eins og í þessu tilfelli inn í ljúfar ömmu saknaðar stundir.

Frá vinstri: Halldóra Salbjörg Björgvinsdóttir, greinarhöfundur Jón Ólafur, Kristín Bjarnadóttir og Sigurður Tómas Björgvinsson. Mynd úr einkasafni.
Gentelman Jim…
… eða herramaðurinn Jim Reeves, eins og hann var oft kallaður, því hann var algjör tengdamömmudraumur með brilljantín í hárinu, jafnt á sviðinu, sem í sínu eigin látlausa jarðbundna kristilega einkalífi. Hann var heimsfrægur og það er vel þess virði að rifja upp ýmislegt um hans tónlistaferill, því amma Munda var sko alls ekki ein um að eiga slatta af breiðskífum með flottri mynd af Jim á umslaginu heima á Íslandi, um miðja síðustu öld.
Við Íslendingar gerum okkur kannski ekki grein fyrir því að við séum t.d. að syngja með í gömlu Jim Reeves kántrí lagi þegar við tröllum saman í Ríó Tríó Bimbó, Bimbó… 🎶” laginu, frá 1971.

Pistlahöfundur tekur einnig eftir því hér og nú, að lagið og textinn hefur líklega gefið grínflokknum Monty Python góðan innblástur í þetta heimsfræga lag: “I’m A Lumberjack“ (And Now For Something Completely Different, 1971)
Í góðri samantekt á ensku á Wikipedia er hægt að lesa ýmislegt forvitnilegt um frekar stuttan frægðarferill Jim Reeves, en hann lést í flugslysi 1964:
“James Travis Reeves (August 20, 1923 – July 31, 1964) was an American singer, songwriter, and musician. One of the earliest pioneers and practitioners of the Nashville sound, he played a central role in the sonic development of country music in the 1960s. Known as “Gentleman Jim”, his songs continued to chart for years after his death in a plane crash. He is a member of both the Country Music and Texas Country Music Halls of Fame.” Sjá meira hér: Wikipedia: Jim Reeves.
Sem sagt, jim var einn af frumkvöðlunum, líkt og kántrí drottingin Patsy Cline, sem gerði ameríkanska kántrí tónlist vinsæla. Í lok 1950 breytti hann söngstíl sínum yfir í það sem margir kalla flauelsrödd (Velvet), sumum finnst þetta fallegt, en öðrum finnst þessi söngstíll vera yfirmáta væminn og kalla þetta “smjör-söngvara söng”
Minnist þess að í barnæsku fannst manni þetta fallegt, en á unglingsárunum fannst líklega flestum þessi tónlist vera bæði gamaldags og með eindæmum lummuleg.
“He said, “One of these days…..I’m gonna sing like I want to sing!” So, he decreased his volume and used the lower registers of his singing voice, with his lips nearly touching the microphone.” Wikipedia: Jim Reeves.
Af öllum hans lögum, er líklega þetta fallega lag það allra frægasta:

Eftir að hafa hlustað þá þetta hugljúfa Jim Reeves ástarlag , dregst hugur minn ósjálfrátt að okkar Íslensku frægu tæru flauels rödd og þessu lagi:

Það sem er oft svo einkennilegt, með mörg fræg “íslensk” lög, er að við nánari athugun stendur oft einungis, eins og í þessu tilfelli: (Lag / texti: erlent lag / Ómar Ragnarsson) Fyrir mér er þetta sama lagið, mun betur útsett og íslenski textinn er dásamlegur. Sjá meira hér: Glatkistan. Ég fer í nótt.
Mér er oft minnisstætt, að eftir að ég flutti Svíþjóðar 1990, hvað ég varð oft hissa á því heyra mjög svo fræg “Íslensk” lög sungin á sænsku. Þetta voru mest Sven Ingvars lög eins og t.d. Fröken Frãken eða ” Litla sæta ljúfan góða” eins og það heitir í flottum íslenskum texta. Maður hefur oft á tilfinningunni að tilfinningalegt innihald erlendra lagatexta, sé oft hreinlega þýtt yfir á góða íslensku.
Jim Reeves var heimsfrægur… í Noregi!
Jim Reeves var að sjálfsögðu á sínum tíma þekktur út um allan heim og er hann enn í dag goðsögn í nokkrum enskumælandi löndum, eins og t.d. Sri Lanka, Suður Afríku og á Írlandi, en hann virðist einnig hafa höfðað mikið til tónlistarsmekks frænda okkar Norðmanna á sínum tíma.
Þremur mánuðum áður en Jim lést í þessu hræðilega flugslysi í eins hreyfils flugvélinni sinni, sem hann flaug sjálfur í júlí 1964, var hann á tónleikaferðalagi í Noregi og kom þar einnig fram í sjónvarpinu.
Hér er stuttur dásamlegur norskur Jim Reeves nostalgísku sjónvarpsþáttur, sem er öllum aðgengilegur á streymiveitu NRK TV.

Sjá og hlusta hér: NRK TV: Jim Reeves, goðsögnin sem við aldrei munum gleyma.
Hér getið þið hlustað á langan lista með mörgum af vinsælustu lögum “Gentelman Jim Reeves.”

… og akkúrat þessi fræga jólalaga plata frá 1963, dregur mann virkilega inn í minningar um góð jól heima hjá ömmu og afa á Vetrarbrautinni heima á Sigló.

Sjá einnig meira hér um jóla minningar og margar myndir frá Siglufirði á síðustu öld:
JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmynd er fengin að láni frá: Spotify.com. Plötu umslag Gentelman Jim, Jim Reeves1963.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.