Næstkomandi fimmtudag, 5. nóvember, hefur göngu sína á Útvarpi Trölla þátturinn „Andans truntur“.
Umsjónarmenn eru Páll Sigurður Björnsson (sem er annar stjórnenda Gestaherbergisins á FM Trölla), Jón Þór Helgason og Guðmundur Helgason. Páll og Guðmundur (Mundi) búa báðir í Noregi og Jón Þór í Keflavík. Þetta verður því þáttur með alþjóðlegu sniði (eða norrænu að minnsta kosti).
Þátturinn verður vikulega á dagskrá, á hverjum fimmtudegi á milli klukkan 18 og 20, og því tilvalið að hlusta á við matseldina, meðan etið er og svo á meðan stangað er úr tönnunum eftir matinn.
Heiti þáttarins er tekið úr lagi Egils Ólafssonar „Ekkert þras“ – þar segir í viðlaginu: „Ekkert þras/ekkert múður og mas/það er eins gott að láta gamminn geysa – Ekkert bras/ekkert klúður og fjas/ég læt mínar andans truntur þeysa“.
Ætlunin er semsagt að láta gamminn geysa, tala um allt og ekkert og að sjálfsögðu leika tónlist.
Hlustendur verða einnig virkjaðir, skal því lýst hér nánar:
Fastur liður í hverri viku mun verða frumflutningur á nýju „örlagi“ (í mesta lagi mínúta að lengd), sem þáttarstjórnendur taka að sér að semja eftir forskrift frá hlustendum. Hlustendur eru hvattir til þess að koma með tillögur að umfjöllunarefni laganna og setja inn á Facebook síðu þáttarins. Hér er linkurinn inn á facebook síðuna.
Á síðunni má nú þegar finna stutt hljóðbrot frá lokaæfingu þáttarstjórnenda.
Og svo þetta:
Áðurnefnt lag (Ekkert þras) verður gegnumgangandi þemalag þáttarins, og í fyrsta þætti núna á fimmtudaginn, verður frumflutningur á laginu, í bútasaumsformi. Þáttarstjórnendur hafa tekið upp hver sinn bút úr laginu, hver á sinn hátt, og útvarpsstjórinn mun skeyta bútunum saman. Enginn þáttarstjórnenda hefur fengið að heyra hvað hinir hafa gert og eru þeir því orðnir utan við sig af spenningi að fá loksins að heyra afraksturinn.
Munið að stilla á Útvarp Trölla á fimmtudaginn kl. 18:00 stundvíslega!
FM Trölli næst á FM 103.7 á Tröllaskaga, í Skagafirði, á Hvammstanga og nágrenni og auðvitað um allan heim hér á vefnum trolli.is.
Hægt er að hlusta á þáttinn út um allan heim með því að smella á hlusta á síðunni eða hér: Hlusta
Minnum sjómenn á hafi úti og aðra með takmörkuð netsambönd á skip.trolli.is