Hvammstangi International Puppet Festival er ný brúðulistahátíð á Hvammstanga, Norðurlandi vestra, þar sem brúðuleiksýningar og kvikmyndir verða í hávegum hafðar. 

Brúðulistahátíðin HIP verður haldin 9. – 11. október. Á hátíðinni verður boðið upp á 12 sýningar með listamönnum af 9 þjóðernum, úrvali vinnusmiðja fyrir fólk á öllum aldri, bæði byrjendur og atvinnumenn, og úrval brúðubíómynda sem eru sérvaldar af Handmade Puppet Dreams, fyrirtæki Heather Henson í Bandaríkjunum. Meira en 60% viðburða hátíðarinnar eru ókeypis fyrir áhorfendur. Alla dagskrá hátíðarinnar má nálgast á www.thehipfest.com.

Verðlaunaleikhúsið Handbendi Brúðuleikhús stýrir brúðulistahátíðinni HIP á Hvammstanga.

Allir 20 erlendu listamennirnir eru mjög spenntir fyrir að koma til Íslands og taka þátt í hátíðinni þrátt fyrir að þeir þurfi að koma viku fyrr og fara í sóttkví.

Styrktaraðilar hafa einnig verið mjög hjálplegir og sveigjanlegir við allan undirbúning fyrir hátíðina.

Þann 8. október verður teiti á Sjávarborg Hvammstanga, þar sem erlendu listamennirnir verða boðnir velkomnir og þeir sem vilja hitta listamennina og kynna sér nánar dagskrá hátíðarinnar eru velkomnir.

Hátíðin er haldin annað hvert ár og býður m.a. upp á:

  • Uppfærslur á litlum – miðlungsstórum verkum eftir heimafólk og alþjóðlega listamenn fyrir bæði börn og fullorðna.
  • Lifandi tónlistarviðburði.
  • Masterclass fyrir fagmenn og áhugasama um brúðugerð.
  • Sýningar og smiðjur fyrir börn og fullorðna.
  • Leikbrúðu-stuttmyndir og myndir í fullri lengd.
  • Fyrirlestrar og viðburðir til tengslamyndunar, þar á meðal UNIMA “focus group”

Handbendi brúðuleikhús hefur einnig verið með sýningar, viðburði og smiðjur á Íslandi og víðsvegar í heiminum, og öll vinna farið fram í vinnustofu Handbendi brúðuleikhúss á Hvammstanga.

Styrktaraðilar HIP eru: RANNÍS, Barnamenningarsjóður, Hótel Laugarbakki, UNIMA Íslands, Sjávarborg, Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra og Húnaþing vestra.

COVID-19 YFIRLÝSING:

Heilsa og velferð íbúa, gesta og listamanna er okkar forgangsmál. Við höfum gripið til, og munum halda áfram að grípa til, allra nauðsynlegra rástafana í samræmi við fyrirmæli embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Eins og staðan er í dag þá uppfyllir HIP öll skilyrði. Ef aðstæður breytast hér á landi eða í upprunalöndum alþjóðlegra gestalistamanna, bregðumst við að sjálfsögðu við því.

Til að nálgast frekari upplýsingar, fá blaðamannapassa á viðburði eða ljósmyndir er best að hafa samband við listrænan stjórnanda Handbendis, Gretu Clough, í netfanginu handbendi@gmail.com eða í síma 611 4694