Eldur í Húnaþingi er hátíð í Húnaþingi vestra sem hefur verið haldin árlega allt frá árinu 2003. Fyrst um sinn var hátíðin unglistahátíð. Þá var hún bæði skipulögð og framkvæmd af ungi fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda. Dagskráin hefur oftar en ekki innihaldið fjölmarga tónlistarviðburði, námskeið, dansleiki, viðburði með íþróttalegu ívafi, svo eitthvað sé nefnt.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að fólk á öllum aldri geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að sem flestir viðburðir séu gestum að kostnaðarlausu. Að þessu sögðu leggja skipuleggjendur mikla áherslu á að safna styrkjum á ári hverju, að ógleymdri þeirri gríðarlegu óeigingjörnu sjálfboðavinnu sem margir skipuleggjenda og annarra sem að hátíðinni koma leggja til.

Hátíðin hefur oftar en ekki verið með dagskrá frá miðvikudegi til laugardags og jafnvel hefur hún teygt sig til sunnudags. Það veltur allt á dagskrárstjórum. Hins vegar er hálfgerð fest í því að miðað er við að helgin sem um ræðir sé sú síðasta í júlímánuði ár hvert. Á meðan á hátíðinni stendur er gjarnan brugðið á að vera með hefðbundna hverfakeppni.

Eldur í Húnaþingi hefur mikið gildi fyrir íbúa Húnaþings vestra en hátíðin einkennist af mikilli samheldni meðal íbúanna þar sem þátttaka er lykilatriði.

Sjá nánar á vefsíðu Eldsins: HÉR