Eftir að stríðið í Úkraínu braust út hefur verið erfitt fyrir bílaframleiðendur að fá hluti í framleiðsluna og þar með íhluti í bíla sína.

Þess verða bílaumboð í Noregi nú vör þegar brotist er inn á bílasölur og hlutum stolið af nýjum og jafnvel notuðum bílum.

Í fylkjunum Viken, Vestfold og Telemark er fyrirtækið Volmax með umboð fyrir Volvo flutningabíla.
Innbrotsþjófar hafa verið óvelkomnir gestir inni á lóðum Volmax í nokkur skipti og stela þeir dýrum tæknibúnaði úr og af nýjum og jafnvel notuðum bílum, þrátt fyrir að svæðið sé girt af með háum girðingum og að eftirlitskerfi með myndavélum sjá yfir stærsta hluta svæðisins.

“Í Nóvember í fyrra var stýribúnaður fyrir ljós fjarlægður úr 13 vörubílum sem stóðu á lóð Volmax í Kongsberg í Viken fylki. Ekki er hægt að nota bílana án þessa tækis” segir Øyvind Mørk, aðstöðu- og eftirmarkaðsstjóri hjá Volmax í Kongsberg.
“Stýribúnaðurinn sem stolið var er ekki mikið stærri en að hann passar í innkaupapoka og þetta er ekki eitthvað sem krefst þess að maður hafi bíl meðferðis. Hver eining er að verðmæti um 10.000 NOK” (um 140.000,- íslenskar krónur).

Aðfaranótt laugardagsins 11. febrúar fóru þjófar inn á lóðina hjá Volmax í Borgeskogen (í fylkinu Vestfold og Telemark) og stálu ekki bara stýribúnaði fyrir ljósin heldur tóku þeir ansi mikið meira af nokkrum bílum.
Hurðar, grill, dýr LED ljós og speglar er það helsta sem þjófarnir sækjast eftir um þessar mundir.Myndirnar tala sínu máli.

Lögreglan reynir eftir bestu getu að hafa uppi á þjófunum en það virðist þrautin þyngri í þessum málum.

Eigendur stórra bíla sem geyma bíla sína á opnum bílastæðum eru áhyggjufullir yfir þessari þróun og hafa verið að panta bíla sína með minni búnaði og ódýrari til að hugsanlegt tap og tjón verði minna, lendi þeir í því að þjófar steli af og úr bílum þeirra.

Myndir: Kasper Alexander Magnussen