Já, kæru lesendur!
Þetta merkilega “Ciribiribin” lag á sér langa og sérstaka sögu. Margir núlifandi eldri Íslendingar og sérstaklega Siglfirðingar þekkja lagið mest gegnum útfærslu og trompetundirleik austurþýska kórstjórans Gerhards Schmidt, í samspili hans við kröftugan söng Siglfirska karlakórsins Vísi og undirleik liðsmanna hljómsveitarinnar Gauta. Ciribiribin lagið kom líklega fyrst út á hljómplötu á Íslandi árið 1966, sem var síðan endurútgefin 1974, sökum gríðarlegra vinsælda.

Þetta er lagasaga, sem nú spannar yfir þrjár aldir. Lagið er upprunalega samið sem rómantískur ástarvals í Turin á norður Ítalíu 1898 af Alberto Pestalozza .( f. 1851-d. 1934 ) Árið eftir samdi Carlo Tiochet vinur Alberto fallegan rómó ítalskan texta við lagið, þar sem nafnið á laginu og orðið CIRI-BIRI-BIN er í aðalhlutverki .
Þessi upprunalegi ítalski texti, þar sem minnst er á ást, tunglið og stjörnur, er síðan endursagður/þýddur, mörg hundruð sinnum í allskyns tungumála útgáfum af þessu einstaka Ciribiribin lagi í 125 ár.

Pistlahöfundur hefur minnst á einmitt þetta lag áður í samantekt í minningum og myndum um karlakórinn Vísi.

….Úr þessu verður minnst sagt dásamleg og eftirminnileg sér-Siglfirsk tónlistarblanda og ég fæ enn í dag gæsahúð þegar ég heyri Gerhard Walter Schmidt eða (Geirharð Valtýsson) eins og hann hét á þeirra tíma íslensku, taka trompet sóló í hinu fræga og kraftmikla karlakórslagi, CIRIBIRIBIN. Það var eins og að sjálfur Louis Armstrong og allir hans syngjandi vinir væru mættir hingað heim á Sigló…

Gerhard Walter Schmidt, ísl nafn: Geirharður Valtýsson, f.v. söngstjóri Karlakórsins Vísis og skólastjóri Tónskóla Siglufjarðar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

En ekki getum við skrifað alla þessa snild á Gerhard, því hann var ekki sá fyrsti sem “jazzaði” þetta lag með trompet og hann Geirharður er heldur ekki sá fyrsti sem útsetur það fyrir kór. En þetta er stórkostlega vel útsett hjá honum, byrjun, millikafli og ekki síst lokatónarir.

Við undirbúningsvinnu fyrir birtingu greinarinnar, fékk undirritaður að vita að Leó Ólason væri með sögusamantekt í smíðum, um einmitt Gerhard og hans áhrif á tónlistarsögu Siglufjarðar og Íslands og sú saga mun birtast fljótlega hér á trölli.is.

Sem dæmi um frægð og frama þessa lags má nefna að ef þú skrifa þetta skondna ciribiribin orð í leitarvél Goggle.com, þá koma upp um 182.000 greinar o.fl. tengt þessu eina orði/lagi.

Óendanlega margar útgáfur af laginu er hægt að finna á bæði YouTube og á Spotify.

Stærsta popphljómsveit Íslands. 20 myndir

Pistlahöfundur hefur einnig á ýmsan máta persónulega aðdáun og tengsl við þetta lag frá barnæsku. En hefur eins og eflaust margir aðrir, ekki vitað, eða spáð mikið í þessa lagasögu hingað til. Dróst nú undirritaður óvart inn í netleit og grúsk, sem ætlaði engan enda að taka.

Því þetta er svo ótrúlega frægt og langlíft lag. Hér undir er mynd af tónskáldinu og myndband frá youtube.com þar sem heyra má kannski mest upprunalegu útgáfu lagsins, án texta, sem á þessum tíma myndi líklega falla í flokkinn “Vínarvals.”

Alberto Pestalozza – Ciribiribin

Það er einnig gaman að hlusta á ítalska Trio Lescano – Ciribiribin.

Ciribiribin = Hvað?

Og hvaða meiningu hefur þá þetta Ciri-biri-bin orð? Akkúrat enga meiningu… það er þarna í laginu vegna þess að það er gaman að syngja þetta orð, rétt eins og tra-la-la…. Alberto og Carlo eru í rauninni bara meðvitað að bjóða framtíðar flytjendum upp á skemmtilegan möguleika á að syngja þetta bæði hægt, hratt, útdregið… eða bara hvernig sem þér hagar.

Það er ekki hægt að segja annað en að þeim vinunum, hafi tekist að bjóða öðrum upp í tónlistavals með grípandi laglínu og Ciribiribin texta.
Það er einhver einstakur einfaldleiki í bæði lagi og texta, sem hægt er að nota á svo ólíkan máta. Það eru til óteljandi margar væmnar mandólín þjóðlaga útgáfur og lagið er einnig til í klassískum sinfóníu og óperu stíl.

Þetta sögufræga lag er samt mest vinsælt sem gott sving og djass lag, bæði með og án lagatexta.

Ciribiribin er svo frægt að það á sína eigin Wikipedia síðu.

125 ára laga saga

Frekar en að reyna að þýða þessi ensku Wikipediaorð, er betra að láta þau standa sjálf fyrir sínu máli, en þau eru greinilega skrifuð af manneskju með góða og mikla tónlistarkunnáttu.

Ciribiribin” [tʃiribiriˈbin] is a merry Piedmontese ballad, originally in three-quarter time…. It quickly became popular and has been recorded by many artists. Decades later it enjoyed continued popularity with swing and jazz bands, played in four-four time.

Background

The distinguishing feature of the song is repeated use of the five-note title phrase. In the sheet music the name is indicated to be enunciated chiri-biri-bean to allow singers to hold the vowel at the end as long as they like.[3]” Sjá meira hér: Ciribiribin, Wikipedia

Við þurfum aðeins að hugsa okkur til baka, allt aftur til þar síðustu aldamóta, inn í tíðaranda þar sem tónlist er kannski mest seld sem nótnahefti fyrir þá sem kunna að spila á hljóðfæri og ekki var það öllum gefið heldur að hlusta á hljómplötur eða útvarp.

Lagið fer hægt og rólega af stað eftir fæðingu, en 1911 birtist það á hljómplötu undir nafninu “Ciribiribin Waltz”  með Prince’s Orchestra. Síðan er ekki aftur snúið og í áratugi birtast endalaus afbrigði og textar, en alltaf virðist Ciribiribin orðið fylgja með í allskyns útúrsnúningum og útfærslu.

Margir frægir karlar og konur hafa flutt þetta lag og oft er það rangfeðrað, en samt eru þarna tveir aðilar sem eru iðnir við að halda laginu lifandi bæði með og án texta. Hér kemur til lagasögunnar trompetleikarinn Harry James og hans Big Band og er hann með sving útgáfu af Ciribiribin laginu sem þemalag á sínum skemmtunum í áratugi eftir að hann fór í sinn sjálfstæða tónlistaferil 1939, en þar áður hafði Harry verið trompetleikari nokkur ár í stórsveit Benny Goodman.

1939 HITS ARCHIVE: Ciribiribin – Harry James (his original instrumental version) Mynd lánuð frá youtube.com.

Um svipað leyti og Harry gerir ciribiribin sving lagið vinsælt, semur laga og textahöfundurinn Jack Lawrence (songwriter) þann enska texta sem er mest notaður í framtíðar útgáfum á þessu fræga lagi.

Orðaröðun og versin stjórna hér mikið útsetningu lagsins.

When the moon hangs low in Napoli
There’s a handsome gondolier
Every night he sings so happily
So his lady love can hear
In a manner oh gravissimo
He repeats his serenade
And his heart beats so fortissimo
When she raises her Venetian shade

Ciribiribin, chiribiribin, ciribiribin

Ciribiribin, he waits for her each night beneath her balcony
Ciribiribin, he begs to hold her tight, but no, she won’t agree
Ciribiribin, she throws a rose and blows a kiss from up above
Ciribiribin, ciribiribin, ciribiribin, they’re so in love

(Orchestral Interlude)

Ciribiribin, ciribiribin, ciribiribin, they’re so in love.

Heimild: https://genius.com/Frank-sinatra-ciribiribin-lyrics

Margir söngvarar og hljómsveitir spreyta sig á þessu lagi, á fimta áratugnium, þar á meðal hinn ungi og efnilegi Frank Sinatra.

Frank Sinatra syngur Ciribiribin. Youtube.com.

Sagan segir að Jack hafi verið ákaflega stoltur yfir þessum texta. En hjá pistlahöfundi sem á Ítalska vini koma ósjálfrátt upp hugsanir um hvort að norður ítölsku vinirnir Alberto og Carlo, hefðu ekki hreinlega snúið sér við í gröfunum sínum ef þeir vissu að ameríkanar væru að bendla þetta lag við suður Ítalíu og Napolí. Þeir sem þekkja til, vita að suður og norður Ítalía eru næstum tvö ólík lönd í sama landi.

Það sem heldur laginu líka lifandi er að það á sér einnig langa kvikmyndasögu:

Ciribiribin kvikmyndasaga

Helmut Lotti – Ciribiribin – 1995. Hér er lagið með öðrum enskum texta, með orðunum: “Ciribiribin, means love to me! ” Mynd lánuð frá youtube.com.

Karlakórinn Vísir og Siglfirskur ciribiribin texti

Pistlahöfundur nefnir hér ofar persónulega aðdáun og sterk tengsl við þetta lag úr barnæsku og þær minningar koma úr ýmsum áttum.

Fyrst og fremst frá minningum frá skemmtunum þar sem Karlakórinn Vísir er fræg stór popphljómsveit, en líka gegnum áratuga vináttu afa míns Péturs Bald við íslenskan textahöfund Ciribiribin. Tillíka stærðfræðikennarann minn úr Gaggó, Hafliða Guðmundsson.
Það er ekki ólíklegt að ég sem smá gutti í heimsókn hjá afa og ömmu í litla rauða bárujárnshúsinu á Vetrarbrautinni hafi heyrt afa Pétur prufusyngja textann fyrir Hafliða vin sinn. Þeir voru báðir meðlimir í karlakórnum Vísi, minnir mig.

Það var oft þannig að þeir tveir og fleiri Siglfirskir “bohemar” hittust þarna á eyrinni og sömdu saman kabarett og bæjar revíu texta og voru þetta oft á tíðum tveggja sólarhringa partý, þar sem mikið var hlegið, sungið og skálað. Sem barn, var maður stundum sendur upp í kaupfélag að kaupa bland í búsið.

Texti Hafliða Guðmunds er mjög góður og passar vel kröftugum karlaröddum og trompet sóló Gerhards, Mig minnir að sönghefti hafi fylgt með útgáfu vínilskífunnar 1966 eða þegar hún var endurútgefin 1974.

Ciribiribin


Þegar mánabirtan bjarta
til vor berst um aftanstund
geislar kærleik konuhjarta
er hún kemst á vinafund.
Þeirra blíði ástaróður
fyllir hjörtu þrá.
Læðist máni um loftið hljóður
og sér leikur við grund og sjá.

Alstirnd er nótt,
allt er svo hljótt.
Erum hér ein,
ástin er hrein.

Ciribiribin,
nú brosir máninn bjarti
blítt við okkur tveim.
Ciribiribin,
nú stjörnublysin blika
bláum út í geim.
Ciribiribin,
ert meðan máninn skín
og mold úr hafi rís.

Ciribiribin, Ciribiribin,
Ciribiribin, mín draumadís.

(Texti: Hafliði Guðmundsson)

Siglfirska útgáfan af ciribiribin er auðvitað til á vínyl skífum og geisladiskum, en ekki er mikið að finna á alnetinu nema frábært myndband með syrpu af Vísis og Gauta lögum, sem Siglfirðingurinn Guðjón Björnsson klippti saman og setti síðan á youtube. Það er erfitt að heyra á hvaða orðum lagið byrjar, vegna fallegra óláta í trompetspili Gerhards Walter Schmidt.

En svo er einhver undarleg fegurð í að heyra Vísismenn syngja með trompetundirleik frá Gerhard. Hreinn og beinn tónlistargaldur og hér undir er hægt að sjá og heyra hvað þetta er falleg blanda.

Skjáskot úr myndbandi á YouTube.com, syrpa með Karlakórnum Vísi. Á áttundu mínútu byrjar Gerhard nýtt lag með trompet spili og þar heyrum við greinilega hvað þetta á vel saman, trompet og karlakór. Gaui segist sjálfur ekki vera neitt sérstaklega hrifinn af kóratónlist en hann kynnir myndbandið með eftirfarandi orðum:
“Var að yfirfara og klippa til gömul VSH, rakst ég á myndband af Karlakórinn Vísir á Siglufirði og hljómsveitin Gautar, veit ekki hvar þetta er tekið, er ekkert hrifin af karlakórum en læt þetta hér til gamans :)”

Aðrar barnæsku og unglingaára minningar tengdar ciribiribin, eru að við strákarnir vorum oft að herma eftir karlakórnum í KÁ-ESS partýum í félagsheimilinu við Suðurgötuna. Það var líka skemmtilegt að minnas þess að Pétur Bjarnasson frændi minn, sem er skírður eftir afa okkar, gat tekið Ciribiribin trompetsóló með því að blása kröftuglega í lúkurnar á sér. Pétur lærði um tíma á trompet í tónskólanum hjá Geirharði Valtýssyni, en hann gafst upp á því, sem betur fer fyrir mig og eyru bróður míns. Við bjuggum þá í herberginu beint fyrir neðan Pétur suður á Hafnartúni 6.
Þetta hjómaði mest eins og það væri verið að drepa kött í nokkra mánuði, en svo náði Pétur ágætis tökum á trompetinum, sem er mjög erfitt hljóðfæri.

Máli mínu til stuðnings um að þetta lag sé enn á lífi 125 árum eftir fæðingu, læt ég hér í lokin fylgja með möguleika fyrir þá sem hafa nennt að lesa þessar pælingar, að heyra fyndna og skemmtilega útgáfu af Ciribiribin í einhverskonar stafrænum Charleston / Disney teikimyndastíl frá nýútgefinni Partý plötu fyrir börn. Kids Party, Springtime 2023.

Hér er lagið kallað: Ciribiribin (2001 Digital Remaster)

Að lokum

Það er merkilegt að hugsa til þess að þetta lag hefur fylgt mér og mörgum öðrum Siglfirðingum alla ævi og að ég, nú komin yfir sextugt sé að setja sama ciribiribin grein og grúska í þessari sögu. Það skal skýrt tekið fram að þessi orð mín á ekki að túlka sem sagnfræðilega heimild, heldur aðeins sem afþreyingar lesningu um merkilega og langa lagasögu. Mest skrifað til að svala minni eigin og annara forvitni um þetta ciribiribin lag.

Á litla Íslandi, er það augljóst að lag og texti, sem og orðið CIRIBIRIBIN, verður um alla eilífð, aðallega tengd tónlistarsögu Siglufjarðar.

Hér undir er loksins hægt að hlusta á þessa stórkostlegu “orginal” Siglfirsku Ciribiribin útfærslu Gerhards og karlakórsins Vísi, frá 1966 gegnum netið.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Þakklæstiskveðjur til Leó Ólasonar fyrir aðstoð og góð ráð og til Elíasar Þorvaldsonar og Sturlaugs Kristjánssonar fyrir aðstoð með að finna íslenskan texta eftir Hafliða Guðmundsson.

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Myndin er lánuð frá opnu myndasafni Microsoft Word.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.

Aðrar greinar tengdar sama efni:

Karlakórinn Vísir (1923-83) Glatkistan

Stærsta popphljómsveit Íslands. 20 myndir