Hver var maðurinn og hvaðan kom hann?

Fyrir fáeinum árum  mátti lesa á vefsíðunni siglfirdingur.is mjög skemmtilega grein sem birtist í Vísi þ. 17. júní 1944 þar sem hátíðahöldunum á Siglufirði voru gerð hin ágætustu skil. Þar var meðal annars minnst á Karlakórinn Vísi sem söng á palli sem reistur hafði verið á hinum nýja malarvelli við Túngötu og stjórnanda hans Þormóð Eyjólfsson. Þessi grein varð kveikjan að svolitlu fortíðargramsi, forvitnisárátta um löngu liðin gullaldarár, eða kannski fer betur á að kenna þau við silfur. Árin þegar silfurnámur hafsins virtust óþrjótandi og  Klondike  norðursins iðaði af lífi á sætum sumardögum. Mig langaði að vita meira um manninn sem var sjórnandi kórsins sem bar merki Siglufjarðar svo víða, manninn sem fékk Daníel Þórhallsson til að flytjast í síldarbæinn vegna þess hve hann hafði mikla og góða söngrödd og manninn sem átti einna mestan þátt í að við getum enn hlustað á lög eins og Vor í dal, Systkinin og Ave Maria sungin af Daníel og Aage Schiöth.

En hver var þessi maður? Ég man til þess að nafn hans hafi oftsinnis borið á góma þegar ég var á barnsaldri, en æ sjaldnar eftir því sem árin liðu uns umræðan um hann nánast hljóðnaði að lokum. Eftir stóð þó hið risastóra og glæsilega hús hans ofan og til hliðar við bretatúnið sem fékk nýtt hlutverk nokkrum árum eftir lát hans og var þá breytt í leikskóla, en að lokum hvarf það líka.
Þegar ég fór að kynna mér líf hans og starf, þó ég hafi aðeins drepið niður fæti hér og þar, kom það mér svolítið á óvart hve lítið hann hefur verið í umræðunni hin síðari ár og ég hefði haldið að nafni hans hefði að ósekju mátt halda meira á lofti en gert hefur verið vegna margra verka hans, þó svo að hann hafi verið umdeildur eins og svo algengt er um menn sem eru áberandi í framlínu stjórnmálanna.

Þormóður fæddist þ. 15. apríl 1882 að Mælifellsá í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, en sleit barnsskónum í Tungusveitinni sem tilheyrði sama hreppi. Foreldrar hans voru hjónin Eyjólfur Einarsson og Margrét Þormóðsdóttir, sem síðar bjuggu að Reykjum í Tungusveit. Þormóður missti foreldra sína aðeins 14 ára gamall, fór hann þá í fóstur til séra Hjörleifs Einarssonar að Undirfelli í Vatnsdal og konu hans, Bjargar Einarsdóttur sem var föðursystir hans. Þormóður gekk í Flensborgarskólann og var þá strax farinn að hneigjast að sönglistinni. Í Söngmálablaðinu Heimi var hans getið árið 1923 og mun hann hafa bæði numið og kennt við skólann árin 1900-1902 þá innan við tvítugt.

Hann mun hafa flutt ungur maður til Siglufjarðar fljótlega upp úr aldamótunum 1900. Hann var umboðsmaður Samábyrgðar Íslands, Brunabótafélags Íslands og Sjóvátryggingarfélags Íslands frá stofnun allra þessara félaga. Afgreiðslumaður Eimskipafélags Íslands og ræðismaður Noregs frá frá 1924, skrifstofustjóri síldareinkasölunnar var hann frá 1928, bæjarfulltrúi 1930, var mörg ár í hafnarnefnd, marga áratugi í niðurjöfnunarnefnd og skattanefnd og formaður beggja  þeirra nefnda í mörg ár. Þormóður var í stjórn Síldarverksmiðja rikisins frá 1930 og oftast formaður. Um 12 ára skeið átti hann sæti í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju og var einn þeirra sem unnu einna ötullegast að því að ný kirkja var byggð árið 1932, eða þá sem enn í dag er stolt bæjarins. Noregskonungur sæmdi hann St.  Ólafsorðunni 1936 og hann hlaut stórriddarakross Fálkaorðunnar 1942.

Guðrún kona Þormóðs fæddist að Hofi í Vatnsdal og var dóttir hjónanna Björn Sigfússonar og Ingunnar Jónsdóttir rithöfunds frá Melum í Htrútafirði. Hún fluttist til Grímstungu ásamt foreldrum sínum og þaðan að Kornsá. Björn var hreppstjóri Áshrepps, umboðsmaður Þingeyraklausturs frá 1910, gegndi einnig um skeið sýslumannsstörfum í Húnavatnssýslu, var einnig oddviti, sýslunefndarmaður, amtsráðsmaður og alþingismaður Húnvetninga um nokkurra ára skeið.

Haustið 1901 fór Guðrún í Kvennaskólann á Blönduósi og lauk þaðan prófi 1902 þá átján ára gömul, síðan í Flensborgarskóla og lauk þaðan burtfararprófi 1904. Sama ár gerðist hún kennari í Kvennaskólanum á Blönduósi til 1907 og tvö ár í Ásahreppi til 1909. Þaðan flutti hún til Siglufjarðar og var skipuð skólastjóri við Barnaskólann á Siglufirði 1909 og gegndi því starfi til 1918. Ári eftir komuna til Siglufjarðar 1910 stofnaði hún Unglingaskóla Siglufjarðar og var aðalkennari þar til 1916. Hún var skólastjóri beggja skólanna um árabil. Veturinn 1916-1917 stundaði hún nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn.

Guðrún var náskyld Sigríði Blöndal, komin af Blöndölum frá Kornsá. Lárus faðir Sigríðar konu sr. Bjarna og Sigríður amma Guðrúnar voru systkini. Guðrún var og föðursystir bræðrarnna Birgis og Þormóðs Runólfssona sem báðir fluttu til Siglufjarðar.


Pólitíkin og Þormóður Eyjólfsson.

Þormóður var mjög virkur í hinni litskrúðugu og oftast harðvítugri pólitík í síldarbænum á þeim árum þegar það pólitíska landslag var að myndast sem kennt hefur verið við fjórflokkinn, því snemma á síðustu öld var farið að marka fyrir útlínum þess kerfis.

Verkalýðssamband norðurlands gaf út blaðið Verkamanninn og í des. 1928 birtist grein í því vegna væntanlegra bæjarstjórnarkosninga á Siglufirði. Þar gætti talsverðar hógværðar í garð Þormóðs og hans flokks, sem var þó í fyrsta sæti á lista Framsóknar, því erkióvinurinn var auðvitað íhaldið. Kosningarnar fóru svo fram þ. 4. jan 1929 og Þormóður var kjörinn í bæjarstjórn ásamt Andrjesi Hafliðasyni kaupmanni, Sigurði J. S. Fanndal kaupmanni og Sveini Þorsteinssyni skipstjóra.

Verkamaðurinn í desember 1931


Sumarið 1931 er aftur farið að styttast í kosningar og sama blað beinir nú spjótum sínum að Þormóði og fer mikinn. Menn voru ekki á eitt sáttir um ágæti hans eins og oft vill verða um þá sem í eldlínunni standa og skipti þá undantekningalítið mun meira máli hvar í hinu pólitíska litrófi menn voru staðsettir, en orð þeirra og gerðir. Umræðan á Siglufirði var oft mjög óvægin á þessum árum, enda mikill umbrotatími í íslensku þjóðfélagi, gamla stórbændasamfélgaið í þann veginn að líða undir lok og nýjar stéttir sem óðast að myndast.

“Hver er það, sem réðist á kauptaxta verkamanna i bæjarvinnunni og vinnutíma þeirra? Þormóður Eyjólfsson, formaður Hriflu-fasismans hér í bænum. Allur verkalýður á að svara árásum fasistans Þormóðs á þann hátt, að kjósa eingöngu kommúnistana. Hver er það, sem hefir við hvert tækifæri svikist aftan að verkalýðnum og brotið kauptaxta þeirra? Þormóður Eyjólfsson, formaður fasistanna hér”.

Það er bæjarblaðið Mjölnir sem deilir þarna hvað mest á Þormóð og heldur síðan áfram.

“Það er einnig sagt í nefndri sorpgrein, að bæjarstjóri hafi sagt að ellihrum gamalmenni gætu búið í spítalanum á vetrum, ef hann væri stækkaður og ætti þeim þá að vera vorkunnarlaust að ganga sjálfala á sumrin. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi og Þormóðsklíkunni einni til skammar. Framsóknarflokkurinn hefir töluvert komið við stjórn Siglufjarðarkaupstaðar, allan tímann haft hér bæjarstjóra og í sinni nánu samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn miklu ráðið um úrslit merkra mála. Annars er ekki rétt að tala um Framsóknarflokk á Siglufirði, því hann er hér enginn til. Flokkur sá, sem íhaldsmaðurinn Þormóður Eyjólfsson hefir safnað hér í kringum sig, er bara íhaldsflokkur. Að Þormóður vildi heldur nýjan flokk en að vera í Sjálfstæðisflokknum, kom til af því, að þar fékk hann ekki að ráða öllu einn. Framsóknarmenn sem í Þormóðsflokknum eru, fá engu að ráða, enda er mikil óánægja innan flokksins. Einu af fyrirtækjum bæjarins hefir Þormóðsflokkurinn ráðið yfir, það er Hólsbúið. Bústjórinn er Þormóðsmaður og hann hefir þar mestu ráðið. Útkomuna þekkja Siglfirðingar og því er hún nefnd hér, að hún er táknræn fyrir árangur af starfi þeirra Þormóðsklíkumanna yfirleitt. Það skulu skriffinnar og ræðumenn þessarar klíku vita, að ómótmælt skulu þeir ekki fá að halda uppteknum hætti um málflutning sinn”.

Harkan í pólitíkinni var að öllum líkindum talsvert meiri á Siglufirði en annars staðar á landinu og umræðan ekki alltaf á mjög faglegum nótum. Dæmi um slíkt má sjá hér að neðan.

Mjölnir 12. desember 1941


Látum þetta duga af pólitík fyrri hluta síðustu aldar þó meira en nægu sé af að taka og skoðum hina hliðina á manninum, m.a. aðkomu Þormóðs að Karlakórnum Vísi, en hann var söngstjóri hans í rúma tvo áratugi.


Kórstjórnandinn Þormóður Eyjólfsson.

Þormóður stjórnaði kórnum í heil 23 ár af miklum dugnaði og óhætt er að segja að hann hafi bæði eflt hann og bætt. Hann leitaði m.a. uppi góða söngmenn í öðrum héruðum eða jafnvel landshlutum og fékk þá til að flytjast til Siglufjarðar og syngja með kórnum. Góð dæmi um það eru m.a. Björn Frímannsson sem kom úr Fljótunum og Daníel Þórhalls sem fluttist til Siglufjarðar alla leið frá Hornafirði. Þá fékk hann bróður sinn Sigurð Birkis söngkennara til koma til Siglufjarðar um tíma og þjálfa kórfélaga. Sigurður Birkis mun einnig hafa verið fyrsti einsöngvarinn sem söng opinberlega með karlakórnum Vísi. Óhætt er að segja að undir stjórn og leiðsögn þeirra bræðra hafi kórinn átt glæstan feril um langt árabil og verður þeim seint fullþakkað fyrir framlag sitt til siglfirskrar tónlistariðkunar.

Fálkinn júníhefti 1930


Hér er sagt frá landskórnum sem söng á Alþingishátíðinni 1930, taldi hvorki meira né minna en 150 söngmenn og var því stærsti karlakór sem sungið hafði á Íslandi. Hann var samansettur úr sex kórum og þar á meðal Vísi frá Siglufirði sem á þessum tíma telur tuttugu söngmenn.

Morgunblaðið föstudaginn 29., júní 1934


KARLAKÓRINN VÍSIR.

Söngstjóri: Þormóður Eyjólfsson. Samsöngur í Gamla Bíó þriðjudaginn 20. og miðvikudaginn 21. þ. m. kl. 7,15. Einsöngvarar: Daníel Þórhallsson, Halldór Kristinsson, Haraldur Jónsson og Sigurjón Sæmundsson. Við hljóðfærið: Emil Thoroddsen. “Fóstbræður” (áður Karlakór K. F. U. M.) syngja nokkur lög með “Vísi” á þriðjudagssamsöngnum”.
Vísir, mánudaginn 19. apríl 1937.

Útvarpstíðindi marshefti 1939


Það mun hafa gustað um Þormóð þegar mikið stóð til og kórfélagar mættu að hans mati ekki nægilega vel á æfingar. Það kemur fram í fundargerðabókum sem varðveittar eru á Bókasafni Siglufjarðar að hann hótaði margoft að hætta ef menn „drulluðust“ ekki til að mæta betur á æfingar. Líklega munu mætingarnar hafa orðið eitthvað betri í kjölfarið á slíkum uppákomum, að minnsta kosti í bili, en honum tókst með harðri hendi að halda úti þessum glæsilega kór sem var á þeim tíma einn besti kór á landinu, og oft er talað um hans fyrra blómaskeið undir hans stjórn.

Þormóður stjórnar Vísi á hinum splunkunýja fótboltavelli Siglfirðinga við Túngötu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn síldarminjasafnsins

Árið 1950 birtist eftirfarandi í einu Reykjavíkurblaðanna. Ekki var þó farið alls kostar rétt með staðreyndir, því áður en Þormóður tók við söngstjórn kórsins gerðu það einnig þeir Halldór Hávarðsson og Tryggvi Kristinsson þó til skamms tíma væri.

“Karlakórinn Vísir á Siglufirði.
Kórinn söng hér í Reykjavík í apríl 1937 og aftur í júní 1944. Ennfremur söng hann hér á söngmótum íslenzkra karlakóra árin 1930, 1934 og 1950. Söngmennirnir eru um 40, margir góðir raddmenn og var söngurinn drengilegur og lýsti sönggleðin. Söngstjóri kórsins var Þormóður Eyjólfsson konsúll og hefur stjórnað kórnum frá byrjun, en kórinn er stofnaður árið 1924. Kórinn söng aftur hér 1944, eins og áður er sagt, og hafði þá tekið miklum framförum, Söngskráin var svipuð og hjá öðrum íslenzkum karlakórum á þessum árum, skandinavísk og íslenzk lög”.


Siglfirðingur 10. nóv. 1949


 
Árið 1950 tekur Karlakórinn Vísir þátt í landsmóti karlakóra sem haldið er 9. til 11. júní það ár í Reykjavík. Eftirfarandi frétt birtist í Þjóðviljanum 25. maí 1950.

„Þriðja landsmót Sambands íslenzkra karlakóra verður haldið í Reykjavík dagana 9. – 11. júní n.k. Sjö karlakórar, um 250 söngmenn alls, taka þátt í mótinu. Halda kórarnir þrjá samsöngva í Austurbæjarbíó dagana 9. og 10. júní, en 11. júní syngja þeir í Tívolí.

Kórarnir, sem þátt taka í mótinu eru þessir: Karlakór Akureyrar, söngstjóri” Áskell Jónsson. Fóstbræður, söngstjóri Jón Halldórsson. Geysir, söngstjóri Ingimundur Árnason. Karlakór Reykjavíkur, söngstjóri, Sigurður Þórðarson. Svanir (Akranesi), söngstjóri Geirlaugur Arnason. Vísir, söng stjóri Þormóður Eyjólfsson. Þrestir, söngstjóri Ragnar Björnsson.
Kórarnir syngja saman fimm lög og síðan hver kór tvö lög. Söngstjórar landskórsins verða þeir Þormóður Eyjólfsson, Jón Halldórsson, Ingimundur Árnason og Sigurður Þórðarson“.

Í október 1950 er Tónlistarskóli Siglufjarðar sem stofnsettur og rekinn var að Karlakórnum Vísi, settur í fyrsta skipti. Þar með var brotið blað í tónlistarsögu bæjarins, því þetta var líka fyrsti tónlistarskólinn til að starfa á Siglufirði. Þormóður setti skólann og kórinn söng auðvitað við setningu hans. Nemendur þetta fyrsta skólaár voru 40 og skólastjóri var Jón Gunnarsson. Til gamans má geta þess að þessi fyrsta kennsla fór fram í Norska Sjómannaheimilinu, eða í sama húsi og hann er nú aftur kominn í eftir að hafa verið til húsa á nokkrum stöðum í bænum.

Einhvern tíma skömmu eftir 1950 dregur Þormóður sig í hlé frá tónlistarstússinu eftir langan og farsælan feril á því sviði og Haukur Guðlaugsson síðar söngmálastjóri þjóðkirkjunnar tekur við keflinu.

Þormóður Eyjólfsson sextugur.

Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði grein í Tímann vegna afmælis Þormóðs, sem birtist þriðjudaginn 14. apríl 1942 daginn fyrir sextugsafmæli hans og synd væri að segja að sá maður hafi verið sérlega stuttorður. Greinin var gríðarlega löng og greinilegt að þar skrifar samflokksmaður hans, en við skulum stytta mál hans og kíkja á nokkra valda kafla úr henni.

…”Um langt skeið hefir Þormóður Eyjólfsson verið nafnkenndur maður á Siglufirði, og það fyrir margra hluta sakir. Hann hefir um langt skeið verið forustumaður við að stofna og starfrækja stærsta atvinnufyrirtækið, sem rekið er á vegum íslenzka ríkisins. Hann hefir í fjórðung aldar verið í fylkingarbrjósti í sínu bæjarfélagi um flestar framfarir, sem þar hafa orðið. En til viðbótar þessum efnislegu framkvæmdum er hann listrænn maður í bezta lagi, einn af helztu söngstjórum landsins og mikill styrktarmaður um samstarf söngfélaganna í landinu. Þessi maður er sextugur á morgun…

…Þegar Þormóður Eyjólfsson festi byggð sína á Siglufirði var bærinn með allt öðru sniði en nú. Norðmenn höfðu uppgötvað hin góðu atvinnuskilyrði, sem biðu síldveiðimanna á þessum stað. Þeir höfðu auk þess kennt íslendingum að veiða og verka síld. En jafnframt þessu áttu þeir Siglufjörð. Íslendingar voru í raun réttri undirtyllur útlendinga í þessari arðgæfu veiðistöð. Að vonum var reglusemin í kauptúninu ekki sérlega mikil, meðan erlendir stundargestir réðu þar lögum og lofum. Á þessum árum varð það almenn skoðun, að Siglufjörður væri hin fasta borg syndsamlegs lífernis á Íslandi. Þormóður Eyjólfsson hóf nú margskonar atvinnurekstur á Siglufirði. Hann var útgerðarmaður, seldi síld, afgreiddi skip, varð ræðismaður fyrir útlent ríki, bæjarfulltrúi Siglufjarðar og þátttakandi í ótölulegum nefndum, sem störfuðu að velferð bæjarins. Þormóður Eyjólfsson myndi hafa orðið landnámsmaður, hvar sem hann hefði dvalið, af því hann er gæddur eiginleikum þess manns, sem ryður nýjar brautir…

…Mér eru ekki nema að litlu leyti kunn hin fjölmörgu ítök Þormóðs Eyjólfssonar að framfaramálum bæjarins. Mér er þó kunnugt, að hann var einn af helztu forvígismönnum að kirkjubyggingunni, og lagði fram fé og fyrirhöfn til að útvega þangað hina fögru og frumlegu mynd Blöndals: Þegar Kristur lægir öldur hafsins. Hann beitti sér fyrir smíði hafnarbryggjunnar og kom í gegnum þingið 1933, að kalla mátti einn og óstuddur, ríkisframlagi til að byggja brimbrjótinn, sem ver nú bryggjur ríkisverksmiðjanna gegn hafróti og hafís. Enginn Siglfirðingur hefir lagt fram jafn mikla vinnu og Þormóður Eyjólfsson til að hrinda í framkvæmd akvegargerð yfir Siglufjarðarskarð. Eitt sinn þegar Siglufjarðarkaupstaður vildi fá lán í Skarðsveginn, sendi bæjarstjórn Þormóð Eyjólfsson sinna erinda í þeim efnum, þó að hann væri þar minnihlutamaður. En menn vissu að ef málið átti að vinnast, þá var bezt að fela það Þormóði Eyjólfssyni…

…En eftir hin fyrstu fjörbrot hefir komizt á viðunandi vinnufriður í síldarverksmiðjum ríkisins. Hefir Þormóður Eyjólfsson átt mikinn þátt i að tekin voru upp friðsamleg vinnubrögð á þessum vettvangi. Bjartsýni hans og drenglyndi í skiptum við aðra menn, jafnvel þó að um andstæðinga sé að ræða, hafa gert honum kleift að lækka öldurnar í hinum viðkvæmu síldarmálum…

…Söngflokkur hans, “Vísir”, hefir nú starfað á Siglufirði fram undir 20 ár. Þormóður Eyjólfsson hefir allan þennan tíma þjálfað hann og varið til þess mikilli vinnu. Stundum hefir honum tekist að draga til Siglufjarðar álitlega söngmenn, með því að hjálpa þeim með ráðum og dáð, til að geta starfað í bænum. Karlakórinn Vísir hefir eflt sönglíf og almenna menningu á Siglufirði. Auk þess hefir kórinn farið, meir en nokkur annar söngflokkur, ferðir um flestar helztu byggðir Norðurlands og tvisvar til Reykjavíkur…

…Þegar á æskuárum var Þormóður Eyjólfsson einlægur landvarnarmaður. Sú hugsjón, að Ísland yrði aftur alfrjálst þjóðveldi eins og í fornöld, heillaði hug hans þegar á æskuárum. Hann hefir ekki enn hopað um hársbreidd í því efni. Þegar átök urðu um sjálfstæðismálið á útmánuðum 1941, var Þormóður Eyjólfsson einn af þeim mönnum, sem með mestri einlægni og manndóm beitti sér fyrir því, að þjóðin framkvæmdi þá þegar fullan skilnað og skipulega lýðveldismyndun. Þegar Framsóknarflokkurinn var stofnaður fyrir fjórðungi aldar, gekk Þormóður Eyjólfsson þá þegar fram í fylkingarbrjóst…

…Utan um Þormóð Eyjólfsson safnaðist á Siglufirði fylking margra vaskra manna. Þar sem áhuginn er nógur, lyftir hver félagsbróðir sinum sessunaut. Flokkur Framsóknarmanna á Siglufirði hefir jafnan verið í sókn. Hann hefir haft úrslitaáhrif á meðferð hinna þýðingarmestu mála í bænum, og verið þungt lóð á metaskálum kosninganna í Eyjafjarðarsýslu. Þegar Þormóður Eyjólfsson kom til Siglufjarðar, var bærinn niðurbæld norsk veiðistöð, og að orðtaki víða um land fyrir lausung og léttúð. Nú er Siglufjörður blómlegur kaupstaður með miklu og margþættu atvinnulífi…

…Hinar miklu framfarir Siglufjarðar, frá því hann var norsk verstöð og þar til hann er orðinn myndarlegur, íslenzkur kaupstaður, er vitanlega verk margra manna. En í hinni myndarlegu fylkingu siglfirzku umbótamannanna stendur einna fremst hinn prúði, bjartsýni sextugi maður, sem ber að vísu nokkuð af silfurhárum, eftir langan starfsdag, en er jafnframt því gæddur þeim áhuga og fjöri sannrar æsku, sem einkenndi þá kynslóð hér á landi, sem hóf starf sitt á morgni tuttugustu aldarinnar. Sú kynslóð vonar enn að sjá vordrauma sína rætast, Ísland alfrjálst, undir íslenzku þjóðarmerki. Þormóður Eyjólfsson á svo mikinn þátt í þeim sigrum, sem nú þegar hafa verið unnir, að vinir hans og samherjar munu óska þess, að honum megi auðnast að taka þátt í þeirri úrslitasókn fyrir frelsi landsins, sem er lokasteinninn í þeirri byggingu, sem Þormóður Eyjólfsson og samherjar hans hafa unnið að með mikilli giftu og glæsilegum árangri…”.

Þormóður Eyjólfsson sjötugur

Í Siglfirðing sem kom út þ. 19. apríl birtist eftirfarandi grein þar sem afmælinu var gerð góð skil, en enginn ritar þó undir greinina.

“Þormóður Eyjólfsson átti 70 ára afmæli þ. 15. þ.m. Víða hefir þessa dags verið minnzt, í útvarpi og blöðum, enda er Þormóður Eyólfsson löngu þjóðkunnur fyrir hina margþáttuðu starfsemi sína í atvinnumálum lands og þjóðar en ekki síður sem söngstjóri Karlakórsins Vísir. Af tilefni þessa afmælis hélt Vísir söngskemmtun á páskadag fyrir fullu húsi áheyrenda og tókst hún ágætlega. Að þessu sinni stjórnaði kórnum kornungur maður ættaður frá Eyrarbakka, Haukur Guðlaugsson að nafni. Verður ekki annað sagt, en að söngstjórn hans hafi tekizt ágætlega. Leynir það sér ekki, að hann er óvenju söngvinn og eldlegann áhuga skortir hann heldur ekki. Er framkoma hans öll látlaus og lipur, stjórn nákvæm og fáguð, leikur léttur og fágaður. Að vanda vakti söngur hinna kunnu einsöngvara hrifningu, enda fóru þeir ýmist vel eða ágætlega með verkefnin. Að aflokinni söngskemmtuninni flutti formaður kórsins, Sigurjón Sæmundsson snjalla ræðu og rakti í aðaldráttum hið mikla og óeigingjarna starf Þ.E. í þágu Vísis. Benti hann á hve mikils virði það væri, að halda uppi sönglistarstarfi í bænum og færði hann Þ.E. fagra blómakörfu og alúðarfyllstu þakkir sínar og söngmannanna.

Einnig afhenti Sigurjón Þ.E. fallega bók með nöfnum Vísismanna og fjölda annarra, er gefið höfðu 12 þús. kr. í Söngmálasjóð Þ.E. Í umboði karlakórsins Geysis á Akureyri, festi Daníel Þóhallsson gullheiðursmerki á brjóst Þormóðs og tilkynnti um leið, að hann hefði verið kjörinn heiðursfélagi Geysis. Þá færði forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, afmælisbarninu forkunnarfagra blómakörfu ásamt þakklæti bæjarstjórnar fyrir öll hin margþáttuðu störf, sem hann hefir unnið fyrir bæjarfélagið. Þakkaði Þ.E. með nokkrum orð um, óskaði bæjarbúum alls góðs í nútíð og framtíð og brýndi fyrir Siglfirðingum, að standa saman um þau vandamál, sem steðjuðu að. Kl. 8 sama kvöld hélt Vísir þeim hjónum, Þormóði og frú Guðrúnu, samsæti að Hótel Hvanneyri. Fór þetta samsæti prýðilega fram. Margar snjallar ræður voru fluttar fyrir minni þeirra hjóna og hins unga söngstjóra, sem nú er tekinn við hinu vandasama starfi, sem Þormóður hefir innt af hendi í 23 ár. Ræðumenn voru auk heiðursgestanna þeir Egill Stefánsson, Daníel Þórhallsson, Aage Schiöth, Sigurður Gunnlaugsson og Halldór Kristinsson. Afmælisdaginn þ. 15. þ.m. var gestkvæmt á hinu fagra heimili þeirra hjóna. Vísir sótti þau heim með söng og ávarpaði formaður Vísis Þormóð f.h. kórsins, framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins, Sigurður Jónsson, flutti þeim erindi erindi f.h. stjórnar þess fyrirtækis og afhenti 5000 kr. gjöf til söngmálasjóðs Þormóðs Eyólfssonar. Friðjón Þórðarson, settur bæjarfógeti færði þeim blóm og kveðjur f.h. Karlakórs Reykjavíkur og margir aðrir tóku til máls, Jóhann Jóhannsson skólastjóri, Otto Jörgensen, símstjóri, frú Þórarna Kristjánsson o.fl. Mun hátt á 3. hundrað manns hafa heimsótt hið gestrisna heimili þeirra hjóna þennan dag.

Söngmenn og nemendur Gagnfræðaskólans sýndu þeim hjónum sérkennilegan og fagran virðingarvott, sem vakti óskipta athygli bæjarbúa. Skömmu fyrir miðnætti var stofnað til blysfarar frá aðalgötu bæjarins, upp á brekkuna að dyrum þeirra hjóna. Blæjalogn var og heiðskírt þetta kvöld og var það tilkomumikil sjón að sjá 70 blys í höndum söngmanna og nemenda svífa upp brekkuna að heimili þeirra hjóna við Hlíðarveg. Flutti Aage Schiöth þeim þar stutt þakkarávarp og tók mannfjöldinn undir með ferföldu húrrahrópi. Vill þetta blað taka undir með öllum þeim, sem sýndu þeim hjónum virðingu og þakklæti á þessum merkisdegi, þakkir fyrir óeigingjarnt starf til eflingar andlegri og veraldlegri menningu þessa bæjar og forgöngu í uppeldis og kennslumálum bæjarbúa”.

Karlakórinn syngur fyrir utan heimili Þormóðs og Guðrúnar við Hlíðarveg þ. 15. apríl 1952 þegar Þormóður er sjötugur. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn síldarminjasafnsins

Vísisárin eftir Þormóð

Þrátt fyrir að Þormóður hafi látið af stjórn kórsins, gætti áhrifa hans í nokkur ár á eftir. Óli B. Björnsson skrifar langa grein og reyndar ekki sína fyrstu um Siglfirsk málefni í 2. hefti blaðsins AKRANES sem kom út í apríl 1957. Hluti hennar fjalaði um Karlakórinn Vísir og þá kom Þormóður auðvitað við sögu.

“Því miður er mér ekki nægjanlega kunn hin merka saga Karlakórsins Vísis. Ég tel víst, að séra Bjarni og fjölskylda hans hafi átt þar veigamkinn þátt í, en einnig hafa þar fleiri ágætir söngmenn og menntafrömuðir komið við sögu, allt frá því er kórinn var stofnaður árið 1924.
Fyrsti söngstjóri Vísis mun hafa verið Halldór Hávarðsson frá ísafirði, faðir Torfa Halldórssonar skipstjóra í Reykjavík. Halldór var mikill músikmaður. Hann átti áður heima í Bolungarvík og á Ísafirði, stjórnaði þar kórum og tók mikinn virkan þátt í sönglífi þessara bæja. Um skeið var einnig stjórnandi kórsins og mikill áhugamaður, Tryggvi heitinn Kristinsson, sem á alla  lund  var hinn merkasti maður. Hann var lengi kirkjuorganisti þeirra Siglfirðinga. Kirkjuorganisti þeirra mun einnig hafa verið um tíma Páll Erlendsson verslunarmaður. Mjög músikalskur og vel menntaður í þessari grein, þótt ekki væri sú menntun mikið sótt á skólabekk. Tryggvi mun nokkuð hafa fengist við lagasmíð. Hann var bróðir þess merka klerks, séra Stefáns á Völlum í Svarfaðardal. Lengst mun þó Þormóður Eyjólfsson konsúll og kaupmaður hafa stjórnað kórnum. Gerði hann það af miklum áhuga og smekkvísi og með ágætum árangri um áratugi og við mikinn orðstír. Hann er bróðir Sigurðar Birkis söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar. En Birkis hefur verið Vísi, svo sem öðrum karlakórum landsins mikil og góð hjálparhella um kennslu og hvatningu. Fjör hans og áhugi er óvenjulegt, enda mikill íkveikjumaður á þessu sviði fyrr og síðar. Alla tíð hefur kórinn haft á að skipa ýmsum ágætum kórröddum og einsöngvurum. Það má og segja Siglfirðingum til hróss, að þeir hafa þroskað með sér slíkan músikkúltúr, að þeir hafa beinlínis staðið saman um það, að ná til sín og halda hjá sér úrvals röddum til þess að byggja upp, treysta og viðhalda í bæ sínum þeim mikla menningarmeiði sem tónmenntin óneitanlega er hverju menningarsamfélagi sem lífsanda dregur, og á sér nokkurt líf fyrir höndum. Hún er hin mikla drottning allra lista.

Nú stendur ekki vel á fyrir Vísismönnum, og mun kórinn nánast liggja niðri, þar sem síðasti söngstjóri þeirra, Haukur Guðlaugsson, mun um tveggja ára skeið hafa verið við nám í útlöndum. Vonandi kemur hann bráðlega til þeirra aftur til að gefa Vísi vængi á ný, því að það væri mikil synd og óbætanlegt tjón fyrir menningu bæjarins að láta slíkan kór veslast upp. Ekki er hér með sögð öll saga karlakórsins Vísis. Á hans vegum hefur verið rekinn Tónlistarskóli á Siglufirði um nokkur ár, og með góðum árangri. Þá kennslu önnuðust að verulegu leyti fyrrnefndur Haukur Guðlaugsson og Máni Sigurjónsson, sem báðir munu hafa nokkuð til brunns að bera í tónmennt. Meðal einsöngvara karlakórsins munu eftirtaldir menn hafa verið: Sigurjón Sæmundsson, núverandi formaður. Þórður Kristinsson, Jón Ásgeirsson, Daníel Þórhallsson, Sigurður Gunnlaugsson, Aage Schiöth, Þorsteinn Hannesson og Jón Gunnlaugsson, sem fyrir nokkrum árum er fluttur til Akraness, og hefur hér verið starfandi kórfélagi, og á stundum einsöngvari í karlakórnum Svanir. Þá mun Jósef Blöndal hafa verið söngmaður í kórnum og áhugasamur félagi á fyrri árum kórsins. Árið 1954 voru eftirtaldir söngmenn í söngför er Vísir fór í tilefni af 30 ára afmæli kórsins 1954.

I. TENÓR:
Árni Friðjónsson.
Bjarni Kjartansson.
Guðmundur Þorlaksson.
Helgi Vilhjálmsson.
Jónas Ásgeirsson.
Reynir Árnason.
Rögnvaldur Rögnvaldsson.
Sigurjón Sæmundsson.
Sveinn Björnsson.

II. TENÓR:
Eiríkur Eiríksson.
Erlendur Pálsson.
Guðvarður Jónsson.
Jóhannes Jónsson.
Kjartan Hjálmarsson.
Kristján Róbertsson.
Sigurgeir Þórarinsson.
Steingrímur Guðmundsson.
Sverrir Sigþórsson.
Viðar Magnússon.

I. BASSI:
Bjarki Árnason.
Egill Stefánsson.
Gestur Frimannsson.
Guðmundur Árnason.
Guðlaugur Karlsson.
Gunnlaugur Friðleifsson.
Hafliði Guðmundsson.
Ragnar Sveinsson.
Sigurbjörn Frimannsson.

II. BASSI:
Bjarni Jóhannsson.
Björgvin D. Jónsson.
Gísli Þorsteinsson.
Guðmundur Jónasson.
Gunnlaugur Jónsson.
Kjartan Einarsson.
Kristinn Georgsson.
Ragnar Erlendsson.
Þórður Kristinsson.
Óli Geir Þorgeirsson”.



Karlakórinn Vísir 1957. – Söngstjóri kórsins er þarna Haukur Guðlaugsson. Formaður Sigurjón Sæmundsson. – Visir starfrækir Tónlistarskóla og hafa sótt hann um 30 menn á ári hverju. S.l. vetur var Máni Sigurjónsson skólastjóri í fjarveru Hauks Guðlaugssonar. (Ljósmynd skönnuð upp úr Mbl.)

En þó að Þormóður hafi dregið sig í hlé, átti nafn hans þó oft eftir að koma upp í tengslum við siglfirska tónlistariðkun og flutning mörg ár á eftir. Nokkru eftir síðari heimstyrjöldina tók Karlakórinn Vísir á Siglufirði upp nokkrar plötur hjá Ríkisútvarpinu sem átti upphaflega einungis að nota í tengslum við útvarpsdagskrá. Tókust upptökurnar sérlega vel og voru mikið leiknar í útvarpi, m.a. í öllum þeim óskalagaþáttum sem þá voru á dagskrá. Yfirmagnaravörður útvarpsins eins og tæknimenn þess tíma voru nefndir, í þessu tilviki Dagfinnur Sveinbjörnsson, sá til þess að upptökurnar voru vel varðveittar og vann hann að því ásamt Sigurði Birkis að efnið yrði pressað og gefið út. Í júní árið 1957 segir svo Alþýðublaðið frá útgáfunni.

“Árið 1956 tókust samningar við íslenzka Tóna um útgáfu á nokkrum af plötunum og er nú sú fyrsta þeirra komin á markaðinn, Alfaðir ræður, eftir Sigvalda Kaldalóns við ljóð eftir Sigurð Eggerz, í útsetningu Sigurðar Þórðarsonar. Einsöngvari er Daníel Þórhallsson, og er þetta fyrsta platan sem út hefur verið gefin með söng hans, undirleikari er Emil Thoroddsen og Þormóður Eyjólfsson er söngstjórinn”.

Að lokum

Í 3. tölublaði Ægis, riti fiskifélags Íslands sem kom út 15. febrúar 1959, birtust nokkur minningarorð um þennan Skagfirðing sem varð þó Siglfirðingur strax sem ungur maður.

“Þormóður Eyjólfsson fyrrum formaður í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins andaðist að heimili sínu á Siglufirði hinn 27. jan. s.l. á 77. aldursári. Þormóður var um langt skeið einn helzti atkvæðamaður á Siglufirði og kom mjög við sögu síldarútvegsins. Í mörg ár hafði hann með höndum síldarsöltun og síldarverzlun í stórum stíl. Hann var fyrsti formaður stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins árið 1930. Átti hann sæti í stjórn verksmiðjanna í 15 ár, þar af formaður í 11 ár. Hann beitti sér fyrir byggingu hafskipabryggjunnar á Siglufirði og átti þátt í því að S. R. reistu þar öflug hraðfrystihús. Þormóður hafði afgreiðslu helztu skipafélaganna með höndum áratugum saman og var umboðsmaður Brunabótafélags Íslands og margra annarra félaga og stofnana. Einnig var hann ræðismaður Norðmanna. Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar í 16 ár og var forseti hennar í nokkur ár. Þormóður var söngstjóri Karlakórsins Vísis í 23 ár og varð kórinn þá landskunnur. Þormóður var Skagfirðingur að ætt, fæddur að Mælifellsá 15. apríl 1882. Kvæntur var hann Guðrúnu Björnsdóttur frá Kornsá, sem lifir mann sinn. Þormóðs mun lengi verða minnzt í sögu Siglufjarðar og síldarútvegsins”.

Og meira að segja í Mánudagsblaðinu af öllum blöðum, var farið fögrum orðum um lífshlaup og störf Þormóðs. En skýringin var auðvitað sú að greinina ritaði Jónas Jónsson frá Hriflu og þar segir m.a.

“Listrænasti maður bæjarins hafði enn einu sinni fundið lykil að gullkistu nýbyggðarinnar. Þormóður ól upp einn af beztu kórum landsins og með þeim liðsafla hafði hann ótrúlega mikil áhrif á menntun og menningu í nýbyggðinni. Þormóður skipti orku sinni milli atkvinnuframkvæmda og sönglistarinnar. Honum tókst með forsjá að flytja álitlega söngmenn til Siglufjarðar. Þegar Þormóður átti sjötugsafmæli komu Siglfirðingar í heimsókn til afmælisbarnsins og þökkuðu einlæglega fyrir langa og góða samvinnu. Efna- og valdamenn komu með gjafir í söngmálasjóð sem Þormóður hafði stofnað. Söngmenn fylktu liði, söngstjórinn greip enn einu sinni vopn sín og fyllti bæinn með söng. Börn og ungmenni lýstu upp skammdegiskvöldið með blysför. Þessi skilnaðarfagnaður var vel til fundinn þegar kveðja skyldi aldurhniginn mann sem hafði sameinað listrænt starf og baráttu fyrir daglegu brauði alþjóðar. Dauðinn gerði vart við komu sína í hús Þormóðs Eyjólfssonar. Lífsorka hans fjaraði út mánuð eftir mánuð. Kona hans og aðrir vandamenn gerðu sitt til að létta síðustu baráttu hans. Eftir lifa verk hans mikil og margþætt. Mörg þeirra eru bundin við Siglufjörð og þá sem njóta ávaxtar af langri umbótabaráttu brautryðjandans. Íslenzka útvarpið mun líka á ókomnum árum bera tóna frá kórsöng Þormóðs Eyjólfssonar inn í öll heimili á landinu”.

Á gardur.is eru upplýsingar vægast sagt af skornum skammti eins og sjá má hér að ofan og ekki virðast allt of margir huga að leiði hans hin síðari ár. Þó helgaði Þormóður Eyjólfsson samfélaginu í hinum nyrsta kaupstað landsins krafta sína, hann vildi veg þess sem mestan og ævistarf hans mótaðist af því að þjóna því bæði vel og dyggilega. Það er ekki laust við að dægurlagatextinn um Gvend á eyrinni komi þá upp í hugann „Hann liggur nú örþreyttur og lúin hvílir bein / og leiði hans er týnt“. En það er reyndar ekki svo að leiðið sé týnt þó það þyldi alveg að einhver tæki að sér að snyrta það og nánasta umhverfi þess örlítið.

Á þessum vef sem segir okkur margt en þó langt frá allt um þá sem gengnir eru, má lesa að hann er jarðsettur í Siglufjarðarkirkjugarði eldri, reit 6-1-27 og litið meira en það. Ýmislegt þykir mér vanta sem mætti alveg koma fram, og full ástæða að gera manni sem hefur lagt svo mikið til samfélgsins betri skil en þar er gert. Nefni sem dæmi að mynd vantar, hvorki dánardags eða jarðsetningardags er getið, ekki heldur heimilisfangs eða heimabæjar, og að lokum kemur fram að um aldur sé ekki vitað.


LJósmynd LRÓ


Heimildir: Siglfirðingur, Mjölnir, siglfirdingur.is, Sverrir Páll Erlendsson, Morgunblaðið, mbl.is, Fálkinn, Vísir, Útvarpstíðindi, Mánudagsblaðið, Verkamaðurinn, Akranes, Ægir rit fiskifélags Íslands.

Forsíðumynd: Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn síldarminjasafnsins.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og margar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.