Síldarsöltunarstöðin Hrímnir H/F var að mörgu leyti öðruvísi söltunarplan, því húsið var steinsteypt og það stendur enn, vissulega bryggjulaust og vel falið sunnan við stóru gulmáluðu SR húsin heima á Sigló og í dag sambyggt gömlu rækjuverksmiðju Rammans.

ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

Strákur í sumarvinnu við að mála austurhlið Hrímnis HF, sem er það litla sem sést í dag af steinsteyptu Hrímnishúsinu. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.
Mynd lánuð úr myndasyrpu frá sigló.is MYNDASYRPA: Framkvæmdir út um allan fjörð
sksiglo.is | Almennt | 24.06.2015 | Jón Ólafur Björgvinsson 


Nafnið og húsið er mér og mínum ættingjum kært. Því afi minn Jón Ólafur Sigurðsson ( Jón Í Hrímni) sem ég er skírður eftir átti og rak þetta fyrirtæki í félagi með vini sínum Þórði Þórðarsyni (Þórður á Nesi/ í Hrímni) í áratugi.

Þarna var líka merkileg tunnulyfta sem flutti síldartunnur uppá þak og undir húsinu eru sögufrægar fornminjar.

Í þessari myndasyrpusögu eru 35 einstakar og fræðandi ljósmyndir og margar af þeim hafið þið örugglega aldrei séð áður.

Allt á fullu á Hrímnisplaninu sumarið 1960. Mynd af innrammaðri ljósmynd í einkaeign sem í birtist í Fiskifréttum, líklega í byrjun 1980. Björgvins S Jónsson falaðist eftir þessari mynd og lét fjölfalda hana og ramma inn sem jólagjöf handa sjálfum sér og Hrímnis systur sínum. Ljósmyndari óþekktur.

Þetta síldarsöltunar hlutafélag fór heldur aldrei á hausinn eins og flest önnur Hf. félög gerðu eftir síldarhvarfið 1968 og var starfrækt langt fram yfir 1980 og eitthvað.

Margir Siglfirðingar muna eflaust eftir því að hafa farið með mömmu eða pabba í frystihólf sem fjölskyldan leigði niðri í Hrímni að sækja hraðfrysta sláturkeppi, sviðahausa og lambalæri.

Upprunalega er þetta eitt af elstu hraðfrystihúsum Íslands og framan á hvítmáluðu húsinu (sjávarmeigin) stóð lengi vel stórum stöfum:
HRÍMNIR HF HRAÐFRYSTIHÚS. Jón og Þórður ráku þó aldrei mér vitanlega alvöru “frystihússtarfsemi” í Hrímni en þeir voru séðir og pönnufrystu mikið af snemmsumars síld sem oft á tíðum var ekki nægilega feit og stór til söltunnar sem þeir síðan seldu í beitu fyrir línusjómenn fjarðarins.

Á forsíðumyndinni sem birtist ykkur aftur hér undir í fullri stærð, sést maður með díxil í hendinni og þetta gæti verið enskukennarann minn elskulegi, hann Hinrik Aðalsteinsson í sumarvinnu sem “Díxilmaður” á Hrímnisplaninu, en hann var ötull í sjálfboðavinnu hjá FÁUM félaginu seinna við varðvörslu á síldarminjum og í vinstra horninu sést amma Nunna (Unnur Möller) á spjalli við Brynju dóttur sína og efst uppi, sést í síldartunnur upp á þaki undir strigapokasegldúk.

Forsíðumyndin í fullri stærð. Mynd úr einkasafni, ljósmyndari óþekktur en líklega heitir hann Björgvins s Jónsson.

Seinni tíma litmynd af bryggjulausum Hrímni HF, (líklega 1980 +/-) hvítmálað lágt hús fyrir miðri mynd í skjóli sunnan við gulmálaða stóra Síberíuhúsið. Á þakinu eru ekki lengur síldartunnur, en skreiðarhjallar komnir upp á þak í staðin. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Við ljósmynd af “síldarkút” á Sarpur.is eru eftirfarandi upplýsingar:

Kútur eða lítil tunna.
Á botni kútsins eru stafirnir TR sem standa fyrir Tunnuverksmiðju Ríkisins. Kúturinn er ónotaður og sem nýr. Kemur úr hraðfrystihúsinu Hrímni við Tjarnargötu á Siglufirði. Húsið er líklega frá árunum 1928-1930 og með elstu frystihúsum landsins. Gamla frystihús Ásgeirs Péturssonar, síðar hraðfrystihúsið Hrímnir hf. Valgeir Sigurðsson, veitingamaður á Siglufirði, er nú eigandi hússins og bauð hann starfsmönnum Síldarminjasafnsins að koma inn og hirða þá hluti sem verðugir eru fyrir safnið. Sá gjörningur átti sér stað 24. febrúar 2012 og voru við það tilefni skráðir um 20 munir sem ákvað var að safnið myndi varðveita. Venjuleg tunna, heiltunna, tekur um 120 lítra, hálftunna 60 ltr. og fjórðungur (kvartil) 30 ltr., áttungur var minnst og tekur 15 ltr. Kútar voru allar smátunnur kallaðar sem voru minni en hálftunnur, svo sem kvartil og áttungur. Legill  er einnig nafn á smákút (Silfur hafsins e. Ástvald Eydal Helgafell 1948 – bls. 115.  Hannes Baldvinsson viðtal í des ´08. Orðabók Menningarsjóðs) Sennilega voru 12 tunnuverksmiðjur reknar á Íslandi á 20. öld og helmingur þeirra á Siglufirði. Tunnuverksmiðja ríkisins var rekin á Siglufirði frá 1946-64, er hún brann.
En hún var endurbyggð 1965 og starfaði til 1971.”

HRUN OG BRUNI – Myndasyrpusaga

Síldarminjasafninu var einnig færðir hinir ýmsu munir úr Hrímni HF að gjöf úr dánarbúi föður míns Björgvins S Jónssonar og móður minnar Halldóru R Pétursdóttur sumarið 2019.

Þess má til gamans geta að pabbi var oft hér áður fyrr kallaður “Hrímnisdrengurinn” og líklega hafði Árni Valdimar elsti sonur Þórðar í Hrími það viðurnefni líka.

Í þessum tveimur viðtölum við Árna og systur hans, Dísu Þórðar í Hrímni, skíðadrottningu Íslands eru margar skemmtilegar myndir og minningar frá vinnu í Hrímni Hf.
T.d. segir Árni frá því að Þórður bróðir hans hafi einu sinni sofnað ofan í síldartunnu á Hrímnisplaninu.

Spjallað við burtfluttan – Árna Valdimar Þórðarson.
sksiglo.is | Fróðleikur | 31.03.2011 |Leó R Ólason

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Árdísi Þórðardóttur
sksiglo.is | Fróðleikur | 24.11.2010 | Leó R Ólason

Söltunarstöðin HRÍMNIR Hraðfrystihús. Mynd úr einkasafni, Ljósmyndari óþekktur. (Líklega Björgvins S Jónsson)

Ég sem er fæddur snemma árs 1962, er náttúrulega of ungur til hafa fengið að vinna þarna, en ég sé þetta allt saman í hyllingum með mínum barnaminningaaugum frá hliðarlínunni. Það eru tvær fjölskyldur sem eiga og reka þetta fyrirtæki, allir sem vettlingi geta valdið taka þátt í starfseminni.

Ég minnist þess hvað allt breyttist á vorin eftir rólegheita viðhaldsvinnu vetrarins í Hrímni og veturinn gaf mér og systkinum mínu mikinn tíma og athygli frá afa, ömmu, pabba og mömmu og ungum systrum pabba, Steinunni, Brynju og Söllu í stóra húsinu sem afi byggði á Hverfisgötu 27. Strax og snjóa leysti byrjar undirbúningsvinnan fyrir komandi síldar-söltunnar og frystingar tímabil. Þetta rólegheita stórfjölskyldu vetrarhús breytist skyndilega í umferðarmiðstöð og hótel sem er opið allan sólarhringinn.

Allt klárt og uppstillt á Hrímnisplaninu. Nú má síldin koma. ATH. Á milli bryggjanna sést í lítinn árabát með utanmótborðsmótor. Um borð eru örugglega Hrímnisbræðurnir Árni og Þórður júníor. Ljósmyndari: Jóhann Örn Matthíasson.

Fólk kom og fór og svaf á skrítnum tíma heima á Hverfisgötunni fannst mér barninu og Amma Nunna er að allan sólarhringinn við að baka, laga mat, smyrja nesti og þvo og laga fatnað. Einhvern veginn tókst henni samt að finna tíma til að spjalla við mig, blessaðan ömmudrenginn sinn og steikja lummur handa mér og þar á milli skreppur hún niður á Hrímnisplan og saltar í nokkrar tunnur.
Mamma mín á neðri hæðinni er auðvitað með í þessu líka, því hún er heima með þrjá smákrakka.

Amma tekur með sér ungar dætur sínar, sem eru álíka háar í loftinu og hún sjálf og hjálpar þeim og kennir þeim réttu handtökin. Hún sem er aðeins lengri en 9 – 12 ára gömul dóttirin, sér um að setja fyrstu 3-4 löginn af síld í botninn svo að þær detti nú ekki ofan í síldartunnuna.

Síðan læra þær fljótt að plumma sig sjálfar.

Eld gömul mynd af Jóni í Hrímni með móður sinni Salbjörgu Engilráð Jónsdóttur. Faðir Afa Nonna var Sigurður í Leyningi, trésmiður. Hann byggði sér og sínum lítið bárujárnshús við Suðurgötu 30. Mynd úr einkasafni. Ljósmyndari óþekktur.

Það er mér minnisstætt að sumartíminn var sú tíð sem ég fékk minni athygli frá hinum nú sívinnandi fullorðna heimi og ég var eitthvað svo vanur við að hafa ást og umhyggju þeirra tiltæka. Stundum var maður hreinlega fyrir þreyttu vinnandi fólk sem þurfti að fá að leggja sig í friði smástund um miðjan dag og þá var maður rekinn út úr húsi vegna hávaða og prakkaralátunum sem fylgdu mér.

Ég sá mér leik á borði, því nú var maður ekki undir eins ströngu eftirliti og ég er nú ekki hár í loftinu þegar ég byrjaði að fara í langa suðurbæjargöngutúra að finna mér fleiri ömmur sem höfðu tíma til að spjalla og stjana við mig.

Um haustið þegar ég 6 ára gamall, var ég tilneyddur sendur í Barnaskólann, en þá var ég líklega búinn að skaffa mér rúmlega 20 aukaömmur víðs vegar í suðurbænum og þær voru allar elskulegar heimavinnandi eldri konur sem fóru sjaldan út úr húsi og þær fóru yfirleitt aldrei niður á eyri til þess að salta síld.
Mér fannst skólagangan í byrjun vera hin mesta pest og pína og svifta mig öllu mínu frjálsa suðurbæjarlífi, með tilheyrandi ömmuheimsóknum.

Sjá meira hér um ömmurnar mínar í suðurbænum:

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR
sksiglo.is | Greinar | 10.03.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1246

Það sama gilti um sumarið eftir, en þá fannst mér að mínu eigin sumarfrjálsræði væri hreinlega stolið frá mér, þegar ég var sendur fram á fjörð í Leikskálarútunni frægu, svona bara til að vera ekki fyrir þessu sívinnandi Hrímnisfólki.

Þótt að þetta væri gaman og allt fullt af skemmtilegum krökkum með mér í Leikskála síldarsumarbarnapössun…. Já, þá upplifði ég, hin frjálsi og eftirlætis spillti Nonni Björgvins að þessi Leikskálavist væri einhverskonar BARNAFANGELSI með háum bárujárnsgirðingum og ströngum fangavarða fóstrum. Hefndi mín á góðhjörtuðum starfsstúlkum, strauk oft og var almennt til vandræða.

Unnur Helga Möller (amma Nunna) á spjalli við greinarhöfund, hann Nonna Óla sinn í eldhúsinu á Hverfisgötu 27. Ró og næði, því myndin er tekin í janúar 1968. Ljósmyndarinn sem er með putta fyrir linsunni heitir Salbjörg Engilráð Jónsdóttir.

Ég er ekki frá því að ég var í rauninni að hefna mín fyrir Hrímnis síldarsöltunartímabils athyglisbrest frá elsku ömmu Nunnu sem kannski bara var þreytt og slitinn eftir að hafa staðið þjónustuvaktina allan sólarhringinn… í fleiri mánuði. Þegar ég var að dunda mér við að drepa hennar heittelskuðu gullfiska. Ég var á leiðinn inn á klósett með ellefta fiskinn í litlum háf þegar hún fattaði af hverju ég var alltaf að sturta niður inn á klósetti.

Sama gildir barnalegar hefndaraðgerðir sem bitnuðu á afa. Hann var víst eitthvað svo upptekinn við að salta einhverja helv.. SÍLD og hann nennti ekki að fara með mig í bíltúr. Þá kastaði ég grjóti að honum þar sem hann sat inn í flotta bláa Fiatinum sínum, en sem betur fer þá hitti ég hann ekki, báðar framrúðurnar á bílnum voru opnar og grjótið rétt stauk hans stóra afanef og ferðaðist óhindrað í gegnum bílinn.
Fimm ára gamall stal ég þessum sama bíl og skrapp í eina stjórnlausa bunu niður hluta af Hverfisgötubrekkunni og svo “lánaði” afi mér einu sinni forláta flottan gulllitaðan kveikjara sem hann var nýbúinn að fá í jólagjöf og síðan kveikti ég “óvart” í öllum jólapappírnum í ruslageymslunni. Amma Nunna skammaði AFA rosalega mikið fyrir þetta.

Var ég oft skammaður?
Nei, mest lítið og ég man líka að í flestum tilfellum fannst útslitnum og þreyttum Hrímnis föðursystrum, pabba og fl. það bara vera freka fyndið og upplyftandi að heyra prakkarasögur þegar þau komu dauðþreytt heim.

Kannski óskuðu þau sér innst inni að þau væru aftur orðin sumarfrjáls börn.

Margrét (Gréta) Árnadóttir eiginkona Þórðar í Hrímni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjö ára gamall flutti ég suður á Hafnartún 6 og það er mér minnisstætt að við vorum oft að leika okkur og spila fótbolta á stóru hallandi túni þar sunnan við og þar hitti maður oft Margréti Þórðardóttur (Maddý) en hún var næst yngst í Hrímnis systkina skaranum þeirra Þórðar og Grétu, en þau byggðu sér stór og mikið hús við Laugarveg 35.

Maddý mátti á þessu tíma ekki fara með niður á Hrímnisplan, því hún var barnapía og passaði alla sumardaga hann Jónas litla bróður sinn.
Maddý var alveg ferlega góð í boltanum sem stundum rúllaði alla leið niður í sjó í of kröftugum hornspyrnum. Maður vildi gjarnan lenda í sama liði og Maddý en helst ekki í liði með Jónasi. Hann var nefnilega svo lítill og ræfilslegur þá, því hann var örverpisunginn þeirra Grétu og Þórðar.

Við fórum oft í heimsókn og fengum lummur og saft í þessu stóra Hrímnishúsi sem stóð og stendur enn einkennilega skáhallt við Laugarveginn. Mér dettur einna helst í hug að Þórður í Hrímni/ á Nesi, sem var ferlega séður og klár kall hafi fengið í gegn þessa sérkennilegu húsastaðsetningu til þess að hann hefði betra útsýni út á Siglunes.

Síldarsöltun á Hrímnisplani. Ljósmyndari: Jóhann Örn Matthíasson.

Ég sá það ekki þá sem barn, en andinn í þessu suðurbæjar Hrímnisfjölskylduhúsi var nákvæmlega sá sami og ég var vanur við frá Hverfisgötunni. Umferðarmiðstöð og hótel, þegar síldin kom í bæinn. Stanslaus traffík inn og út og þarna stóð hún Gréta mín vaktina með bros á vör og kvartaði aldrei.

Það getur svo sem vel verið að sumir séu stórir og klárir karlar niðri á eyrinni. Síldarspekúlantar, skipstjórar eða eitthvað svoleiðis…. en við skulum aldrei gleyma að það voru konur eins og amma Nunna og Gréta Þórðar sem stjórnuðu í rauninni öllu og sáu til þess með sinni ótrúlegu fórnfýsi að þetta gæti hreinlega gengið upp allt saman og SÍLDARSTÚLKURNAR voru líka alltaf mikilvægustu starfsmennirnir á síldarplaninu.

HRÍMNIR HF

Félagarnir Jón og Þórður voru báðir starfsmenn hjá fyrri eigendum Hrímnis Hf. Þeir keyptu fyrirtækið af þeim Friðrik Guðjónssyni og Georg Pálssyni, hvaða ár veit ég ekki. Greinarhöfundi hefur ekki heldur tekist að fá það staðfest hvort að þeir voru þrír hluthafar í upphafi eða hvort að þeir Afi Nonni og Þórður keyptu báða eigendur út samtímis. Það er ekki ólíklegt heldur að Georg Pálsson hafi líka lengi vel verið bókhaldari fyrir Hrímnir HF.

Hrímnir í byggingu. (Vesturhlið) Ljósmyndari Kristfinnur Guðjónsson.
Mynd úr safni Gísla Halldórssonar framkvæmdastjóra SR á Siglufirði. Hrímnir í byggingu. (Austurhlið) Ljósmyndari: Gísli Halldórsson.
ATH. Lengst til hægri sést gamall strompur sem var rifin í sambandi með byggingu SR “Síberíu” hússins.

Síberíu verksmiðjuhúsið og Hrímnisplanið sunnan við með tunnur á þakinu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

SÍBERÍA, ÁFÖST ÁSTKONA HRÍMNIS

Hrímnir og Síbería!
Já, þetta eru tvö köld nöfn, en það andaði samt aldrei köldu í þéttu sambandi þessara tveggja sögufrægu húsa, þau stóðu lengi þétt saman.

Hrímnir og Síbería í byggingu. Mynd úr safni Gísla Halldórssonar, ljósmyndari sá hinn sami.

Upprunalega er ekki Hrímnir sambyggt við suðurvegg Síberíuhússins háa, það var þarna leiðinda skot á milli húsa sem fylltist af snjó og þeir Þórður og Jón sáu sér leik á borði og byggðu yfir þetta skot og þá myndaðist þessi stóri salur með hátt til lofts í norðurendanum á Hrímnishúsinu og meira geymslupláss fyrir síldartunnur uppi á taki.

Síbería og Hrímir voru upprunalega ekki sambyggð. Ljósmyndari: Gísli Halldórsson.
En kæru lesendur, nú verðum við að taka smá hliðarspor og ræða aðeins um nágrannakonu Hrímnis sem var kölluð Síbería en þetta er mögnuð saga og hún kom upp úr mistökum hjá SR forstjóranum og snillingnum Gísla Halldórssyni.

Ég vitna hér í samantekt frá Siglósögumanninum og ljósmyndameistaranum Steingrími Kristinssyni:

“….. Hallur Garibalda sagði mér ma. einnig frá einu umtalaða þrætuepli pólitíkusanna hvað Gísla varðaði, það er byggingin „Síbería“ sem Gísli hannaði og lét byggja árið 1937.
Húsið var ein risastór síldarþró sem allir vildu að yrði byggð en flestir voru með hugmyndir um þrær eins og þær sem fyrir voru, en Gísli var framsýnn maður og vildi byggja þró þar sem sólskin næði ekki til að skemma hráefnið eins og oft hafði skeð. Þar fyrir utan ætlaði hann nota nýja aðferð til að varðveita síldina sem best og ná þannig góðum afurðum, mjöl og lýsi úr hráefninu.

Síðari hluti áætlunarinnar tókst með einstökum árangri, að vissu marki þó.
Hann lét blanda saman ís og salti sem sérstakur búnaður blandaði og blés síðan blöndunni yfir hráefnið á leið sinni í þrærnar.

Tveggja mánaða gamalt hráefnið þegar það loks að hausti fór í vinnslu, var það sem ferskt þegar það fór til bræðslurnar og Hallur sagði mér að aldrei hefði gengið jafn vel og hnökralaust að vinna hráefni eins og úr þessari Síberíusíld.

Þess skal þó getið að óvæntir byrjunarörðuleikar áttu sér stað þegar byrjað varað opna gáttir þróarinnar þá höfðu þeir sem stjórnuðu því verki ekki undan að mata verksmiðjuna vegna þess að síldin var of þurr og rann því ekki af sjálfdáðum eins og gert hafði verið ráð fyrir. Það þurfti því meiri mannskap en venjulega til að lempa síldina.

Eftir það fór allt af stað.
En Síbería og Síberíusíld nafngiftin varð einmitt til vegna meintra mistaka við hönnun mannvirkisins.
Ástæðan fyrir þessu nafni því var í raun einföld.

Sjá meira hér um Gísla Halldórsson og söguna um Síberíu:
Gísli Halldórsson verkfræðingur

Síbería – Primex Óskarsgötu 7 Siglufirði

Framkvæmdir við SR Síbería. Hrímnir Hf í bakgrunninum.Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Hrímnisþakið slétta og stóra, brotnar bryggjur, Síbería og SR verksmiðjur. Á milli SR bræðslunnar og Síberíu var stór síldarþró og þar æfðum við krakkarnir bæði handbolta og spiluðum badminton. Flugmynd: Steingrímur Kristinsson.
Badminton í síldarþró SR 30. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

EN AF HVERJU ERU SÍLDARTUNNUR GEYMDAR UPPI Á ÞAKI?

Góð spurning, en svarið er einfalt.
PLÁSSLEYSI á eyrinni!

Á þeim tíma sem Hrímnis húsið er byggt er þegar skortur á flatlendi og geymsluplássi á eyrinni. Það er dýrt að byggja stór og mikil tré síldarsöltunarplön út í sjó og við sjáum lausnir á þessari landskortþróun í öðrum Siglfirskum ljósmyndum sem sýna okkur uppfyllingalausnir eins og t.d. Leirutanga og jafnvel bryggjueyjur.

Greinarhöfundi hefur ekki tekist að fá áráðalegar heimildir fyrir því hvort að það átti að byggja eina hæð til viðbótar ofan á Hrímnishúsið eða hvort það var ætlunin frá fyrstu byrjun að skapa geymslupláss á flötu steinsteyptu þakinu, en þarna á þakbrúninni voru miklir steyptir stólpar með reglulegu millibili og á milli þeirra stór og þykk stálkeðja sem átti að hindra að fólk og tunnur dyttu niður af þakinu.

Þessi merkilega ljósmynd er líklegast tekin á svölunum hjá Eggerti Theodórs á horni Suðurgötu/Laugarvegs/Hverfisgötu. Ekki er vitað hver stúlkan í þjóðbúningnum er.
Þarna sést í “Annleggið” eins og það var kallað. ( Bryggjueyja?) Ljósmyndari óþekktur.

Leifarnar frá þessari bryggjueyju urðu seinna í síldarsögunni að sænsku staurunum svokölluðu, en það varð snemma hefð að sænskir reknetabátar löguð hlið við hlið í langri röð við þessa staura.

Sænskir bátar við sænsku staurana. Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni ( De seglade för Tjörn)
Sjá meira hér: De seglade från Tjörn…….Til SIGLÓ. (50 myndir)

Annleggið er alveg eigin kafli í síldarsögunni og vonandi fáið þið lesendur trölli.is að sjá myndir o.fl. seinna um þessa merkilegu plássleysis bryggjueyju í sögu frá mér fróðari sögumönnum, en ég sendi þeim aðilum nýlega hinar ýmsu myndir sem ég hef fundið af Annlegginu í Ljósmyndasafni Siglufjarðar gegnum árinn.

TUNNULYFTA OG SKAUTASVELL… uppi á þaki

Útskipun með tunnulyftu af Hrímnisþakinu í september 1961. Mynd úr einkasafni. Ljósmyndari óþekktur, en líklega heitir ljósmyndarinn Björgvins S Jónsson.

Plássleysið á Hrímnisplaninu gerði það að verkum að vélasnillingurinn Þórður í Hrímni hannaði þessa tunnulyftu og samkvæmt lýsingu föðursystur minnar Salbjargar Hrímnis-Jónsdóttur var unnið við þessa síldartunnulyftu, nokkurn veginn svona:

Ég fékk að prófa að setja tunnur í lyftuna niðri. Það var auðveldara. Þurfti 2 menn uppi til að taka á móti tunnum. Þar var sliski sem tunnurnar runnu eftir niður á þakið. Eins þurfti 2 menn til að koma tunnunum niður. Ýta þeim upp sliskjan og bíða eftir næstu tunnulyftuörmum.”

Tunnulyfta. Mynd úr einkasafni. Ljósmyndari óþekktur.

Þarna uppi á þakinu var síðan unnið við að bæta á pækli og einnig var þess gætt að tunnurnar yrðu nú ekki of heitar og sólbrenndar í Siglfirska logninu og það voru þarna heilmiklar grindur með strigapokasegldúk yfir tunnustöflunum.

Salla föðursystir mín sagði mér einnig frá því að þarna á þessu flata þaki með góðu skjóli frá háum suðurvegg Síberíu hússins myndaðist árlega eitt besta skautasvell fjarðarins. Hún vogaði sér fyrst í sínu eigin 50 ára afmæli að segja pabba sínum frá því að þau krakkarnir höfðu oft klifrað uppá Hrímnisþakið og farið á skauta.

Hann horfði strangur á fimmtuga dóttur sína og húðskammaði hana fyrir þetta hættulega uppátæki.

DULARFULL SÍLDARÞRÓAR SUNDLAUG Í KJALLARANUM Á HRÍMNI HF

Undir suðvestur horninu á þessu merkilega húsi er kjallari og í honum leynist líklega ein elsta sundlaug Siglufjarðar, samkvæmt þeim heimildum sem ég fann í ljósmyndasafninu og á heimasíðu Steingríms Kristinssonar.

Hrímnir hf og og næsta nágrenni þar sunnan og vestan við. Á myndinni sést móta fyrir stórri kjallarahurð sunnan við tröppurnar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Aftan á þessari ljósmynd hér undir…. stendur eftirfarandi handskrifað af fræðimanninum og náttúrufræði kennaranum mínum Guðbrandi Magnússyni.

Hrímnir um 1936. Kjallarinn undir húsinu Hrímnir var fyrsta steypta síldarþró landsins, byggð 1906 og notuð af Síldarverksmiðjunni Bakkavik.

Á vorin var síldarþróin notuð sem sundlaug til sundkennslu.  Ljósmyndari ókunnur, sennilega norskur

Greinarhöfundur ber í sér eina sterka minningamynd um þennan “sundlaugarkjallara.”
Snemma vors þegar ég var um 6-7 ára þá tók pabbi mig með niður í Hrímni, en það hafði um nóttina gengið mikið flóð yfir hálfa eyrina og hann var með stórar áhyggjur af “Gamla Grána” Hrímnisvörubílnum sem stóð þarna inni í kjallaranum.

Man vel hvað ég varð hissa á því að sjá þennan dularfulla hallandi kjallara í fyrsta skiptið og mikið rétt þarna stóð Gráni í hallanum með rassinn á kafi í sjó. Pabbi kom honum í gang að lokum og tókst að bjarga bílnum frá því að drukkna í þessari gömlu sögufrægu síldarþró/sundlaug.

Aðrir mér miklu eldri nefna öðruvísi minningar tengdum þessum dularfulla síldarþróarkjallara og ég fékk stutta sögu senda til mín um daginn með orðunum: “Þú getur ef vill notað eitthvað af þessu svona undir rós….ha, ha.
Takk gamli vinur og ég kalla þessa sögu…

… HRÍMNIS-FOLAR

“Ég man vel eftir þessum hallandi kjallara, því hann var vinsæll. Þar var, þegar ég var 15-18 ára aðeins síldardót í geymslu, og kjallarinn var óbeint opin og mikið notuð af 18 ára og eldri árgöngum til ýmissa hluta sem ekki mátti sjást. T.d. kom það fyrir að í sitthvorum enda voru stundum tvenn pör, þú veist…. hvað pör gera þegar fer að skyggja ef tækifæri gefst. Ég var einn af þessum folum sem notuðum Hrímniskjallarann, ásamt góðum stelpum.”

P.S. Hrímnisnafnið er oft notað á hrúta og graðhesta.

FRYST SÍLD

Ættingjar hafa sagt mér ýmislegt og meðal annar kom fram að þessi kjallarasíldarþró var notuð árlega snemmsumars þegar horaðri síld sem ekki var nægilega stór í söltun var sturtað þarna niður gegnu lúgu sem var á suðaustur horni Hrímnishússins. Síðan var henni komið áfram í gengnum aðra lúgu og inn í lítið vinnsluherbergi þar sem síldinni var óverkaðri raðað sporð í sporð í pönnur og síðan var pönnunum keyrt á vagni að lyftu upp í frystiklefana. Stærri frystihús vinnslusalurinn var aldrei notaður sem slíkur, honum breyttu Jón og Þórður í kaffistofu fyrir starfsmenn.

Talandi um þessa beitusíldar hliðarframleiðslu hjá Síldarsöltunar frystihúsinu Hrímnir HF þá kemur upp í huga mér samtöl við ættingja og þar nefnir Salla frænka t.d. vináttu og viðskipti við útlenska báta.

Ég man að pabbi fór á trillu útí sænska skútu sem lá við “annleggið” og ég var skíthrædd um að þeir þeir tækju hann með sér.
Sennilega hef ég verið 7 eða 8 ára og svo bætir hún við….”

“… Beitusíld var líka seld til sænskra og norskra báta. Afi þinn fór um borð á vorin með frysta síld. Og hann kynntist sænskum skipper sem keypti teppi á stofugólfið, dúkku fyrir mig og ávaxtabrjóstsykur í stórum járndunk. Þessu man ég eftir, eflaust hefur fleira verið keypt.
Sænski skipperinn kom svo með þetta að vori…

Trilluhornið KÓRAL SI 32. Þessi ljósmynd kom frá Söllu frænku gegnum skemmtilega Facebookgrúppu sem heitir “Niðjar Jón í Hrímni” en þar skiptust við frændfólkið á myndum og minningum. Persónulega tel ég miklar líkur á því að ljósmyndarinn heiti Emil Pétursson, æsku- og eilífðarvinur pabba. Emil, pabbi og Orri Vigfússon voru mikið að fikta við ljósmyndun og framköllun á sínum tíma.

Já, Salla mín. Aðrir ættingjar muna vel eftir þessum sænska skipper sem líklega hét STIG… eitthvað og hann fékk oft að gista hjá okkur í landlegum á Hverfisgötunni. Svíarnir komu allir með tölu frá vesturströnd Svíþjóðar og lágu úti á reknetaveiðum í 2-3 mánaðar löngum veiðitúrum og þeir söltuðu síld um borð, en þeir voru oft síldar og beitulausir í byrjun og þegar enginn síld lét sjá sig. Þetta stemmir vel við mín samtöl við gamla sænska síldveiðisjóara, en þeir voru oft með samþyki útgerðarinnar fyrir að veiða líka þorsk til að salta um borð.
Þessu skiptu þeir síðan bróðurlega á milli sín og saltfiskurinn þótti mikil heimilisbúbót ofan á ágætis laun ef þessir oft þriggja mánaða íslandstúrar voru góðir.

Stig greyið fékk að sofa smástund í rúmi sem ekki var stanslaust á hreyfingu, liggja í baðkari og svo fékk hann líka heimilislegan og góðan íslenska mat.

Sjálfur man ég mest eftir flottum rugguhesti sem mér var sagt að hafi birst eitt vorið og í spjalli við móður mína árið áður en hún lést minnist hún á annan ungan Svía á menntaskólaaldri sem leigði herbergi með fæði í kjallaraíbúðinni á Hverfisgötu 27 sumarið 1963.
Hann var víst svolítið matvandur greyið og honum leiddist ógurlega sagði mamma og strákurinn borðaði sjaldan með okkur. Hann var víst mest hangandi kringum sænska gæðaeftirlitsmenn og borðaði oftast með þeim á Hótel Hvanneyri.

Nú gat ekki “Sænsk/Siglfirski sonurinn” hennar mömmu sinnar stillt síldarsögu forvitni sína og gekk á hana með fleiri spurningum.

Hvað var hann að gera hérna á Sigló í heilt sumar þessi sænski menntaskólagutti?

Tja, afi þinn sagði að hann væri sonur háttsett forstjóra hjá ABBA síldarsamsteypunni og hann átti víst að læra allt um SÍLD og gæðaeftirlit og fl.

AHA.. interssant! Mamma, getur verið að hann hafi heitið PIHL í eftirnafn?

Já, kannski, það var allavega eitthvað stutt… og sænskt!

Jaså.. tänker jag, með mínum sænska síldarsöguhaus, getur það virkilega verið að þetta hafi verið Thorsten Pihl sem tók við stjórnun ABBA af föður sínum Axel.

Ég sel ekki þessa sögu dýrara en ég keypti hana og þrátt fyrir einkennilega afbrigðilega gott minni úr barnæsku, þá man ég ekkert eftir þessum strákling heima í Hrímniskjallaraíbúðinni, þar sem ég fæddist í brjáluðu veðri 20 janúar 1962 því ég var bara rétt rúmlega eins og hálfs þegar hann kom.

Sjá meira hér um Axel og Thorsten PIHL:
AXEL PIHL.
Mbl.is. Minningagreinar. 1999. Gunnar Petersen.

HRÍMNISNAFNIÐ LIFIR ENN

Persónulega finnst mér þetta fyrirtækja nafn alveg dásamlega fallegt, ég hef þó gert grín af þessu við afa Nonna og gefið í skyn að fólk gæti nú misskilið tunnumerkið flotta sem merkti alla saltsíld frá Hrímni HF. Það er nefnilega mynd af HESTI á logóinu og fólk gæti kannski haldið að að væri saltað hrossakjöt í þessum síldartunnunum.

Tunnumerki Hrímnis Hf með fæðingardegi og ári Jóns í Hrímni. 14.8.1918. Hans er sárt saknað, yndislegur afi og skemmtilegur karakter. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson. Þetta tunnumerki er núna til sýnis í Síldarminjasafni Íslands.

En hvað þýðir þetta nafn og hvaðan kemur það?

Hrím“-nir hraðfrystihús = Frost og svo kemur þetta nafn líka úr:

Hrímfaxi heitir hesturinn sem Nótt ríður yfir heiminn.
Hrímþursar er annað heiti á jötnum. Það á rætur að rekja til
þess að forfaðir jötna, Ýmir, varð til við sköpun heimsins
þegar hrím mætti hita.

Heimild lánuð frá: Hugtakasafn úr norrænni goðafræði
(Námsgagnastofnun 09839, © 2007 – Iðunn Steinsdóttir, Óðinn og bræður hans – kennsluleiðbeiningar og verkefni – 48)

Sama tunnumerki sem húðflúr á öxlinni á mér með mínum eigin fæðingardegi. Það var auðvitað ekki söltuð síld um miðjan vetur, 20 janúar 1962, þegar ég fæddist í kjallaranum á Hverfisgötu 27, heima hjá afa Jóni í Hrímni og ömmu Nunnu. Ljósmyndari: Hrólfur Siglfirðingur Baldursson.

Sjá meira hér í gamalli grein á sigló.is: Átthaga-ástar húðflúr.
(sksiglo.is | Afþreying | 10.07.2013 | Jón Hrólfur Baldursson.

Sá sem er samt duglegastur við að halda Hrímnisnafninu lifandi er einmitt þessi áður nefndi Hrólfur, en hann rekur mjög svo dularfulla hár og skeggsnyrtistofu undir þessu nafni í Kommahöllinni frægu heima á Sigló.

Ég hefndi mín fyrir nafnastuldinn og allskyns níð og grín um mig og mína persónu sem hefur dottið út úr munninum á þessum manni með því að láta útbúa nýtt auglýsingaskilti handa honum inná Ólafsfirði og síðan skrifaði ég líka laaaaaanga og ýtarlega Bæjarrevíulygasögu um hann og hans starfsemi sem ég birti á sigló.is.

Þetta er nefnilega réttnefni á þessari skallabónunarstöð sem Hrólfur Baldursson rekur, því eins og skýrt kemur fram í sögunni og á öllum ljósmyndum sem fylgja með koma bara sköllóttir karlar í heimsókn til hans í ókeypis kaffi og kjaftasögur.
Sjá meira hér: Gamanmál! Bæjarrevía, Á BÆJARLÍNUNNI….Elsku Hrólfur.
(sksiglo.is | Rebel | 21.03.2017 | 16:00 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 2038)

AÐ LOKUM…

Skemmtileg Kodak Instamatic mynd sem Salla frænka tók 1967 í eldhúsinu hjá afa og ömmu uppi á hverfisgötu 27. Þegar það var vindlalykt í húsinu þá vissi ég að afi væri heima og þá hljóp ég upp af neðri hæðinni og henti mér utan um hálsinn á afa Nonna. Það rétt sést í ömmu Nunnu á bakvið hvíta slettu á myndinni. Þetta er putti á Faster Söllu sem enn og aftur er með puttana fyrir framan linsuna á Kodak myndavélinni. Ljósmyndari: Salbjörg Engilráð Jónsdóttir.
og HRÍMNARA, ÞÓRÐUR OG JÓN…..tra..la…la..Smellið á myndina og þá fáið þið að sjá flott myndband og heyra þetta skemmtilega lag.

Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.

Höfundur texta og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég bæði:
Solveigu Jónsdóttur og Salbjörgu Engilráð Jónsdóttur.

Heimildir:
Mínar eigin og minningar ættingja um Hrímnir HF.
Vísað er í hinar ýmsu heimildir í texta og í gegnum slóðir í sjálfri greininni.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

HAUGASUND Á SIGLUFIRÐI VAR EITT AF HÚSUNUM Í HJARTA BÆJARINS

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

GÚSTI OG KLEINURNAR

1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!

DRAUGASAGA STEINGRÍMS

DRAUGAGANGURINN Á AÐALGÖTUNNI

ERT ÞÚ ÁTTAVILLTUR SIGLFIRÐINGUR?

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 60 MYNDA-SYRPUSAGA

UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…

FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)