Í vikunni birtist viðtal við sómakonuna Ólöfu Pálsdóttir í vefmiðlinum Lifðu núna. Ólöf bjó lengi á Bessastöðum í Hrútafirði og er móðir Páls Sigurðar Björnssonar og tengdamóðir Helgu Hinriksdóttur þáttagerðamanna á FM Trölla.

Á forsíðumynd má sjá Ólöfu með börnum sínum, þeim Ingunni, Guðný Helgu, Páli Sigurði og Einari Friðgeiri.

Ólöf Pálsdóttir sem bjó lengi á Bessastöðum er hraust og heilsugóð þó hún þurfi að taka pillur við of háum blóðþrýstingi og fleiru. Hún missti manninn sinn Björn Einarsson fyrir næstum 30 árum. Ólöf Lýsir viðhorfi sínu til efri áranna, í bókinni Raddir. Annir og efri ár. Bókin er eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur og kom úr fyrir síðustu jól. Það var Skrudda bókaútgáfa sem gaf hana út. En heyrum viðhorf Ólafar.

Ólöf og systkini talið frá vinstri, Friðrik, Álfhildur, Ólöf, Ingibjörg, Eggert og Þorvaldur

“Ég verð að segja að þessi efri ár eru skemmtileg. Ég veit ekki hvort ég er gömul en mér finnst ég geta flest. Ég hugsa ekki um mig sem gamla konu. Mér finnst gott að vera til og vera innan um gott fólk. Ég gæti líka alveg lokað mig af en ég geri það auðvitað ekki. Nú bý ég hér í íbúð fyrir eldri borgara þar sem ýmis þjónusta er í boði, hér er hægt að fá mat og fleira, en ég hef bara enga þörf fyrir þessa þjónustu. Ég get samt setið innan um aðra með handavinnuna mína og það geri ég frekar en að vera alltaf ein. Ég á í raun gott með að breyta út af vananum þótt ég sé frekar íhaldssöm og ekki mjög nýjungagjörn.

Það gefur lífinu gildi að hafa nóg að gera og sinna þessu daglega amstri. Ég er í kór eldri borgara, það er mjög skemmtilegt en ég er hætt í kirkjukórunum. Vinkona mín hringdi í mig í gær og spurði hvað ég væri að gera á morgun, hvort ég gæti komið með henni á Akranes. Ég hélt það nú. Svona ráðum við lífi okkar núna, það er svo skemmtilegt. Já, mér finnst yndislegt að vera innan um ungt fólk og skemmtilegt að hitta krakkana, sem ég kenndi, á förnum vegi. Ég verð alls ekki vör við neikvæð viðhorf í garð eldra fólks. Það eina sem ég vona varðandi þessi efri ár er að ég verði ekki farlama gamalmenni. Mér finnst mjög ánægjulegt að vera til og mér líður vel, að vakna hress á morgnana og taka þátt í þessu daglega lífi. Við þurfum að þakka fyrir það sem við höfum.

Ég hef engar áhyggjur af framtíðinni, ef ég vakna ekki í fyrramálið þá er það í besta lagi. Bjössi bíður eftir mér. Ég hugsa ekki mikið um dauðann. Ég fór einu sinni til Þórhalls miðils. Það var alveg dásamlegt. Hann sagði að það yrði dansaður vínarvals þegar ég kæmi yfir um. Ég á von á að hitta fólkið mitt þegar þar að kemur. Ég trúi statt og stöðugt á þetta. Á þessum miðilsfundi kom svo margt fram sem miðillinn gat ekki með nokkru móti vitað. Auk þess sem hann vissi ekki að ég kæmi þarna til hans. Hann lýsti Birni mínum svo gjörsamlega, það var eiginlega bara fyndið. Á jarðarfarardaginn hans í júlí rigndi svo óskaplega að það var engu líkt. Þessu lýsti Þórhallur og sagði líka að Björn vildi ekki hafa einhvern steinkumbalda á leiðinu sínu. Það vissi ég. Ég er trúuð, enda hvað annað, ég sem hef spilað í kirkju og verið í kirkjukór til fjölda ára”.

Ólöfu finnst hún enn kraftmikil og hefur gaman af því að ferðast og segist dugleg við það. Textinn er greinilega skrifaður fyrir daga Covid!

“Núna, rétt í þessu, var ég að koma frá Rússlandi, Tallin og Finnlandi og í vor fór ég með Hurtigruten upp eftir strönd Noregs. Svo fer ég til Tenerife annað slagið. Við erum fjórar frænkur sem förum alltaf í eina ferð saman á sumri, fórum reyndar bara í einn dag í sumar, það var svo mikið að gera. Það er misjafnt með hverjum ég ferðast. Þegar ég er á Bessastöðum nýt ég þess að ganga ein meðfram sjónum. Ég á marga kunningja en fáa perluvini.

Þótt ég eigi þessa góðu ferðafélaga þá hef ég yfirleitt ekki mikla þörf fyrir stuðning annarra, ég er sjálfri mér nóg. Ég get auðvitað alltaf leitað til krakkanna minna. En staðreyndin er bara sú að það hefur sjaldan nokkuð það gerst en það hefur orðið til þess að ég þurfi á fólki að halda til að létta á áhyggjum. Ef mér líður illa, sem bara gerist nánast ekki, þá get ég áreiðanlega fundið einhvern til að tala við. Ég er aldrei einmana og finnst ég metin að verðleikum”.

Ólöf á fallegu sumarkvöldi í Noregi ásamt tengdadóttur sinni, Helgu Hinriksdóttur

Myndir/ aðsendar