PROLOG

Öll erum við börn síns tíma og þessi minningapistill minn er ekki skrifaður til þess að vekja pólitíska umræðu um eitt eða neitt eða um hvað sé rétt eða rangt að hugsa og kjósa.

Ó nei!
Þessi samantekt mín snýst um að miðla sögu sem er mér hugleikin.
Sá félagslegi arfur sem við fáum úr okkar barnæsku er alveg jafn sterkur og genin sem við erfum. Enginn kemst ósnortinn undan áhrifum samtímans og þeirri hugmynda- og uppeldisfræði sem þá réði ríkjum.  

Ekki get ég sagt, að ég blessað barnið hafi tekið neinn skaða af því að mér voru otaðar á mildan máta jafnaðarmennsku skoðunum frá blautu barnsbeini.
Líklega álíka lítinn skaða og það hafa hafa farið reglulega á Jesús fundi hjá sértrúarsöfnuðinum sem sá um starfsemi ZÍON hússins heima á Sigló á sínum tíma. Eða af því að MÍR, (eða Menningartengsl Íslands og Rússlands bauð mér og öllum öðrum börnum á Siglufirði ókeypis í barnabíó 1. maí. Mig minnir reyndar að MÍR hafi á sínum tíma verið skammstöfun fyrir “Menningarstofnun Íslands og Ráðstjórnarríkjanna.”

Pólitík var ekki mikið rædd í foreldrahúsum mínum, en mér varð snemma ljóst að ég óspurður, tilheyrði ákveðnum stjórnmálaskoðunargeira frá fæðingu.

MÖLLERS ætt = KRATI = SATT ?

Ég er fæddur KRATI slengdi ég út úr mér í háskólapartý þegar ég bjó á Íslensku námsmannanýlendunni hér úti í Gautaborg fyrir meira en 30 árum síðan.  

Vinir mínir í þessu partý, og þið skulið vita, að margir þeirra eru “hámenntaðir hálfvitar” í virðulegum stjórnsýslustörfum í dag.
Þeir mótmæltu allri sem einn og vildu meina að það væri löngu liðin tíð að menn fæddust með stjórnmálaskoðanir.
Það varð mér til happs að stjórnmálafræðingurinn og bróðir minn, hann Sigurður Tómas var þarna líka og hann gat nú aldeilis sagt partýfélögum okkar sitt hvað um sögufrægan “póltískan hita” sem oft réði ríkum heima á Sigló. Siggi Tommi hafði nefnilega skrifað stóra háskólaritgerð um ýmislegt sem var merkilegt og einkennandi í Siglfirskri pólitík. Hann studdist þar mikið við heimildir frá barnaskólakennaranum okkar, fræðimanninum og Alþýðubandalagsmanninum, Benedikt Sigurðssyni.

Mínar fyrstu minningar um þetta pólitíska uppeldi eru skemmtilegar minningamyndir um að hafa farið með Möllersættingum mínum á kökubasar í KRATAHÖLLINA Borgarkaffi og seinna á ýmsar aðrar samkomur í sama húsi.

Mér skildist það ungur að árum að til voru aðrar HALLIR og pólitísk hús í bænum og að ég ætti helst að láta það eiga sig að fara í heimsóknir þangað.

BORGARKAFFI / Kratahöllin (Tyneshúsið). í dag heimili og vinnustofa listmannsins Bergþórs Morthens. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Bróðir minn varð seinna í lífinu svo frægur að hann náði því að verða ritstjóri Alþýðublaðsins, blessuð sé minning þessa þunna blaðs og hann er svo óþolandi duglegur stundum og vel að sér í pólitísku sögukjaftæði að ég kalla hann oft:
Herra Sigurður Tómt-Mas stjórnmálabullufræðingur.

Sjálfum finnst mér gaman að gantast við ættingja þegar ég hringi heim til Íslands, en þá kynni ég mig sem ???… og spyr hvort ég megi nokkuð bjóða þeim áskrift af Alþýðublaðinu.

Flestir svara hissa, er það til enn þá? Áður en þeir átta sig á að þetta er bara einhver Krata frændi í útlöndum að fíflast í þeim.

ATH: Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

BÆJARBLÖÐIN VORU MÖRG OG ÓMISSANDI

Það varð mér líka snemma ljóst að það var ekki vel séð að ÉG, væri að þéna smá aur á að bera út önnur bæjarblöð en NEISTA, málgagn Siglfirska jafnaðarmanna og Alþýðublaðið. Sem var mjög svo þægilegt, þetta var svo þunnt og lítið blað, miðað við Morgunblaðið með öllum sínum helgarblaða viðbótum og lesbókum.

Allir pólitískir flokkar á Siglufirði voru með eigið málgagn og þar var nú aldeilis tekist á um hin ýmsu innanbæjarmálefni. Það var oftast eitthvað nauðaómerkilegt í fréttum, svo í staðinn þá las maður mest harðorðaðar og svæsnar ádeilugreinar.

Hafa ber í huga að EKKERT bæjarblað var hlutlaus, frjálst eða óháð.

Það voru ótrúlega margir góðir pennar og áhugablaðamenn sem lögðu sig alla fram við vandaða útgáfu og góða prentun í Prentsmiðju Siglufjarðar.

Jóhann Möller bróðir ömmu Nunnu (Unnur Möller) var allt í öllu hjá Neista, bæði liðlegur penni og góður ljósmyndari.

Jói frændi vandar sig við að taka fréttamynd fyrir Neista, málgagn Siglfirska jafnaðarmanna, á nýja sjúkrahúsinu og Hólmfríður Magnúsdóttir reynir að vera ekki fyrir. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Vinkonur lesa bæjarblöðin Einherja og Neista. Frá vinstri: Hekla Ragnarsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir og Erla Þórðardóttir.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Þessi skemmtilega mynd er lánuð úr greininni: GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

BARÁTTUJAXLAR OG FYRIRMYNDIR

Jóhann Möller ömmubróðir minn var mér mikil fyrirmynd á allan mögulegan máta, því hann var út um allt og barðist gegn allskyns óréttlæti, en hann var svo sannarlega alvöru KRATI og eitilharður Alþýðuflokksmaður og mikill jafnréttis baráttujaxl.

Ég var heppinn, því þegar ég flutti í Hafnartún 6 í suðurbænum 6 ára gamall, þá bjó Jói frændi og hún Lena mín á Laugarveginum beint fyrir ofan Hafnartúnið. Við krakkarnir lékum okkur saman á stóru lóðinni þar við húsið og Lena var mér oft elskuleg auka suðurbæjar amma.

Jói ömmubróðir minn og elsku Lena mín.
Jói Möller í hlutverki verkstjóra, þarna er hann að reyna að koma viti fyrir Siglfirska hippastráka sem eru í sumarvinnu hjá SR. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

VELMEINT PÓLITÍSK UMHYGGJA OG UPPELDI

Snemma vors rétt fyrir fermingu er ég staddur með nokkrum félögum fyrir framan búðina hjá Gesti Fanndal.
Ég sé að Jói frændi er á leiðinni heim af SR vaktinni, hann kemur hjólandi á svarta reiðskjótanum sínum með svart kastskeyti á hausnum.

Ég vinka til hans, en hann snarstoppar óvænt og kallar:

Jón Ólafur!
Komdu og eigðu við mig orð!

Mér dauðbrá þegar hann sagði Jón Ólafur, en ekki Nonni minn.
Af fenginni reynslu frá uppeldisaðferðum ömmu, vissi ég að nú hafði ég gert eitthvað óæskilegt af mér… enn einu sinni.
Því á þessum árum var ég ótrúlega duglegur við að koma mér stanslaust í allskyns vandræði. Sjálfur vil ég meina að ég hafi tjáðst af áköfum hormónatruflunum, sem fylgdu hröðum vexti á þessum gelgjuárum.
Ég hefði kannski átt að fá einherja greiningu líka… t.d. ADHD???
En sem betur fer var ekki mikið um slíkar greiningar á þessum tíma, allir fengu bara að vera þeir sjálfir, óáreittir og án lyfja.

En alla veganna… ég geng út á Suðurgötuna og hann horfir á mig strangur á svip og segir:

Jón Ólafur!
Ég hef heyrt að þú sért eitthvað að dandalast með íhaldinu!

WHAT ???
Hugsa ég hissa… um hvað er hann að tala… hvað meinarðu eiginlega?

En Jói Krataforingjafrændi minn svarar ekki spurningu minni og bætir bara við:

VIÐ!
Skulum bara láta það eiga sig, þetta er ekki gott fyrir hvorki ÞIG eða AÐRA…

Svo sagði hann ekkert meira og hjólaði heim með nýa ýsu úr Fiskbúð Jósa og Bödda á bögglaberanum. Innrúllaða í Moggann. Kötturinn Perla beið óþolinmóð heima á Laugarveginum eftir sinni nýsoðnu ýsu.

Ég stóð eftir eins og asni og strákarnir spurðu.
Af hverju er karlinn svona reiður út í þig Nonni?

SHIT… ÚPS! Alveg rétt!
Ég fór víst í heimsókn í Sjálfstæðishúsið um daginn.

En það var nú bara til þess að fá að sjá og heyra í nýju Diskógræjunum sem Kalli Páls (Karl Eskil Pálsson, fréttamaður á N4) var nýbúinn að kaupa fyrir unglinga-áróðursstarfsemi Ungra Sjálfstæðismanna.

Og hvað, mátt þú ekki fara inn í þetta hús? Spurði einn félagi, sem skildi ekki þessa Möllersumhyggju.

Hmm… Það er greinilega ekki æskilegt og ég var með dauðans áhyggjur af því hvort að Jói frændi kæmi nokkuð í fermingarveisluna mína, en það var algjör óþarfi og mér var fyrirgefin þessi stutta íhaldshliðarspora heimsókn mín í Sjálfstæðishúsið við Grundargötuna.

En svo skiptum við strax um umræðuefni og einn félagi bætti við.
Svaka flottar græjur þarna í Sjallanum.
Já og stærðarinnar Diskókúla líka. Vá.

Mér persónulega fannst það ekkert skrítið að Jóhann Möller vissi að ég, af öllum, hefði verið eitthvað að dandalast í þessu íhaldshúsi.
Því Amma Nunna var göldrótt og vissi allt um hvað ég var að bardúsa í út í bæ og að Jói sagði: “VIÐ skulum” … þekkti ég svo vel, því amma, talaði við mig í sama uppeldis og umhyggjuástartóni.

Dæmi:
Jón Ólafur. VIÐ, skulum ekki vera að drepa gullfiska, hér á þessu heimili, með því að leika okkur að því að sturta þeim niður í klósettið…..
Annars er þetta mjög gáfulega og fallega hugsað hjá þér, Nonni Óli minn, að vilja sleppa þeim frjálsum út í hafið gegnum klóak-rörin.”

Jóhann Möller á fundi í hlutverki verkalýðsleiðtoga. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Aðrir mér eftirminnilegir verkalýðs baráttujaxlar eru þessir tveir góðu karlar.

Óskar Garibaldarson í ræðustól á barnaskólabalanum. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Óskar Garibaldarson verkalýðsforingi. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Kolbeinn Friðbjarnarsson verkalýðsforingi. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Alvöru KOMMA- Kommúnistar / Sósíalista- AllaBallar og Sósíaldemó- Kratar?

Já, þessi hugmyndafræði hugtök eru sum hver horfin og önnur hafa runnið saman og svo aðskilist aftur. Þetta er allt í belg og biðu, en það er skemmtilegt að minna á þessi orð sem voru notuð til þess sortera vinstri sinnað fólk.

Það er gaman að minnast þess að til voru alvöru hörku kommúnistar heima á Sigló og þeir áttu heila HÖLL undir sína starfsemi.

Mynd lánuð úr safni Þórs Jóhannssonar. Bland miða og fleira.
Jarðarför frá Suðurgötu 8 á Siglufirði — Hálfklárað húsið Suðurgata 10 og Prentsmiðjuhúsið fyrir breytingu.Ljósmyndari Kristfinnur Guðjónsson. Sigurður Fanndal. Sendi inn upplýsingar 14. mars 2009. Útför.
Guðlaugur skósmiður látinn. Bjó og rak veitingasal og skósmíðavinnustofu á neðri hæðinni í Suðurgötu 8 ásamt Óskari syni sínum, sem síðar flutti skóviðgerðirnar í Henriksenshúsið Aðalgötu 2, ( Gullfoss ). Kistan á vörubílspalli framan við Suðurgötu 6, ( Hús Gests Fanndal ), en þarna er verið að byggja suðurhlutann við.
Guðlaugur var sannur sósíalisti og gaf einmitt lóðina undir Suðurgötu 10, kommahöllina. Þessi mynd birtist nýlega í myndsyrpusögunni: RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 og 2 HLUTI. MYNDA-SYRPUSAGA

Í þessu sögufræga húsnæði rekur Hrólfur Siglfirðingur Baldursson bæði Hrímnir Hár Og Skeggstofa og búsbarinn Kveldùlfur Bjòr og Bùs. Þegar hann var að koma húsnæðinu í stand þá fann hann nokkur eintök af Sovéska áróðursblaðinu SOIVET UNION (á ensku) í litlum þröngum kjallara undir barnum.

Tímaritið SOVIET UNION. No. 95. 1958

Það er alveg dásamlegt að skoða þessa vönduðu blaðaútgáfu sem svo sannarlega er barn síns tíma og einhverskonar svar Sovét veldisins við Ameríska tímaritinu LIFE magasín. Litprentaðar ljósmyndir og áróðurssögur sýna vel og sanna hvað allt var nú fallegt og stórt í paradísarríkjum kommúnista.

ATH. Smellið á einhverja mynd í albúminu og skoðið hverja mynd fyrir sig í stærra formati.

Sjá meira hér á Wikipedia: Nostalgia for the Soviet Union

Jói SOVÉT á Torginu. Jói var EKKI kommúnisti. Hann fékk þetta viðurnefni vegna þess að að konan hans sendi hann út í búð og hann átti að kaupa sér ný jakkaföt. En honum tókst ekki að segja nafnið á þessum langröndóttu nýtískulegu jakkafötum sem voru kölluð Sevíót eða  Cévót, en sem sagt, honum tókst ekki að segja þetta orð rétt í herrafatabúðinni. Mynd lánuð úr dásamlegri Siglóminningasögu frá Leó Ólasyni. Sjá meira hér: GÚSTI OG KLEINURNAR. Sjá einnig meira um Siglfirsk viðurnefni og myndsyrpusögum um Ráðhús Torgið á Siglufirði hér: UM SIGLFIRSK VIÐURNEFNI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM… og RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 og 2 HLUTI. 60 MYNDA-SYRPUSAGA

Félagsskírteini Jafnaðarmanna Fjélags Siglufjarðar með J. Mynd lánuð úr safni Þórs Jóhannssonar. Bland miða og fleira

ÖNNUR PÓLITÍSK HÚS OG HALLIR

Allir flokkar voru líka með sitt eigið húsnæði, oft með samkomusal, sviði og góða dansaðstöðu, sem kom sér vel fyrir ópólitískan félagsskap sem ég var meðlimur í, en það var hálfgert leynifélag sem hét KÁT FÓLK. Meðlimir voru á aldrinum 15 – 30 ára og einu skilmálarnir fyrir að gerast meðlimur var að maður varð að vera tilbúinn í og vera viljugur að leggja bæði tíma og pening í að skemmta sér mikið og svo mátti maður ekki vera á föstu.. ef svo heppilega eða óheppilega varð að það gerðist þá varstu rekinn úr félaginu sama dag.
Það var engin föst stjórn hjá Kátu Fólki, hér réði anarkismi og kaos ríkjum og við framkvæmdum allt sem okkur datt í hug að gera.

Við leigðum okkur oft danssali Siglfirsku stjórnmálaflokkanna og líka einu sinni Hótel Hvanneyri, en þá kom löggan og henti okkur út.

Diskógræjurnar hans Kalla Páls í Sjálfstæðishúsinu voru oftast algjörlega pólitískt óháðar og fengu oft fætur og löbbuðu með okkur yfir á böll í Alþýðuhúsinu og líklega í Kommahöllina líka.

Við leigðum okkur einu sinni flugvél og skruppum í helgarferð til Neskaupstaðar sem er líklega rauðasta bæjarfélag Íslands og skemmtum okkur vel í góðri gistingu í æskulýðsheimilinu og á árshátíð Iðnaðarmanna sem okkur var boðið á. Þeir Norðfirðingar höfðu eitthvað misskilið nafnið á félagsskapnum og ruglað okkur saman við “Kátt kristilegt ungt fólk með hlutverk” minnir mig.

Þetta endaði allt með ósköpum og það var skrifað um þessa Siglfirðingaheimsókn í bæjarblöðin á Neskaupstað.

Annars voru við mest stillt og góð og leigðum okkur bara Íþróttamiðstöðina fram á Hóli og héldum þar t.d. snjóþotustökkkeppni heila helgi.

Markmið hópsins var að mótmæla þeim skemmtanamöguleika dauða og djöful fyrir ungt fólk á þessum tíma heima á Sigló og ekki vorum við velkomin heldur á Hjóna og Para böllin á Hótel Höfn.


F-72 Austin, hans Jonna Jónssonar og Alþýðuhúsið í baksýn og góðir snjóskaflar að stökkva í frá lýsistanknum eða Mjölhústakinu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Alþýðuhúsið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
BORGARKAFFI / Kratahöllin (Tyneshúsið). Ljósmyndari óþekktur.
Tvær Siglfirskar HALLIR! Kommúnistahöllin og Pokahöllin. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Pokahöllin er alveg eigin kafli út af fyrir sig en þetta merkilega hús er gott dæmi um baráttu fyrir frelsi til að fá að byggja það sem maður vill fyrir sig og sína. Sagan segir að þetta hús var byggt yfir annað minna hús sem stóð þarna við Suðurgötu 12 og síðan var gamla húsið rifið innan frá og það var víst aldrei formlega sótt um byggingarleyfi og málefni húseigandans voru líklega uppi í bæjastjórn í áratugi.

Öll mín uppvaxtarár var þetta hús kallað Pokahöllin, því það voru oft mjölpokar fyrir gluggum eins og sjá má á neðstu hæð á myndinni hér undir.

Húsið stækkaði hægt og rólega og ég hef heyrt að stundum heyrðist sag hljóð snemma morguns og upp úr þakinu kemur sagblað og síðan dettur gott þakstykki inn og strax þar á eftir kemur heill nýr kvistur með gluggum og öllu upp í gatið og hann er síðan negldur fastur með tilheyrandi hamarshöggum.

Pokahöllin fræga við Suðurgötu 12. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

SÍLDARLAUS SÍLDARBÆR OG NIÐURNÍÐSLA

Við sem erum fædd í lok 1950 og byrjun 60 höfum strax í barnæsku lifað tímanna tvenna. Við náum að sjá og muna eftir bænum okkar sem stoltri Síldarhöfuðborg þar sem launabaráttu verkafólks var stýrt frá Siglufirði, fjármál ríkisins biðu með öndina í hálsinum eftir aflatölum og það er annar pólitískur hiti í loftinu. Síðan fáum við varla 10 ára gömul að upplifa niðurníðslu og hrun þar sem bæjarstoltið fauk út á sama ballarhaf sem síldin lét sig hverfa í. Stemmingin er sorgleg og á þessum tíma fluttu margir leikfélagar og æskuvinir burt úr bænum og komu aldrei til baka.

Sjá meira hér um hluti sem við varla viljum minnast:
Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Síldin er horfin, skreiðarhjallar og brotajárn komið í staðinn. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pólitíkin breytist í bitran hund sem geltir hátt og ílar ámátlega biðjandi í allar áttir um björgun frá þessu hörmungarástandi.
Mikið í bæjarpólitíkinni fjallar um að spyrna við og bregðast við fólksfækkun og atvinnuleysi. Allskyns atvinnuuppbóta hugmyndum er ýtt úr vör, margar urðu ekki langlífaðar, drukknuðu flestar við bryggjuna.

Samtímis skapast nýr og merkilegur ævintýraheimur fyrir okkur börnin og unglingana.
Við eignuðum okkur eigandalausar síldarævintýrarústir og gerðum þær að okkar eigin ævintýraheim.

Sjá t.d. meira hér:
KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA
Eða…
HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

STJÓRN – SÝSLUHÚS

Hvíta húsið við Tjarnargötuna á Siglufirði. Bæjarskrifstofa, lögregluvarðstofa og fl. Þarna er flaggað vegna Norræns samstarfs. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Eyrarflóð! Séð upp Gránugötuna, og þarna sést húsið sem gamla Lögreglustöðin og bæjarskrifstofan voru til húsa. Nýja Ráðhúsið aðeins ofar var endalaust “í byggingu.” Sjá meira hér: RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 og 2 HLUTI. 60 MYNDA-SYRPUSAGA. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Núverandi Ráðhús og Bókasafn Siglufjarðar. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Suðurhlið hins horfna glæsilega Bæjarfógetahús Siglufjarðar. Takið eftir lituðum gluggum og flottum svölum. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

STJÓRNIR

Framsóknarflokkurinn á Siglufirði. Efri röð frá vinstri : Jóhann Stefánsson, Ragnar Jóhannesson, Eiríkur Guðmundsson, Bjarni Þorsteinsson, Kjartan Einarsson, Ingólfur Kristjánsson, Stefán Friðriksson, Jón Kjartansson og Guðmundur Jónasson. Neðri röð frá vinstri : Friðrik Stefánsson, Skafti Stefánsson, Bjarni Jóhannsson, Jónas Guðmundsson og Þorkell Jónsson. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson
Stjórn Félags ungra jafnaðarmanna á Siglufirði 1948. Fremri röð: Aðalheiður Rögnvaldsdóttir meðstjórnandi, Magnús Blöndal formaður og Fanney Sigurðardóttir meðstjórnandi. Aftari röð: Jóhann G. Möller varaformaður, Guðmundur Árnason ritari, Jón Sæmundsson gjaldkeri og Ásgrímur Stefánsson meðstjórnandi. Myndin birtist í Alþýðublaðinu, 27. maí 1948.
Stjórn Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði Frá vinstri : Sigurður Árnason, Anna Snorradóttir, Óli Blöndal, ?, og Stefán Friðbjarnarson. Ljósmyndari. Kristfinnur Guðjónsson.
Stjórn Kaupfélags Siglufjarðar K.F:S.. Efri röð frá vinstri: Haraldur Gunnlaugsson smiður + krati. Kristján Sigurðsson smiður + krati. Hjörleifur Magnússon skrifstofustjóri sýslumanns + framsókn. Páll Ásgrímsson, afgreiðslumaður + kommi.
Fremri röð frá vinstri: Halldór Kristinsson læknir og sjálfstæðismaður. Hjörtur Hjartarson kaupfélagsstjóri + framsóknamaður. Jóhann Þorvaldsson kennari + framsóknarmaður. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Það voru ekki alltaf rólegheit kringum málefni K.F.S. í síldarbænum Sigló og akkúrat þessi Samvinnuhreyfingar Kaupfélagsdeild hefur mikla sérstöðu í sögunni, því það voru fá Kaupfélög sem tóku þá áhættu sem fylgdi því að gefa sig inn í síldarsöltunar bissnis og líklega er þetta eina Kaupfélagið á Íslandi þar sem Kommúnistar reyndu að gera hallarbyltingu og taka yfir stjórn félagsins.

Hér neðar kemur valin úrdráttur frá þýðingu minni á kafla úr Sænsku bókinni “Vind över Island,” en þar segir Jöran Forsslund frá heimsók sinni til Siglufjarðar í byrjun 1950. Kaflinn er myndskreyttur og heitir: Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 1 og 2 hluti og er einhver sú besta lýsing á tíðarandanum o.fl. sem ríkir á Sigló á þessum tíma sem ég hef nokkur tíman séð.

Það kemur einnig vel fram í sögunni að Hjörtur Hjartarson Kaupfélagsstjóri er mikill frumkvöðull og sýnir mikla umhyggju fyrir t.d. vinnuaðstöðu sinna síldarstúlkna.

Kaupfélag Siglfirðinga og KEA…
…. á Akureyri eru einu samvinnufélögin á Íslandi sem reka síldarsöltunarstöðvar. Þessi starfsemi er af flestum öðrum samvinnufélögum landsins álitin of áhættusöm og gæti léttilega sett mörg kaupfélög á hausinn.

En á Siglufirði horfir þetta allt öðru vísi við og er sjálfsögð búbót fyrir kaupfélagið og sína mörgu félagsmenn í þessum 3.100 manna bæ.

Hjörtur Hjartar er mikil atorkumaður og réttur maður á réttum stað, hann er þeim eiginleikum gæddur rétt eins og margir aðrir nútíma Íslendingar að hann getur tala við hvern sem er, um hvað sem er, hvenær sem er.

Hann er kvikur í hreyfingum , vel lesinn og vel að sér á flestum sviðum, eina stundina getur hann talað af mikilli innlifun um síld og í næstu setningu dottið inn í heimspekilegt samtal um bókmenntir.

Hann kom Kaupfélagi Siglfirðinga á fætur eftir að miklar pólitískar hræringar sem enduðu í hallarbyltingu sem næstum gekk að félaginu dauðu. Þessi pólitíski  ágreiningur sem kom upp í kaupfélaginu stóð á milli kommúnista og annars ónefnds stjórnmálaflokk og endaði með algjörum klofningi þar sem Kaupfélag Siglfirðinga varð allt í einu tvö kaupfélög og bæði héldu sína aðalfundi og kröfðust hvort fyrir sig lyklavalda bæði fyrir búðarhurð og peningaskáp kaupfélagsins.

Jæja, en Hjörtur bjargaði málunum og seinna stóð hann fyrir sinni eigin litlu byltingu. Hann gjörbreytti nefnilega síldarsöltuninni, ekki bara á Siglufirði heldur líka út um allt Ísland.

Söltunarstöðin Sunna á Siglufirði – pæklun á síld. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Fljótlega eftir að hann kom hingað þá tók hann eftir því að aumingja síldarstúlkurnar stóðu upp fyrir hné í kös af slori og úrgangi þegar verið var að verka síldina. Þessi úrgangur sem lá út um allt við allar söltunarstöðvar bæjarins var líka í harðri keppi við síldarbræðslurnar um að skapa djöfullegan fnyk sem lá í loftinu allt sumarið.  Hjörtur lagðist undir feld og hugsaði vel og lengi og svo kom hann með þessa snilldarlegu og einföldu lausn sem hægt er að sjá á öllum plönum á Siglufirði og víða við Íslandstrendur.

Hann lét skera ferköntuð göt á borðið hjá hverri síldarstúlku og lét síðan smíða rennu sem slor og síldarhausar duttu ofan í og vatni sem dælt var inn í annan endann flutti síðan með sér allan úrgang út í litla þró.  Þá dró járnsnigill allt saman áfram uppá vörubíl sem skutlaði slóginu í bræðsluverksmiðjurnar.

Það var eins með þessa uppfinningu og margar aðrar einfaldar lausir að gamlir gárungar hristu bara hausinn og sögðu: “ja….ef þetta væri nú svona einfalt allt saman þá væri okkur náttúrulega búið að detta þetta í hug fyrir löngu síðan

Í verksmiðjunum vildu í byrjun sumir meina að vatnið skolaði fituna úr úrganginum en það var bara bull og vitleysa. Þessi einfalda uppfinning sparar tugþúsundir króna á ári og léttir síldarstúlkunum lífið.  Aðrar aðferðir voru fundnar upp sem áttu að leysa þetta vandamál en þær kostuðu 120.000 kr.

Uppfinningin hans Hjartar kostaði bara 10.000 kr. og hann leyfði hverjum sem var að nota þessa einföldu lausn að kostnaðarlausu, það lýsir vel þeirri manngæsku sem Hjörtur hefur að bera og hann var heldur ekki að eyða tíma í þetta til þess að græða peninga, hann vildi bara bæta vinnuaðstöðu síldarstúlknanna.

Svona að gamni má nefna að velviljuð manngæska getur líka verið misskilin.
Sænska Samvinnuhreyfingin (KF, Korperativa förbundet) sendi hingað nýtísku síldarsöltunarvélar sem áttu að spara mikinn mannafla og minnka launakostað.
Þessar vélar voru von bráðar sendar til baka til föðurhúsanna án þakklætis enda myndi engum heilvita manni hér á Siglufirði detta það í hug að skipta út síldarstúlkum fyrir dauðar vélar.

Allra síst þeim sjálfum, því það eru þær sem þéna mest á síldarplönunum.”

FUNDIR

Bæjarstjórnarfundur 1965. Benedikt Sigurðsson heilsar Sigurjóni Sæmundsyni og Stjáni á Eyri og líklega er bakið sem við sjáum Sigurður Guðlaugsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þróttarfundur í Allanum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Jólastúkufundur. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Ég tók með þessa “Eyrarrós 68 kallar” stúkufélagsmynd, því hún minnti mig á að þar lærði maður fundarstjórn og lýðræðislegar reglugerðir.

KOSNINGABARÁTTA

Ég minnist þess að hafa verið að dandalast sem barn kringum kosningabaráttuna í Borgarkaffi og seinna þegar maður hafði bílpróf var maður notaður sem bílstjóri og sendur út um allan bæ til að keyra trygga Alþýðuflokkskjósendur á kosningastað og síða áfram í kosningakaffi og líklega skutlaði ég þeim heim aftur líka. En mínar fyrstu kosningar, þar sem ég fékk að kjósa sjálfur nýorðin 18 ára voru forsetakosningarnar 1980. Mér er það mest minnisstætt hvað mér ofbauð karlremban og þessar asnalegu spurningar sem þessi klára einstæða móðir fékk.
En Vigdís svaraði þessu bulli með brosi á vör og ég er stoltur yfir að geta sagt að ég hafi tekið þátt í kosningum sem breytu ásýnd heimsins um alla eilífð.

Vigdís Finnbogadóttir (Icelandic: born 15 April1930) is an Icelandic politician who served as the fourth President of Iceland from 1 August 1980 to 1 August 1996. She was the world’s first female who was democratically elected as president.[1] With a presidency of exactly sixteen years, she also remains the longest-serving elected female head of state of any country to date. Currently, she is a UNESCO Goodwill Ambassador, and a member of the Club of Madrid.[2] She is also to-date Iceland’s only female president.” (Wikipedia)

Kosningabaráttuskilti. “Veljum Vigdísi” á gamla Tónskólahúsinu við Gránugötu 14. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Kosningabarátta. X – G uppi og X – D niðri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

VETRARATVINNULEYSI – ATVINNUUPPBÓTAFYRIRTÆKI OG FL.

Löngu fyrir síldarhvarf var vetraratvinnuleysi þekkt fyrirbæri á Siglufirði, talað var um að fyrirtækja flóran í bænum væri of einhæf og áhættusöm. Hér má nefna nokkur dæmi um fyrirtæki sem ríki og bær tóku þátt í að reka í þessum tilgangi.

Rauðka

Tunnuverksmiðja Ríkisins.

Siglósíld

Þormóður Rammi

Húseininga verksmiðjan / Gamla tunnuverksmiðjan

Starfsfólk á spjalli við Björgvin S Jónsson, föður minn, verkstjóra í Sigló síldarverksmiðjunni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Siglósíld verð ég aðeins að fá að minnast á, því faðir minn var verkstjóri þar frá upphafi til endaloka. Ég minnist þess mest að faðir minn vann þarna myrkranna á milli. Verkstjóri á daginn og vélaviðgerðamaður á nóttinni. Því það var aldrei til peningur til vélakaupa og hann var stanslaust að laga og lappa og að rífa þetta drasl sundur og sjá til að t.d. gamlar dósalokunnar vélar kæmust í gang daginn eftir.
Forstjóri Siglósíld var mest fyrir sunnan að betla pening í starfsemina og ríkið gerði skrítna vöruskiptasamninga við Sovétríkin.

Síld í rauðvínssósu fyrir Lada bíla.

Það var síðan nokkuð spaugilegt um og eftir 1980 að sjá Rússneska fraktskipasjómenn vera að kaupa aftur af okkur gamlar ónýtar Lödudruslur og setja þær um borð í fraktskip sem komu til að sækja loðnumjöl heima á Sigló. En þetta var allavega umhverfisvæn endurvinnsluviðskipti fyrir okkur Siglfirðinga.

Steinar Jónasson. Steinar var Hótelstjóri, Flugvallarstjóri og rak auk þess saumastofuna Salínu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Að lokum vill ég minnast þeirra Hótel Hafnar hjónanna Steinars og Elísabet Vilborg Jónsdóttir með hlýhug fyrir ópólitíska skemmtilega samveru á Höfninni og ég minnst þess vel að Steinar var mjög svo hugmyndaríkur og drífandi í ýmsum innanbæjarmálefnum og eins og sjá má á myndatextanum hér ofar var hann stundum að vinna á þremur vinnustöðum í einu.

Saumastofan SALÍNA ætti eiginlega skilið eigin sögukafla, en hún var merkileg stofnum og ágætis atvinnuleysis úrbóta tilraun.

Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.

EPILOG:

Þegar ég úr fjarlægð, sit hér heima í Gautaborg og skrifa æskuminningartexta, leita að og laga ljósmyndir sem mér finnst passa sögunni. Þá hlusta ég oft á gömul íslensk lög og í þetta skiptið féll ég kylliflatur fyrir þessu dásamlega lagi og hlustaði á það aftur og aftur…
… og textinn passar svo vel innihald sögunnar um fólk sem mér þótti og þykir enn mjög vænt um.

Svo er ekki verra að fá að vita hvernig þetta lag sem Björgvin Halldórsson syngur svo fallega varð til.

SJÁ OG HLUSTA HÉR Á YOUTUBE:

Björgvin Halldórsson syngur lag Karls O. Runólfssonar við gullfallegt ljóð eftir Valdimar Hólm Hallstað sem samdi það líklega í kringum 1932 meðan hann lá sjúkur á Berklahæli Norðurlands.”

Í FJARLÆGÐ

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?
Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina,
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

Höfundur greinatexta og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðuljósmynd:
Hluti af forsíðumynd tímaritsins Soviet Union. 1958.
Allar aðrar myndir eru birtar með leyfi eigenda og frá Ljósmyndsafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í heimildir í slóðum í sögutextanum.

Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég:
Sólveigu Jónsdóttur og til Hrólfs Baldurssonar og Þórs Jóhanns fyrir lán á ljósmyndum.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

GÚSTI OG KLEINURNAR

1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!

DRAUGASAGA STEINGRÍMS

DRAUGAGANGURINN Á AÐALGÖTUNNI

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI. 60 MYNDA-SYRPUSAGA

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG Í FRAMTÍÐINNI… 2 HLUTI. MYNDA-SYRPUSAGA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…

FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)