Hafsteinn Reykjalín kom við í stúdíó FM Trölla sem staðsett er í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík vegna Fiskadagsins mikla.

Þar var hann með í fórum sínum ljóð sem hann orti í tilefni af fiskideginum mikla og fór með það í beinni útsendingu fyrir hlustendur og er það eftirfarandi.

Fiskidagurinn 09. ágúst 2019

Taktu frá daginn og Dalvík á aktu,
dvölin þar reynast mun unaðsleg.
Fiskidags hátíð nú frá aftur taktu,
fiskur og súpan er æðisleg.

Göturnar hreinar og gjarnan vel skreyttar,
gættu að hvar veislan framreidd er.
Stundum þá eru hér staðreyndir breyttar,
staðan er góð til að leika sér.

Brosið hér ljómar á gangandi gestum,
grínið og ánægjan ríkir hér.
Glaðir og ánægðir gestir á vestum,
ganga hér um allt með knús frá þér.

Ef að nú skyldu’á þig dropar hér detta,
dreypir þú bara á flösku bjór.
Hafðu samt drykkjuna dulda og netta,
Dalvík er þekkt fyrir hjörtu stór.

Fiskrétta matinn hér færðu að snæða
og frábærir listamenn stíga’á svið.
Allir að hugsa’um þig, enginn að græða,
allt sem þú þiggur hér, gefum við.

Höf. Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson

Hafsteinn og Andri Hrannar í stúdíói FM Trölla í Menningarhúsinu á Dalvík

Í viðtali við Hafstein í DV frá 2. desember 2018 segir hann meðal annars. „Ég byrjaði að yrkja sem sjómaður á unga aldri. Það voru glettilega margir hagmæltir um borð og við köstuðum á milli okkar stökum. Ég hef verið um og innan við fermingu þegar þetta byrjaði. Manni fannst þetta ekki merkilegt og var ekki að flíka því. Þannig að mest af þessu hefur farið í glatkistuna,“

Hafsteinn er frá Ásbyrgi á Hauganesi við Eyjafjörð en býr núna í vesturbæ Kópavogs. Hann fór fyrst fyrir alvöru að fást við listir eftir að hann settist í helgan stein. „Ég er svo dásamlega heppinn að vera heilsuhraustur og nýt þess að fást við listsköpun. Ég geri þetta umfram allt ánægjunnar vegna,“ segir Hafsteinn.

Fyrir utan þykkar ljóðabækur hefur Hafsteinn samið lög við sum ljóða sinna og gefið út tvo geisladiska með slíku efni. Þar syngur hann hvorki né spilar sjálfur en flutningurinn er allur í höndum einvalaliðs landsþekktra söngvara og hljóðfæraleikara. Lögin frá honum hafa náð hátt í sönglagakeppnum, t.d. þriðja og fjórða sæti í samkeppnum RÚV um jólalög og sjómannalög. Enn fremur hefur Hafsteinn fengist mikið við myndlist og hefur hann haldið 14 sýningar.