Þessi grein fjallar um listamann sem er aðfluttur Siglfirðingur af Siglfirskum ættum og síðan brottfluttur Siglfirðingur. En svo er hann í rauninni samt ekki brottfluttur í bókstaflegri meiningu.
Hér birtist ykkur spjall og myndir frá myndlistasýningu og heimsókn á vinnustofu Fjallabyggðalistamannsins og kennarans Bergþórs Morthens sem býr og starfar sem listamaður að mestu leyti í Gautaborg. En svo skreppur hann heim til Íslands daglega í gegnum netið og hittir fjarkennslunemendur sína á netspjalli eða svo birtist hann sem “kennararóbot” hjá öðrum nemendum sínum á Ólafsfirði á göngunum í Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Hann er líka með annað heimili og aðra vinnustofu í gamla “Borgarkaffi” húsinu (gömlu kratahöllinni) við Aðalgötuna á Siglufirði.

Kennararóbot! Svona lítur “Avatar” (Nær-Vera) myndlista- og heimspekikennarans Bergþórs Morthens út í stafrænu formi þegar hann heimsækir nemendur sína í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hann ferðast í gegnum ljósleiðara á “núll einni” frá Gautaborg til Ólafsfjarðar. Ljósmyndari: Gísli Kristinsson.

Hver er maðurinn?

Tja… eins og fram kemur hér ofar þá er hann bæði aðfluttur og brottfluttur Siglfirðingur en samtímis einhvern veginn samt ekki.

Áður en við förum í heimsókn og spjall á vinnustofu meistara Bergþórs sem er nú til húsa í gömlu rótgrónu iðnaðarhverfi úti á Ringön í Gautaborg skulum við rifja upp hitt og þetta úr viðtali og heimsókn 2014 til hans á vinnustofuna sem skólinn skaffaði honum þegar hann var í meistaranáminu við Valand Akademin sem tilheyrir hinu risastóra Göteborgs Universitet.

En greinarhöfundur er sjálfur brottfluttur Siglfirðingur og búsettur í Gautaborg og þar hef ég hitt Bergþór annað slagið og fylgst með listsköpun hans og lífi.

Hér kemur stuttur úrdráttur og myndir frá viðtali sem birtist á siglo.is 24.10.2014. ásamt viðbótum sem svara spurningunum.

Hver er maðurinn og hverra manna er hann?

Það var mikil fengur fyrir okkar litla bæjarfélag að fá þau hjónin til okkar fyrir um 10 árum síðan. Bergþór var þá nýútskrifaður úr Myndlistaskólanum og Elín sem hjúkrunarfræðingur.

Elín fékk vinnu á sjúkrahúsinu og ég hugsaði sem svo að ég gæti svo sem málað hvar sem er, segir Bergþór og glottir.“

Þau hjónin hafa nú brugðið búi og flutt sig til Gautaborgar um óákveðin tíma, Bergþór er í Mastersnámi í myndlist við Valand Akademin.

Hvað var það sem fékk ykkur að taka þessa stóru ákvörðun að flytja til Gautaborgar?

Það hefur alltaf verið minn draumur að fara í framhaldsnám í Myndlist. Það var aldrei ætlunin að ílengjast á Sigló. En okkur líkaði svo ljómandi vel við fólk og fjörð og svo vorum við bara allt í einu orðin húseigendur.

Húsið stendur við Aðalgötu 18, byggt 1906 og seinna var byggt við húsið að norðanverðu og bætt við kvistum. Húsið er oftast kennt við Ole og Indíönu Tynes sem bjuggu lengi í þessu merkilega húsi.“

“Tyneshúsið” eða gamla “Borgarkaffi” (kratahöllin) við Aðalgötu 18 séð frá Norðurgötu og vinnustofa Bergþórs á Siglufirði. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Bergþór heldur svo áfram og segir:

Ég held að við höfum ekki alveg áttað okkur á hvað við vorum að kaupa. Húsið hafði vissulega fengið þó nokkra lagfæringu að utanverðu en að innan var hægt að taka þetta allt í nefið. En þetta tókst allt að lokum og í dag eru þrjár íbúðir í húsinu, lítil íbúð í viðbyggingu að norðanverðu, stór íbúð á efri hæð og á miðhæðinni er samansleginn kjallari með fyrstu hæð og þar er mitt stúdíó og íbúð.“

Hann bætir síðan við:
Já, 10 ár liðu fljótt, húsaviðgerðir, vinna í menntaskólanum á Tröllaskaga og málað á nóttunni.

Elín fór síðan í sérfræðinám í skurðhjúkrunarfræðum og í framhaldinu að vinna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Mikið keyrt á milli fjarða oft við erfiðar aðstæður. Síðan komu líka tvö yndisleg börn, Vilmundur Emil og Indíana .

Við slógum svo til í fyrra og fluttum til Gautaborgar, en Glasgow í Skotlandi var einnig inni í myndinni en síðan fannst okkur báðum að í Svíþjóð væri barnavænna umhverfi.“

Sjá viðtalið frá 2104 í heild sinni hér.

Okkar fólk í útlöndum. BERGÞÓR MORTHENS

Hugrekki!

Ég get ekki að því gert en þetta orð kemur upp í huga mér þegar ég velti fyrir því sem ég veit um æviferil Bergþórs… og fjölskyldu.

Það krefst mikils hugrekkis, vilja og dugnaðar að velja sér listsköpun sem ævistarf.
Einhvern veginn verður maður líka að ná saman lífinu sjálfu sem listamaður, sem maki, sem faðir tveggja barna. Bera virðingu fyrir frama maka síns sem vill að sjálfsögðu líka getað unnið á sínu sérfræðisviði.

Þora að kaupa húsnæði í niðurníðslu til þess að skapa sér og sínum heimili og listsköpunar vinnuaðstöðu í litlu bæjarfélagi úti á landi. Þora að flytja út á land og svo aftur á milli landa. Skella sér í framhaldsnám og læra nýtt tungumál samtímis og skaffa nýtt húsnæði og vinnuaðstöðu ofan á það.

Svo þarf maður líka að þora að ögra sjálfum sér og öðrum með sinni listsköpun.

Geri aðrir betur!
Það er ekkert auðvelt að ná þessu öllu saman.

Mynd frá annarri grein um Bergþór Mortens á siglo.is 2015.
“Bergþór Morthens tekur þátt í nemandasýningu Valand Akademin í Gautaborg þessa dagana. Hann er að ljúka 2 ára mastersnámi í myndlist og er þetta útskriftarsýning hans og samnemenda hans í myndlist og ljósmyndun.”
Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.
Sjá meira hér: Bergþór Morthens með sýningu í Gautaborg

Síðan kemur þetta skrýtna…. Hann er samt ekki brottfluttur, fjölskyldan á enn þá húsið á Sigló sem er þeim öllum kær staður. Bergþór vinnur enn þá í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hann kemur reglulega heim á Sigló í nokkrar vikur í byrjun og lok skóla anna. Þar á milli fer hann heim til Gautaborgar og svo hittir hann nemendur sína, annaðhvort sem kennararóbóti á Ólafsfirði eða í gegnum skipulagða stundaskrá í fjarkennslu og netspjalli við nemendur sem búa vítt og breitt út um allt land.

Aðdáunarvert hugreki og einbeittur vilji liggur á bak við þetta allt.

En Bergþór hefur ætið haft góðar fyrirmyndir. Því þessi Morthens ætt er fræg fyrir að framleiða allskyns dugnaðar listsköpunarfólk. Svo er það nú ekki verra að Bergþór “Heimisson” Morthens á ættir sínar að rekja til bæði Siglufjarðar og á Hofsós í föðurætt.

Amma Bergþórs Mothens. Fermingarmynd tekin á Ljósmyndastofu Siglufjarðar.
Ragnheiður Magnúsdóttir (Ragga. Var oftast kölluð Ransý) en hún var eiginkona dægurlagasöngvarans Hauks Morthens, afa Bergþórs. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Stutt um ættir og uppruna Ragnheiðar:

Jóhanna Vilmundardóttir langamma Bergþórs Morthens fæddist 18. október 1909. Hún lést 30. september 1999.
Foreldrar hennar voru hjónin Baldvina Jónsdóttir og Vilmundur Pétursson, sjómaður á Hofsósi, seinna búsettur á eyrinni á Siglufirði.
Systkini Jóhönnu voru Guðrún og Jón, sem bæði eru látin.
Jóhanna eignaðist dótturina Ragnheiði Magnúsdóttur sjúkraliða, fædd á siglufirði árið 1932.

Tryggð hennar við Siglufjörð hélst fram á síðustu ár og var það ósjaldan sem hún keyrði ein í bifreið sinni til æskustöðvanna.”
(orð lánuð úr minningargrein) Sjá fleiri falleg minningarorð um Ransý hér: MBL: mars 2009 | Minningargreinar

Börn Bergþórs og Elínar bera stolt sín Siglfirsku ættuðu nöfn. Vilmundur Emil er skýrður í höfuðið á langalangafa sínum og Indíana nafnið er sótt frá “Maddömu Indíönu Tynes” fyrrum eiganda hússins á Siglufirði, en hún var þekkt fyrir að hafa haft stórt hjarta.

Vinnustofa Meistarans á Ringön

Litadýrð og litríkur karakter! Þegar listamaðurinn fór í “litríka” vinnugallann sinn, þá rann hann saman við restina af vinnustofunni. En þessi ljúflingur skipti samt ekkert um ham eins og Dr Jekyll og Mr Hyde. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Greinarhöfundur villist aðeins á leiðinn í þessu stóra gamla rótgróna iðnaðarhverfi þar sem Bergþór hefur sína vinnustofu. En það varð síðan augljóst að nú var ég örugglega komin í rétta götu, því á öllum húsum birtust mér stór falleg listaverk og allskyns ljótir „grafíti taggar líka.“ (Sjá myndir hér neðar í Albúminu: Heimsókn á vinnustofu. Smellið á mynd og þá birtast þær ykkur í stærra formi)

Það eru greinilegar margir aðrir Gautaborgarlistamenn með aðstöðu hér á Ringön, hugsa ég þegar ég klíf út úr bílnum og ég sé líka fljótandi íbúðarhús í höfninni norðan við húsið.
Að austanverðu sést yfir ánna stóru, (Götaälv) í heilan flota af gömlum bátum sem liggja bundnir við „Drauma bryggjuna“ svokölluðu. (Drömmarnas kaj / Gullbergskajen)
Þar býr fullt af fólki í bátum sem það er að gera upp og draumurinn er að síðan sigla eitthvert út í heim. En fáir draumar virðast rætast og bátunum fjölgar við Draumabryggjuna frægu.

Sumir draumar ná því að sökkva við bryggjuna.

Mér finnst það viðeigandi að Bergþór sé hér í þessu litríka umhverfi. En svo bregður mér svolítið því það er enn þá meiri litadýrð inni í vinnustofunni og listamaðurinn sjálfur í sínum grjótharða litaslettu vinnugalla rennur hreinlega saman við alla litagleðina sem er út um allt og upp um alla veggi.

Bergþór er upptekin í fjarkennslu í myndlistatíma og er nú staddur í vélmenna formi á vinnustofunni í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Nemandi er í þetta skiptið engin önnur en Ida Marguerite Semey „maður ársins á Ólafsfirði 2018“ en hún er bæði nemandi og kennari við skólann.

Á spjalli við Idu. ATH! Ida er ekki með skegg, hún er með svarta munngrímu undir hökunni.

Á meðan að Bergþór klárar kennsluna þá læðist ég um vinnustofuna og tek myndir af öllu mögulegu sem ber fyrir augum. Mörg verk í vinnslu og allskyns einkennilegt dót út um allt í „skipulögðu kaos geymslukerfi“ meistarans.

Ég er mikið að spá í hverskonar efni hann notar í þessi einkennilegu þrívíddar málverk sem eru í vinnslu.

Bergþór útskýrir þetta í næstu fjarkennslu frímínútum.

„Ég blanda litina saman við bráðnað silíkon með sérstakri aðferð, annars er þetta eins og að reyna að blanda olíu og vatni. Þetta er frekar erfitt efni og vinnuferli, því ég hef bara tæpar 10 mínútur til að forma þetta eins og ég vill áður en efnið harðnar.“

Síðan spjöllum við Bergþór mikið um þá nútímatækni sem gerir að verkum að hann getur verið bæði brottfluttur Siglfirðingur og samt ekki. Menntaskólinn á Tröllaskaga er framsækin skóli undir góðri stjórn Láru Stefánsdóttur skólastjóra og ég skil vel að hún vildi ekki missa góðan kennara bara fyrir það eitt að hann vildi fara í framhaldsnám erlendis.

Það eru til lausnir á öllu og staðreyndin er að þrátt fyrir að skólinn sé staðsettur í einangruðum firði fyrir norðan, fjölgar nemendum jafnt og þétt og 2021 eru nemendur samanlagt 494. Staðbundnir nemendur skólans eru aðeins 72 en 422 fjarnemar sem búa vítt um land og einhverjir í útlöndum.

Sjá myndband um Menntaskólann á Tröllaskaga hér frá N4:

Menntaskólinn á Tröllaskaga 10 ára.

Það eru til tveir svona „rúllandi vélmenna skjáir í skólanum“ segir Bergþór og þegar ég hoppa inn í þá skipti ég um kyn, því þeir heita Lolo og Eva.  

Evu og Lolo er stjórnað gegnum Beams prógrammið góða.

Bergþór sýnir mér stýrikerfið í tölvunni hjá sér og svo brunar hann af stað með Evu gegnum gangana í skólanum.
„Ég þarf að skila henni af mér í hleðslustöðina.“ Á leiðinni heyri ég að nemendur og samstarfsfélaga heilsa. „Sæll Beggi… Blessaður Bergþór…“  eins og að Bergþór sé á staðnum í alvörunni.  

„Þeim finnst stundum að ég keyri of hratt. En ég er bara orðin svo vanur þessu núna og öllum finnst þetta ósköp eðlilegt í dag.“

Við spjöllum um allt á milli himins og jarðar og minnum hvern annan á að bráðum kemur vor og vonandi má maður þá hitta fólk og þá getum við farið saman að sjá fótboltaleiki á Gamla Ullevi sem er heimavöllur IFK Göteborg. Eða Blå – Vitt,  eins og við stuðningsmennirnir segjum.  Kolbeinn Sigurðsson mættur í bæinn og við megum ekki missa af því að sjá hann spila með IFK.

Vinirnir Martin Holm og Bergþór Morthens.

Bergþór bíður mér i kaffi hjá listamanna nágrannanum á neðri hæðinni. Hann heitir Martin Holm og mér fannst ég kannast við kauða…

Jú, mikið rétt, þetta er sænski strákurinn sem bjó í húsinu hans Bergþórs veturinn 2014 – 15. Mikil aðdáandi Siglufjarðar og átti varla orð til þess að lýsa fegurð fjarðarins og undrun sína á hinu ótrúlega menningarlífi og safnafjölda sem er til staðar í þessu afskekkta firði.

Það var farið að skyggja þegar ég kvaddi og á leið minni að bílnum gat ég ekki annað en hugsað um hvað mér finnst Bergþór Morthens einhvern veginn vera á réttum STAÐ.

Á réttum stað í lífinu, á réttir leið í sinni listsköpun og fjarkennsluvinnu. Börnin ánægð í skólanum og eiginkonan nýkomin í nýja vinnu þar sem hún þarf ekki lengur að vinna langar vaktir.

Þetta hefur allt saman gengi upp, hjá þeim Bergþóri og Elínu, með einstöku hugrekki, dugnaði og samheldi.

Flestir draumar geta ræst!
Því Bergþór er líka réttum megin við Götaälv-ánna og hans draumar sökkva ekki við bryggju.

Ó nei, og það sést vel í þeim listaverkum sem þið fáið að sjá hér á eftir á sýningunni: “DON’T STOP MY NOW!”

Myndlistasýningin: “DON’T STOP MY NOW!”

Greinarhöfundur er ekki listgagnrýnandi en ég verð samt að reyna að lýsa því sem fyrir augum ber og þeirri tilfinningu sem sýning Bergþór skapaði í mér þegar ég kleif inn á sýninguna úr hvítri snjóbreiðu sem þakti Gautaborg þennan sólbjarta sunnudag.
Annars er veturinn hér að mestu leyti grámyglu þokulegur, litlaus og þunglyndislegur árstími.

Á hurðinni stóð „Kóróna veiru“ viðvörun með orðunum: „hér má aðeins einn gestur vistast í einu“. Hvítmáluðu veggirnir í Gallerí Cora Hillebrand hafa sömu áhrif og snjóbreiðan úti og skerpa upp þá miklu „litadýrðar handsprengju“ sem Bergþór hefur kastað inn í þennan litla hvíta lókal í þessu gamla slitna skærgula húsi.  

Verkin skapa mikið af tvíræðum spurningum í manni og ég veit ekki alveg hvernig ég á að sortera þær tilfinningar sem koma upp í huganum.

Því þessi verk eru einhvern veginn bæði:

  • Málverk og skúlptúrar.
  • Mjúktalandi og æpandi.
  • Falleg og ljót.
  • Litagleðiblöndunarbjört og samtímis svart martraðar skrímslamyrkur.
  • Slímug og hörð.
  • Kaos og skipulögð hugsun.
  • Þægileg og óþægileg

Ég dregst inn í minninguna um svipaða upplifun mína frá nemendasýningu Bergþórs 2015 og ég sé strax að meistari Bergþór hefur nú tekið það „litalekandi ögrandi mótmælaþema“ enn þá lengra í dag.

Bergþór hefur á þessari sýningu sett upp skemmtilega seríu með nærmyndum af andlitum stjórnmálamanna og kvenna sem virðast hafa fengið tertur í andlitið og hann lætur litríkar leifar af tertunum leka út munni, nefi, augum og eyrum.
Skynjunarvit sem annars hafa kannski verið upptekinn við að taka inn og miðlað til okkar lygi og öðrum ljótum áróðri.
 „( Siglo.is 2015. Sýningin „Political portraits“ )

 Og í viðtali mínu við listamanninn 2014 segir hann eftirfarandi sem sýnir að hann er trúr sjálfum sér og óhræddur við að ögra sjálfum sér og öðrum:

„… Já, svarar listamaðurinn, það er náttúrulega hægt að pakka öllu inn í fallegar umbúðir en innihaldið er það sama……….. Vill gjarnan að verk mín segi fólki eitthvað og listsköpun er ekki endilega alltaf að mála einhver augnayndi til að dáðst að, listmálun á líka að geta rifið í hugsanir hjá fólki og sagt eitthvað um það sem er óþægilegt og ljótt.“  (Siglo.is 2014)

Er að ganga frá sýningunni. Búið að vera virkilega ánægjulegt ferli, jákvæð viðbrögð og fullt af skemmtilegu stöffi í kringum þetta. Tók smá videó áður en allt fer niður 🙂 Nær þessu betur en bara ljósmyndir.
Segir Bergþór í skilaboðum til vina sinna á Facebook og ég er honum sammála, það er erfitt að koma þessari þrívíddar æpandi “In your face” upplifun verkana til skila í flötum ljósmyndum.

Sjá myndband frá sýningunni hér: “DON’T STOP MY NOW!”

Ég er greinilega ekki einn um að upplifa verk Bergþórs Morthens á þennan máta, því frægir sænskir listgagnrýnendur eru heldur ekkert að skafa að því sem þeir túlka og sjá í verkum hans eins og sjá má í blaðaúrklippunni hér undir, sem kemur frá listgagnrýnenda Göteborgs Posten , stærsta dagblaði Gautaborgar.

„…Þökk sé þessu tvíræði sem verkin miðla til manns þá verða þau meira ögrandi, ógnvekjandi og ekta en ef listamaðurinn ætlaði sér bara að miðla til okkar annaðhvort þunglyndis eða hamingju ástandi.

Segir Sara Arvidson, meðal annars í gagnrýni sinni og hún vitnar síðan líka í orð Lars-Erik Hjerström Lappalainen, einn þekktasta listagangrýnenda Svíþjóðar en hann lýsir verkum Bergþórs með orðunum:

„Þetta er alveg BRJÁLÆÐISLEGA glaðmjúkur og slímugur VIÐBJÓÐUR

Sara Arvidson heldur síðan áfram og segir að verk Bergþórs séu eins og “Francis Bacon á sýrutrippi.” 

Ég get ekki stillt mig og ég hugsa. „Hmm… ég held að þetta fólk hafi aldrei hitt þennan jarðbundna ljúflings listamann persónulega, sem getur alveg spjallað við fólk um ómerkilega hluti eins og t.d. knattspyrnu, jafnt sem heimspeki með sinni ljúfu og lágmæltu innri rödd.

Hér er næstum verið að gefa í skyn að hann Bergþór okkar sé í einhverju rugli og að þessi verk minni mikið á sýru „psykodeliska hippalist“ frá sjöunda áratugnum.

En það er af og frá að þessi listsköpun komi úr kaos og rugli og það sem gerir þetta að allt saman að spennandi og ögrandi stórkostlegum listaverkum er einmitt sú staðreynd að ALLT kemur úr allsgáðum, klárum og vel menntuðum hausnum á honum Bergþóri okkar…

Ég spyr listamanninn: „Hvað finnst þér um samlíkinguna… eins og Francis Bacon á sýrutrippi?“

„Mér finnst þetta bara gaman, en mitt líf er eins langt í frá og hægt er, því klikkaða kaos líferni sem listamaðurinn Francis valdi að lifa í. En ég get verið stoltur að öðru leyti, því þannig var það að þegar ég var bara unglingssnáði inn á bókasafni í Reykjavík að glugga í listaverkabækur. Þá kom bókavörður sem vissi af þessum áhuga mínum með bók um Francis Bacon og hans verk. Skrímslaverkin hans frægu fóru beint inn sálina á mér og ég held svei mér þá að á þessari stundu varð ég ákveðinn í að vinna með listsköpun í framtíðinni.“

Sjá ljósmyndir af verkum Francis Bacon hér á Google.com.

Siglufjarðarfjöll í ógnandi og ögrandi umhverfi. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Mér varð mjög svo starsýnt á þetta verk. Þekkti fjallahringing fagra eins og skot. En mér fannst Siglufjarðarfjöllin mín vera komin í einkennilegt og ógnandi umhverfi.
Undir fjöllunum er einhver slímugur, lekandi og ólgandi litadýrðar óróleiki og þessir skrímslamunnar ofan við fjöllin hræddu úr mér líftóruna.

Þetta listaverk vill bíta mig, jafnvel éta mig lifandi...“ hugsaði ég bæði skelkaður og með aðdáun í huga.

Í forvitni minni sný ég mér að listamanninum og spyr: „Hvað varstu að hugsa þarna Bergþór?“

Svarið kom mér ekki á óvart og það er svo lýsandi fyrir það sem er í rauninni þema sýningarinnar en hún snýst um að mótmæla ofneyslu vitleysu og misnotkun manneskjunnar á öllu sem til er í okkar viðkvæma sameiginlega náttúruheimi.

Við tökum það fyrir gefið að náttúran geti og vilji gefa af sér endalaust. En við erum búinn að ganga of langt í þessari misnotkun og nauðgun okkar á náttúrunni og einhvern tíman kemur að því að hún hreinlega bíti frá sér… hefni sín á okkur.“  

Segir listamaðurinn Bergþór Heimisson Morthens alvarlegur á svip og svarið fær mig til að hugsa fyrir mig sjálfan mig. „Blessuð náttúran er fyrir löngu byrjuð að býta frá sér og á svo sannarlega eftir að býta okkur meira ef við höldum þessari neysluvitleysu áfram.“

Það er okkur öllum lífsnauðseinlegt að til séu listamenn eins og t.d. hann Bergþór, Siglufjarðar listamaðurinn okkar.
Sem hrista úr okkur vitleysuna og ögra úr okkur þröngsýni og neyða okkur til þess að sjá veruleikann eins og hann er…  gegnum sína mögnuðu og ögrandi listsköpun.   

Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra

Nonni Björgvins.

Höfundur og ljósmyndari:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Gísli Kristinsson.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

POPPAÐ Á SIGLÓ – NÍUNDI OG SÍÐASTI HLUTI

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!