Byggingar geta horfið á ólíkan máta, sumt er endurreist aftur en annað ekki.

Á Siglufirði hafa tunnuverksmiðjur brunnið til grunna fjórum sinnum, síðast veturinn 1964, en þá brann Tunnuverksmiðja Ríkisins.
Hitinn sem myndaðist var svo mikil að þetta stóra stálgrindarhús hreinlega BRÁÐNAÐI eins og sést vel á ljósmyndum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Fyrir utan bruna geta náttúruöflin á Sigló eyðilagt hvað sem er með snjó- og sjávarflóðum og aurskriðum. Vindkviður hafa líka hreinlega lagt hús og síldarbrakka á hliðina. Hafís hefur brotið bryggjur og báta og hús hafa líka sligast undan snjóþunga eins og gerðist veturinn 1947 þegar SR46 Mjölhústakið gaf sig á þá stærstu byggingu Íslands sem upprunalega var reist með “burstarbæjarþaki” sem alls ekki passar veðurfari og eða þeirri snjóþyngd sem oft ræður ríkjum á Sigló.

Mjölhússkemman og Tunnuverksmiðja Ríkisins eru í aðalhlutverki í þessari myndasyrpusögu. Flestar af þessum frábæru ljósmyndum (40 st.) hafa þeir Steingrímur Kristinsson og Kristfinnur Guðjónsson tekið í sínu lífslanga og óeigingjarna sjálfboðastarfi við að setja allt sem snertir daglegt líf á Siglufirði á filmu en að sjálfsögðu koma margir aðrir sterkt inní ljósmyndasögusöfnun Siglufjarðar.

Það er stórkostlegt að geta setið við tölvuna heima hjá sér í útlöndum og flett í gegnum tugþúsunda ljósmynda og dreyma sig til baka inní horfna tíð og umhverfi sem er ekki lengur til.

Alla myndirnar eru birtar með leyfi frá Síldarminjasafni íslands sem í dag er eigandi ljósmyndasafnsins. Greinarhöfundur hefur lítillega endurunnið allar myndirnar svo að þær geri sig betur í nútíma skjátækjum.

Mjölhúsið (Ákavíti) og Tunnuverksmiðja Ríkisins þar sunnan við. Svona líta þessi hús út í dag eftir enduruppbyggingu eftir bæði hrun og bruna. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

En við skulum byrja á brunasögu Tunnuverksmiðju Ríkisins 9 janúar 1964. Kíkja á nokkrar ljósmyndir sem sýna okkur tunnugerðarhandverkið og á ótrúlegar myndir sem sýna að þetta stálgrindarhús hreinlega bráðnaði í þeim mikla hita sem myndaðist í þessum hræðilega bruna sem gerði um 40 manns atvinnulausa sama dag.

Þar á eftir minnumst við aðeins á þegar netastöð / síldarnótageymsla SR brann 1957 og síðan á hin hræðilega atburð þegar Hótel Höfn brann 1958.

Steingrímur hefur verið duglegur við að safna allskyns brunasögum og hér má finna margar áhugaverðar sögur.
Gamlar brunafréttir

Tunnuverksmiðja Ríkisins

Tíminn 10 janúar 1964 BJ-Siglufirði, FB-Reykjavík, 9. janúar”

TUGMILJÓNA TJÓN VARÐ ER TUNNUVERKSMIÐJAN Á SIGLUFIRÐI BRANN TIL KALDRA KOLA. 40 HEIMILISFEÐUR HAFA MISST VETRARVINNU SÍNA.

Tunnuverksmiðja ríkisins er byggð árið 1949, og er hún starf rækt af Síldarútvegsnefnd. Byggingu hennar var lokið árið 1950 og þá um veturinn tók hún til starfa Verksmiðjan var til húsa í stálgrindahúsi, 50 metra löngu og 36 metra breiðu, eða 1800 ferm að stærð. Húsið var 16 m hátt frá jörð í ristopp. Það var tvær hæðir, og vinnusalir voru á báðum hæðum. í haust hófst vinnsla í verksmiðjunni um miðjan nóvember. og unnu þar rösklega 40 menn, allt heimilisfeður....

.… að hagur Siglfirðinga versnar mjög, svo ekki sé meira sagt við það að verksmiðjan verður ekki starfrækt á næstunni því segja má, að hún hafi verið eina fyrirtækið, sem veitti nokkurn veginn örugga atvinnu á vetrum.”

Mynd frá vinnu í endurreistri Tunnuverksmiðju Ríkisins um 1966 – 68. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ATH. Leiðréttur myndatexti 21 desember 2020.

… Eldsins varð fyrst vart á tíunda tímanum í gærkvöldi, en þá lagði reyndar aðeins reyk út af neðri hæð hússins, og var talið líklegt, að kviknað hefði í út frá fræsofni, sem þar var staðsettur Slökkvilið var kallað út, og lauk það störfum um kl. 23. Sex eða sjö menn voru settir á vakt í verksmiðjunni og áttu þeir að hreinsa til í húsinu.

Um kl. 1,30 voru þeir að hreinsa vatn af gólfi og safna saman drasli þegar þeir tóku allt í einu eftir því að eldur stóð út úr timburhlaða í einu horninu. Þarna var geymt tölu vert af botnaefni, og var nú einna líkast því, sem sprenging yrði í hlaðanum, en mennirnir höfðu áður verið að störf um í kringum hann og einskis orðið varir. Slökkviliðið var nú kallað út í annað sinn, en kl. 4 um nóttina kom þriðja brunakallið, og þá fengnir aukamenn til hjálpar.

Egill Stefánsson Melsted Slökkviliðsstjóri stýrir aðgerðum í stórbrunanaum í tunnuverksmiðjunni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Smátt og smátt magnaðist eldurinn og milli klukkan 7 og 8 í morgun var húsið alelda stafna í milli. Við hlið tunnu verksmiðjunnar stendur hin geysimikla mjölskemma Síldarverksmiðjanna og tókst að verja hana fyrir eldinum. Fyrir utan verksmiðjuna og neðan hana stendur íbúðarhúsið Vatnsendi og við hliðina á því byggingavöruverslun kaupfélagsins á Siglufirði. Þessi hús voru í töluverðri hættu um tíma, en slökkviliðinu tókst einnig að varna því, að eldurinn næði til þeirra.

… Um hádegisbilið í dag var tunnuverk smiðjan fallin, en þrátt fyrir það hafði enn ekki tekizt að ráða niðurlögum eldsins með öllu á sjöunda tímanum í kvöld. Í morgun urðu allmiklar sprengingar í eldinum. Og telja þeir sem fylgdust með, að þær hafi orðið í saltpéturskútum sem Síldarútvegsnefnd geymdi í verksmiðjunni.

Tunnuverksmiðja Ríkisins alelda 9 jan. 1964. Saltpéturs sprengingar slettast út um glugga og þak. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Saltpéturinn var geymdur í trékútum, og þegar sprengingin varð í þeim, þeyttust þeir upp úr þakinu með heljar miklum drunum og látum, í suðvestur horni tunnuverksmiðjunnar var spennustöð rafveitunnar, og mun hún ekki hafa skemmt. Rafmagn var tekið af þeim hluta bæjarins, sem tilheyrir stöðinni, en það er megin hluti eyrarinnar neðan Túngötu, og voru menn þar rafmagnslausir frá því í morgun fram til klukkan 4 í dag. Þá var talið óhætt að hleypa raf magninu á aftur.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Hér er hægt að lesa fleiri blaðagreinar um þennan stórbruna ásamt athyglisverðri ferðasögu ljósmyndana sem Steingrímur tók fyrir Morgunblaðið. Það þurfti að hafa mikið fyrir því að filmurnar kæmust skjótt suður í Reykjavík.

Heimildasíða /Tengt Siglufirði

Mynd frá vinnu í endurreistri Tunnuverksmiðju Ríkisins um 1966 – 68. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ATH. Leiðréttur myndatexti 21 desember 2020.
Mynd frá vinnu í endurreistri Tunnuverksmiðju Ríkisins um 1966 – 68. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ATH. Leiðréttur myndatexti 21 desember 2020.
Afi greinarhöfundar, Pétur Baldvinsson við vinnu í Tunnuverksmiðjunni um 1966 – 68. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ATH. Leiðréttur myndatexti 21 desember 2020.
Eins og sjá má á þessari mynd þá bráðnar þetta stálgrindarhús og fellur síðan saman í miðjunni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Steingrímur hafði mikið fyrir því að taka þessar ljósmyndir og skemmdi góða myndavél þegar hann var að príla uppá tanka og þök í nágrenninu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Stórir og þykkir stálburðarbitar líta út eins og mjúkur lakkrís eftir brunann. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Mjúkur stálbitalakkrís. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Steingrímur gat náttúrulega ekki still sig og tók þessa listrænu mynd í lokin.

Netastöð SR brennur 1957

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Egill Stefánsson Melsted í Slökkviliðsstjórafrakkanum fræga, síðan Páll Jónsson, Jóhann Guðnason, Tómas Sigurðsson og Eldjárn Magnússon. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Hótel Höfn brennur 1958

Þessum sorglega og hörmulega atburði er lýst nokkuð ýtarlega í bæjarblaðinu Mjölni 21 mars 1958.

Mynd af blaðagrein lánuð frá heimasíðu Steingríms. Gamlar brunafréttir 1958-1959
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Hótel Höfn var endurreist fljótlega í svipuðum stíl og svo sést líka í endurreista Tunnuverksmiðju Ríkisins lengra inn í sömu götu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

HRUN

Mjölhússkemman á Siglufirði setur stóran svip á bæinn, sumir segja jafnvel að þetta risastóra hús skapi eigið veðurfar á eyrinni og Siglfirðingar vita manna best sjálfir um hvað snjóþyngsli geta verið til mikilla vandræða.

Mikill snjór safnast ævinlega sunnan við byggingar á Sigló. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Risasnjóskaflar sunnan við SR46 tanka og mjölhús. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

En það eru líklega ekki margir sem vita eða muna að þetta hús var lengi vel stærsta bygging landsins.

Eða að Mjölhúsið hafi upprunalega verið reist með “burstabæjarþaki.”

Hér er alveg einstök ljósmynd sem Steingrímur hjálpaði mér að finna sem sýnir byggingu Mjölhússins sumarið 1946. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Mjölhúsið stóra hlífir allri eyrinni fyrir norðanáttinni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

ÁKAVÍTI

Á sínum tíma skapaðist mikil umræða um þessar uppbyggingaráætlanir ríkisins á Siglufirði og þetta var greinilega mikið flýtiferli allt saman og ýmsir höfðu gert athugasemdir við teikningar og staðsetningu hússins með burstum sem snéru í austur/vestur. En þetta stálgrindar „mekkanóhús“ var rifið upp í einum grænum ásamt tveimur stórum lýsistönkum við vestur endann sumarið 1946.

Þessi djúpi dalur á milli húsgaflanna fylltist auðvitað af snjó og stuttu seinna kom bleytuhríð og snjóþyngdin varð það mikil að stálgrindin gaf sig í miðju húsinu og norðurhelmingur hússins féll saman strax veturinn 1947.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Þetta flýtiferli og hrun var síðan alltsaman kannski nokkuð óréttlætanlega skrifað á Áka Jakobsson þáverandi sjávarútvegsráðherra og mjölhúsið þaðan eftir ætíð kallað Ákavíti.  

Sjá meira hér um Ákavíti:
Siglfirðingur 1948. Ákavíti endurbyggt – Mjölskemman endurbyggð

Myndirnar tala sínu eigin máli.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Ég fann fyrir slysni þessar þrjár einstöku myndir frá sumrinu 1946 á Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem sýna byggingarvinnu við að reisa þetta burstarbæjarstálgrindarmekkanómjölskemmuhús og lýsistankana á sama stað.

Ljósmyndarinn eða gefandi myndana heitir Ólafur Elimundarson en hvorki ég sjálfur eða meistari Steingrímur kunnum nein nánari deili á þessum manni.

Mjölhús SR46 í byggingu. Ljósmynd: Ólafur Elimundarson.
Mjölhús SR46 í byggingu. Ljósmynd: Ólafur Elimundarson.
Lýsistankar SR46 í byggingu. Ljósmynd: Ólafur Elimundarson.
Stórkostlega falleg og listræn ljósmynd frá byggingu stálgrindar fyrir lýsistanka. Ljósmyndari: Gísli Halldórsson.

Greinarhöfundur er of ungur til að muna persónulega eftir þessum atburðum en sögur hef ég heyrt og þekki vel til staðarhátta úr barnæsku. En lesandi góður, víst það er merkilegt og einstakt að geta síðan sýnt allt þetta og sagt söguna í trúverðugu myndrænu máli. En auðvitað væri ekkert af þessu hægt ef að Steingrímur Kristinsson hefði ekki safnað þessum heimildum saman.

Sagan okkar sameiginlega verður okkur verðmætari með hverju árinu sem líður og ég segi það enn einu sinni að þessi stórkostlegi ljósmyndari og alþýðusögu fræðimaður á Fálkaorðuna og allan annan heiður skilið fyrir alla sína óeigingjörnu vinnu sem hann hefur lagt á sig við að varðveita sögu Siglufjarðar sem í gegnum síldarsöguna er stór hluti af sögu Íslands líka.

Að lokum…


….eitt bílskúrsþakhrun sem ég persónulega man eftir.

Kaupmaðurinn frægi, Gestur Fanndal, byggði sér bílskúr sem hann klemmdi á milli norðurhliðarinnar á verslunar og íbúðarhúsnæði sínu og suðurvegg hins þriggja hæða háa Kaupfélags Siglfirðinga. Mig minnir að margir hefðu varað Gest við þessu og sagt að hann yrði að vera duglegur að moka bílskúrsþakið. En þegar maður sér þykktina á skaflinum á myndinni hér undir er það skiljanlegt að það var ekki beinlínis einfalt að fara þarna upp með snjóskóflur.

Ljósmyndari: Gestur Fandal.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

HJÄLP! SÍLDIN RÆÐST Á OKKUR.

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?