Á fundi stjórnar Einingar-Iðju í vikunni var ákveðið að veita Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON) aukastyrk að upphæð kr. 500.000.

Ástæðan er sú að Krabbameinsfélagið leitar nú leiða til þess að tryggja áframhaldandi rekstur þjónustumiðstöðvar á Akureyri en félagið á í miklum rekstrarerfiðleikum vegna áhrifa af heimsfaraldrinum.

Ef fer sem horfir mun rekstrarfé félagsins klárast í lok febrúar 2021 með tilheyrandi skerðingu á þjónustu. Það sem af er ári hefur dregið verulega úr styrkveitingum frá einstaklingum og fyrirtækjum auk þess sem stórar fjáraflanir eins og Hrúturinn, Gæfuspor og Reykjavíkurmaraþon hafi ekki skilað inn áætluðum tekjum til KAON það sem af er ári. 

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að fjölmargir félagsmenn hafi í gegnum árin notað sér þá góðu þjónustu sem krabbameinsfélagið veitir hér á svæðinu. „Stjórnin samþykkti samhljóða að veita þennan aukastyrk, sem kemur til viðbótar árlegum styrk sem Eining-Iðja veitir félaginu. Við vonum jafnframt að fleiri muni bregðast jákvætt við neyðarkalli krabbameinsfélagsins, en í bréfi sem þau hafa verið að senda á fyrirtæki kemur m.a. fram að félagið taki við almennum styrkjum en eru jafnframt að bjóða fyrirtækjum að vera Bakhjarlar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.“