Kæru lesendur og aðdáendur gamalla ljósmynda.
Það vill oft verða þannig að ein saga gefur aðra… og sumar ljósmyndir bera í sér ótrúlega mikla Íslenska sögu.

Um síðustu helgi birtist ykkur 2. hluti framhaldsmyndasyrpusögu með stórmerkilegum ljósmyndum af hafnarmannvirkjum á Siglufirði og þar í lokin var aukamynd sem sýndi okkur dauða háhyrninga í fjöruborði sem erfitt var að staðsetja.
En eins og svo oft áður þá myndast oft skemmtilegir spjallþræðir og margir minnast þess að hafa séð aðrar myndir af sama atburði. Sögumaðurinn og ljósmyndasnillingurinn Steingrímur Kristinsson bætti svo um betur og minnti á samantekt sem hann hefur geymt á sínum sögusíðum þar sem vísað er í heimildir um þetta merkilega FJÖLDAMORÐ Á HÁHYRNINGUM.

Í dag myndum við aldrei láta okkur detta það í hug að drepa okkur til matar allan þennan fjölda af fallegum gáfuðum háhyrningum.
Þannig að þessi saga er bæði merkileg og sorgleg samtímis, en lýsir vel lifnaðarháttum fólk í þröngum einangruðum fjörðum úti á landsbyggðinni. Þetta ferskmeti var kærkomin búbót og sannkölluð Guðsgjöf þetta kalda vor 1917 og vissulega líkist þetta athæfi grindhvaladrápi Færeyinga.

En áður en við höldum áfram er vert að minna á 1. og 2. hluta sögunnar um Anleggið fræga og aðrar merkilegar bryggjueyjur á Siglufirði.

Sjá meira hér og samtals um 40 einstakar ljósmyndir.

ANLEGGIÐ! DULARFULL BRYGGJUEYJA og fl. 30 MERKILEGAR myndir

og…

ANLEGGIÐ! Fleiri stórmerkilegar myndir

En þessi einstaka ljósmynd birtist ykkur hér aftur sem og önnur til viðbótar tengd sama atburði, ásamt eigin sjálfstæðri viðbótar sögu sem útskýrir ýmislegt um þetta magn af dauðum háhyrningum og myndin segir okkur augljóslega að margir af þeim eru mjög svo litlir og ungir að árum.

HÁHYRNINGAR Í FÖRUBORÐI Á SIGLUFIRÐI 19 MAÍ 1917. (15 st af 74 sjáanlegir á þessari mynd.)
Myndin kemur úr safni Júlla Júll. Gefið til SK. Ljósmyndari óþekktur. ATH. Eins og myndin snýr hér, horfir ljósmyndarinn óþekkti í norðaustur.

Þessi ljósmynd sem upprunalega var aðeins ætlað að vera athyglisverð auka ljósmynd í sögu um merkileg hafnarmannvirki, vakti mikla athygli. Bæði vegna myndefnis og erfiðleika við að staðsetja þennan atburð og stóra spurningar komu upp.
T.d. spurningar eins og…. er myndin rétt dagsett og hvar á Siglufirði er þetta fjöruborð?

Það besta við að birta Siglufjarðarsögur á netinu er að auðvelt er að breyta og bæta við allt eftir sem betri upplýsingar streyma inn í spjallþráðum og gegnum hin og þessi samtöl í síma o.fl.

Pistlahöfundur vildi sjá hvort að möguleiki væri á því að sjálf myndin gæti væri spegilvend og prufaði að snúa henni við og varð þá staðsetningin jafnvel enn ruglingslegri.

Hvaða hús eru þetta sem við sjáum í bakgrunninum?

Þegar myndinni er snúið, horfir ljósmyndarinn til suðausturs, samkvæmt heimildum um staðsetningu á þessu fjöruborði rétt norðan við Slippinn .Sjá meira um það í texta hér undir. ATH. Hafnarbryggjan er ekki til á þessum tíma.

En svo kemur ábending frá Anítu Elefssen forstöðukonu Síldarminjasafnsins og hún segir okkur eftirfarandi sögu um þessa merkilegu ljósmynd:

Myndin af háhyrningunum er rétt dagsett, en hún er frá því í maí 1917.

Þann dag voru 74 háhyrningar drepnir!
ATH. Önnur ljósmynd frá sama viðburði er birt í ljósmyndabókinni sem Síldarminjasafnið gaf út árið 2018.

Þar í myndaskýringartexta er vísað í frásögn Jóns Oddsonar frá Siglunesi af háhyrningadrápinu – en miðað við frásögn hans eru myndirnar teknar í fjöru rétt utan/norðan við Slippinn:

Mikið og gott nýmeti var óvænt á borðum Siglfirðinga í maí 1917 eftir að 74 háhyrningar voru drepnir í höfninni.
Jóni Oddssyni á Siglunesi sagðist svo frá:
Bátar í eigu Helga Hafliðasonar voru í fiskiróðri og urðu varir við háhyrningavöðu í fjarðarkjaftinum. Boð voru send til sjómanna á Siglufirði og allir bátar sem á sjó gátu farið söfnuðust saman og voru hvalirnir reknir með grjóti og djöfulskap inn fyrir eyraroddann og upp á grynningar við „Anlæggið“ og umkringdir þar í kví. Amk. 2 norskir selfangarar lágu hér við bryggju og komu Norðmenn með selabyssur og drápu háhyrningana í hrönnum. 

Síðan voru þeir dregnir á árabátum upp í fjöru rétt utan/norðan við Slippinn. 

Svo var farið að skera og öllum gefinn ákveðinn hlutur, bæði kjöt og spik. Skipt var á milli húsanna í bænum og bæjanna í hreppnum miðað við fjölda heimilismanna. Þeir sem voru á bátunum fengu sér part.

Svo var farið að selja afgangshvalinn og flytja inn í Fljót og víðar.
Gullfoss flutti sjö hvali til Reykjavíkur og fjóra eða fimm til Akureyrar.

Sjá meðfylgjandi ljósmynd hér undir sem birt er í bókinni og sýnir örlítið annað sjónarhorn.

Hvalaskurður á 74 háhyrningum í fjöruborðinu rétt norðan við slippinn. Ljósmyndari óþekktur. Myndin er birt með leyfi frá Síldarminjasafni Íslands.

HVALAMÁLIÐ MIKLA!

Þetta er minnst sagt einkennilegur atburður og það er gaman að segja frá því að sögugrúskarinn Steingrímur Kristinsson benti pistlahöfundi á efni sem hann hefur haldið til haga og vísar hann þar í blaðagreinar í bæjarblaðinu FRAM veturinn 1917.

Það verða nefnilega heilmikil málaferli úr þessu hvaladrápi og vart talað um neitt annað í bænum allan veturinn 1917-18.

Hægt er að lesa allar þessar blaðaúrklippur á sögusíðum Steingríms í heild sinni hér: FRAM 1916-1917, en hér undir verður aðeins stiklað á stóru úr helstu fréttum um þetta háhyrningadráp í bæjarblaðinu Fram 1917.

Fyrst er sagt frá þessu blóðbaði í stuttu máli, seinnipart sama dags:

Bæjarblaðið: FRAM, 19. Maí 1917.

Höfrungahlaup allstórt kom hér inn á fjörðinn í morgun, var farið bæði á vélbátum og árabátum til veiða, og lukkaðist bátunum loks í félagi að reka heilan hóp af skepnum þessum inn í fjarðarbotn og þar á grunn.

Tók þá til skothríð allsvæsinn, er mun hafa líkst stórskotaliðsáhlaupi og linnti ekki fyrr en öll dýrin voru dauð.
Hve mörg þau eru vitum vér ekki, því þetta gjörðist rétt áður en blaðið fór í pressuna.

Þessi saga verður síðan framhaldssaga í bæjarblaðinu.

FRAM 26. Maí 1917

Háhyrningarnir. Þess var getið í síðasta blaði að höfrungahlaup hefði komið hér inn á fjörðinn, og að tekist hefði að reka heilan hóp af þeim á land og drepa þá þar. — Var þetta að því leiti rangt, að þetta voru ekki höfrungar heldur háhyrningar. —

Skal hér nokkru nánar skýrt frá viðburði þessum.
Um kl. 8 á laugardagsmorguninn tóku menn eftir því, að eitthvert hvalfiskavað var hér út á firðinum og álitu menn það höfrunga eða marsvín.

Hugðu þá sumir hverjir gott til fanga, og tóku að útbúa sig til veiða.….”

… Svo þegar allir þessir bátar voru komnir útfyrir torfuna, tóku þeir að gera tilraun, með grjótkasti og hljóðum, að reka þá inn fjörðinn, og tókst það betur en búast hefði mátt við. Héldu þeir alveg hópinn og flýðu undan grjótkasti og óhljóðum þeirra sem á bátunum voru.…”

… Það enti þó með því að stórhveli þessi munu öll hafa verið yfirunnin, þau er inn voru rekin, rúm 70 að tölu en sagt er að annar stór hópur hafi verið kominn inn á fjörðinn, en farið út nærri strax aftur…”

… Nú þegar öll dýrin voru lögð að velli, kom til það atriðið, sem fáir munu hafa treyst sér til að leysa úr, n. 1.:

Hverjum bar að sjá um hvali þessa, og hver á þá?

Var því boðað til almenns fundar það sama kvöld kl. 7 til 8, til þess að taka ákvörðun um skiftinguna. —
Var sá fundur all fjölmennur en ekki að sama skapi fjölvirkur.

Það var sem sagt kosin fram 9 manna nefnd til þess að sjá um skiptingu og sölu á aflanum laugardagskvöldið 19 maí 1917.

Sama ljósmynd. Steingrímur Kristins tók sér bessaleyfið að setja lit á þennan einkennilega atburð. Ljósmyndari óþekktur. Ljósmyndasafn Siglufjarðar.

Sagan heldur síðan áfram og er ítarlega gert grein fyrir gangi mála í greinaseríu sem Steingrímur kallar Hvalanefndin I til III og vísar hann í greinartitli í slóðum á síður hjá tímartit.is:

FRAM – 20. OKTÓBER 1917

Hvalnefndin. I.

….Sáttakærufundur var haldinn 16 þ. m., en alveg árangurslaust, komst þar engin sætt á, svo málið fer til dóms. Vér höfum fengið fjölda af fyrirspurnum um gjörðir nefndarinnar, og áskoranir um að birta í blaðinu einhverjar upplýsingar í málinu, en vér höfum því ver ekki getað neitt af þessu, því oss hefir verið jafnlítið kunnugt um nefndina og gjörðir hennar, sem almenningi…”

…. Vér höfum átt tal við þó nokkra, sem »sótt hafa gull í greypar Jóns,« og segjast þeir fá töluvert misjafna upphæð, þótt sama verkið hafi þeir unnið margir hverjir. En eftir því sem vér komumst næst af sögnum þeirra, þá er útborgunarreglan eitthvað á þessa leið:

Þeir sem komu að sjá dýrðina, en urðu að ganga snökkklæddir með jakkann á handleggnum, vegna sólarhitans, fá 10 kr. 
Þeir sem réru háhyrningana í land og unnu eins og menn, fá 15 krónur..”

Þeir sem urðu blautir í fæturnar, fá 20 kr. 
En hásetarnir á vélbátunum sem úteftir fóru, fá 200 kr.

Þeir sem voru farþegar á vélbátunum fá að sögn ekki neitt, enda þótt þeir hljóðuðu eins og hinir og hentu grjóti af mikilli snilld,
en fargjald sleppa þeir við að greiða.

En hvað þeir fá sem á árabátunum fóru og sem réru alt skinn af höndum sér, vitum vér ekki

Fram – 27. október 1917

Hvalnefndin. II.

“… Hve mikið allir háhyrningarnir gerðu að krónutali samtals, vita menn ekki, — og nefndin veit það naumast sjálf. —
Hve mikið búið er að borga út í verkalaun, skotfæri, kaðla og hnífa o. fl. vita menn heldur ekki og ekki hve miklu nemur úthlutun sú sem getið var í síðasta blaði, til þeirra er hjálpuðust að, að koma háhyrningunum á land..”

…Einn sjöundi allra háhyrninganna fór til Reykjavíkur, en þaðan eru engin reikningsskil komin, og fullyrða kunnugir menn, að þaðan komi aldrei neitt eða mjög lítið, því mikið af kjöti og spiki hafi orðið þar ónýtt. Ennfremur mun talsvert óinnheimt hjá einstökum mönnum bæði hér og annarsstaðar. Verður ekki betur séð en þetta sé ódugnaður í hæðsta máta.

Því ekki ætti það að vera ofvaxið 9 mönnum, að innkalla ekki fleiri þúsund en þetta er, á 5 mánuðum. En um söluna til Reykjavíkur er það að segja að vér viljum ekki fyr en vér megum til, trúa því, að nefndin hafi sent háhyrningana og látið þá liggja í Reykjavík á sína ábyrgð. En hafi svo ekki verið, hafi nefndin selt vöruna hér, og sent hana á ábyrgð kaupanda, eins og alment er í viðskiftalífinu, þá getur ekki komið til mála annað en Reykvíkingar borgi fulla upphæð, enda þótt alt hefði orðið ónýtt.

Fram – 03. nóvember 1917

Hvalnefndin. III.

“… Vér höfum nýlega átt tal við einn af nefndarmönnunum — Flóvent Jóhannsson um gjörðir hvalnefndarinnar. 

…Vér spurðum hann um ýmislegt fleira, en hann vildi sem allra minnst segja. Frá Reykjavík sagði hann að ekkert væri komið enn, en von um 1400 til 2000 kr. fljótlega, og er það þó vitanlega ekki helmingur þess er þangað fór. Engar upplýsingar gat hann gefið viðvíkjandi sölunni suður, eða með hvaða skilmálum varan hefði verið seld, sagði að séra Bjarni Þorsteinsson og Hjalti Jónsson hefðu staðið fyrir því, og að sér væri það atriði ókunnugt…”

… Því, — hver á þessa peninga? — Er það almenningur, eða nefndin?

Og þegar vér bentum honum á, að nefndin hefði þó verið kosin af almenningi, og á opinberum borgarafundi og það benti þó á að enginn einn maður, eða níu menn, væru eigendurnir, heldur allir, sagði hann að nefndin hefði als ekki verið kosin, það væri nú það fína við það.

— Svona sagðist honum frá, og þegar vér skyldum við hann, var sigurbros á vörum hans...”


Við getum eflaust öll getið okkur til um ástæðuna fyrir því að þessi óvenjulega stóri háhyrningahópur birtist inn í firðinum.
74 drepnir og greinilega eru þarna mörg ungdýr, en álíka stór hópur er sagður hafa sloppið út úr fjarðarkjaftinum aftur.

Mögulegar skýringar liggja líklega í að ólíkir fjölskylduhópar eru allir að elta stórar fiskitorfur samtímis og jafnvel líka að forðast hafís sem þrengir að veiðisvæðum þeirra, þessi köldu stríðsár kringum 1917. Sjá mynd hér undir.

Hafís við Íslandsstrendur 1910-1919. Kíkið nánar á maí árið 1917. Heimildir: ”Lauge Koch (1945), Hlynur Sigtryggsson (1969)”
Veður.is.

Sjá einnig meira athyglisvert um háhyrninga hér á wikipedia:

Killer whale


AÐ LOKUM…
LJÓÐ UM BRYGGJURNAR Í HVANNEYRARKRÓKNUM…

Þessi einkennilega saga um 74 látna háhyrninga, blessuð sé minning þeirra, á sitt upphaf í ljósmyndum og sögum um breytilegt bryggjuumhverfi í síldarbænum fræga og þess vegna er við hæfi að enda söguna á ljóði um bryggjurnar í Hvanneyrarkróknum frá 1917.

Bryggjur sem hann “KÁRI” braut og bramlaði á hverjum vetri…

Vísur þessar hafa «Fram» verið sendar.

Höfundurinn er roskinn kvenmaður, sem aldrei hefir hlotið neina menntun, og átt fremur erfitt í lífinu, haft annað að gera en gefa sig við bókmenntun.

Vísur þessar bera vott um meðfædda hagyrðingsgáfu, enda er höfundinum, létt um að kasta fram vísu, en sem við má búast eru þær ekki ætíð svo að gildi þeirra sé mikið. En hver veit hve mikið þessi gáfa hefði mátt þroskast, ef hún hefði átt við góð skilyrði að búa.

Það fæðist margt hjá okkur Íslendingum sem kulnar og deyr, fyrir illa aðbúð.”

Bryggjur við söltunarstöð Óskars Halldórssonar í Bakka, ásamt fleiri bryggjum í Hvanneyrarkrók í bakgrunninum. Ljósmyndari óþekktur.

Fram – 03. febrúar 1917

Um bryggjurnar í Hvanneyrarkrók.

Síldarpalla smíða snjallir bragnar
bryggjur falla fram í sjá
fræga kalla eg drengi þá.


Undra fljótir örvabrjótar þessir
mylja grjót og moka leir
mjög um róta jörðu þeir.


Þegnar djarfir þegar starfið klára,
álmanjótum öllum hjá
orðstyr hljóta góðan þá.


Þegar bryggjurnar brotnuðu.
Válega dynur vinda kór
versna tekur ránargeð.
Á augnabliki einu, sjór
öllum bryggjum sundra réð.


Misjafnt duga mannsins verk
menntunar þó njóti hann.
Hins er máttug hönd og sterk
er höfuðskepnum stjórna kann.
B. J.


Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari óþekktur. Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Litvinnsla: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í heimildir í greinartexta.

Þakklætiskveðja til Anítu Elefsen og Steingríms Kristinssonar fyrir myndvinnslu, aðstoð og góð ráð og yfirlestur.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

ANLEGGIÐ! FLEIRI STÓRMERKILEGAR MYNDIR

ANLEGGIÐ! DULARFULL BRYGGJUEYJA OG FL. 30 MERKILEGAR MYNDIR

SÍLDARDÓSASAFN Í GRÓÐRARSTÖÐ! 35 MYNDIR

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 og 2 HLUTI. 130 MYNDIR

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir