ATH: Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

FORMÁLI, fyrri hluti.

Kæru unnendur góðra ljósmynda, sem og allir vinir og áhugafólk um Siglfirska minningasögu. Hér á eftir fáið þið að lesa um merkilegan áhugaljósmyndara og sjá 100 stórkostleg svarthvít listaverk í tveimur birtingarhlutum.

Aðalpersóna þessarar myndasyrpusögu er Hannes Bald. og siglfirsk ljósmyndalistaverk hans.

Við teljum okkur oft þekkja nágranna okkar betur en raun ber vitni. En við þekkjum oftast mest til þeirra gegnum vinnutitla eða þátttöku í félagsstarfi. Vitum oft lítið um brennandi áhugamál nágrannans og hversu mikla vinnu og tíma nágranninn hefur lagt í áhugamál sitt.
Í vel skrifuðum texta frá Jóni Baldvini, elsta syni Hannesar Péturs Baldvinssonar, kemur vel fram að það var ekki beinlínis létt að afla sér efnis eða kunnáttu í sérfræðiáhugamáli sínu þegar maður bjó á norðurhjara veraldar.

Hannes var nágranni minn til fjölda ára í Hafnartúninu á Siglufirði. Þetta var lengi vel einkennilega stutt þriggja húsa gata sem byrjaði skyndilega í annarri götu. Um það getið þið lesið og séð myndir frá í greinaseríunni: FURÐULEGAR GÖTUR 1. HLUTI

Við bróðir minn lékum okkur oft við Helga Kristinn, yngsta son Hannesar og Halldóru (Höddu), og ég vissi auðvitað alltaf að Hannes væri mikil áhugamaður um ljósmyndum. Þeir voru fleiri áhugaljósmyndararnir í þeim sex íbúðum sem voru á Hafnartúninu. Við pabbi og bróðir minn höfðum mikinn ljósmyndaáhuga sem og Bjarni Þorgeirs á efri hæðinni í númer 6. Í Hafnartúni 4 bjó Jökull Gunnarsson vinur minn og hann var líka á kafi í þessu. Meistari Hannes, okkar elskulega Hadda og synirnir þrír, Nonni Baddi, Bjössi og Helgi Kristinn bjuggu í númer 2.

Ég nefni götuna sem dæmi um þann mikla ljósmyndaáhuga sem ætíð var fyrir hendi á Siglufirði og gæti í raun verið efni í heila bók.

Ung og ástfangin. Hannes Pétur Baldvinsson og Halldóra (Hadda) Jónsdóttir. Ljósmyndari ókunnur. Myndin er tekin á heimili þeirra á Ráðhústorgi 5. Þetta hús er ekki til í dag en sést vel á einni af myndunum í greininni.

Ljósmyndir Hannesar hafa birst mér í ýmsu samhengi og alltaf talað til mín á einhvern sérstakan hátt. Í þeim virðist mér einstakur manneskjulegur tónn, þar sem ást og umhyggja Hannesar fyrir öllu sem hann sér í sinni kæru heimabyggð smitar yfir í myndirnar. 

Enn og aftur var ég áminntur um þessa einstöku hæfileika gamla nágranna míns þegar fjölskylda Hannesar setti upp dásamlega sýningu á myndum hans í sambandi við 100 ára afmæli Siglufjarðarkaupstaðar sumarið 2018.

Þegar maður gefur sér tíma til að skoða myndir Hannesar vel og vandlega sér maður að þær eru margar “vel hugsuð listaverkaaugnablik horfins tíma.” Góðar, vel hugsaðar ljósmyndir eru sjaldnast slys eða heppni.

Það er ekki sjálf myndavélin sem tekur myndina. Nei, það eru augu og hugur ljósmyndarans sem sjá myndina og sjálf vélin er í raun bara geymsluhylki.

Sem dæmi um þetta „næmi fyrir augnablikum“ bið ég ykkur að skoða fyrstu myndina sem við fyrstu sýn virðist bara vera skemmtileg mynd af smáguttum með kókflöskur.
Í raun eru hún svo miklu meira en það. Hannes bjó við ýmsar takmarkanir á sínum tíma vegna þeirra tíma tækni. Þessi mynd er tekin fyrir meira en hálfri öld og þá var ekki bara hægt að taka fjölda mynda og vona að einhver yrði góð, svona eins og tæknin í dag gerir kleift.
Ekki var hægt að skoða strax  hvort myndir voru góðar, það tók oftast að minnsta kosti auka dag, jafnvel marga daga að ljúka ferlinu við að framkalla filmu og prenta út góðar myndir. Kostnaður var líka býsna mikill og þurfti að fara sparlega með filmur, pappír og fleira.

Þegar kókmyndin er skoðuð sést að Hannes var mjög fær ljósmyndari og gerði allt rétt. Hann staðsetur sig rétt í ljósinu, fer niður á hnén til að vera í sömu hæð og hinir ungu synir hans. Líklegt er einnig að hann hafi horft á þá og dáðst af þeim í gegnum linsuna dágóða stund, athugað allar stillingar og beðið eftir því að smella af á nákvæmlega réttu sekúndubroti.

Þannig varð þessi ljósmynd til og þessi hugsun, einbeitni og brennandi áhugi hjá Hannesi gerir þessa ljósmynd eins og margar aðrar að listaverki.

Hér á eftir fáið þið að sjá margar þaulhugsaðar myndir Hannesar og hafa ber í huga að allar myndirnar eru stórkostlega vel endurunnar af sonum Hannesar sem að sjálfsögðu vilja vanda sig við varðveislu á þessum merkilegu myndverkum föður síns.

Þær rösklega 100 ljósmyndir ( óflokkaður laugadagsnammipoki) sem hér birtast sýna okkur fjölhæfni Hannesar og segja okkur einnig “Sögu bæjar” í atburðum og hversdagsleika venjulegs fólks. Þær eru fjársjóður sem sýnir tækni og anda liðins tíma, séð með skörpum augum meistara Hannesar Bald.

Gjörið svo vel, hér birtist ykkur svarthvítur ljósmyndasögufjársjóður í tveimur hlutum og ef rétt reynist að hver einasta mynd segi okkur meira en þúsund orð, eins og sagt er, þá lítur reikningsdæmið nokkurn veginn svona út:
100 myndir sinnum 1.000 orð = 100.000 orð sem þið skapið sjálf og notið til þess ykkar eigin hugsanir, upplifun og minningar sem rifjast upp eða verða til þegar þið skoðið þessar dásamlegu ljósmyndir.

Undirritaður, sem og ritstjórn Trölla.is, vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til Halldóru Jónsdóttur eftirlifandi eiginkonu Hannesar, Jóns Baldvins Hannessonar, Björns Júlíusar Hannessonar og Helga Kristins Hannessonar fyrir að treysta okkur fyrir og leyfa birtingu hér á þessum ljósmyndagersemum. 

Falleg minning um góðan mann og hans framlag til okkar sameiginlegu Siglfirsku minningasögu er nú aðgengileg öllum um alla eilífð.

Blessuð sé minning Hannesar Péturs Baldvinssonar.

Hvor á meira eftir? Bræðurnir Jón Baldvin Hannesson og Björn Júlíus Hannesson.

Um Hannes Bald

Hannes Pétur Baldvinsson fæddist á Siglufirði 10. apríl 1931. Hann lést 25. janúar 2015.

Hannes var sonur Baldvins Þorsteinssonar og Oddnýjar Þóru Þorsteinsdóttur. Tvíburasystir Hannesar var Kristín Björg Baldvinsdóttir (Lóa) og eldri systir Svava Þórdís Baldvinsdóttir. Með fyrri konu sinni átti Baldvin tíu börn.

Allur lærdómur lá mjög vel fyrir Hannesi en fjárhagsaðstæður fjölskyldunnar leyfðu ekki langskólagöngu. Í gegnum tíðina aflaði hann sér margvíslegrar færni með lestri og sjálfsnámi. Hann keypti mikið af bókum og blöðum og náði þannig býsna góðum tökum til að mynda á þremur tungumálum, ljósmyndun, bókhaldi og rekstrarmálum, tölvufærni og hönnun gagnagrunna svo nokkur dæmi séu nefnd. 

Hannes vann margvísleg störf um ævina. Ungur vann hann verkamannastörf, var sjómaður í nokkur ár og vann einnig við netagerð. Hann tók próf til að verða síldarmatsmaður og vann sem slíkur í mörg ár, síðar vann hann hjá Sigló síld. Hann varð framkvæmdastjóri saumastofunnar Salínu og var loks aðalbókari hjá Sýslumanninum á Siglufirði þar sem hann endaði starfsferilinn.

Hannes hafði alla tíð mikinn áhuga á pólitík, bæði landsmálum og sveitarstjórnarmálum og var mikill vinstrimaður. Hann settist þrisvar á Alþingi, sem varamaður Ragnars Arnalds fyrir Alþýðubandalagið og hann sat í bæjarstjórn Siglufjarðar í 20 ár og gegndi ýmsum nefndarstörfum. Þá sat hann í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins í tvo áratugi.

Hannes var öflugur í margvíslegu félagsstarfi, var lengi í karlakórnum Vísi og síðar Karlakór Siglufjarðar, í nokkur ár virkur í leikfélaginu, var formaður Stangveiðifélags Siglufjarðar í um 20 ár, sat í stjórn Skógræktarfélags Siglufjarðar, var í stjórn Síldarminjasafnsins og í Félagi áhugamanna um safnið og var virkur félagi í Kiwanisklúbbnum Skildi.

Hannes Baldvinsson og sonur hans Jón Baldvin. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Í starfi með örnefnafélaginu Snóki átti hann stærstan þátt í að vinna eftirtektarverða heimasíðu, snokur.is, sem sýnir örnefni frá Hvanndölum til Úlfsdala á myndrænan hátt. Hann var mikill sögumaður og húmoristi og kunni ógrynni af sögum, vísum og textum. Hann hafði gaman af að segja frá eldri og yngri atvikum, einstaklingum og atvinnulífi en einnig þjóðsögum og sögnum af ýmsu tagi.

Hannes var afbragðsgóður áhugaljósmyndari og liggur eftir hann talsvert safn mynda af fólki, umhverfi og atvinnulífi í Siglufirði, mest frá tímabilinu 1958 – 1964. Ljósmyndir Hannesar sýna gott næmi hans fyrir myndbyggingu, listrænum þáttum og fegurð, ekki síður en áhuga á fólki og staðnum sínum, Siglufirði, þar sem hann bjó alla ævi.

Þeir sem ekki þekkja til sögu ljósmyndunar og aðstæðna á því tímabili sem hér er sýnt frá geta ekki gert sér í hugarlund hversu mikið þurfti til að geta sinnt þessu áhugamáli vel. Einangrun Siglufjarðar var í raun mikil og kaup á tækjum og efni síður en svo einfalt verkefni, fyrir utan kostnaðinn og allan tímann sem þetta krafðist.

Myndavélar, linsur og annar tökubúnaður beið ekki úti í búð. Stækkara, framköllunardósir, bakka, perur, filmur og ýmislegt fleira þurfti að panta í gegnum síma, bréfaskrif eða með símskeytum.
Margt þurfti að panta erlendis frá. Framkallarar og önnur efni voru iðulega vigtuð og blönduð frá grunni. Sem betur fer fengust grunnefnin oft keypt í apótekinu, nokkuð sem ekki fæst í dag því sum eru eiturefni og önnur möguleg sprengiefni. Blöð og bækur með upplýsingum um efni og notkun þeirra þurfti einnig að panta. Myrkraherbergi þurfti að útbúa, smíða og innrétta.

En allt var þetta spennandi og skemmtilegt þótt tími og peningar væru iðulega af skornum skammti. Hér eru sýndar nokkrar af ljósmyndum Hannesar sem endurspegla fjölbreytt myndefni og segja talsverða sögu í leiðinni, sögu um hefðir, menningu, aðstæður, umhverfi og um ljósmyndarann sjálfan. Hér eru höfð með nöfn flestra einstaklinga sem á myndunum sjást en taka verður viljann fyrir verkið og fyrirgefa skort á þekkingu/upplýsingum eða mistök varðandi nöfnin.

Leiðréttingar og viðbótarupplýsingar eru vel þegnar og má gjarnan senda á undirritaðan á póstfangið:
 jonbaldvinh@gmail.com

Höfundur texta “Um Hannes Bald”:
Jón Baldvin Hannesson

Landlegumorgunn.
“Bærinn okkar…. Siglufjörður”
Síldarsöltun. Sigurlaug Davíðsdóttir, Þórdís Jónsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Kristín Friðleifsdóttir, Fríða?, Lína? Bragi Magnússon stálari.
Landlega.
Dýpkunarprammi Johansens og Bjössa Þórðar.
Sálarró á Sunnuplani. Gutti Oddnýjar, Andrés Láka, Hannes Beggólín/Hannes Boy (Gunnar Sveinbjörnsson, Andrés Þorláksson, Hannes Garðarsson)
Stapafell landar í bræðslu.
Viðgerð á síldarnót. Halldór Einarsson, Þormóður Runólfsson, Björn Sigurðsson, Egill Jón Kristjánsson.
Ekki há í loftinu. Guðrún Anna Hauksdóttir.
Systkini í söltun. Kristján Hauksson, Alla Hjörís Hauksdóttir, Guðrún Anna Hauksdóttir.
Handavinna við löndun.
Stapafellið á nösunum.
Ein sú hraðasta. Sigurlaug Davíðsdóttir
Pollar skoða nýja færibandatækni. ? , ?, Hákon Ólafsson, Freyr Sigurðsson, Hlöður Bjarnason, Tryggvi Björnsson, Aðalsteinn Eiríksson, Skarphéðinn Guðmundsson?
Síldarmatsmaður undir smásjá. Kristján Elíasson, Ármann Jakobsson, Hafliði Hafliðason, Ingimundur Einarsson, Einar Haukur Ásgrímsson, Bjarni Þorsteinsson, Jón Þorkelsson, Sigurbjörn Sveinsson, Ólafur Jóhann Rögnvaldsson, Björgvin Jónsson, Sigurjón Kjartansson.
Tunnubókhald. Ásgrímur Sigurðsson.
Bras við að ýta Skarðsveginn. ?, Ernst Kobbelt ?
Löndunarbið á Ríkisbryggjum.
Díxilmenn. Björn Björnsson, Njáll Sigurðsson.
Netastúlka. Óþekkt, mögulega frá Ísafirði?
Bryggjuliðið hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Aftari röð: Jón Þorkelsson, Eðvald Eiríksson, Sigfús Ólafsson, Björn Einarsson, Jóhann Jóhannsson. Fremri röð: Jón Þorsteinsson, Óli Björnsson, Gísli Hallgrímsson, Pétur Stefánsson, Þorsteinn Einarsson.
Vertrarríki á Aðalgötu heimsins.
Schalmei-horn (skálmhorn) þeytt á Hverfisgötu. Guðmundur Þorgeirsson, Haraldur Kristjánsson, ?, Andrés Gunnlaugsson, Hlynur Óskarsson, Kristján Sigtryggsson stjórnar, Sverrir Gunnlaugsson, Björn Jónasson, Jósteinn Jónsson, Björn Sigurbjörnsson?
Viðtalsbil – símastúlkur á vaktinni. Halldóra Jónsdóttir og Brynja Stefánsdóttir.
Veiðimenn. Ari Jónsson, Ásmundur Jón Jónsson/Dengsi og ?, ?, ?, ?
Saltið blandað. Halldór Þorleifsson.
Tónlistakennarinn Sigursveinn D Kristinsson.
Saman í lagi. Örvhent og rétthent. ?,?
Mjölhús SR. (Efri hæð)
Kári gefur tunnumerki. Kári Jónsson og Guðrún Pálsdóttir?
Ráðhústorg 3 og 5 og Bílastöðin gamla.
Gleðin við völd. Sissa Guðmundsdóttir, Hafliði Guðmundsson, Álfheiður Guðmundsdóttir (systir Hafliða)?
Heiðrún landar í söltun.
Muninn með fullfermi.
Guðmundur á Sveinseyri landar í söltun.
Saumað fyrir mjölpoka í Rauðku. Ágúst Stefánsson.
Utan við mjölhúsið. Björn Þorsteinsson, Héðinn Jóhannsson og Helgi Daníelsson.
Áramótin 1960 – 1961. Ráðhústorg og brenna upp í Reit.
Skafti á Nöf með nafna sinn. Skafti Stefánsson og Skafti Jónsson.
Sunnubrakkinn brennur 1963.
Bragi Magnússon stálar.
Hafliði SI 2 í vetrarbúningi.
Hafliði SI 2 í klakabrynju.
Netamenn. Sveinn Björnsson og Vilhelm Sæby.
Dóri P. fær sér kríu. Halldór Pétursson.
Jón Neta og aflaskipstjórinn. Jón Jóhannsson, netagerðarmaður, Eggert Gíslason (mikil aflakló).
Snyrtipinnar. Pétur danski (stjúpsonur Jóns Sveinssonar) og Björn Júlíus Hannesson.
Hafís á firðinum. Ólafur Guðmundsson.
Sekkjað í mjölhúsi. Ágúst Stefánsson.
Willys – koss!
Takið eftir “Jússunum” (bomsunum)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)

Höfundur formála og uppsetning greinar:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðumynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þakklætiskveðja fyrir aðstoð við leiðréttingar á myndskýringartexta.  

Ljósmyndari:
Hannes Pétur Baldvinsson.
Allar myndir eru birtar með leyfi ættingja.

Skönnun á filmum:
Björn Júlíus Hannesson.

Stafræn myndvinnsla og myndaskýringartexti:
Jón Baldvin Hannesson.

Höfundur texta “Um Hannes Bald”:
Jón Baldvin Hannesson.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpusögur og greinar með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

AÐALGATA HEIMSINS

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

POPPAÐ Á SIGLÓ – NÍUNDI OG SÍÐASTI HLUTI

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!