Já, kæri lesandi!

Stundum verðum við manneskjur kannski að taka smá pásu og íhuga veruleikan og taka eftir því jákvæða sem er að gerast í kringum okkur þrátt fyrir að það daglega ganga yfir okkur holskeflur af hörmungarfréttum í gegnum fréttamiðla og frá sjálfútnefndum „réttlætis og réttritunar öfgaöflum“ út um allan heim í ýmsu formi í gegnum félagsmiðla eins og Facebook / Tvitter o.fl.

Þetta er svona álíka skrítið fyrirbæri eins og að vilja liggja stanslaust á hleri á gömlu opinu sveitasímalínunni allan sólarhringinn án þess taka sér pissu- eða kaffipásu.

En við Siglfirðingar og allir þeir sem elska þennan fagra fjörð og tengjast honum á einhvern máta tökum þessu með ró og við höldum bara okkar striki í að sameiginlega varðveita söguna og miðla hversdagsleikanum í firðinum fagra bara eins og hann er og var og svo fylli ég sjálfur og svo margir aðrir uppí gráan hversdagsleikan með allskyns, hljómsveitasögum, barnaskæruliða- skáldskap og annarri skemmtilegri vitleysu.

Ekkert er of lítið og ómerkilegt eða of stórt að það geti ekki fengið pláss í hjarta okkar, því þetta snertir okkur öll álíka mikið hvort sem við búum þarna núna eða ekki.

Það sem rak mig í þessi pistlaskrif var að mér barst slóð á enn eina sögusamantekt sem vinur minn hann Steingrímur „Ódáni“ Kristinsson ljósmyndasögugúru Siglufjarðar sendi mér á Messenger en við spjöllum oft þar um hitt og þetta. (Sjá forsíðu ljósmynd)

Hann er einn af MÖRGUM Siglfirskum sögugrúskurum sem leggja mikið af sínum frítíma í söguna og eru alveg ódrepandi í að miðla til okkar ókeypis áhugaverðu efni.

Þessi frábæra Facebookgrúppa hefur í dag 3.207 meðlimi og hún er alveg einstök og sýnir okkur jákvæðu hliðina á tækni og samskipta þróun síðustu áratuga. Kannski snýst þetta allt um að VIÐ sjálf veljum hverju við viljum taka þátt í og þannig verjum við okkur líka frá þeirri angist sem það inniber að verða fyrir daglegum frétta-sprengjuárásum sem í rauninni segja okkur mest lítið um okkar eigið líf og tilveru.

Stórt þakklæti sendi ég þér Bylgja Hafþórsdóttir fyrir að hafa stofnað þessa mikilvægu Siglfirsku sameiningarsíðu.

Því akkúrat þessi síða gefur OKKUR ÖLLUM möguleikann á að koma okkar sögugrúski, ljósmyndum og fréttum um allt og ekkert á framfæri.

Síðan er það ekki verra að trölli.is vex og dafnar sem bæði fréttamiðill og útvarpsstöð. Ekki bara fyrir Siglfirðinga heldur fyrir allt og alla sem búa á Norðurlandi.

Þar er heldur ekkert of ómerkilegt eða of stórt til að birtast og þau Tröllahjónin sinna þessu öllu í sjálfboðavinnu hvort sem þau búa í helli á Kanarí eyjum eða á Hofsós. Þar fyrir utan koma áhugaverðir útvarpsþættir frá fólki sem býr út um allan heim.

En þar sem að landsmiðlum finnst ekkert af þessu fréttamatur eða merkilegt, þá gerum við þetta bara sjálf á okkar einstaka Sigfirska máta.

Trölla-síðan er nú þegar orðin verðugur aftaki sigló.is sem er reyndar enn uppi og aðgengileg öllum sem vilja sjá það sem þar er vistað.
En þar hef ég stórar áhyggjur því það hefur oft sýnt sig að sá „server“ sem síðan er geymd á er ekkert sérstaklega áráðanlegur og hefur t.d. hrunið þegar ég í mínum skrifum eða aðrir hafa vakið athygli á merkilegum ljósmyndum sem þar er að finna á Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Öðlingarnir Róbert Guðfinnsson og Steingrímur gáfu okkur öllum þennan heimildarfjársjóð og er hann nú í umsjón Síldarminjasafns Íslands.

Safnið var byrjað á þeirri miklu vinnu að endurskoða og bæta þennan gamla risavaxna gagnabanka sem inniheldur um 180.000 Siglfirskar ljósmyndir en því miður þá hefur Kórónaveiru ástandið tafið mikið fyrir þessari mikilvægu vinnu vegna skorts á fjármagni og starfsfólki.

Það væri óskandi að við Siglfirðingar nær og fjær gætum sett í gang stuðnings fjársöfnun svo að þessi einstaki Siglfirski ljósmyndasögufjársjóður verði okkur öllum aðgengilegri um alla eilífð.

Í guðanna bænum ekki segja að Robbi eigi bara að redda þessu…
… Því hann er nú þegar búinn að gera meira en nóg.

Amen!

Og vonandi haldið þið öll áfram að halda sögum og ljósmyndum til haga, því það er á okkar allra ábyrgð að okkar merkilega sameiginlega saga týnist ekki.

Bestu kveðjur til ykkar allar.

Nonni Björgvins.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Ljósmyndir eru birtar með leyfi eigenda.

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.