Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Eftir að síldarævintýrið hófst, breyttist fámennt samfélag norður við Dumshaf í eitthvað sem enginn hafði áður upplifað. Þar sem áður hafði talist til stórtíðinda ef skip sigldi inn fjörðinn að frátöldum skektum eða hákarlaskipum heimamanna, ríkti nú sannkallað gullgrafaraæði.Fólki fjölgaði, húsum fjölgaði, söltunarstöðvum fjölgaði og verslunum fjölgaði. Allt þetta gerðist svo hratt, að engin önnur dæmi eru um slíkt í íslensku samfélagi og kannski gerist svona aldrei aftur. Hin siglfirska verslunarsaga er risastór í sniðum á hérlendan mælikvarða og við Aðalgötuna hefur varla staðið nokkurt hús sem ekki hefur verið verslað í.

Jón Sæmundur Sigurjónsson nefnir í grein sinni “Búðarráp á Siglufirði” sem birtist m.a. í Morgunblaðinu 1996, að líklega hafi verið um 70 verslanir í bænum um miðja öldina sem leið. Það virðist í fyrstu vera ótrúlegur fjöldi en eftir að rýnt hefur verið í þessi mál og þau borin undir ýmsa þá sem stóðu á miðju sviðinu fyrir hálfri öld eða meira, verður niðurstaðan sú að þetta geti bara meira en vel verið.

Hér er þó ekki pláss fyrir nema brot af sögunni, því öll væru hún efni í heilan bókaflokk upp á marga hillumetra. Við skulum því halda okkur við Aðalgötuna og Ráðhústorgið frá upphafi síldarævintýris, fram yfir aldarlok og rifja upp það sem tiltölulega auðfengnar heimildir skýra frá, eða er enn þokkalega ferskt í minni ritarans og viðmælenda hans.Við getum lygnt aftur augunum og látið hugann reika. Séð fyrir sér önnum kafna og sloppklædda búðarmenn og konur. Ösina, troðninginn, blindfulla sjóara jafnt sem guðhræddar konur, alla fólksmergðina sem átti leið inn og út um dyr kaupmannsins. Jafnvel leyft okkur að hnýsast í skápa, hillur og afkima krambúðanna. Þar sem saga verslunar og viðskipta er bæði meiri og merkilegri en víðast gerðist, í nafla alheimsins, í sjálfri “Aðalgötu heimsins”.

Aðalgatan sunnan megin.

Verslunin Hamborg var í Aðalgötu 1, en hún var dæmigerð krambúð og verslaði nánast með allt sem hugsast gat eins og flestar aðrar verslanir á fyrri hluta tuttugustu aldar. Í slíkum búðum mátti oft fá jafn ólíka hluti og leirtau, tvisttau, franskt morgunkjólatau og enskt sultutau. Burís, flónel, flöjel, shirting, lasting, pudsextrakt, fitusvertu, rjóltóbak og steinoliu. Einnig aprecots, rauðgrauts og cremduft, skonrok, sago, steyttan kanel og pipar, spírituskompása, þakpappa, fernis, rúðugler og kítti, kniplinga og blunder. Allt á sama stað. Eftir daga Hamborgar var rekin ljósmyndastofa í húsnæðinu og einhvern tíma enn síðar var Bjarki Árnason þar með trésmíðaverkstæði.

Aðalgata 3 þar sem verslun Halldórs Jónassonar var til húsa.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Halldór Jónasson verslunarmaður og kona hans Kristín Hafliðadóttir bjuggu að Aðalgötu 3 og ráku verslun á neðri hæðinni. Sú var talsvert með járnvörur og þess konar varning. Í litlu húsi beint á móti setti Halldór á stofn ásamt mági sínum Andrési Hafliðasyni fyrstu sérverslunina í bænum sem var kölluð B-deildin, en nánar um hana síðar. Reksturinn hlýtur að hafa gengið þokklega, því Halldór keypti síðar Gamla bíó í Reykjavík og bauð í það á móti mörgum af ríkustu mönnum í Reykjavík.

Matti og Jóna á bak við búðarborðið í versluninni Tröð þar sem áður var Sjómannaverslunin Dröfn.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Í húsi nr. 5 var verslun Sigurðar Kristjánssonar sparisjóðsstjóra, þá vefnaðarvörur Ingimundar sem Daníel Þórhallsson tók síðar við og enn síðar Sjómannaverslunin Dröfn sem Jóhann Pétursson rak. Húsið stóð eftir það lengi autt, eða þar til Matthías Jóhannsson keypti það á 100.000 kall, flutti inn og opnaði þar verslunina Tröð.Sparisjóðurinn var um tíma í einu herbergi með sérinngangi í húsi (annað hvort 5 eða 7) þarna neðarlega í Aðalgötunni sunnan megin, en fluttist síðar yfir götuna á neðstu hæðina á Hótel Hvanneyri. Einnig var hattabúð Ásbjargar þar. Kannski í Sparisjóðsplássinu eftir að hann var fluttur.

Í þessu húsi hóf Íslandsbanki hinn eldri starfsemi sína, en síðan hafa margar verslanir verið þarna til húsa.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Í Aðalgötu 7b var Íslandsbanki hinn eldri áður en hann breyttist í Útvegsbanka og flutti upp í Grundargötu. Þarna var Verslun Sveins Hjartar sem verslaði aðallega með matvöru og seldi gríðarlega mikinn kost til skipa. Gústi Þórðar með herrafataverslun, eftir það Járnvörudeild Kaupfélagsins þar sem Þórður Kristinsson afgreiddi í brúnum slopp, Viðar Magnússon og Jens Gísla með ragmagnsverkstæði og einnig var þarna dekkjaverkstæði.Bókabúð Hannesar Jónassonar var svo í númer 7 uppi á horninu, en það hús brann. Þá fluttu Hannes og Kidda upp á Aðalgötu 16, svo 15 og enn síðar á 32b. Seinna var hús Mjólkursamsölunnar byggt á lóðinni, KEA opnaði þar matvöruverslun árið 1970 eftir að KFS fór á hausinn, Húsasmiðjan var þar löngu síðar og nú síðast Iðja.

Reiðhjólaverslun Gunnars Bílddal skömmu eftir brunann.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Aðalgata 9 var (og er) á horninu sunnan Aðalgötu og ofan við Vetrarbrautina. Þar áttu margir viðdvöl og stoppuðu mislengi.Gnnar Bílddal rak þar síðast verslunina Hebu og verslaði m.a. með reiðhjól. Hann var líka með reiðhjólaverkstæði, en húsið brann í apríl árið 1946.Skömmu fyrir brunann á verslun Gunnars hafði Egill Melsted opnað sína reiðhjólabúð aðeins fáum metrum ofar í götunni, og fóru tvennar sögur af kærleikum þeirra kaupmanna hvað sem satt var í því.

Nokkra unga reiðhjólaeigendur sem höfðu alla jafna verslað við Gunnar, vantaði eitt sinn eitthvert smáræði og komu við hjá honum, en hann átti því miður ekki til í augnablikinu það sem þá vanhagaði um. Það varð því að fara yfir til Egils sem tók þeim fálega og sagði að hann ætti nóg til af öllu fyrir sína kúnna. Þeir skyldu bara fara á sama stað og þeir komu frá, og vera þar þangað til úr rættist. En eftir svolítið spjall og skjall munu þó samningar hafa náðst. Húsið sem Matti Haralds og Alla búa núna í er líka skráð númer 9. Upphaflega var það bæði líltið og lágt, en Þorsteinn Pétursson mun hafa byggt ofan á það. Þorsteinn sem var Péturs hafnarvarðar og bróðir Ásgeirs Péturssonar stórsíldarsaltanda, rak þarna verslun en var síðar umsjónarmaður og útsölustjóri Hóls, Akureyrar og Sauðárkróksmjólkurinnar í einhvern tíma. Síðast ráku þær Sigga og Kolla gjafa og snyrtivörubúðina Hebu.

Í húsi númer 11 bjó Egill Stefánsson (Melsted) og rak verslun á neðri hæðinni. Fyrst kjötbúð, þá matvörubúð en síðast reiðhjólaverslun. Á bak við húsið var heil þyrping af skúrum og þar hafði hann verkstæði sitt og aðra aðstöðu.Hann framleiddi barnavagna, þríhjól og stálhúsgögn, gerði við reiðhjól, húsgögn og klósettkassa ásamt því að starfa við pípulagnir.Þar var einnig reykhús, sennilega þó áður en hann stofnaði Egils-síld 1940. Um tíma starfaði hátt í tug manna í þessu undarlega samsetta iðjuveri Egils.Þórarinn Hannesson opnaði síðar myndbandaleigu og sjoppu í húsnæðinu sem hann flutti síðar á Norðurgötu og enn síðar á Túngötu. Þrumupizzur (Jói Bjarna og Anna Hermína) voru þar líka á sama tíma, líklega 1994.

Í litla húsinu númer 13 þar sem Abbý rekur núna Galleríið sitt, var Hrólfdís áður með Blóm og Föndur. Tóti Gautur keypti það þó enn fyrr og lagaði heilmikið einhvern tíma upp úr 1970, en þá var það orðið bæði feyskið og fúið. Hann flutti þangað fatahreinsunina sem hann hafði áður starfrækt í “Sjallanum” við Grundargötu.

Í númer 15 voru síðast skrifstofur Þormóðar Eyjólfssonar hf., en Hrólfdís og Ása Þórarins ráku þar Matbarinn eftir 1960 og þar kynntust margir Siglfirðingar frönskum kartöflum og buffi með spældu eggi í fyrsta sinn. Á undan þeim var Bókaverslun Hannesar Jónasonar þar til húsa í stuttan tíma áður en nún fluttist upp í Aðalgötu 32b. Gestur Fanndal var þar enn fyrr með vefnaðarvörudeild áður en hann flutti verslanir sínar upp í Suðurgötu. Hún var rekin undir nafninu Vöruhús Siglufjarðar. Vöruhúsið hafði þó áður verið í eigu Jóns Valfells sem var mágur Gests, en það hafði þá enn áður verið til húsa í Suðurgötu 2.

Gunna Finna bjó á Aðalgötu 17 fyrir fáeinum árum, en Guðmundur Hafliðason sonur Hafliða hreppstjóra byggði húsið. Þar mun og hafa verið rekin hattabúð (ein af fjórum) yfir sumartímann.

Hús Andrésar Hafliðasonar.
Ljósmyndari ókunnur. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Andrés Hafliðason byggði hús númer 19 við hliðina á bróður sínum Guðmundi. Hann gerðist snemma sendill í verslun Vilhelms M. Jónssonar 1904, en ræðst árið eftir til Helga bróður síns og er þar til ársloka 1910. 1911 hóf hann störf hjá Gránufélagsversluninni og er þar til 1919, en það ár setti hann sína eigin verslun á fót undir nafninu Fjallkonan.

Árið 1923 tekur hann við umboði fyrir Landsverslun Íslands sem síðar verður Olíuverslun Íslands, af Jóni tengdaföður sínum. Hann gerist umboðsmaður Tóbaksverslunar Íslands, en á þessum tíma var Áfengisverzlun Ríkisins eitt og Tóbakseinkasala Ríkisins annað.Þegar þessi ríkisbatteri sameinuðust síðar í Tóbaks og Áfengisverslun Ríkisins var nafnið skammstafað TÁR. Vakti þetta að vonum athygli manna og þótti mörgum skondið í meira lagi, en hver sem ástæðan hefur verið breyttist nafngiftin fljótlega í ÁTVR. Hann tekur einnig að sér umboð fyrir Viðtækjaverslun ríkisins, og firmans Lárus G. Lúðvíksson hf. sem flutti inn og seldi skófatnað. Einhvern tíma hættir hann þó að versla með skófatnað og margir af eldri íbúunum í bænum hafa talið sig vita skýringuna. Hún á að vera sú að gjafmildi Ingibjargar konu hans hafi rýrt svo lagerinn að verslunin hafi vart borið sig.Ef hún sá illa skóuð börn sem voru frá heimilum þar sem efnin voru ekki mikil, átti hún það til að kalla á þau inn til sín, og þegar þau fóru út frá henni aftur voru þau komin á splunkunýjan skófatnað. Andrés mun hafa látið þetta afskiptalítið lengi vel, en einfaldlega gefist upp á rekstrinum að lokum.

Kobbi mall bjó í litlu húsi fyrir neðan kirkjuna og þótti karlinn sjaldnast mjög þrifalegur eða allt of vel til fara. Eitt sinn var Andrés sem var einnig meðhjálpari, að gera klárt fyrir messu á aðfangadag. Hann hafði verið í kirkjunni frá miðjum degi og kom ekkert heim fyrr en að athöfninni lokinni. Skömmu áður en messan hófst hafði Kobbi átt erindi niður í bæ, Ingibjörg rekist á hann og fundið út að hann átti engin jólaföt sem henni fannst auðvitað alveg ótækt. Þegar Andrés var svo kominn heim og allir sestir yfir jólamatinn verður honum að orði: “Hann Kobbi var vel til hafður í dag” og svo var ekki talað meira um það. Ingibjörg hafði nefnilega klætt Kobba upp í splunkuný grá jakkaföt með vesti og bindi sem Andrés hafði nýlega keypt og Kobbi mætt í þeim til kirkju.

Í Aðalgötu 21. rak Alfons veiðarfæraferslunina Víking. Síðan var þar Hattabúð Jennýar, Verslun Jónasar Ásgeirs, Eyrarbúðin hans Jóa Dívana, Leifsbakarí og nú síðast Efnalaugin Lind.

Jónas Ásgeirs setti mikinn svip á mannlífið á Siglufirði, þótti uppátækjasamur og fljótur til eins og eftirfarandi saga sýnir. Eitt sinn þegar farið var að síga á seinni hluta sumars og kólna í veðri kom sjómaður inn í búð til hans og vildi kaupa föðurlandsbrækur. Jónas sýndi honum það sem til var, en rétta stærðin fannst ekki. Sjómanninum þótti þetta miður og spurði Jónas hvort það væri nú alveg öruggt að rétta númerið leyndist ekki einhvers staðar. Jónas hugsaði sig um en sagði svo að það gæti verið að það væru einar inni á lager. Hann brá sér þangað og kom að vörmu spori aftur með brækur sem sjómaðurinn mátaði og varð alsæll með, því þær smellpössuðu. Hann hafði þó orð á að það væri undarlegt að brækurnar væru volgar. Jónas sagði að það væri ekkert skrýtið, því þær hefðu einmitt verið við ofninn. Sannleikurinn var auðvitað sá að til að leysa málið hafði Jónas farið úr eigin brókum.

Ytra húsið eins og það leit út snemma á síðustu öld.
Ljósmynd: Sr. Bjarni Þorsteinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Í “Ytra húsinu” hófst í upphafi eiginleg siglfirsk verslun, þegar Guðmundur kallaður borgari, keypti sér verslunarleyfi árið 1899. Sá ytri, eldri og merkilegri, var því miður rifinn en sá syðri stendur eftir og hafa endurbætur á honum staðið yfir í nokkurn tíma. Sunnan megin hefur verið rekinn söluturn (Höllusjoppa, Lillusjoppa, Gunnusjoppa, Svennasjoppa o.s.frv.) um margra áratuga skeið og um tíma áttu leigubílstjórar sér athvarf á efri hæðinni.

Pétur Björnsson rak matvörubúð á Aðalgötu 25 sem stóð beint á móti Aðalbúðinni, en í austurendanum Grundargötumegin var vefnaðarverslunin. Inni í búð Péturs voru skápar á veggjum með gleri í hurðum svo vel mátti sjá freistandi innihald þeirra og þar var sykur, hveiti og rúgmjöl alla tíð vigtað í lausu. Verslunin starfaði fram undir 1960. Eftir það var rekin pokasaumastofa á vegum Óla Blöndal og fleiri í húsnæðinu og síðast ráku Þórhallur Gests og Badda þarna myndbandaleigu í stuttan tíma upp úr 1980. Verslunarplássið stóð autt eftir það, eða þar til húsið var rifið. Næsta hús fyrir ofan það er Norska sjómannaheimilið sem var byggt 1915 og hýsir nú Tónskóla Siglufjarðar á efri hæðinni, en á undan var þar trésmíðaverkstæðið Tréverk. Þar var einnig fyrsta sjúkrahúsið á Siglufirði. Í kjallaranum hefur verið fiskbúð frá því löngu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var þar Petersen og þá var gengið inn í hana að sunnan. Síðan var rekin þar Fiskbúð Kjötbúðar Siglufjarðar svo undarlega sem það hljómar, en þar var Jósafat verslunarstjóri. Ekki veit ég hvenær innganginum breytt og farið var að ganga inn í búðina að vestan, en líklega hefur það verið meðan Jósi var viðloðandi reksturinn. Jósi og Böddi tóku síðan við og eftir þá Eysteinn, Guggi og Salli. Nú rekur Eysteinn Fiskbúð Siglufjarðar sem er mun merkilegri búð en allt of margir gera sér ekki grein fyrir. Hún er nú orðin eins konar einkenni eða minnisvarði fyrir verslunarhætti sem eru orðnir harla fáséðir.
 

Pylsuvagninn við Ráðhústorg.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Pylsuvagninn sem var reyndar einn af þremur slíkum sem reknir voru í bænum um miðja síðustu öld, stóð rétt fyrir sunnan fiskbúðina eða u.þ.b. þar sem sviðið við Ráðhústorgið stendur yfir sumartímann. Einar Björns opnaði hann upphaflega, líklega um vorið 1959 og margir muna eftir honum í flottum drifhvítum fötum við afgreiðsluna. Hann rak vagninn fyrsta sumarið fram í miðjan ágúst, en þá datt hann í það og ekkert spurðist til hans fyrr en vorið eftir. Þá hafði hann samband við Svein bróðir sinn og bað hann að sjá um reksturinn fyrir sig um sumarið. Sveinn gerði það og gott betur, því sumrin urðu fjögur og lítið bólaði á Einari. Auk Önnu konu hans unnu þar Sigga Þórðar í Hrímni, Dilla Péturs á Nöf og Pálína Jóns Frímanns. Einhverju sinni fór of mikið salt í hakkið sem var notað í hamborgarana og um kvöldið rigndi hamborgurum inn um lúguna. Þeir komu svífandi utan úr myrkrinu ásamt spældu eggi og öðru meðlæti og lentu flestir á veggnum á bak við stelpurnar sem stóðu við afgreiðsluborðið. Eftir það kvöld mun þess hafa verið gætt að salta ekki um of.

Húsnæðið má þó muna sinn fífil öllu fegri en sést á myndinni og lengi var stórt skilti með mynd af “einni með öllu” uppi á þakbrúninni. Annar pylsuvagn var um tíma gerður út af Óskari Garíbalda og Anneyju konu hans. Við þann rekstur var notaður gamall sendibíll sem yfirleitt var staðsettur milli fiskbúðanna tveggja á torginu og rétt við pylsuvagn þeirra Einars og Sveins. Stundum þó í Lækjargötunni norðan við Hallasjoppu, líklega þegar böll voru á Höfninni. Afraksturinn fór að mestu til að fjármagna hljóðfærakaup fyrir tónskólann. Einhverju sinni mun Hlynur hafa ætlað að spara í innkaupum og fékk ærhausa hjá Óla Geir í Kjötbúðinni fyrir lítið, en mikið var selt af sviðum á þessum stöðum. Þeir þurftu lengri suðu og kjötið rýrnaði mikið utan á höfuðbeinunum. Afurðin var engu að síður ólseig og bálreiðir kaupendur grýttu vagninn með kjömmunum. Morguninn eftir sótti Stebbi lögga svo Hlyn til að þrífa planið við fiskbúðirnar, því þar lá gríðarlegt magn af sviðakjömmum á víð og dreif.

Sá þriðji var við Gránugötu milli gömlu slökkvistöðvarinnar og þar sem Iðja stendur núna, en þar afgreiddi Hafliði Guðmundsson kennari um tíma. Hann mun hafa málað glæsilega mynd af skipi á fullri ferð inn á höfnina á norðurhlið skúrsins. Ekki ber heimildum alveg saman um hver rekstraraðilinn var, en flest bendir þó til þess að það hafi verið Palli á Höfninni. Sagan segir að hann hafi haft “Lalla á Heiði” sér til halds og trausts, en sá maður var uppnefndur Haustrúningurinn vegna háralagsins. Lalli hafi verið eins konar útkastari, en þarna gátu menn sest inn, hellt upp á sig og spilað upp á peninga

Mynd úr Hattabúð Guðrúnar Rögnvalds. Afgreiðsludömurnar eru: Helga Guðmundsdóttir (Einarssonar), Guðrún og Hekla dóttir hennar og Ragnars skattstjóra.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Lítið hús sem stóð ofan við Fiskbúðina og hefur líklega verið númer 29, hýsti Bílastöðina. Eftir að hún var komin út á Túngötu opnaði Matti fiskbúð í húsinu og Dengi (Steingrímur sonur hans) tók síðar við rekstrinum. Þá rak Kristmar Ólafsson einnig lúgusjoppu í húsinu við lítinn fögnuð þeirra Thorarensenbræðra því í “hálfleik” versluðu bíógestir þar grimmt.
Hattabúð Guðrúnar Rögnvalds var í húsi sem stóð beint á móti þar sem Siglósport er núna. Í austurenda þess var Sumarliði skósmiður, en Hallasjoppa í hattabúðarplássinu eftir að Guðrún flutti upp á Túngötu.

Haugasund sem stóð á Torginu brennur.
Ljósmyndari ókunnur. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Að morgni 20. maí 1932 brann Haugasund til kaldra kola, en það var tveggja hæða timburhús sem stóð nokkurn vegin beint á móti þar sem nú er Pizza 67. Eldurinn kviknaði frá olíuvél, en verið var að bika gólf uppi í vesturendanum. Magnaðist eldurinn svo fljótt að húsið varð alelda á svipstundu, en fólk bjargaðist án þess slys hlytist af. Það var í eigu Hinriks Thorarensen læknis og Gunnars Bílddal. Í húsinu voru tvær sölubúðir og brunnu allar vörubirgðir.

Hótel Siglufjörður sem stóð fyrir neðan kirkjuna þar sem kirkjutröppurnar eru núna.
Ljósmyndari ókunnur. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Hótel Siglufjörður stóð uppi á túnblettinum þráðbeint upp af Aðalgötunni, eða u.þ.b. í miðjum tröppunum sem nú liggja upp að kirkjunni. Ekki veit ég hvort húsið hefur verið skráð við Túngötu, Suðurgötu, Aðalgötu eða Lindargötu, en það mun hafa verið rifið einhvern tíma um eða upp úr 1960.

Brúarfoss t.v.  Gestur Fanndal, gamla mjólkurbúðin og vefnaðarvötudeild KFS t.h.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Kaupfélagið rak vefnaðarvörudeild og skódeild að Suðurgötu 2 í húsinu sem var rifið líklega einhvern tíma upp úr 1990. Í húsi sem eitt sinn stóð fyrir sunnan það og var löngum kölluð gamla mjólkurbúðin, mun Áfengisverslunin upphaflega hafa verið. Þar var Bjarni Kjartansson verslunarstjóri, en hann var faðir Kjartans Bjarna fyrrverandi Sparisjóðsstjóra. Þegar sú búð flytur í núverandi húsnæði var mjólkurbúðin opnuð þar. Húsið var rifið 1962 eða 63, nýtt hús Kaupfélagsins var síðan byggt á lóðinni og verslun hófst þar í maí 1966. Á síðustu árum síðutogarans Hafliða var orðið erfitt að manna hann rétt eins og aðra slíka, og það kom “skammtur” af Hrauninu til Siglufjarðar sem fór beinustu leið um borð og svo var sleppt. En þegar túrinn var á enda og Hafliði lagstur að bryggju, gerðist bara akkúrat það sem allir vissu að myndi gerast. Hluti áhafnarinnar fór á blinda fyllerí og eðlishvöt Hraunaranna gerði vart við sig. Einn þeirra fór upp í Kaupfélag til Ebbu Skarp og Jóhönnu á annarri hæðinni og fékk að máta föt. Hann fór inn í mátunarklefann með sjö skyrtur, fernar buxur, gríðarlegt magn af nærfatnaði og ýmislegt fleira. Þegar hann kom út klefanum sagðist hann ekki ætla að kaupa neitt af þessu dóti, en átti í talsverðum erfiðleikum með að komast niður stigann því hann var bólstraður eins og Michelin maðurinn og göngulagið með undarlegra móti. Við stigaræturnar biðu þeir félagar Hjörtur Ármanns og Bjarni í Visnesi og buðust til að aðstoða við að afklæða þann bústna sem þáði hjálpina eins og ekkert væri eðlilegra.

Nýja kaupfélagshúsið að rísa.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

KFS sem var  stofnað 1929 varð svo gjaldþrota 1970. Eftir það opnaði KEA útibú sitt í húsnæðinu við misjafnlega mikinn fögnuð bæjarbúa. Valur Arnþórsson kaupfélgasstjóri sagði þó í viðtali við Dag þ. 01.11.1972 að það verið gert vegna óska fjölmargra Siglfirðinga og til að fylla það skarð sem KFS skildi eftir sig. Í dag er þar Samkaup-Úrval.

Veitingahúsið Brúarfoss stóð á torginu gegnt syðri hluta hússins þar sem nú er Samkaup. við Þar var einnig spilaður billiard og haldnir dansleikir.

Rakarastofa Jónasar var til húsa að Suðurgötu 6 um það leyti sem Gestur Fanndal kaupir eignina og flyst þangað með verslanir sínar, en Jónas flutti þá yfir í næsta hús sem var númer 8. Gestur byggði við húsið og jók vöruúrvalið. Það má segja að verslunin hafi verið þrískipt, þ.e. matvöruverslun syðst, vefnaðarvöruverslun í miðjubilinu og sporvörur og raftæki í nyrsta hlutanum. Hann var líka með umboð fyrir Das, Henson, Vörumarkaðinn, Bridgestone, Svein Egilsson hf. sem seldi Ford, sportvörur frá Fálkanum, seldi Toshiba frá Einar Farestveit & co, þvottavélina Öldu sem bæði þvoði og þurrkaði, Atari leikjatölvur og filmumóttöku svo eitthvað sé nefnt. Gestur var mikill áhugamaður um flugsamgöngur við Siglufjörð og var umboðsmaður Loftleiða, Flugsýnar, Vængja, Arnarflugs og Íslandsflugs. Þegar Gestur hætti að versla upp úr 1990, leigði Frímann Gústa hluta verslunaraðstöðunnar um tíma og Þórleifur Haraldssonvar var með ljósmyndavöruverslun í miðplássinu eftir aldamótin 2000. Nú má segja að sé fullskipað “hjá Gesti”, því KS. er í matvöruplássinu, Steini og Fanney reka videóleigu og söluturn í vefnaðarvörunni og Ásdís, Lóa og Sigga galleríið sitt í sportdeildinni.

Aðalgata norðan megin.

Veitinga og skemmtistaðurinn Gullfoss var rekinn í neðsta húsinu við götuna sem er númer 2, en það gerði Sigríður sem var eiginkona Dóra í Frón. Halldór Jónasson rak í samvinnu við Andrés Hafliða mág sinn, B-deildina að Aðalgötu 4, sem síðan hefur verið nýtt sem trésmíðaverkstæði, geymsla og þ.h. í áratugi. Þar var til húsa fyrsta sérverslunin í bænum sem var fatabúð. Það er haft eftir Önnu Láru Hertervig að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þarna voru seldar vandaðar og góðar vörur fyrr en hún fór sjálf  að reka verslun. Verðið var reyndar í samræmi við gæðin, því hún keypti þar eitt sinn kápu og hatt sem kostaði heil mánaðarlaun hennar á pósthúsinu þar sem hún vann á þeim tíma. Í næsta húsi fyrir ofan var rekin kjötbúð einhvern tíma fyrir miðja síðustu öld af Haraldi Hjálmarssyni og e.t.v. fleirum, en efnalaug um eða eftir 1960. Maðurinn á bak við hana hét Árni, var Akureyringur og auðvitað kallaður “to be” því hann var enskukennari í Gagganum um tíma.Eftir hann tók Pétur Þorsteinsson við efnalauginni. Verslunarplássið í kjallaranum stóð síðan lengi autt, eða allt þar til Margrét (Maddý) Þórðar verslaði þar á árabilinu 1986-1991 með tískufatnað, barnaföt, skó, skartgripi og snyrtivörur. 
Verslun Helga Hafliðasonar var í húsi númer 8, en það brann um 1930. Gert var við húsið og eftir það höfðu þeir Jón skóari og Halldór læknir aðstöðu þar árum saman. Þegar Kiwanismenn keyptu neðri hæðina, rifu þeir innan úr henni og gerðu upp. Þá sáust vel merki brunans í timburverkinu. 

Á neðstu hæð Hótel Hvanneyrar var Sparisjóður Siglufjarðar til húsa um árabil eftir að hann fluttist yfir götuna, eða allt þar til hann fluttist aftur og þá upp á Túngötu. Á horni Aðalgötu og Vetrarbrautar þar sem Gunnóla og Maggi búa núna, var áður járnsmíðaverkstæði sem brann. Eftir það var stórhýsið byggt sem hefur m.a. hýst Verslunarfélagið, Raflýsingu þeirra Sverris Sveins síðar rafveitustjóra og Þóri Björns bróðir Bigga Björns, en einnig Framsóknarflokkinn og VÍS.

Aðalgata 16, en í húsinu neðan við það var íbúð og járnsmíðaverkstæði. Það hús brann og og á lóðinni var byggt þriggja hæða hús með turni þar sem Maggi og Gunnóla búa núna.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Aðalgata 16 þar sem m.a. Kristján Sigtryggs og síðar Gunni Óðins hefur búið, var Verslun Páls S. Dalmars til húsa, en Fatadeild KFS (Kaupfélag Siglfirðinga var þar um tíma, eða nánar tiltekið árið 1945. Eftir það kom þar Hárgreiðslustofa Gróu Halldórsdóttur sem var systir Jónasar rakara og síðan Verslunin Ásgeir (Jónassonar) sem áður hafði verið einn af Verslunarfélagsmönnum. Þá opnaði Óli Tóra skóbúð og kona Hanna Sigurjóns sem bjó í næsta húsi var afgreisðslustúlka hjá honum. Síðan var þarna Bókabúð Hannesar Jónassonar í nokkur ár. 

Samkomu og veitingahúsið Borgarkaffi var rekið að Aðalgötu 18 í einhver ár fyrir 1960 og þar munu kostgangarar hafa verið í föstu fæði, en það varð eftir það aðsetur Alþýðuflokksins. Nú er þar vinnustofa og íbúð Bergþórs Mortens.

Aðalgatan á áttunda áratugnum. Hús númer 20 nær og 22 fjær síðan Pósthús, Aðalbúð o.s.frv.
Ljósmyndari ókunnur. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Gestur Fanndal var með matvöruverslun sína í Aðalgötu 20, en þegar hann flytur verslanir sínar upp í Suðurgötu, flytja Sófus Árnason og Sigurður sonur hans í plássið með Litlu búðina af Suðurgötunni.

Þá tók gjarnan “ilmandi” vindlalykt frá Sófusi á móti viðskiptavinunum en Siggi hafði þann vana að hafa á milli varanna sígarettu sem sjaldnast var kveikt í. Siggi Sófusar rak líka “Sjallann” við Grundargötu um svipað leyti og matreiddi frænka hans Silla á Steinaflötum m.a. hrefnukjöt svo lystilega að Rotarýmenn trúðu því að þeir hefðu verið að snæða nautakjöt. Þar var líka spilað bingó vikulega. Vinningarnir voru oftast eitthvað matarkyns s.s. rauðkál og grænar baunir úr Litlu búðinni. Næst tók Júlli Júll við með Föndurbúðina og Tómstundabúðina. Eftir að Júlli hætti, var þarna Verslunin Rafbær og síðan Ögn, þeirra Berþórs Atla og Guðrúnar Hjörleifs sem hafði áður verið á Grundargötu.

Siggi Sófusar afgreiðir Ágúst Einar Sæby sem er fyrsti viðskiptavinurinn í Litlu búðinni. Siggi gefur honum þarna krukku af neftóbaki.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Aðalgata 22 eða húsið hans Rúdda Sæby var einn þeirra staða sem Verslunarfélagið, eða Versló hafði viðdvöl á vegferð sinni upp eftir Aðalgötunni. Þarna var Ásgeir Jónasson ennþá inni í því  kompaníi, alla vega til að byrja með. Jóhann Stefánsson (dívana) rak síðan Eyrarbúðina í húsnæðinu í mörg ár áður en hann flutist yfir götuna. Eftir hann eru Rafbæingar eitthvern tíma þarna og síðan Ögn. Sú verslun hafði stækkað hratt, en hún hafði upphaflega verslað með leikföng og gjafavöru. En eftir því sem leið á bættust við blóm, sportvörur, hljómplötur, rafmagnsvörur og síðast leiktæki í spilakassaformi. Eftir að Ögnin leið, opnaði Elín Gestsdóttir verslunina Elínu í plássinu.
Húsið var svo rifið nokkru eftir að hún hætti.

Það var algengt að það myndaðist hálfgert önþveiti fyrir framan Aðalbúðina á kvöldin þegar dagblöðin komu. Þar sem ekki mátti hafa verslanir opnar á kvöldin, var útihurðin opnuð, borð með Mogganum sett fyrir dyraopið. Önnur blöð voru afgreidd utandyra.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Næst kom Pósthúsið, en hinum megin við Grundargötuna var Aðalbúðin sem Jósep Blöndal og/eða börn hans byggðu 1946. Á þeim tíma var ekki leyft að byggja við Aðalgötuna hús sem voru minna er þrjár hæðir, og Aðalbúðin átti upphaflega að verða stórhýsi með íbúð á efstu hæð og í risi, skrifstofum á miðhæð, verslun á jarðhæð og lager í kjallara. Heimildir herma að Síldarverksmiðjurnar hafi verið búnar að lofa að taka miðhæðina á leigu, en þegar þeir “sviku” það og fóru í Útvegabankahúsið, guggnuðu systinin á frekari framkvæmdum. Eftir að verslunarhæðin var risin, var því sett bráðabirgðaþak á hana og þannig er staðan enn 65 árum síðar. Þarna ráku systkinin Lárus, Óli, Bryndís og Anna, bókabúð með ýmsum hliðargreinum svo sem ritföngum, vefnaðarvöru, gjafavöru o.fl., en einnig öðru sem er svolítið skrýtið svona eftir á að hyggja í bókabúð, þ.e. gosi og sælgæti. Skömmu eftir að síldin hætti að láta sjá sig eða um 1970, var búðin minnkuð og sá hluti hennar sem vissi út af Grundargötunni hólfaður af. Þar var í nokkur ár sjoppa og blaðaafgreiðsla sem Matti Jóhanns rak. Birgir Steindórsson kaupir Aðalbúðina og einnig Bókabúð Hannesar Jónassonar, hann sameinar þær og eykur vöruúrvalið til muna. Eftir hann komu þarna ýmsir við sögu s.s. Hrafnhildur Hreinsdóttir og Guðrún Hauksdóttir, Júlíus Hraunberg, Jón Guðmundsson, Rafbæingar og núna heitir búðin SR-Aðalbúðin. Verslunin hefur ekki alltaf heitið alveg sama nafninu, vörulínur og áherslur hafa breyst í áranna rás, en í hugum flestra Siglfirðinga er þarna til húsa Aðalbúðin og ekkert annað.

Apótekið hjá Schiöth 1928 og Bíóið sem var byggt 1924 er næsta hús fyrir ofan.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Aage Riddermann Schiöth nýútskrifaður lyfsali og náfrændi Hinriks Thorarensen hóf rekstur Apóteks í gömlu húsi að Aðalgötu 28. Reksturinn gekk vel og árið 1930 var búið að flytja það af grunni sínum á baklóð og reisa nýtt glæsilegt hús á lóðinni.Gamla húsið öðlaðist þó nýtt hlutverk, því það hýsti Efnagerð Siglufjarðar, sem síðar fluttist til Akureyrar og varð að Efnagerð Akureyrar, eftir það Sana, sem enn síðar sameinaðist Sanitas. Á Siglufirði var m.a. framleiddur gosdrykkurinn Valash, sem varð geysivinsæll og seldist um tíma mun meira á Siglufirði og jafnvel víðar á norðurlandi en alheimsdrykkurinn kókakóla. Schiöth mun hafa verið veisluglaður maður og sagt er að ósjaldan hafi mátt heyra söng og glasaglaum út um opna gluggana á íbúð hans fyrir ofan Apótekið. 

Eitt sinn mun maður nokkur hafa verið á leið til vinnu sinnar snemma morguns og gengið niður Aðalgötuna. Heyrir hann þá að enn stendur yfir gleðskapur í húsi Apótekarans, en þó eru orðin nokkuð greinileg þreytumerki á þeim sem þar eru. Hann staldrar við og hlustar um stund, en þarna virðast tveir menn vera að reyna að syngja saman þekkt íslenskt sönglag af mikilli innlifun. Önnur röddin var björt og áferðarfalleg, en hin var dimm og all nokkuð drungaleg. Tenórinn var áberandi lagviss en sá dimmraddaði var víðs fjarri nokkurri laglínu og hljóðin sem hann gaf frá sér líktust mest drungalegu bauli. Daginn eftir fréttist að Davíð nokkur Stefánsson frá Fagraskógi hefði sótt Apótekarann heim og þeir hafi gert sér glaðan dag saman. 

Eftir daga Schiöth Kaupir Ingólfur Arnarson rafvirki húsið ásamt bakhúsinu og setur upp rafmagnsverkstæði. Fáum árum síðar eða 1976 opnar Anna Lára Diddabúð í stærri hluta verslunarhúsnæðisins og sá sem þetta ritar opnar fyrstu eiginlegu myndbandaleigu á Siglufirði í vestari hluta þess 1981.En myndbandaleigur spruttu upp eins og gorkúlur á næstu árum á eftir og urðu mest 6 á sama tíma, sem er ótrúlegt miðað við fólksfjölda. Eftir að myndbandaleigan var seld yfir í Nýja Bíó 1986, var í því plássi Happdrætti Háskólans, pítustaður Svenna Þorsteins, kosningaskrifstofa og pizzustaður Jóa Bjarna og Önnu Hermínu. Árið 1995 kaupir Jakob Kárason neðri hæðina og opnar Aðalbakarí sem er þar enn.

Bíóið og Bíóbúðin rétt fyrir 1930.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Tóri eða Hinrik Thorarensen sonur hjónanna Odds C. Thorarensen, lyfsala og konu hans, Önnu Clöru Schiöth, fluttist til bæjarins árið 1920 sem ungur læknir. Að sögn Óla sonar hans keypti hann þá strax Siglufjarðar-bio í Norðurgötunni, en aðrar heimildir segja að hann hafi ekki gert það. En hann byggði og opnaði Nýja-bíó við Aðalgötuna árið 1924.Hann rak þar bíóbúðina sem var blönduð verslun, keypti Hótel Siglunes sem síðar nefndist Hótel Höfn, rak söluturn efst í Aðalgötunni og annan neðst í sömu götu, svo og skóbúð og veitingastað, einnig lyfjabúð og söltunarstöð sem síðar var kennd við Fúsa Bald, hann hafði 1000 hænur í búi uppi í fjalli, en nokkuð af unghænum uppi á lofti í bíóinu.Þetta var á tímum þöglu myndanna og eflaust hafa hænsfuglarnir einhvern tíma gefið frá sér hljóð á hádramatískum augnablikum sem hafa fallið misvel að söguþræði myndanna.Hann rak líka prentsmiðju í áratug, en seldi hana Sigurjóni Sæmundssyni prentara. Tóri var með umboð fyrir Tóbakseinkasölu Ríkisins á árunum 1930-32, og sá þá Kristinn Guðmundsson sem þá var innan við tvítugt um bókhaldið. Hann byggði sér líka myndarlegt einbýlishús við Lækjargötu sem síðar var kallað Blöndalshúsið.

Bræðurnir Oddur og Ólafur Thorarensen tóku við rekstrinum af föður sínum, en síðan aðeins Oddur því Ólafur snéri sér alfarið að verslunarrekstrinum á Tórahorninu.

Um 1950 leigði Fúsi frá Bræðrá húsnæðið þar sem seinna var Bíóbarinn og opnaði þar verslun sem endaði með því þar kviknaði í. Það lagði mikinn reyk um húsið og Oddur hafði áhyggjur af kvikmyndafilmum sem voru í filmugeymslunni við sýningarklefann. Áhyggjur Odds voru ekki aðeins til komnar vegna mögulegrar sprengihættu sem þeim fylgdi, heldur ekkert síður vegna þess að kvikmyndirnar voru fimm, en aðeins þrjár þeirra voru tryggðar. Hann fékk Steingrím Kristins (Baddý í bíóinu) til að lóðsa mannskap upp og koma filmunum út. Á þessum tíma var gengið upp í sýningarklefann að norðanverðu úr sundinu milli sýningarsalarins og Valashgerðarinnar hjá Schiöth. Menn úr Slökkviliðinu bundu hann og Helga Sveins saman með stuttri taug og settu súrefnisgrímur á þá áður en þeir lögðu af stað inn í reykjarkófið. Þegar þeir voru komnir ofarlega í stigann kippti Helgi í spottann og vildi snúa við, en Steingrímur streittist á móti og hélt sínu striki. Aftur vildi Helgi snúa við en Steingrímur spyrnti þá við fótum og hálfdró hann á eftir sér.Þegar upp var komið steinleið yfir Helga en Steingrímur kom filmunum út um gluggann Aðalgötumegin. Við nánari athugun kom í ljós að ástæðan fyrir því að Helgi vildi snúa við var síður en svo einhver gunguskapur, heldur hafði gleymst að opna fyrir súrefnið á grímunni hans. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem reyndist ekki mikill, en reykurinn sem kom frá honum var hins vegar alveg gríðarlegur.

Oddur rak bíóið áratugum saman ásamt Guðrúnu konu sinni og sýndi þar allar helstu stórmyndir sem einhverju máli skiptu. Ef engin mynd var í húsi sem var ekki of mikið bönnuð til að verða sýnd á barnasýningu, var auglýst nokkuð sem bar yfirskriftina “Smámyndir og þættir”. Það var blanda af bútum úr kúrekamyndum, teiknimyndum, gömlum grínsketsum og fleiru þar sem flestir fengu eitthvað við sitt hæfi.Oddur rak um tíma Bíó Café, vinsælan, reykmettaðan bar á efri hæðinni. En á neðri hæðinni var Bíóbarinn þar sem hann seldi ís sem var landsþekktur vegna góða bragðsins.

Uppskriftin var mikið leyndarmál sem var geymd í Færeyjum, að sögn Odds. Á Bíóbarnum var oft mikið stuð á síldarárunum sem gaf mestu hasarsenunum í vestrunum vinsælu ekkert eftir.

Slegist með kjafti og klóm, jafnvel dregnir upp hnífar, skallað og spítalavinkir gefnir í allar áttir. Ég man eftir atviki fyrir framan útstillingargluggann á Bíóinu sem var alls ekkert fyndið þá, en virkar einhvern vegin allt öðruvísi í dag. Ég var varla meira en 10 ára gamall polli, á röltinu þarna um gangstéttina. Oddur var að hengja upp auglýsingu um mynd kvöldsins út í glugga og tvær gelgjur þess tíma fylgdust spenntar með. “Gvööööð! Það er danskur texti” andvarpaði önnur. “Og myndin er í lit” skríkti hin. Svo flissuðu þær báðar og ég skynjaði vel þótt ungur væri, að þær ætluðu alveg örugglega að kíkja á myndina fyrst hún var bæði með dönskum texta og í lit. – Og kannski líka aðeins á strákana svona rétt í leiðinni. Samkvæmt mínum útreikningum ættu þær að vera komnar eitthvað á sjötugsaldurinn í dag blessaðar stúlkurnar.

Steingrímur Kristinsson og fjölskylda kaupir Bíóið árið 1982 og reksturinn verður fjölþættari. Næstu ár á eftir er rekin þar sjoppa, myndbandaleiga, haldnir dansleikir o.fl., auk þess sem Bíó Café er endurvakið á efri hæðinni, en bíósýningar leggjast svo af 1999 vegna breyttra ytri skilyrða.

Tómas Óskarsson og Ásta Oddsdóttir ráku húsið um skeið og létu gera á því gríðarlega miklar endurbætur og breytingar. Næstu rekstraraðilar voru Brynjar Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir, þar á eftir Hulda Alfreðs og Didda Ragnars, síðan tóku við Friðfinnur Hauksson, Sigurbjörg Elíasdóttir, Ægir Bergsson og Hallfríður Hallsdóttir, en Haraldur Björnsson og Ólafía Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir (Lóa) eiga það og reka í dag.

Útstillingar og uppákomur í Kjötbúðinni tengdar jólunum eru goðsagnakenndar og allt að því ótrúlegar. Stundum þarf einfaldlega að sjá til að trúa, en þessi jólasveinn hét réttu nafni Þórður Jónsson, kallaður Þórður á stöðinni.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Húsið Aðalgata 32 var byggt árið 1929 af þá nýstofnuðu Kaupfélagi Siglfirðinga (KFS) í samvinnu við Kjötbúð Samvinnufélags Fljótamanna og Kaupfélags Fellshrepps. Kjötbúðin var í Aðalgötu 32b og þar starfaði sannkallað einvalalið s.s. Ragnar Jóhannesson (síðar skattstjóri), Gottskálk Rögnvaldsson, Haraldur Hjálmarsson, Eldjárn Magnússon, Erlendur Pálsson, Óli Geir, Aðalheiður Rögnvalds og fleiri. Eftir daga hennar var þar til húsa Bókabúð Hannesar Jónassonar, Álfhóll, Matvörubúð Konna Bald, Verslunin Torgið, Rafbær og síðast Siglósport.

Kaupfélagið og Kjötbúðin um eða upp úr 1960.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Í vesturenda hússins eða Aðalgötu 32 var svo KFS í meira en þrjátíu ár. Eftir að það flutti upp á Suðurgötu, ráku Þórður og Bjarki byggingavöruverslunina Einco í húsnæðinu. 

Kristján Möller opnaði þar síðan verslunina Siglósport ásamt Oddnýju konu sinni, Lóu Kristjáns og Sigga Rikka, en seldu Guðna Sveins og Helgu Sigurbjörns hana um það leyti sem Kristján var kjörinn á þing. Guðni og Helga ráku hana í nokkur ár, en seldu aftur Helgu Freys og Gunnari Odds sem eru núverandi eigendur og keyptu Verslunarfélagið.

Þeir sennilega mjög svo fátíðu hlutir gerðust síðan, að verslanirnar Rafbær og Siglósport höfðu vistaskipti. Rafbær flutti þó starfsemi sína fljótlega yfir í “bakhluta” hússins og nafnið umbreyttist í Raffó þegar Alli keypti, en Tómas Óskarsson opnaði Pizza 67 í plássinu, rak í tiltölulega stuttan tíma og seldi síðan Erlu Gunnlaugsdóttir og Ásgeiri Sölvasyni.

Guðmundur Davíðsson og Karl Eskill Pálsson við opnun Álfhóls.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Þá er aðeins eftir að nefna stærsta húsið við Aðalgötuna norðan megin, sem er númer 34. Útvegsbankinn sameinaðist Verslunarbanka, Alþýðubanka og Iðnaðarbanka árið 1990 og varð að Íslandsbanka, en rekstur Íslandsbanka á Siglufirði var síðan selt Sparisjóði Siglufjarðar sem flutti sig þá yfir götuna.

Áður en þetta mikla hús var byggt (það var vígt árið 1946), stóðu á lóðinni turnarnir hans Tóra. Það var einhvern vegin tvískipt hús, með tveim turnum og þar voru tvö búðarpláss. Í öðru þeirra rak Aðalbjörn gullsmiður verslun sína og verkstæði, en í hinu rak Rósa í turninum veitingasölu fyrir Hinrik Thorarensen.Útvegsbankinn sem var til húsa í Grundargötunni, ásældist þessa góðu lóð og Tóri sem var bissnessmaður fram í fingurgóma nýtti sér samningsaðstöðu sína og fékk lóðina greidda með vesturhluta jarðhæðar hins nýja stórhýsis.Turnana seldi hann síðan til flutnings, þeir voru hlutaðir í sundur og a.m.k. annar hlutinn var færður á lóð við Vetrarbraut austan barnaskólans. Hann fyllti verslunarplássið af vörum og gaf síðan Óla syni sínum. Óli stóð sig mjög vel með tískuvörur og það var alveg óþarfi að fara suður til að kaupa þær. Útsölurnar hjá Óla voru líka frægar. Þá var oft handagangur í öskjunni og vildu margir ná í góðar vörur á góðu verði. Þegar sá sem þetta ritar hitti Óla að máli á árinu 2005 sagði hann svo frá.

“Ég leit þá svona í kring um mig og sá að það voru heildsalarnir sem voru að græða mest. Ég ákvað því að gerast minn eigin heildsali og fór alltaf sjálfur út til að gera innkaupin. Þá gat ég lagt almennilega á vörurnar en samt verið mjög ódýr. Ég efnaðist alveg þokkalega, en þegar ég var 62 ára, seldi ég allt mitt og fór út í heim. Ég dvaldi m.a. á Kanarí, Indlandi, í Afríku og Californiu. Ég eyddi öllu á 25 árum og er innilega þakklátur Siglfirðingum fyrir að gera mér þetta mögulegt. Ég hef lifað skemmtilegu lífi og langar mest til að halda því áfram næstu 20-30 árin.”

Óli hvarf á braut um tíma og Anna Lára leigði Tórahornið frá 1966 til 1976, en þá flutti hún niður á Aðalgötu 28 og opnaði þar Diddabúð. Óli kom aftur, opnaði skóbúð í hluta húsnæðisins og leigði Þorgeiri Reynis litla plássið sem Ægir rakari hafði verið í undir myndbandaleigu. Óli seldi síðan Kalla Páls rekstur skóverslunarinnar, Útvegsbankanum húsnæðið og flutti til sólarlanda. En núna er sem sagt Sparisjóðurinn kominn á Tórahornið og Apótekið þar sem Útvegsbankinn var áður.

Túngata 1 sem hýsti m.a. verslun Önnu Láru og Fiskbúð Togga.
Ljósmyndari ókunnur. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Fiskbúðin hans Togga (Þorgríms) á Túngötu 1 var önnur tveggja slíkra meðan hún var í rekstri. Fyrir norðan húsið var skúr þar sem Toggi hélt áfram að höndla í með kjöt og fisk eftir að Ingibjörg kona hans fór að selja vefnaðarvöru o.þ.h. inni í búðarplássinu. Þau flytja úr bænum og opna Tösku og Hanskabúðina á Skólavörðustígnum. Gyða Jóhanns kaupir þá Túngötuna og rekur hana í eitt ár, en selur hana eftir það Önnu Láru og Didda.Í þeirra tíð fengust m.a. hin geysivinsælu bítlabindi eða lakkrísbindi sem voru toppurinn á tilverunni í algleymi Bíltaæðisins. Skúrinn fyrir norðan húsið var samt ekki úr sögunni því þar seldi Diddi pylsur og annan sjoppuvarning. Svo var keypt stór rafmagnsplata, til varð svolítill vísir að grilli og heitar kótilettur seldust í tonnatali á Diddabar eins og staðurinn var kallaður. Fljótlega var þó opnað á milli búðarinnar og sjoppunnar sem var í framhaldinu breytt í herradeild.

Þegar húsið og verslunin var keypt, var ekki til króna upp í kaupverðið sem var 200 þús., því Diddi og Anna voru nýbúin að byggja íbúðarhúsið suður á Laugarvegi. Enga peninga var að hafa á Siglufirði og því var slegið lán suður í Reykjavík. Ekki löngu síðar fengu þau hjónin 200 þús. vinning Í Happdrætti Háskólans. Að sögn Önnu var það í eina skiptið sem þau unnu eitthvað í happdrætti og þessi óvænti glaðningur var auðvitað notaður til að greiða upp lánið.

En lengra komumst við ekki að að sinni. Það má þó vera öllum sem til þekkja alveg ljóst, að fjölmörg stykki vantar í söguna sem er eins og risastórt púsl sem erfitt verur að ljúka við að koma saman. Svo til allar hinar göturnar eru eftir og þar gerðist líka margt. Nöfn margra verslana og eigenda þeirra er bæði lítt eða ekki getið vegna skorts á heimildum. Þá eru ótalin þau fjölmörgu fyrirtæki sem stunduðu inn og útflutningsverslun af ýmsum toga, fyrirtæki sem aldrei voru nafngreind á skrautletruðum skiltum sem hengd voru yfir krambúðardyr.En hér hefur þó verið litið um öxl, yfir sviðið þar sem stórkostlegur sjónleikur var leikinn af miklum krafti allt til enda. Upphafið var óvænt, ris hans varð mikið, hann fékk á vissan hátt harmrænan endi. Vísbending í þá áttina er að íbúafjöldinn í dag er svipaður og hann var árið 1923. Samt dregur fortíðarþráin þau okkar sem bæði sáum og upplifðum, alltaf aftur og aftur á þessar sömu slóðir. Við verðum fjarræn í fasi og fáum blik í auga þegar hugurinn hvarflar til stórfengleikans. Við finnum ylinn, stoltið og gleðina fylla sálarkirnuna vegna þess hver við erum og hvert rætur okkar liggja.En sagan var reyndar ekki öll, því það hófst annar þáttur leikritsins. Þar rís bærinn hægt og hægt upp úr hinum efnahagslegu rústum sínum, þó ekki sé það á þriðja degi. Uppbyggingin hefur tekið langan tíma, hún stendur enn og vonandi hættir hún aldrei. Þetta er saga frá einum merkilegasta bæ í heimi. Siglufirði, þar sem veruleikinn varð eitt sinn að risastóru ævintýri og ævintýrið að ótrúlegum veruleika.

Leó R. Ólason.

Heimildaskrá: Anna Lára Hertervig, Arna Rut Gunnlaugsdóttir, Benedikt Sigurðsson, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Jón Andrjes Hinriksson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóna Möller, Margrét Þórðardóttir, Ólafur Thorarinsen, Sigurður Fanndal, Sigurður Hafliðason, Steingrímur  Kristinsson, Sveinn Björnsson, Valgeir Sigurðsson. Brauðstrit og Barátta – Benedikt Sigurðsson, Frá Hvanndölum til Úlfsdala –Sigurjón Sigtryggsson, Siglfirskur annáll – Þ. Ragnar Jónasson, – Siglufjörður 1818-1918-1988, Svartur sjór af síld – Birgir Sigurðsson, Svipmyndir úr Síldarbæ – Örlygur Kristfinnsson, Viðtal við Andrés Hafliðason sem birtist í bókinni Siglufjarðarkirkja 1932-1982 – (Höfundur ókunnur). Sksiglo.is, snokur.is.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og margar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.