Nú þegar árið er senn á enda, þykir mér ekki úr vegi að horfa aðeins um öxl og líta yfir þann farna veg sem nú er talsvert langt að baki. Ekki þó að líta til þess sem gerðist markverðast á árinu sem var að líða því það gera svo margir aðrir, heldur skulum við hverfa aftur um hálfa öld og sex árum betur.

Hugur okkar mannanna er nefnilega bæði feyskinn og forgengilegur og því er ekki úr vegi að þeir sem muna svo langt aftur, ylji sér yfir þessari upprifjun og leyfi fortíðarþránni að blossa. Og kannski vilja líka þeir sem yngri eru einnig fræðast um þessa atburði sem áttu sér stað og persónur sem gengu um göturnar í bænum okkar skömmu eftir miðja síðustu öld. – Þetta var árið 1964 þegar sá sem þennan pistil tók saman varð 9 ára.

Í janúarblaði Siglfirðings segir frá starfslokum Tedda sem allir eldri Siglfirðingar muna eflaust vel eftir og minnast með mikilli hlýju.

“Theódór Ágústsson, sem hefur um 30 ára skeið séð um flutning sorps frá húsum, lét af störfum um síðustu áramót. Þennan starfa hefur Theódór leyst vel með miklum ágætum. Fyrir um 30 árum voru úti-vanhús við öll íbúðarhús hér í bæ og var það ekkert þrifaverk að hreinsa þau. Öll tæki sem notuð voru til að flytja skarnið frá húsunum voru mjög léleg og ófullnægjandi. En þegar Theódór tók við þessu starfi, kom hann sér upp fullkomnari tækjum, vatnsheldum kerrum og kassasleðum til vetrarnotkunar. Þá var ekki farið að tala um bíla, en fallega og vel fóðraða klára átti Theódór, til að draga ökutækin. Seinni hluta þessa tímabils komst sú breyting á, að vatnsalerni voru sett í íbúðarhúsin, og þá létti mikið á sorphreinsaranum. En með vaxandi notkun rafmagns og olíu til upphitunar í húsum, óx alls konar drasl og úrgangur í húsunum, sem áður hafði að mestu verið brennt í kolaofnunum. Vildi þá við brenna, að safnað var draslinu í hauga við húsin, og af því varð mikill óþrifnaður. Theódór beitti sér mjög fyrir því að húseigendur fengju sér ílát til að geyma sorpið í, þar til það yrði tekið. Á þessu tímabili, sem Theódór hefur séð um sorphreinsunina, hefur hann sýnt mikla reglusemi í sínu starfi. Hefur aldrei þurft að kvarta yfir að hann sýndi þar tómlæti og skeytingarleysi. Má hann gjarnan líta með ánægju yfir liðið starfstímabil. Hefur það verið mjög mikils virði fyrir bæjarfélagið að hafa svona dyggan og reglusaman mann við þetta þýðingarmikla starf. Væri ekki úr vegi, og ætti mjög vel við, að bæjarstjórn sýndi honum einhvern sóma fyrir vel unnin störf í þágu bæjarins í þessi 30 ár.

Bæjarbúi”.

Siglfirðingur segir einnig frá tunnuverksmiðjubrunanum á Siglufirði í janúarblaði sínu.

“Að kveldi miðvikudags, 8. jan. kom upp eldur í Tunnuverksmiðju ríkisins hér á staðnum. Varð hann slökktur nokkru síðar að því haldið var, en brunavakt þó haldin í verksmiðjunni. Nokkru eftir miðnætti gýs svo eldurinn aftur upp með sprengingu og kom það vaktmönnum í verksmiðjunni gjörsamlega á óvart. Mætti þá slökkvilðið aftur og barðist það við eldinn innan dyra allt til morguns, eða þar til slökkvilíðsmenn héldust ekki lengur við inni í húsinu, og stóð sú barátta allan næsta dag og fram á kvöld, m.a. við að verja næstu hús. Verksmiðjan brann til kaldra kola og er gjörónýt. 40 verkamenn störfuðu við verksmiðjuna og var því fyrirsjáanlegt mikið vinnutap hjá viðkomandi mönnum, sem flestir eru fjölskyldufeður, og var ekki á bætandi eftir lélegt síldarsumar og nýlega afstaðið verkfall.

Þegar þetta er ritað, er helst í ráði ef fært reynist, að koma á tveim vöktum í Akureyrarverksmiðjunni og færu þá hinir atvinnulausu starfsmenn verksmiðjunnar hér, þangað til starfa. Hvort úr þessu verður vill blaðið ekkert fullyrða á þessu stígi málsins.

Verksmiðjan, vélar og timburbirgðir, sem voru venju minni í upphafi starfsárs, var tryggt fyrir rúmar 12 milljónir kr. Rannsókn á orsökum bruna þessa stendur nú yfir”.

Myndin sýnir hvernig hinn nýi Strákavegur er fyrirhugaður inn í og um Siglufjarðarbæ, en hún fylgdi hinu nýjavegalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þegar það var lagt fram á Alþingi.

Tilkynnt var í janúarmánuði að Bæjarstjórn Siglufjarðar hefði gert verksamning við Jarðborunardeild um tilraunaborun eftir heitu vatni í Skútudal og verður samkvæmt henni hafist handa strax í vor.

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þ. 14. jan. skýrði Jóhann G. Möller frá tildrögum þess, að sala SIGLO-síldar til Austur-Þýzkalands væri nú komin á dagskrá, en það mál komst á rekspöl í viðræðum sem Þóroddur Guðmundsson mun hafa átt við austur-þýzka verzlunarfulltrúann í Reykjavík skömmu fyrir sl. áramót. Munu Austur-Þjóðverjar vera til viðræðu um kaup á allmiklu magni af niðurlagðri síld, að því tilskildu að þeir fái einnig keypt nokkurt magn af síldarmjöli, og að keyptar verði af þeim vörur í staðinn.

Að umræðum loknum var samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum eftirfarandi tillaga sem var flutt af bæjarfulltrúum Alþýðubandalagsins og Bjarna Jóhannssyni.

“Bæjarstjórn Siglufjarðar skorar á stjórn S. R. að kanna þann þá möguleika sem nú er talinn á sölu niðurlagðrar síldar frá Siglo-verksmiðjunni til Austur-Þýzkalands og að freista allra möguleika til að tryggja til frambúðar þann markað fyrir svo mikið magn sem mögulegt er af

framleiðsluvörum verksmiðjunnar”.

Tillagan var samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum en Jóhann G. Möller sem átti sæti í stjórn S. R., greiddi ekki atkvæði en lýsti sig samþykkan henni.

Árnað heilla í janúarblaði Siglfirðings.

Sunnudaginn, 19. jan. 1964 verða gefin saman í hjónaband af séra Ragnari Fjalari Lárussyni, ungfrú Guðný Jónasdóttir og Jónmundur Hilmarsson. Nýlega voru gefin saman í hjónaband, af séra Ragnari Fjalari Lárussyni, Sigrún Stefánsdóttir og Ástvaldur Kristjánsson, Hólavegi 11., ungfrú Birgit Henriksen, Aðalgötu 2, og Jón Sæmundur Sigurjónsson Suðurgötu 16. Einnig ungfrú Hjördís Aðalsteinsdóttir og Arnar Ólafsson, Eyrargötu 4.

Nýlega hafa opinberað trúlofun sína ungfrú Sigrún Friðriksdóttir, Túngötu 40 og Frímann Ingimundarson Túngötu 36.

22. jan. sl. voru liðin 40 ár frá því Karlakórinn Vísir var formlega stofnaður. Aðalhvatamaður að stofnun Vísis og fyrsti stjórnandi var Halldór Hávarðarson. Söngstjórar eftir hann hafa verið Tryggvi Kristinsson, Þormóður Eyjólfsson, sem var stjórnandi í samfellt 24 ár, Haukur Guðlaugsson Frá árinu 1955 hafði kórinn ekki fastan söngstjóra fyrr en 1963 að Gerhard Schmidt var ráðinn, en Gerhard kom til Siglufjarðar haustið 1961.

Í tilefni afmælisins var haldinn afmæliskonsert í Nýja bíó fyrir troðfullu húsi og við ágætar undirtektir áheyrenda. Áður en konsertinn hófst, flutti Jóhann Jóhannsson skólastjóri hátíðarávarp og kórinn söng “Ég vil elska mitt land”.

Á söngskrá voru íslensk og erlend lög, þar á meðal eitt eftir söngstjórann, Gerhard Schmidt, og hafði hann einnig raddsett um helming laganna á söngskránni og einsöngvarar voru þeir Sigurjón Sæmundsson.

Við flutning seinni hluta söngskrárinnar naut kórinn aðstoðar kvennakórs og hljómsveitar, sem skipuð var Lúðrasveit Siglufjarðar og tónlistarnemendum á fiðlur, flautu og saxófóna. Einnig léku þeir Ragnar Páll Einarsson og Þórhallur Þorláksson með í tveim lögum á gítar og harmonikku.

Bæjarútgerðin hafði gengið illa um árabil og nú var brugðið á það ráð að auka hlutafé hennar og fjölga hluthöfum.

Vísir hélt síðan söngskemmtun í Ólafsfirði laugard. 2. maí ásamt kvennakór og hljómsveitarfólki við ágæta aðsókn og undirtektir og flutti Póstbáturinn Drangur fólkið fram og til baka.

Þann 30. jan. sagði Neisti (hér að ofan) frá því að Æskan væri á leið til suðurlands og að Ísafold hefði hætt starfsemi en Einherji (greinin fyrir neðan) frá framkvæmdastjóraskiptum Rauðku.

31. jan. segir Mjölnir frá því að ríkisstjórnin telji að ekki verði hjá því komist að hækka söluskattinn (sem var forveri virðisaukaskattsins) úr þremur prósentum í sex en ekki fimm eins og áður hafi verið áformað.

Mjölnir segir líka frá því þ. 14. febr. Að frést hafi að stærsti liður verklegra framkvæmda á vegum bæjarsjóðs Siglufjarðar á fjárhagsárinu 1964 verði ryðskröpun Búkollu, en kaup hennar munu hafa verið mjög umdeild.

Skondin og kannski svolítið neyðarleg leiðrétting sem birtist í sama blaði og fréttin um  að sækjast eftir að Landsbankinn opnaði útibú á Siglufirði.

Snorri Pálsson.

F. á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. febr. 1840, d. 13. febr. 1883. For.: Páll Jónsson (f. 27. ágúst 1812, d. 8. des. 1889) síðast prestur í Viðvík og 1. k. h. Kristín Þorsteinsdóttir (f. 20. júlí 1810, d. 14. maí 1866) húsmóðir. Bróðir Kristínar 1. k. Einars B. Guðmundssonar alþm. K. (22. sept. 1865) Margrét Ólafsdóttir (f. 30. júlí 1839, d. 17. júní 1926) húsmóðir. For.: Ólafur Gottskálksson og k. h. Kristín Sveinsdóttir. Börn: Eggert (1866), Kristín (1867), Sigurlaug (1869), Páll (1870), Ólafur (1873), Einar (1875), Gamalíel (1879).

Verslunarmaður á Skagaströnd og Hofsósi. Verslunarstjóri á Siglufirði frá 1864 til æviloka. Var brautryðjandi um síldveiðar í nót og niðursuðu matvæla ásamt Einari B. Guðmundssyni á Hraunum mági sínum. Var alþm. Eyfirðinga 1874-1880.

Nú um þessar mundir eru eitthundrað ár liðin síðan hingað fluttist rúmlega tvítugur maður og tók við faktorsembættinu við Siglufjarðarverzlunina. Þessi maður var Snorri Pálsson. Hann starfar hér í rúm 19 ár. Það getur ekki talizt langur tími í ævi eins byggðarlags, en þó eru sporin, sem hann skilur eftir hér, dýpri og greinilegri en flestra, ef ef ekki allra annarra. “Sigurður á Balaskarði, sem var vinnumaður hans um tíma, gefur okkur í bók sinni, allgóða innsýn í daglegt líf hér í Siglufirði fyrir 90 árum. Eitt vorið vofði hungurdauði yfir sem oftar, hafþök af ís fyrir öllu Norðurlandi. Þá er það Snorri sem telur kjark í menn. Hann hafði veitt því athygli, að smáufsi gengur inn á fjörðinn á hverju vori, og treysti því að svo muni enn verða. Hann lætur vinnumenn sína draga fyrir dag eftir dag við sandinn innan á eyrinni og eitt kvöldið er heppnin með. Þá fæst talsvert af smáufsa í nótina. Hann lætur skipta veiðinni jafnt milli allra heimila í Siglufirði. Þessi framkoma lýsir Snorra vel, í fyrsta lagi þorir hann að treysta á reynslu sína og dómgreind, og jafnframt lítur hann svo á, að í raun og veru séu allir Siglfirðingar ein fjölskylda, sem á að standa saman í blíðu og stríðu. Enda framkvæmir hann öll sín mörgu baráttu og áhugamál með því að virkja mátt samvinnu og samtaka.

Hann lýsir því fyrir Sigurði að hyggilegra sé fyrir útvegsmenn að eiga hluti í fleiri en einu skipi heldur en að vera hver með sitt skip, því þá sé áhættan minni, þótt tjón verði”.

Þannig hefst greinin í marsblaði NEISTA þar sem þess er minnst árið 1964 að 100 ár eru liðin síðan Snorri Pálsson fluttist til bæjarins, sem þýðir auðvitað að núna hljóta þau að vera orðin 156. Lítið hefur farið fyrir umfjöllun um þennan merka mann í allt of langan tíma, en hann á það svo sannarlega ekki skilið af okkur Siglfirðingum að nafn hans falli í gleymsku og dá.

Sjá: http://www.sild.is/ahugavert/greinar/fyrsti-sildarsaltandinn—snorri-palsson/  

Í marsmánuði segir Mjölnir frá sýningu Leikfélags Siglufjarðar á “Á útleið” eftir enska höfundinn Sutton Vane. Skrifin verða þó að teljast gagnrýni, en enginn ritar þó undir þau.

“Leikfélag Siglufjarðar hefur að undanförnu sýnt sjónleikinn “Á útleið” sem er þekktasta verk þessa höfundar, enda er hér tekið til meðferðar sígilt efni á sérstæðan og skemmtilegan hátt. Meðferðin á þessu leikriti er Leikfélagi Siglufjarðar til mesta sóma, í heild séð er verkið vel af hendi leyst og hvergi hleypur snurða á þráðinn; leikendur eru samtaka hópur. Lengst á sviðinu er Sigurður Geirsson í hlutverki Priors. Þetta er ekki auðvelt hlutverk, en Sigurður kemst vel frá því. Bezt gengur honum að túlka mestu geðshræringuna hjá manninum, helzt væri hægt að finna að honum í fyrsta þætti, meðan hann ekki er í alltof mikilli geðshræringu.

Næst kemur á sviðið frú Banks, nei, afsakið, frú Cliveden-Banks, ensk yfirstéttarkelling, sem ekki á sinn líka á Íslandi. Þess vegna er heldur ekkert auðvelt að túlka hana, hennar orðfæri og hegðun stafar ekki af venjulegu monti, frekju og hroka, heldur koma þarna fram eiginleikar, sem okkur eru mjög framandi og engin furða þótt Ása Þórarinsdóttir eigi fullt í fangi með túlkunina. Friðrik Stefánsson leikur séra Duke af prestlegri hlýju. Greinilegt var, að handarmein háði Friðriki í leiknum, en samt er leikur hans mjög þokkalegur. Þórarinn Hjálmarsson sýnir það, að hann er einn af okkar traustustu leikurum og skilar sínu hlutverki prýðilega. Beztur er hann samt í fyrsta þætti, og skemmtilega skilar hann lokaorðum þess þáttar. “Villingana”, leika Magðalena Jóhannesdóttir og Ingimar Þorláksson. Magðalena leikur sitt hlutverk vel og skörulega að venju, Ingimar sýnir líka góðan leik, en málfar háir honum nokkuð. Kristín Baldvinsdóttir lék frú Midget milt og móðurlega. Í leik hennar var hvergi veikur punktur, henni tekst að gera eðlilegan stíganda í leikinn og þannig verður síðasta senan jafnframt sú bezta. Eiríkur J. B. Eiríksson leikur Lingley, fjármálamann, frá Lingley & Co. með takmarkaðri ábyrgð. Lingley er harður maður og þarf hressilega túlkun, sem hann og fær hjá Eiríki. En það þarf góðan leikara til að láta svona rnann bugast jafntrúlega og Eiríki tekst. Ekki má gleyma rannsóknardómaranum, sem Guðmundi Bjarnasyni tekst vel að túlka. Á bak við alla leikendur sjá um við hinn reynda leikstjóra, Ragnhildi Steingrímsdóttur, þótt hvergi komi hún fram á sviðinu. Að baki svona sýningu liggur mikil vinna og fórnfús, ekki aðeins leikaranna, sem þó leggja líklega mest af mörkum, heldur og líka fjölmargra aðstoðarmanna. Leikfélag Siglufjarðar á því miklar þakkir skildar fyrir að hressa upp á hversdagsleikann hjá okkur með svona sýningu. En okkur finnst það vera of mikið tómlæti, að ekki skuli hver ferðafær maður fara og njóta þessarar skemmtunar, og sýna þar með að það sé metið sem vel er gert”.

Innri-höfnin.

Mun betur gengur nú að dýpka innrihöfnina heldur en fyrripartinn í vetur. Er óhætt að fullyrða að áhöfnin á Leó hefir sýnt mikla þolinmæði og þrautseigju þó ekki gengi sem bezt, en sem sagt, verkinu miðar sýnu betur nú.

Rafveitan.

Nýlega var undirritaður nýr samningur milli rafmagnsveitna ríkisins og Rafveitu Siglufjarðar um raforkusölu til Ólafsfjarðar og Fljóta. Er hinn nýi samningur mun hagstæðari þeim sem áður gilti. Tryggvi Sigurbjarnarson rafveitustjóri, og Áki Jakobsson lögfr., önnuðust samningsgerð fyrir Rafveitu Siglufjarðar.

Róðrar.

Einungis 3 stærri bátar hafa róið héðan upp á síðkastið: Hringur, Strákur og Hjalti. Afli hefur verið misjafn.

Grjótkvörnin.

Starfsmenn Rauðku hafa unnið að því í vetur að endurmýja og gera upp hina miklu grjótkvörn, sem keypt var á sl. ári. Er gripurinn sem nýr eftir aðgerðina, og mun hún ekki hafa kostað mikla peninga. Afköst munu vera um 50 tonn á klst., og harpar hún mulninginn sjálf í 3 stærðir.

Sunna h.f.

er að endurbyggja bryggjuhús sitt og einnig bryggju undir húsinu. S.R.

Allmargir starfsmenn SR. fóru nýlega austur til Seyðisfjarðar og munu þeir annast bryggjusmíði þar fyrir SR. Verkstjóri er Páll Jónsson.

Baldur Eiríksson

tók við starfi hinn 1. marz, sem forstjóri hins nýja Útgerðarfélags Siglufjarðar h.f.

Tunnuverksmiðja ríkisins

hefur nú óskað eftir tilboðum í að rífa og fjarlægja Tunnuverksmiðjurústina. Teikningar af nýrri verksmiðju eru fullgerðar, og hafa verið lagðar fyrir bæjarráð. Rfkh. Steinbergss. hefur gert þær.

Byggingafulltrúi

hefir nýlega lokið við tillögur að nýju skipulagi fyrir suðurbæinn. Tillögurnar eru athyglisverðar, og hafa þær verið sendar skipulagsstjóra.

Skíðamót

hélt Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg, laugardaginn og. sunnudaginn sl. Mótið var haldið í Skarðsdal. Veður var gott.

Mjólkurslagur.

Eftir komu Drangs frá Akureyri, tvisvar í viku, má sjá biðraðir við mjólkurbúðirnar í bænum. Það er staðreynd, að flöskumjólkin er svo miklu betri vara en brúsamjólk frá Sauðárakróki, að menn vilja mikið á sig leggja til að ná í hana.

K.F.S.

Allt bendir til að KFS geti ekki í bráð haldið áfram smíði verzlunarhúss síns við Ráðhústorg. Loforð sem félaginu voru gefin um lán munu hafa verið svikin.

Hafnarkraninn

svonefndi hefir verið settur á heljarmikinn dráttarbíl sem bærinn keypti í fyrra.  Undanfarna daga hefir kraninn unnið við grjótnám og hefur hann og bíllinn reynst mjög vel.

Leikstarfsemi.

Þrjú leikrit hafa verið sýnd hér í vetur. Tvö af skólanemendum og nú síðast “Á útieið”, eftir Subton Vane, sem leikfélagið sýndi. Leikfélagið fór nú um helgina til Sauðárkróks með leikinn.

Höfnin.

Skipakomur hafa verið fáar upp á síðkastíð.

Ráðsmaður.

Starf ráðsmanns við Sjúkrahús Siglufjarðar hefir verið auglýst laust til umsóknar.

Fiskþurrkun.

Henriksenbræður eru að koma fyrir fiskþurrkunartækjum í bryggjuhúsi sínu.

Niðurlagningaverksmiðja SR

tók að sér að flaka síld úr 900 tunnum fyrir Svein Benediktsson.

Gatnagerð.

Vegna þess hve tíð var stirð í fyrrahaust var ekki hægt að ljúka við ýmsar framkvæmdir, sem bærinn hafði á prjónunum. Nú hefur aftur á móti viðrað svo vel, að unnið er að því að lengja Fossveginn í norður, og einnig er verið að koma fyrir holræsum í Hólaveg og Eyrargötu.

Skarðsvegurinn.

Þórhallur Björnsson sem staddur er í Reykjavík, fékk tvo menn til þess að fara upp í Siglufjarðarskarð til þess að kanna, hvort mikið verk væri að ryðja snjó af veginum. Mennirnir töldu verkið taka a.m.k. 4-5 sólarhringa. Mun nú vera í athugun, hvort í þetta verður ráðizt.

Bæjarstjóri

upplýsti á síðasta bæjarstjórnarfundi, að a.m.k. 12 íbúðir myndu verða í smíðum hér á þessu ári.

Árshátíð Gagnfræðaskóla Siglufjarðar

verður haldin n.k. laugardag. Samkvæmt áreiðanlegum heimildarmönnum í IV. bekk, er álitið að til hennar þurfi 600 brauðsneiðar, 450 pönnukökur, 300 smákökur, og 50 tertur. Eftir þessu er búist við allmiklum mannfjölda þar sem ekki þarf nema 2 brauð og 5 fiska til að metta 5000 manns.

Steypuvinna.

Það þykir tíðindum sæta, að á þessum árstíma skuli vera unnið að því að steypa hús hér í Siglufirði. Í gær var verið að steypa upp kjallara íbúðarhúss Stefáns Þór Haraldssonar. 

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg, mun ætla að senda 23 keppendur á landsmót skíðamanna, sem verður á Ísafirði um páskana.

Afmæli

75 ára 4. marz, Hallgrímur Jónsson, Hólavegi 14.

70 ára 6. marz, Skafti Stefánsson, Nöf.

70 ára 12. marz, Gunnlaugur Guðjónsson, Reykjavík.

Einherji segir frá fuglatalningu í marsblaðinu sem kennarinn Guðbrandur Magnússon stóð fyrir og hefur að öllum líkindum líklega verið árviss.

Fýll 1 

Dílaskarfur 5

Hávella 114

Æðarfugl 250

Tjaldur 1

Sendlingur 4

Svartbakur og hvítmávur 700

Bjartmáfur 8

Rita 20

Haftyrðill 6

Langvía 3

Teista 6

Hrafn 10

Snjótittlingur 106

Talningin var gerð meðfram sjónum, frá Staðarhóli, austan fjarðarins, og út Landsenda, vestan fjarðarins. Hiti var 2 stig, þykkt loft og þoka á fjöllum. Norðaustlæg átt, 2-3 vindstig. Gekk á með lítils háttar éljum einkum milli kl. 10 og 11, og var þá vont skyggni. Mikill jafnfallinn snjór var á jörðu, og snjóaði mest 2. jóladag og aðfaranótt hans. Ár og lækir voru undir snjó. Gangfæri vont. Með mér í talningunni voru þrír ungir menn, sem allir eru sérlega glöggir og þekkja vel fugla. Margt af fuglunum þekktum við í sjónaukum, sem við höfðum meðferðis.

Siglufirði, 29. des. 1963.

Guðbrandur Magnússon.

3. apríl sagði Mjölnir frá því að á annan páskadag var opnuð í Æskulýðsheimilinu sýning á munum sem unglingar hafa unnið að í tómstundum al. vetur. Margt mjög vel gerðra muna og mynda var á sýningu þessari og gaf þar að líta ágætt sýnishorn of árangri þeirra leiðbeininga, sem þar hafa farið fram á vegum Æskulýðsráðs.

Allmargir gestir voru viðstaddir opnun sýningarinnar og voru þar fluttar nokkrar ræður og fimm unglingar lásu upp úr verkum Tómasar Guðmundssonar og Davíðs Stefánssonar. Júlíus Júlíusson er forstöðumaður Æskulýðsheimilisins, en leiðbeinendur við tómstundagreinarnar hafa verið þau Margrét Hallsdóttir, Jóhannes Þórðarson og Ragnar Páll Einarsson.

Hann hét Aage Boyum Johansen og var fæddur í Aabenraa á Suður-Jótlandi en fluttist til Íslands um eða strax eftir seinna stríð. Hann var menntaður mjólkurfræðingur ytra en vann lengst af sem kafari og gerði út dýpkunarskipið Björninn ásamt félaga sínum Birni Þórðarsyni um árabil. Gaman væri að fá upplýsingar um hvort hann kom e.t.v. upphaflega til Siglufjarðar til að vinna við Hólsbúið. Johansen eins og hann var oftast kallaður lést þ. 9. júní árið 1994.

Happdrætti DAS var stofnað árið 1954 og fór fyrsti útdráttur fram í júlí það ár. Dregnar voru út 6 bifreiðar af þeim 9 sem fluttar voru inn til landsins í það sinn, en á þessum tíma voru margskonar viðskiptahöft, boð og bönn í gildi sökum gjaldeyrisskorts. Svo voru miðarnir prentaðir í fánalitunum. Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti landsins, tók við fyrsta miðanum sem seinna skilaði honum plötuspilara í vinning.

Á fyrstu árunum voru vinningarnir af mörgu tagi s.s. glæsibifreiðar, góðhestar, trillur, landbúnaðartæki, farmiðar til utanlandsferða og seinna komu raðhús og einbýlishús. Fyrsta DAS-húsið var dregið út árið 1956, íbúð í raðhúsi við Ásgarð í Reykjavík að verðmæti 350.000 krónur.

Húsin voru sýnd almenningi og reyndust sýningarnar svo vinsælar að takmarka þurfti aðgang sumar helgar. Þetta voru merkilegar sýningar að því leyti að húsin voru sýnd fullbúin með nýjustu húsgögnum og vönduðum innréttingum. Þarna var því kjörið tækifæri til að sjá hvað var í tísku. Á veggjum voru oftast myndverk eftir Atla Már (hönnuð Ópal pakkans). Auglýsingin hér að ofan tilheyrir aprílúrdrætti hjá DAS.

Pólitíkin hefur löngum tekið á sig flestar mögulegar myndir og ein þeirra birtist í Siglfirðingi föstudaginn 10. apríl í bundnu máli unir fyrirsögninni. “Okkar skáld á atómöld”

Þ. 10 apríl var Siglufjarðarskarð opnað og hélst opið í heila 20 tíma. Allmargir Siglfirðingar höfðu lagt leið sína til Sauðárkróks á Sæluvikuna en komust fæstir akandi til baka. Þegar skarðið lokaðist vegna snarprar norðanáttar og hríðarbyls, vildi ekki betur til en svo en að nokkrir bílar festust þá í snjónum og var lík í einum þeirra sem flytja átti til Skagafjarðar. Daginn eftir var gerður út leiðangur og líkið borið yfir til Fljóta og mun það hafa verið hin mesta mannraun.

Mjölnir segir frá því í maí að tveir ungir Siglfirðingar hafi lokið fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, þeir Hjalti Björnsson Einarssonar og Arngrímur Jónsson Guðjónssonar. Ennfremur þrír burtfluttir Siglfirðingar búsettir í Vestmannaeyjum fiskimannaprófi frá sama skóla. Það munu hafa verið þeir Steingrímur Arnar og bræðurnir Steingrímur Dalmann og Þórður Rafn Sigurðssynir Jakobssonar frá Dalabæ.

Mjölnir segir einnig frá því að “Gestur Fanndal hefur að undanförnu verið að breyta rækilega innréttingu og fyrirkomulagi á verzlun sinni. Vaxandi umsetning hjá Gesti, einkanlega í kjötvörum, samhliða tilkomu nýrrar tækni í matvörusölu, er þess valdandi, að hann flytur matvöruna suðurhluta verzlunarinnar, sem er rúmbetri. Mun þar verða margt lystugt að fá, bæði súrt og frosið. Þar verða líka á boðstólum djúpfrystir óvextir og grænmeti, en Gestur er frumkvöðull að verzlun með slíkt lostæti í Siglufirði”.

Verslun Gests Fanndal varð 30 ára árið 1964.

Siglfirskir skíðakappar árið 1964: Gísli Kjartans, Ási Ingólfs, Bjarni Þorgeirs, Jón Þorsteins, Jonni Vilbergs, Hreinn Júll og Reynir Sigurðsson. Myndin er tekin í Hvanneyrarskálinni og er úr safni Jonna Vilbergs.

Skarðsmótið var að venju haldið um Hvítasunnuna og voru þátttakendur alls 71, eða fleiri en nokkru sinni áður. Mótið fór fram í ágætis veðri og mesta athygli vakti tvöfaldur sigur Sigríðar Júlíusdóttur í svigi og stórsvigi kvenna.

Úrslit í svigi karla urðu sem hér segir:

1. ( 3) Samúel Gústafsson, Í

2. (39) Reynir Brynjólfss. A

3. (37) Ásgrímur Ingólfss., S

4. ( 9) Ivar Sigmundsson, A

5. (34) Jóhann Vilbergsson, S

6. (28) Kristinn Benediktss., Í

Aðeins tvær af fimm keppendum luku keppni í svigi kvenna og varð Sigríður Júlíusdóttir frá Siglufirði fyrst á tímanum 41.6 + 44.9 = 86.5 sek. Önnur varð Kristín Þorgeirsdóttir, einnig frá Siglufirði á tímanum 39.8 + 86.6 = 126.4 sek.

Íslandsmeistarinn, Árdís Þórðardóttir varð úr leik, en hinar tvær luku ekki keppni.

Úrslit í stórsvigi karla urðu sem hér segir:

1. Jóhann Vilbergss. S. 88.3

2. Kristinn Benediktsson í 90.4

3. Svanberg ÞórSarson Ó 96.4

4. Hafsteinn SigurSsson Í 96.5

5. Hjálmar Stefánsson S. 97.6

6. Björn Þór Ólafsson Ó. 100.8

Í stórsvigi kvenna varð Sigríður Júlíusdóttir S. fyrst á tímanum 76.4 sek., önnur varð Árdís Þórðardóttir, S., á tímanum 78.5 sek., og þriðja varð Karolína Guðmundsdóttir, R., á tímanum 79.8 sek. Kristín Þorgeirsdóttir hafði rennt sér á mjög góðum tíma en datt illa rétt við markið og lenti því í fjórða sæti.

Í karlaflokki í alpatvíkeppni urðu úrslit þessi:

1. Jóhann Vilbergss. S. 6.01

2. Krist. Benediktss. Í 9.69

3. Reynir Brynjólfs. A 19.36

4. Ívar Sigmundss. A 19.87

Í svigi unglinga 12-14 ára voru keppendur 9, þar af 5 frá Siglufirði.

Úrslit urðu þau, að fyrstur varð Eyþór Haraldsson, R., á tímanum 28.5 + 27.0 = 55.5

sek. Annar varð Tómas Jónsson R. á tímanum 28.5 + 27.6  = 56.1 sek. Og þriðji varð Kristján Bjarnason, S., á tímanum 35.0 + 31.5 = 66.5 sek.

Bæjarstjórn Siglufjarðar kom saman til fundar 12. júní sl. eftir rúmlega mánaðar fundahlé og var því ýmsum mál á að liðka raddböndin, enda óspart gert að vanda. Einn bæjarfulltrúinn krotaði á blað undir orðaflóðinu:

Hér er mikið málaþref,

mitt er lúið eyra.

Sofna mun ég sjálfsagt ef,

sungið verður meira.

Haldið var upp á þjóðhátíðardaginn 17 júní að venju, en undirbúningur hafði þá staðið yfir um nokkurt skeið. Að honum stóð meðal annars sérstök hátíðanefnd sem í voru fjórir menn, tilnefndir hver af sínum stjórnmálaflokki og sá fimmti af bæjarstjórn. Þessir menn sátu í nefndinni: Af hálfu Sjálfstæðisflokksins Halldór Kristinsson, héraðslæknir, og var hann formaður nefndarinnar, af hálfu Framsóknarflokksins, Guðmundur Hannesson bæjarfógeti; af hálfu Alþýðuflokksins, Erlendur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri; af hálfu Sósélistaflokksins Þóroddur Guðmundsson, alþingismaður; og af hálfu bæjarstjórnar Þormóður Eyjólfsson, ræðismaður.

Siglfirðingur segir frá því í júníblaðinu að laugardaginn 20. júní verði haldið tvíburabrúðkaup á Siglufirði. Þá muni verða gefin saman í hjónaband af sr. Ragnari Fjalar Lárussyni, ungfrú Þórleif Alexandersdóttir Hlíðarvegi 31, og Daníel Baldursson,Suðurgötu 65. Einnig ungfrú Kristin Baldursdóttir Suðurgötu 65, og Jóhannes Friðriksson Hvanneyrarbraut 74.

Ný verzlun! – Tómstundabúðin h.f.

Ný verzlun hefur nýlega tekið til starfa hér. Er það Tómstundabúðin, sem er til húsa í Aðalgötu 20, þar sem áður var “Litla Búðin”. Hlutafélag stendur að verzluninni og er Júlíus Júlíusson forstöðumaður búðarinnar. Þarna eru á boðstólum alls konar tómstundavörur, veiðiáhöld, ljósmyndavörur og frímerkjavörur, að ógleymdum fiskum og fiskabúrum, með öllu tilheyrandi.

Einherji 30 júní 1964.

6. júlí kom Siglfirðingur SI-150 sem var fyrsti skuttogari íslendinga til Siglufjarðar. Hann var smíðaður í Noregi 280 tonn og í eigu samnefnds hlutafélags. Áhöfnin var 13 manns, allt Siglfirðingar. Ætlunin er að skipið haldi strax á síldveiðar fyrir norðurlandi.

Skipstjóri á Siglfirðingi SI-150 verður Páll Gestsson, 1. stýrimaður Axel Schiöth, og 1. vélstjóri Agnar Þór Haraldsson, allt ungir Siglfirðingar. Framkvæmdastjóri Siglfirðings h.f. er Eyþór Hallsson. Framangreindir aðilar ásamt Kaupfélagi Siglfirðinga, eru og helstu hluthafar þessa fyrirtækis.

Í sama blaði og sagt var frá aðalfundi Slysavarnarfélagsins VÖRN þar sem Þórhalla Hjálmarsdóttir flutti frumort kvæði, var frétt um að boranir eftir heitu vatni í Skútudal væru hafnar.

Mjölnir segir frá því að “mánudaginn 17. ágúst var haldin í Sjómannaheimilinu á Siglufirði ráðstefna hernámsandstæðinga á Siglufirði. Formaður héraðsnefndar, Hlöðver Sigurðsson setti fundinn og tilnefndi Benedikt Sigurðsson kennara sem fundarstjóra. Því næst flutti Gunnar Rafn Sigurbjörnsson yfirgripsmikið og skörulegt ávarp. Þá flutti Hlöðver Sigurðsson stutt ávarp, en því næst sagði Hjörtur Guðmundsson kennari í Reykjavík fréttir frá síðustu Keflavíkurgöngu og lét fylgja nokkur hvatningarorð. Þá var kosið í héraðsnefnd og hlutu kosningu: Hlöðver Sigurðsson skólastjóri, Anna Magnúsdóttir frú, Trausti Árnason gagnfræðaskólakennari, Guðmundur Jónasson forstjóri og Gunnar Rafn Sigurbjörnsson stud. mag. Varamenn voru kosnir: Guðrún Albertsdóttir frú og Kristján Sigtryggsson smiður. Var héraðsnefnd falið, að skipuleggja, ef hægt væri hópferð á landsfund hernámsandstæðinga,sem haldinn verður um fyrstu helgina í september að Skjólbrekku í Mývatnssveit. Hernámsandstæðingar eru nú um þessar mundir að skipuleggja samtök sín og undirbúa landsfundinn, sem nú í fyrsta skipti verður haldinn norðanlands. Að lokum sátu menn nokkra stund yfir kaffi og röbbuðu saman. Ríkti mikill einhugur og áhugi á fundinum”.

Í sama blaði er góðlátleg en þó svolítið kaldhæðnisleg grein um björgunarafrek bæjarstjóra.

22. ágúst snjóaði talsvert í fjöll og féll þá snjóflóð í Siglufjarðarskarði og lokaði veginum, enda var snjóþykktin þar u.þ.b. þrjár mannhæðir.

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þ. 27. ágúst lagði Alþýðubandalagið fram eftirfarandi tillögu:

“Bæjarstjórn samþykkir að láta hefja þegar í haust byggingu útgerðarhúsnæðis við Innrihöfnina. Skal þar vera beitingarpláss, veiðarfærageymslur, kæld línugeymsla og rými fyrir fisksöltun og lítinn þurrkunarklefa. Skal stærðin miðuð við, að þetta húsnæði nægi tveim stórum línubátum og 6-8 smærri bátum”.

Í septemberblaði Einherja sagði frá tillögu sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi um athugun á byggingu skipasmíðastöðvar á Siglufirði.

A fundi sínun þ. 27. ágúst sl. samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar eftirfarandi tillögu:

“Bæjarstjórn samþykkir að láta nú þegar fara fram undirbúningsathuganir á byggingu skipasmíðastöðvar í Siglufirði, sem byggt gæti allt að 400 lesta stálskip, og dráttarbraut er gæti veitt skipum af sömu stærð viðgerðir og aðra venjulega þjónustu.

Um miðjan sept. strandaði stór borgarísjaki 7-8 sjómílur úti fyrir Siglufirði, 20-40 metra hár og 100-150 metra breiður. Mun hann hafa sést vel frá bænum þar sem hann bar yfir Siglunesið og leit út eins og hvít eyja.

Lið K.S. sem vann Norðurlandsmeistaratitilinn 1964

Þ. 27. sept. urðu KS-ingar Norðurlandsmeistarar í knattspyrnu. Í úrslitaleiknum keppti liðið við Þór frá Akureyri á Akureyrarvelli og vann með þremur mörkum gegn einu.

17. okt. er sagt frá því í Vísi að lokið sé við endurbyggingu og stækkun hafnarbryggjunnar, en vinna við hana hófst á árinu 1957. Bryggjan sé nú um 7.000 fermetrar að flatarmáli og því ein af stærstu bryggjum landsins.

20. okt. er sagt frá því í Mjölni að um nýliðna helgi hafi verið lokið við að slá upp bitum fyrir palli nýju brúarinnar yfir Hólsána og ganga frá járnalögnum. Sé nú beðið eftir steypuveðri, en kalt hafi verið í síðustu viku. A. m. k. hálfur mánuður til þrjár vikur munu síðan líða frá því að brúin verður steypt og þar til umferð verður leyfð um hana.

Minnkandi síldveiði og að sama skapi vaxandi atvinnuleysi var til þess að litið var í ýmsar áttir eftir hugmyndum sem leitt gætu til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu.

Mjölnir segir frá því 13. nóv. að Gestur Fanndal kaupmaður hafi samið um það við Vestanflug, þ. e. eiganda Ísafjarðarflugvélarinnar að hafið verði reglubundið flug til Siglufjarðar og hún fljúgi hingað a. m. k. einu sinni í viku þegar flugfært verður hingað í vetur. Hefur hann farið þess á leit við bæjarstjórn, að hún láti moka flugvöllinn á föstudagsmorgnum þegar þess gerist þörf. Samkvæmt upplýsingum Gests getur flugvél þessi flutt hingað 5 farþega í hverri ferð, ásamt farangri, en til baka fjóra farþega og farangur eða flutning. Mun hún flytja hingað póst, grænmeti, banana o. fl. eftir því

sem til fellur. Með því að flytja þessar vörur á þennan hátt, yrði t. d. grænmeti og ávextir 2 kr. ódýrara pr. kg. en að kaupa á þær flugfragt til Akureyrar og flytja þær þaðan með Drang. Vörurnar yrðu betri, og rýrnun yrði engin. Hjá farþegum mundi sparast heill dagur, miðað við að fljúga til Akureyrar og sigla síðan með Póstbátnum Drang til Siglufjarðar.

14. nóv. var nýtt bókasafnshús vígt á neðstu hæð fyrirhugaðs ráðhúss Siglufjarðar. Bæjarstjórinn Sigurjón Sæmundsson afhenti stjórn safnsins húsnæðið þá til fullrar afnota og var bókasafnið þar með komið í eigið húsnæði í fyrsta sinn eftir að hafa verið víða til húsa frá stofnun þess.

Á myndinni hér að ofan eru þeir sem tóku fyrstu skóflustunguna af Ráðhúsi Siglufjarðar.

Auglýsingin hér að ofan birtist í Einherja 25. nóv. þar sem reglur um útivist barna og unglinga voru skýrðar þannig að ekkert færi á milli mála hvenær átti að koma inn í háttinn, en eflaust hafa þær verið teygðar og togaðar til árið 1964 eftir þörfum og smekk rétt eins og gert er í dag. 

28. September var öllum starfsmönnum bæjarins sagt upp í hagræðingarskyni en endurráðnir aftur núna í nóvember upp á sömu kjör.

Og desember gekk í garð, jólin nálguðust, verslanir bæjarins fóru að auglýsa jólavarninginn og auðvitað að senda bæjarbúum jólakveðjurnar.

Á þessum tíma eru umboðsmenn Olíufélagsins Skeljungs hf. Eyþór Hallsson og Olíufélags Íslands hf. eða BP. Andrés Hafliðason. Um jólin eiga líka allir að vera vinir og þessir heiðursmenn sýndu það með því að auglýsa í Mjölni þrátt fyrir að vera staðsettir allt annars staðar í pólitíkinni.

Og það er að sjálfsögðu í Mjölni sem síðan er svona rauðlituð.

Einherji birtir mynd af Steingrími Lillendal þar sem hann vinnur að setningu jólablaðsins í Siglufjarðarprentsmiðju, en hann var þá við nám þá hjá Sigurjóni bæjarstjóra

Það er svo auðvitað við hæfi að rifja það upp í desembermánuði að Sigurjón mun hafa haft 12 lærisveina meðan hann rak prentsmiðjuna, en þeir eru í öfugri tímaröð: Sigurjón Ingvarsson, Birgir Ingimarsson, Gunnar Trausti, Magnús Hilmarsson, Árni Jörgensen, Karl Lillendal, Steingrímur Lillendal, Ottó Guðlaugsson og Sigurður Þorkelsson.

En því miður vantar þrjú nöfn á listann sem gaman væri að bæta inn á hann ef einhver hefur upplýsingar um hver þau eru.

Neisti sagði m.a. frá málverkasýningu ungs og efnilegs Siglfirðings í jólablaði sínu.

Siglfirðingur skartaði þessari fallegu jólamynd á forsíðunni, en því miður var hvergi neitt að finna í blaðinu um hver var höfundur hennar. Nokkuð ljóst þykir þó að það muni vera Ragnar Páll.

Heimildir: Siglfirskur annáll Þ. Ragnars Jónassonar, Morgunblaðið, Vísir, Alþýðublaðið, Siglufjarðarbókin, Siglfirðingur, Einherji, siglo.is, althingi.is 

Ljósmyndir: Ljósmyndasafn Siglufjarðar, Steingrímur Kristinsson (tunnuverksmiðjan brennur), Leó R. Ólason (ein mynd – togarinn Siglfirðingur við Hafnarbryggju).

Úr einkasafni Jóhanns Vilbergssonar (Siglfirskir skíðakappar í Hvanneyrarskál).

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.