Hollvinasamtök Kvíabekkjarkirkju hafa staðið í stórhuga aðgerðum að undanförnu við að endurbyggja kirkjuna.

Í gær var kirkjan hífð upp af grunninum og færð til tímabundið á meðan steyptur verður nýr grunnur undir kirkjuna.

Hópur sjálfboðaliða hefur staðið í ströngu að undanförnu við þetta metnaðarfulla verk og í gær létu þau ekki veðrið aftra sér frá því að hífa upp kirkjuna, slydda og vatnsveður var á Norðurlandi eins og myndirnar sem Kamilla Ragnarsdóttir tók bera með sér.

Þeir sem vilja gerast hollvinur Kvíabrekkukirkju geta lagt inn 2000 krónur á reikning 0348-13-400007, kt. 661120-1850.

Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju stendur í stórræðum

Saga kirkjunnar:

Kvíabekkur er landnámsjörð Ólafs bekks er nam Ólafsfjörð og er talið að bændakirkja hafi risið þar fljótlega eftir kristnitöku og prestaspítali laust fyrir árið 1330.

Kirkjan, sem nú stendur, var byggð 1892. Árið 1889 var reist þar vegleg kirkja en hún fauk af grunni í illviðri 1892.

Söfnuðurinn var fátækur en engu að síður var önnur kirkja reist strax úr viðun hinnar foknu. Hún er lágreistari og mjórri en hin fyrri. Ólafsfjarðarkirkja var byggð úr steinsteypu árið 1915 og þá lagðist þjónusta af á Kvíabekk. Ekki voru allir sáttir við þá þróun og kirkjan var endurbætt verulega og síðan var hún endurvígð 29. júní 1958. Þórður Jónsson, bóndi frá Þóroddsstöðum, gaf kirkjunni skírnarsá, sem hann smíðaði sjálfur.

Kirkjan var stækkuð til vesturs árið 1969, þar sem skrúðhúsið og stigi upp á söngloft er nú. Samtímis var smíðaður nýr turn. Kirkjan var plastklædd 1975 og máluð að innan 1977. Það verk annaðist Kristinn G. Jóhannsson, skólastjóri og listamaður. Hann málaði líka nýja altaristöflu með sérstæðu sniði. Hún sýnir störfin á Ólafsfirði til sjávar og sveita, skipið og túnið annars vegar og hins vegar kirkjurnar í byggðinni og fyrir miðju er Jesús, sem tengir allt saman.

Við síðari endurnýjun um 1974 var upprunaleg 8” standandi borðaklæðning fjarlægð enda fúin í gegn að norðan og austan. Þá voru burðarviðir sem til náðist endurnýjaðir, kirkjan einangruð og klædd með núverandi plastklæðningu sem var hugsuð til bráðabirgða, loftar vel og ver kirkjuna vel fyrir ágangi vatns. Þrátt fyrir ytri breytingar er kirkjan að mestu upprunaleg að innan, skrúðhús bættist við og stigi upp á söngloft við stækkun 1958. Kirkjan var máluð innan eftir endur-bæturnar 1974 og reynt að hafa litaval sem upprunalegast.

Heimild: Kirkjukort.net

Myndir/ Kamilla Ragnarsdóttir