Skiptar skoðanir eru meðal íbúa Fjallabyggðar vegna tillögu Markaðs- og menningarnefndar um safnið.

Nefndin leggur til að fyrirtæki og stofnanir í Fjallabyggð geti fengið leigð listaverk úr Listasafni Fjallabyggðar til ákveðins tíma.

Nefndin samþykkir drög að útlánareglum sem taka m.a. til ábyrgðar lántaka og kostnaðar við útlán. Útlánareglum vísað til umfjöllunar og samþykktar í bæjarráði.

Listasafn Fjallabyggðar telur á annað hundrað verk. Safneignin er bæði vönduð og fjölbreytt og spannar gróskumikið skeið íslenskrar myndlistarsögu frá 1930 – 1979.

Upphaf safnsins má rekja til þess að Þann 16. júní 1980 færðu hjónin Arngrímur og Bergþóra Siglfirðingum höfðinglega gjöf, alls 124 listaverk eftir okkar þekktustu listamenn. Með gjöfinni vildu Arngrímur og Bergþóra sýna Siglfirðingum í verki þakklæti fyrir stuðning sem þeir veittu foreldrum Arngríms á erfiðleikatímum eftir að þau brugðu búi í Fljótum vegna heilsubrests föður hans og fluttust til Siglufjarðar. Málverkasafn þeirra hjóna var talið vera eitt vandaðasta og fjölbreyttasta listaverkasafn í einkaeign hér á landi.

Arngrímur var fæddur að Höfn í Austur- Fljótum, 23. nóvember 1912, sonur hjónanna Ingimundar Sigurðssonar og Jóhönnu Arngrímsdóttur. Bergþóra var fædd í Reykjavík 29. október 1913, dóttir hjónanna Jóels Sumarliða Þorleifssonar og Sigríðar Kristjánsdóttur. Arngrímur og Bergþóra giftu sig 1904 og bjuggu í Reykjavík upp frá því. Þau hjónin keyptu verslunina Vörðuna árið 1958 sem var kunn fyrir sölu barnavagna. Bergþóra lést 25. mars 1995 og Arngrímur 16. apríl 2009.

Í safninu má meðal annars finna verk eftir Kjarval, Erró, Salvador Dali og og fjölmarga aðra listamenn.

Athugasemdir hafa verið á þá leið að fremur ætti að gera safnið aðgengilegra og bjóða upp á sýningahald, setja það í forgang fremur en að leiga verkin út til fyrirtæka og stofnana, þar sem almenningur hefur takmarkaðan aðgang að þeim.

Borist hefur ábending til Trölla.is að verkin ættu að vera aðgengileg í rafrænu formi, þar ætti að sýna myndir af öllum listaverkunum. Sjá vefsíðu safnsins: Hér

Einnig er upplýsingum um safnið á vefnum Sarp, sem er vefur um menningarsögulegt gagnasafn, mjög ábótavant. Sjá: Hér.

Miðað við umræðuna sem er í gangi um safnið og þau skoðanaskipti, er ljóst að íbúar Fallabyggðar eiga þarna menningarleg auðæfi sem þarf að huga vel að.


Mynd: Listasafn Fjallabyggðar