Mikil umræða skapaðist í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og meðal bæjarbúa Siglufjarðar þegar Valgeir Sigurðsson lokaði af aðkeyrslu Björgunarsveitarinnar Stráka á Siglufirði þann 8. september. Varð það til þess að saga þurfti niður vegg til norðurs svo að sveitin gæti athafnað sig og brugðist við útköllum.

Sjá frétt: BJÖRGUNARSVEITIN STRÁKAR ÓVIRK VEGNA NÁGRANNAERJA

Trölli.is fékk í morgun senda yfirlýsingu frá Valgeiri Sigurðssyni vegna málsins, sem sjá má hér að neðan.

Yfirlýsing vegna deilumála

Til þeirra er málið varðar.

Undanfarið hafa verið troðnar illsakir í minn garð í nokkrum fjölmiðlum þessa lands og svo einnig í netheimum. Illdeilur þessar hafa verið vegna lóðar minnar að Tjarnargötu 16, Siglufirði.

Það skal strax tekið fram að fyrir mér hefur aldrei vakið að hefta aðgengi Björgunarsveitarinnar Stráka að tækjageymslu sinni við Tjarnargötu í Siglufirði, enda ber ég mikla virðingu fyrir þeirra starfsemi og dugnaði félaga en þegar ýmsir opinberir aðilar og einkaaðilar, Neyðarlínan, Míla,  Síminn, Vodafone o.fl. nota lóð mína sem aðgengi að framkvæmdum sem þeir standa að á lóð Björgunarsveitarinnar að mér forspurðum, segi ég stopp.  Lámarks kurteisi er að spyrja leyfis hjá land- og eða lóðareigendum áður en vaðið er yfir eignir fólks.

Þegar Björgunarsveitin Strákar byggir sitt geymsluhúsnæði, merkt bátaskýli, á lóð sinni að Tjarnargötu 18 árið 1995 geri ég ráð fyrir að aðgengi að húsinu hafi átta að vera að austanverðu, sjávarmegin, enda engin aðkoma að húsinu annarstaðar frá,  því húsið er byggt því sem næst á lóðarmörkum að sunnan og engin aðkoma þaðan frá. Lítið pláss er sunnan við eldra húsnæði sveitarinnar og ekki akfært.  Þegar ég kaupi eignina sem stendur á lóðinni Tjarnargata 16, var sú eign kvaðalaus og engir samningar til um aðgengi Björgunarsveitarinnar um þá lóð að sínum eignum á næstu lóð við hliðina.  Sveitin hefur þó notað þá aðkomu í gegnum árin án þess að spyrja leyfis þar um eða gera um það samninga. Til merkis um framansagt er stór hurð á gafli “bátaskýlisins” að austanverðu sem hefur sjálfsagt verið hugsuð til umgengni þegar húsið er byggt, enda á skipulagi gert ráð fyrir götu sjávarmegin framan lóða okkar.

Að framansögðu er ekki á nokkurn hátt hægt að stimpla mig sem “ljóta karlinn” þó slegið hafi í brýnu nú varðandi lóðaaðgengi.  Eignaréttur er eignaréttur og hann ber að virða.  Ég skil vel að samúðin sé Björgunarsveitar megin enda málið lagt þannig upp að ég væri að hefta starsemi þeirrar sveitar.  En eins og sagt hefur verið er hús þeirra byggt án aðkomu, nema að austan, enda hús á Tjarnargötu 20 líka byggð á lóðarmörkum að sunnan. 

Ég vona að þetta upphlaup verð til að endanleg lausn fáist á aðgengi sveitarinnar að eignum sínum.  Vonandi hefur sveitin einhvern fjárhagslegan ávinning að tilkomu aukinnar starfsemi á lóð þeirra til styrktar starfseminni.

Nú hyllir undir áframhaldandi tökur á sjónvarpsþáttunum “Ófærð” og sjálfsagt verður lögreglustöðin á sínum stað.  Vona að sveitin hafi einhvern ávinning af því.  Ég hef við tökur á fyrri þáttum aðeins verið beðinn um að taka niður fánann, því í blæstri truflaði hljóðið í honum hljóð myndarinnar.   Kvikmyndagerðarmenn eru velkomnir.

Með vinsemd og virðingu
Valgeir Tómas Sigurðsson