Siglufjörður hefur ætíð verið þekktur fyrir sitt frábæra bæjarskipulag sem Séra Bjarni Þorsteinsson er upphafsmaður af.

Maður sér metnað og framtíðartrú í stóru torgi og Aðalgötu með risastórri kirkju í öðrum endanum.
Einhverskonar “Manhattan” götuskipulag einkennir eyrina og skapar einstaklega skemmtilega stemmingu með alvöru miðbæ, sem er eitthvað sem ekki er til í mörgum öðrum bæjarfélögum af svipaðri stærðargráðu.

Aðalgatan og Torgið á Siglufirði 1956.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Mynd frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

En á eyrinni eru líka hús sem pössuðu ekki alveg inn í þessa heildarmynd og standa á ská við götuna eða á milli gatna. Líklega vegna þess að þau stóðu þarna áður en Séra Bjarni tók málið í sínar hendur.

Þessi greinarsería fjallar nú reyndar ekki svo mikið um skipulagið á eyrinni, heldur meira um furðulegar götur sem eru í tveimur og þremur hlutum upp í fjalli, byrja, slitna og byrja aftur og það er ekkert einfalt fyrir ókunnuga að finna þessar slitnu götur.

En Siglfirðingar kunna þetta og það er ákveðinn sjarmi yfir þessari “gatnamála vitleysu”.

Greinarhöfundur ætlaði upphaflega að skeppa í stuttan ljósmyndatúr og var þá aðallega með Háveg, Hverfisgötuna og Hvanneyrabrautina í huga en þetta varð strax miklu meira og þess vegna verður þetta birt í nokkrum hlutum.

Þessi furðulegheit byrjuðu strax í götunni þar sem æskuheimilið mitt stendur og síðan magnaðist þetta eftir sem leið á daginn og auðvitað hitti maður marga fróða og spjallglaða Siglfirðinga sem bentum mér á fleiri einkennilegar götur og hús.

Ég klíf út um dyrnar hjá móður minni á Hafnartúni 6. Hafnartúnið byrjar nefnilega í annarri götu sem heitir Hafnargata.

Yfirleitt byrja götur á gatnamótum, en ekki þessi.

Hafnartún – Hafnargata

Á einum ljósastaurnum stendur Hafnargata og á næsta stendur Hafnartún.

Syðstu þrjár göturnar í bænum heita  NORÐURTÚN.

Hafnartúnið endar og við tekur NORÐURTÚN

Ástæðan fyrir því að syðstu göturnar í bænum heita Norðurtún er gamalt bæjarskipulag sem hætt var við vegna snjóflóðahættu. Fyrir sunnan Norðurtúnið átti að byggja bæði Miðtún og Suðurtún.

Hávegurinn er í þremur hlutum.

Nú liggur leiðinn upp Norðurtún og svo beygjum við norður Suðurgötuna og eftir stutta stund komum við að gatnamótum við “Ömmuhús” og þar keyrir maður upp í þriðja og syðsta hluta Hávegsins.

Þriðji og síðasti hluti Hávegs byrjar hér sunnarlega á Suðurgötunni

Svo að þið sem kannski eruð búinn að gleyma staðarháttum hér á Sigló áttið ykkur betur á þessum furðulegheitum þá lánum við mynd frá “Kortasjá Fjallabyggðar“.

Kortaskjá mynd frá Fjallabyggð.is sem sýnir syðsta og miðjuhluta Hávegs. Hávegur 58 – 65 og síðan slitnar númeraserían og byrjar aftur lengst upp til vinstri á myndinni með 21 – 37.

Eins og sjá má á myndinni hér neðar þá endar gatan upp í miðju fjalli fyrir bæði gangandi sem og biðreiðar.

Fólk sem treystir um of á GPS eins og t.d. Noel okkar góði vinur sem ruglaðist á LaugaRvegi og Laugavegi gætu hreinlega bæði keyrt og gengið fram af þessari götu í bókstaflegri meiningu.

Til þess að komast upp á “miðju hlutann” af Háveginum verður maður að snúa við og fara aftur niður á Suðurgötu og síðan beygja upp Hverfisgötuna smá stund og síðan aftur til vinstri og upp stutta brekku.

Á gatnamótum Laugarvegs – Suðurgötu og Hverfisgötu sést í stutta brekku sem leiðir þig upp á “Mið Háveg”

Mið Hávegurinn endar líka uppí fjalli og maður sér í fyrsta hlutann og það er næstum ómögulegt fyrir aðkomufólk að skilja hvernig maður kemst þangað.

Séð frá “Mið háveginum yfir í nyrsta og fyrsta hluta þessarar merkilegu götu.

Hávegur 21. Þetta hús var í minni barnæsku alltaf kallað húsið hennar Stínu á Túninu. Það stóð þarna á miðju “Jónstúninu” og það lá enginn gata að þessu húsi.

Myndin hér fyrir ofan er úr greinaflokki sem birtist á siglo.is í fyrra þar ég minnist barnæsku minnar á þessum götum.
Sjá alla greinina hér: GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

Ég ætla upp í fjárhús og tala við lömbin sem eiga engar mömmur hugsa ég og í leiðinni þá kem ég við hjá Stínu ömmu minni á Túninu og fæ hjá henni smákökur og mjólk og kannski eina tvær auka kökur í vasann fyrir lömbin.

Þetta furðulega hús stendur þarna á miðju túni, það er stendur ekki við neina götu og það er enginn vegur að þessu húsi…….furðulegt og það eru margar skrítnar götur þarna í sjónmáli, enda bara upp í miðju fjalli og byrja svo aftur einhverstaðar annar staðar upp á brekku eða norður í bæ…………hver hugsaði þetta eiginlega…..hverskonar vitleysa er þetta eiginlega.

Var skortur á götunöfnum eða var þetta eitthvað sem tilheyrði glæsilegum framtíðarplönum sem var búið að framkvæma á eyrinni fyrir löngu, löngu síðan. Hmm…..skrítið.

Geng í blautu grasinu á túninu og fæ mér hundasúru að bíta í og ég sé að Stína og dóttir hennar eru fyrir utan húsið. Mér fannst þær alltaf svo sætar þegar þær gengu þétt saman um bæinn, dóttirin leiddi aldraða móður sína eða leiddi Stína hana vegna þess að dóttirin var með sterk og þykk gleraugu? Veit það ekki…..en ég var með það á hreinu að þetta væru góðar konur.”

Og nú kemur það allra flóknasta…….hvernig kemst maður upp á fyrsta hluta Hávegsins.

Við verðum að lána Kortasjá mynd frá bænum aftur til þessa að sjá þetta betur.

Hávegurinn byrjar sunnan við kirkjugarðsvegginn á númer 2, 2 B og 2 C samt standa sum hús við Kirkjugarðsveginn. Húsin númer 10 B, 12 B og 14 B standa ekki við götuna og númer 14 stendur meira við „Heiðarveg en Háveg og númer 15 sem er æskuheimili skíðakappans Jonna Vilbergs er sko alls ekki við Háveg.

Jú…sko, maður verður að keyra upp á Lindargötu og síðan upp Kirkjugarðsveg og þar á eftir inn á “norðurhluta Hverfisgötunnar”, síðan upp nokkuð bratta “beygju brekku”  framhjá Heiðarvegi og þá ertu kominn á byrjunarreit þessarar furðugötu.

Ljósastaur með skemmtilegum skiltum sem útskýra þetta allt saman, sérstaklega skiltið sem gefur í skyn að allar “þrjár göturnar” séu botnlanga götur.

Brött beygju brekka leiðir þig úr suður enda fyrri hluta Hverfisgötunar upp á Háveg 2 – 15.

Hér sunnan við kirkjugarðsvegginn byrjar Hávegurinn.

Hér áður fyrr komst maður hingað með því að fara upp allan Kirkjugarðveginn sem í dag er að hluta til göngustígur eða svo fór maður upp götu sem heitir Skriðustígur en við þá götu standa enginn hús, þrátt fyrir að þú kemst bara að húsunum þar en þau  eru öll skrifuð á Lindargötuna, Hverfisgötuna og Háveg.

En við skulum ræða meira um Hverfisgötuna og fleiri skrítnar götur bæjarins í næsta kafla.

Slóð á:

Furðulegar götur 2 Hluti.

Furðulegar götur 3 hluti

FURÐULEGAR GÖTUR 4 HLUTI – HÚS

Lifið Heil.
Kær kveðja

Nonni Björgvins

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson