Í þessum kafla skulum við staldra við á Hverfisgötunni sem er í tveimur hlutum, skorinn í sundur af dulafullri götu sem heitir Skriðustígur. En við þá götu standa hús sem tillheyra Lindargötu, Hverfisgötu og Hávegi.

Í barnalegum minningum greinarhöfundar var þessi Skriðustígur alltaf kallaður Brekkugata eða bara Brekkan og þessi gata var miklu brattari og lengri en hún er í dag. Náði frá Suðurgötunni og alla leið upp á Háveg.
Þetta var snjóþotu og sleðabrekkan okkar allra og á sumrin leiksvæði með stórum trjám og skrítnum stígum að bakhúsum sem standa á milli Hverfisgötunnar og Lindargötu.

En við skulum líka skoða Lindargötuna og Kirkjustíg sem er líka í tveimur hlutum og svo skulum við í lokinn á þessum kafla finna hina einu sönnu Brekkugötu.

Hverfisgatan byrjar hér sunnan við Kirkjugarðveginn sem liggur upp með sunnanverðum kirkjugarðsveggnum.

 

En við skulum kíkja á Kortsjá mynd frá heimasíðu Fjallabyggðar til að átta okkur betur á þessu svæði.

 

Hér sést öll Hverfisgatan sem byrjar sunnan við kirkjugarðsvegginn og endar á gatamótum Laugarvegs og Suðurgötu. Skriðustígur sker hana í sundur á gatnamótum Lindargötu og Suðurgötu.

 

Hér stendur greinarhöfundur við Hverfisgötu 27 og horfir norður suðurhluta Hverfisgötunnar. Fyrri hlutinn sést skáhalt upp til vinstri.

 

Malargatan Skriðustígur sker í sundur Hverfisgötuna.

 

Þarna á horninu á Hverfisgötu 17 og Skriðustíg stóð steinhús sem búið er að rífa og það var svo sem ekki mikil eftirsjá í því enda var húsið illa farið en í garðinum fyrir neðan þetta hús stóðu tvö risastór og falleg grenitré. Líklega stærstu tré bæjarins, það voru hörmungar mistök að fella þessi fallegu tré, skilur eftir sig ljótt sár í götumyndinni.

Þetta er dularfull gata og enginn hús hafa sitt heimilisfang við þessa götu. Eins og áður er sagt þá tilheyra húsin hér flest Lindargötu, Hverfisgötu og þau efstu Háveginum, samt er bara hægt að komast að flestum af þessum húsum frá Skriðustíg.

Þetta er frekar skrítið en fallegt svæði með mikið af fallegum görðum og stórum trjám.

Norðan við Skriðustíg eru þrjú hús sem eru vandræðalega heimilislaus……föst á milli “nyrðri Hverfisgötu” og Lindargötu en tilheyra öll Lindargötu.

Kíkjum aftur á mynd frá Kortasjá Fjallabyggðar.

 

Á kortinu sjást hús sem eru föst á milli Hverfisgötu og Lindargötu en það eru Lindargata 26 B sem stendur í rauninni við Skriðustíg og þar fyrir innan er númer 22 C og 22 B og síðan 20 B lengra inn.

 

Lindargata 26 B og í bakgrunninum 22 C og 22 B séð frá Skriðustíg. Á milli húsanna lá stígur frá Lindargötu og upp á Hverfisgötu. Mig minnir að hann hafi verið kallaður Brekkustígur ? Eða… er ekki viss…..

 

Þegar maður stendur þarna við Skriðustíg kemst maður ekki hjá því að hugsa: hmmm…….hvernig var þetta allt hugsað á sínum tíma……..hvernig ætluðu gatnamálastjórar bæjarins að tengja saman þessa Hverfisgötu parta ???

Eða Háveginn sem er í þremur hlutum ???

 

Stígur frá Lindargötu leiðir okkur að litlu fallegu húsi með heimilisfangið Lindargata 20 B

 

En undirritaður fékk mjög svo skemmtileg viðbrögð eftir birtingu fyrsta hluta þessarar greinarseríu frá bæði bæjarbúum og brottfluttum og einn af þeim er mikill grúskari og segist eiga í fórum sínum myndir af gömlum skipulagskortum þar sem þetta er allt saman klappað og klárt.

Við fáum vonandi að sjá þetta í næsta kafla.

 

Hér er eitt “hulduhús” í viðbót sem stendur við Lindargötu númer 9 B. Það stendur norðan við “Pokahöllina” frægu sem stendur við Suðurgötu 12.

Mér er það minnisstætt að í öðru litlu húsi sem stóð fyrir ofan Gest Fanndalshúsið að okkar eini sanni meistari MEGAS leigði það hús þegar hann bjó hér á Sigló um tíma. Að því lá stígur frá Suðurgötunni sem var kallaður “Stutta leiðin”.

 

Kirkjustígur

 

Já þetta er svolítið einkennilegt og ruglingslegt svæði og að gatan fyrir ofan kirkjuna heiti líka Kirkjustígur dreg ég stórlega í efa. Hélt að Hlíðarvegurinn byrjaði þarna !

 

Húsið við Kirkjustíg 5 stendur hættulega nálægt hallandi mögulega fallandi kirkjugarðsveggnum. Það er bara hægt að komast að þessu húsi úr syðri Kirkjustígnum.

 

Þegar ég stend þarna sunnan við þetta litla sæta hús fer ég ósjálfrátt að raula lagið “Ó hún er svo sæt” og ég reyni að herma eftir dásamlegri bassarödd Þorvaldar Halldórssonar, okkar langa og stóra söngvara sem ólst upp í þessu litla húsi og hann rak örugglega daglega hausinn upp í dyrakarma.

Síðan skipti ég yfir í “Á sjó” sem er líka lag sem Þorvaldur söng með hljómsveit Ingimars Eydals á sínum tíma.

Hér er hægt að sjá viðtal við Ólaf heitinn Ragnarsson sem samdi textann og síðan viðtal við þorvald sjálfan og þar á eftir lagasyrpu í lokin í þættinum “Óskastund árið 1992.”

Hin eina sanna BREKKUGATA

Á Kortasjá mynd má sjá að númeraserían á húsunum við hina einu sönnu Brekkugötu eru öll C eða B hús. Byrjar á 1 C svo 3 C síðan hoppað yfir í 7 C og síðast á horninu stendur 7 B. Einkennilegt ! Og samkvæmt þessu korti get ég ekki verið viss um hvar Hlíðarvegurinn byrjar ?

 

Brekkugatan séð frá Hólavegi.

 

Það er ákaflega fallegt þarna bæði fyrir ofan og neðan Brekkugötuna. Þarna er heilmikill “gleymdur skógur” eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Grenitrén sem vaxa lengst í norðurátt eru nakin að norðanverðu og í skóginum fyrir neðan er stórt og mikið tröll sem felur sig í gróðrinum hjá gistiheimilinu The Herring house.

Annars minnist ég þess líka að hafa æft skíðastökk þarna í Gryfjunni á milli Brekkugötu og Hólavegs. Finn því miður enga ljósmynd af þessum flotta skíðastökkspalli sem var næstum, “bara næstum” eins flottur og Ólafsfirðingar hafa í sínum miðbæ.

Ég minnist líka á skíðastökks sögur og annað tengt Siglufirði í greinarseríunni “Göngutúr um heimahaga” á sigló.is:

“Við strákarnir æfðum skíðastökk í Gryfjunni og þar mátti maður passa sig á að renna ekki á þakbrúnina á smurstöðinni sem var þar fyrir neðan. Man eftir að við vorum allir á of stórum skíðum sem við fengum að erfa frá eldri strákum. Man að einn félagi minn stökk upp úr skónum þegar hann ætlaði að taka á loft á pallbrúninni. Skildi skíði og skó eftir á pallinum og lenti flott á maganum þremur metrum neðar.”

Þar er einnig að finna yfir 250 ljósmyndir sem flestar eru fengnar að láni frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem tengjast leikjum barna, íþróttum og tómstundum sem og prakkarastrikum.

Sjá slóðir á greinar seríuna hér:

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Og fyrir ykkur sem misstuð af fyrsta hlutanum eða þá sem vilja rifja það upp sem þar var birt. Smellið á slóðina hér fyrir neðan:

FURÐULEGAR GÖTUR 1. HLUTI

Furðulegar götur 3 hluti

Furðulegar götur 4 hluti – Hús

Að lokum. Hólshyrnan gægist yfir skóginn við Brekkugötuna.

 

Í næsta kafla kíkjum við á Hvanneyrarbrautina og aðrar götur og hús sem tengjast þeirri skrítnu löngu götu.

Lifið heil.
Kær kveðja

Nonni Björgvins

Ljósmyndir og texti:

Jón Ólafur Björgvinsson