Formáli:

(ATHUGIÐ: Ef þú lesandi góður villt stækka myndirnar er best að fara beint inn á sjálfa heimasíðuna gegnum trolli.is.
Ef smellt er á greinina í gegnum Facebook grúppur verður það oft vandamál að geta ekki stækkað myndirnar.( JOB)

Þó svo að titillinn á þessari minningasögu úr barnæsku byrji á útlenskum orðum og endi á … og ÉG, þá veit ég að fjöldin allur af Siglfirskum “stelpum og strákum” á öllum aldri þekkja sig í þessum orðum og muna eftir þessum horfna ævintýraheim sem reyndar er ekki alveg horfin en umhverfið og mannlífið hefur breyst mikið í gegnum tíðina.

Það er einkennilegt að þegar ég spjalla við eldri vini og vandamenn að þrátt fyrir að sumir séu fæddir um og jafnvel fyrir 1940 þá er þetta fólk að lýsa sömu leikjunum sem ég sem er fæddur 1962 datt inní í á sömu svæðum.

Minningarnar lifa hins vegar í okkur öllum, í fleiri kynslóðum barna sem eru mér bæði miklu eldri og yngri og allir eiga svipaðar minningarnar og ég um endalaus sumardagaævintýri á þessum dularfullu og spennandi söguslóðum í suðurhluta fjarðarins fagra.

Það er svo skrítið að í þessum minningarmyndum er sól og blankalogn alla daga og maður var stanslaust á hreyfingu frá morgni til kvölds.  
Það var ekki búið að finna upp þetta nútímavandamál með að börn fái ekki nægilega mikla líkamshreyfingu, hvað þá að þau getir ekki gert neitt án þess að það sé allt skipulagt fyrir þau undir ábyrgu eftirliti fullorðna.

Ó, nei, við gerðum allt sem okkur datt í hug sjálf en mikið að leikjahugmyndum og öðru var sótt úr barna og ævintýra bókmenntum sem við lásum oft og mikið, en bækurnar og hasarblöðin voru reyndar framleidd að mestu leyti innanbæjar líka.

Eins og t.d. spennusögurnar um Fimm fræknu, Tarzan, Prins Valíant o.fl. 
Restin kom úr bíómyndum sem við sáum á sunnudögum í Nýja Bíó.

Og þrátt fyrir að maður væri algjörlega búinn á því eftir viðburðaríkan sumardag þá var oft erfitt að sofna því maður æstist allur upp við að hugsa um og skipuleggja ný ævintýri sem við ætluðum að framkvæma saman daginn eftir. 

Þó svo að mikið af því sem er sagt hér í þessari samantekt komi úr hausnum á mér þá er mikið lánað frá hinum og þessum. Mér finnst það oft með ólíkindum hvað ég get oft fundið mikið af sögum sem aðrir Siglfirðingar hafa skráð í gegnum árin og ég geri mikið að því í þessari sögu að vísa ykkur í heimildir gegnum netslóðir ef þið viljið lesa meira og minnast ýmissa atburða úr ykkar yndislegu barnæsku á Sigló.

Síðan verð ég að segja að það er alveg ótrúlegt og magnað sér Siglfirskt fyrirbæri að geta fyllt svona sögu með ljósmyndum úr öllum áttum. Það mesta kemur úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar og annað frá hinum og þessum sem hafa lagt sig alla fram við að ljósmynda okkar sameiginlegu sögu.

Held að það séu frekar fá Íslensk bæjarfélög sem eiga svona mikið ljósmynda og söguefni.

Og ég hika ekki við að skrifa Æ í kajak” því það er bara flott Siglfirska.

Ævintýraheimurinn í suðurenda Siglufjarðar. Ljósmyndari Hannes Bald. Myndin er lánuð frá örnefnaheimasíðunni snokur.is. Örnefni í Sigluneshreppi og Úlfsdölum sem er frábær heimasíða með mikið af fallegum yfirlitsljósmyndum með tilheyrandi örnefnum og sögum.

Horfin ævintýraheimur

Aðalbækistöð ævintýraheims okkar var í fjörukróknum fyrir neðan bakkann þar sem Hafnargatan lengist allt í einum og verður Hafnartún á skilti á næsta ljósastaur. Þarna beint fyrir neðan bakkann voru miklir brotajárnshaugar og allskyns véladrasl og byrjunin á því sem við í dag köllum Leirutanga, sem ÞÁ var bara í okkar barnahuga “Öskuhaugarnir” en þessi tangi stækkaði og lengdist aðallega í austur á þessum tíma með því að sorp og síldarminjafornleifar var notað sem uppfyllingarefni til landvinnings eftir Hollenskri fyrirmynd.

En líklega var markmiðið í skipulaginu að stækka höfnina og hindra að suðurhöfninni fylltist reglulega af sandi.

Sumt af því sem ég minnist á úr þessum barnaævintýraheimi er í rauninni bara tóm steypa!
En ef að eitthvað passaði betur inn í mína ímyndaða “sjóræningjasöguleiki og fl.” þá var miklu skemmtilegar að leiðrétta það ekki….

Ekki þá… en kannski núna þegar ég veit betur og langar sjálfum að vita meira um raunverulega sögu atburða sem liggja í staðarnöfnum og sögusviðinu í mínum gamla ævintýraheimi.  

Siglufjörður kringum 1960. Ljósmyndari Sigurður B Jóhannesson. Sjá meira hér: MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960
Framtíðardraumar: Skipulagskort frá “Teiknistofu Skipulagsins” 1969. Bærinn vex í suður átt og Leirutangi hefur stækkað mikið og fengið nýtt hlutverk.
Mynd lánuð frá “FURÐULEGAR GÖTUR 3. HLUTI”
Leirutangi og fjörukrókurinn undir Hafnargötu/Hafnartúni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjálfur bjó ég á Hafnartúni 6 en það hús vantar á þessa mynd, en það var ekki langt fyrir mig að rúlla niður bakkann í þennan ævintýraheim.

Veit ekki nákvæmlega hvaða ár þessi mynd er tekin en Rauðkutankurinn er mættur á staðin en hann stóð þarna í sjónum í áratugi.

Ég kann ekki söguna um þessa tvo steinsteypupramma og af hverju og hvernig þeir komu þarna suður eftir, en þeir tilheyrðu þessu ævintýrasvæði okkar og var margt brallað í þeim. Sá þriðji var stórhættulegur og marraði í kafi rétt norðaustan við Skoger skipsflakið.
Ég minnist þess líka að útgerðarbændur frá Siglunesi reyndu seinna að ná þessum prömmum á flot og var ætlun þeirra að nota þá í hafnarframkvæmdir í neskróknum. Man ekki hvort þeim tókst það.

Ein sú sterkasta minning sem ég hef um leik í prömmunum er að ég hljóp á boginn stálstólpa og meiddi mig illa í vinstra nýra. Pissaði blóði í tvær vikur en Ólafur læknir sagði að mér yrði líklega ekkert meint af þessu og það var alveg rétt því ég mætti strax aftur þegar eðlilegur þvaglitur skilaði sér.

Bárujárnskæjakar, merkilegir kofar og fl.

Í skemmtilegum pistli sem Leó Óla skrifaði 2011 sem heitir: “Leó skrifar um Kajaka” er skemmtilegt viðtal með velvöldum myndum við Hrímnisdrenginn hann Árna ( Þórðar í Hrímni/ Á Nesi) en hann var uppalinn í þá…  syðsta hluta suðurbæjarins.
Árni minnist þarna meðal annars á þessa pramma, kajakasmíði og landsfrægan kofa sem stóð út í sjó á staurum og.fl..

Miðvikudaginn 24. júní 1964 birtist stórskemmtileg frásögn í máli og myndum í Mogganum þar sem aðstandendur Sjávarborgarinnar voru teknir tali. Höfundur greinarinnar og ljósmyndari var Steingrímur Kristinsson.

…..”Við vorum líka mikið úti í steinprömmunum sem Óskar Halldórsson flutti inn á sínum tíma. Þar gerðum við alls konar tilraunir m.a. með fiskeldi. Inni í þeim var alla jafna flóð og fjara, en við stífluðum götin sem höfðu verið gerð undir sjólínu og slepptum síðan seiðum í þá.
Við reyndum að rækta silung, kola og e.t.v. eitthvað fleira en það skilaði nú litlum árangri.

Haugarnir voru líka sá hluti af leiksvæðinu sem skipti ekki minnstu máli, því þar mátti finna ótrúlegustu hluti. Ef bíll sást koma þangað og losa eitthvað drasl, var eins víst að eftir stutta stund væru nokkrir guttar komnir hlaupandi og farnir að gramsa í því leitandi að einhverju nýtilegu eða bara af einskærri forvitni. Stundum söfnuðum við þar heilmiklu af gosflöskum sem við seldum síðan niður í bæ og náðum í einhverjar krónur sem við nýttum til efniskaupa eða bara í gotterí….”

Og Árni heldur áfram í frásögn um kofasmíðina:

“…..Mig minnir að upphafið hafi verið með þeim hætti að við vorum nokkrir strákar á samkomu í Herkastalanum og þar voru sýndar myndir af kofum sem voru byggðir á staurum úti í sjó. Þetta þótti okkur alveg rosalega flott og við vildum endilega reyna þetta líka…”

Staurakofinn Sjávarborg og íbúar. Ljósmyndari: Steingrímur kristinsson.

“… Við byrjuðum á því að ná okkur í tóma kapalrúllu á haugunum og rúlla henni suður Leirurnar…. Mikið af byggingarefninu kom úr snurpunótarbátunum á Langeyrinni, en auðvitað alveg heill hellingur af haugunum…..
…. Við byrjuðum á að reisa kofa ofan á rúllunni en þegar við áttum eftir að þekja, kom stórstraumsflóð og það flaut svo hátt yfir gólfið að stígvélin dugðu ekki einu sinni til að halda okkur þurrum í fæturna. Við rifum þá allt niður, byrjuðum upp á nýtt og að þessu sinni var tekið tillit til sjávarfallanna. Fyrst var aðeins einn kofi ofan á rúllunni, en seinna var prjónað við og byggingin stækkuð. Þetta var mikið ævintýri, við gistum stundum þarna og höfðum þá með okkur nesti og tilheyrandi. Samgöngur við Sjávarborg voru með tvennum hætti. Á fjöru var hægt að ganga þangað út, en þegar flæddi notuðum við auðvitað kajakana sem voru gerðir úr bárujárnsplötum….”

Krakkar að smíða kajaka úti í Bakka. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Þarna minnist Árni á nokkuð sem skiptir máli að vita en það er hinn mikli munur á flóði og fjöru á þessu svæði. Maður vildi helst ekki heldur róa kæjak suður á t.d. Langeyri og síða verða strandaður þar á fjörunni. Krafturinn í þessum ósýnilega flæði var líka varasamur þegar við fórum í lengri róðrartúra út í Skoger,  Evangerrústirnar eða í góðu verðri út í Selnesvitavík og einstaka sinnu stálumst við jafnvel alla leið út á Siglunes. 

En svo heldur Árni áfram og nefnir fleiri hættur sem leyndust í umhverfinu fyrir okkur sjálf og aðra óboðna gesti og einstaka sinnum kom lögregla bæjarins líka.

“…. En það var ekkert sérlega vel séð að krakkar úr öðrum hverfum kæmu á Leirurnar eða væru að sniglast um svæðið okkar. Ef einhverjir aðkomuguttar skildu kajakana sína eftir í fjörunni hjá okkur eða á haugasvæðinu að kvöldi, máttu þeir ganga að því sem vísu að þeir sigldu ekki framar því að morgni var undantekningalítið búið að brjóta þá nokkuð snyrtilega saman…..

…. Yfirleitt lét löggan okkur í friði ef við héldum okkur innan við stálþilið, en það kom þó fyrir að einhverjir voru að þvælast óþarflega langt út fyrir þilið, út á höfnina eða jafnvel alla leið yfir í Evangerrústirnar. Þá varð yfirleitt allt vitlaust og sú umræða blossaði jafnvel upp að þetta gæti verið hættulegt eða eitthvað svoleiðis. Í kjölfarið mátti þá búast við að löggan léti sjá sig á svæðinu og gerði jafnvel einhver fley upptæk sem okkur þótt ekki gott. Það breytti þó sáralitlu máli því einn eða tveir guttar sem kunnu þokkalega til verka gátu auðveldlega smíðað nokkra kajaka á dag….

… Slíkar aðgerðir heyrðu þó frekar til undantekninga, en ég vissi að það var mun betur fylgst með kajakaútgerðinni í Hvanneyrarkróknum sem var líka talsverð. Ég sagði það einhvern tíma við hana mömmu gömlu að ef foreldrar liðu krökkum það í dag sem við komumst upp með á sínum tíma, væri viðbúið að barnaverndaryfirvöld gripu inn í og það jafnvel með einhverjum afgerandi aðgerðum.

“…. En okkur var hálfilla við sanddæludýpin hvort sem við vorum siglandi, gangandi eða skautandi, en þau voru tvö. Annað var meðfram öllum nýja flugvellinum, en hitt út af Langeyrinni. Þegar það var stórstraumsfjara var hægt að ganga nánast þurrum fótum yfir fjörðinn, en sandbotninn var mjög bleytukenndur við dýpin…”

…. En frjálsræðið var næstum því algjört, við vorum farin út um leið og við vöknuðum, komum kannski heim ef við vorum svöng og svo aftur rétt til að sofa yfir blánóttina….  En engu að síður var innfjörðurinn og næsta nágrenni hans algjör Paradís fyrir krakka, ég fer ekki ofan af því…”

Og svona lítur þetta sama ævintýrasvæði út í dag. Mynd lánuð frá Kortasjá Fjallabyggðar.
Leirutanginn hætti að stækka í austurátt og byrjaði að stækka í suðurátt…svæðið er kannski ekki alveg eins og þetta var hugsað í upphafi.

Þetta fyrirkomulag að ruslahaugar bæjarins væru akkúrat þarna passaði okkur krökkunum í suðurbænum eins og flís í rass því að okkur barst efniviður með vörubílum daglega sem við notuðum í kofa, bryggjur, fleka og kajakasmíðar o.fl. Einhverskonar þátíðar Siglfirsk heimsendingarþjónusta og sjálfs-afgreiðsla.

Annað sem okkur vantaði “sóttum/lánuðum” við annars staðar frá. 

Pabbi klagaði annað slagið yfir því að ýmis lánuð verkfæri skiluðu sér ekki aftur í bílskúrinn hans og mamma yfir að fatnaður varð götóttur, blautur, skítugur og illa lyktandi daglega eftir byggingar og málningar vinnu og þessa sjálfsafgreiðslu á öskuhaugunum.
En hún átti reyndar bæði suðupott og skrítna “þvottahrærivél” niðri í kjallara og gott ef það var ekki stundum gert slátur í þessum græjum líka. Merkilegur tækjakostur.

Einsog sjá má á þessari ljósmynd frá þeim tíma sem haugarnir á Leirutanga voru uppá sitt besta, var engin efnisskortur hjá okkur krökkunum í suðurbænum. Skoger og Evangerrústirnar í bakgrunninum.
Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir

Á hverju sumri myndaðist þarna í fjörukróknum nýtt kofaþorp með öllu sem hægt er að hugsa sér sem tilheyrir alvöru bæjarfélögum. 

Ég minnist þess líka að samheldnin og hjálpsemin var mikil á milli okkar krakkanna og stelpur og strákar á öllum aldri voru jafningjar og þeir eldri kenndu þeim yngri að gera flotta kajaka úr bárujárnsplötum o.fl. 

Fullorðnir voru mest lítið í því að skipta sér af okkur, það var reyndar skyldumæting í hádegis og kvöldmat, en það gat reyndar komið fyrir að sumir kæmu þarna suður eftir að leita að ný innkeyptu byggingarefni sem þeir söknuðu. Eða í Hvanneyrarkrókinn og á flötina norðan við Mjölhúsið en þar voru Villingarnir (Villó) úr villimannahverfinu og Bakkaguttar með svipaða aðstöðu í áratugi.

Hvanneyrarkrókurinn og kæjakasmíðar og.fl.

Raðhúsagata í Villimannahverfinu. Mynd lánuð úr GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

Steingrímur Kristins skrifar eftirfarandi í skemmtilegri minningasögugrein sem heitir: Kajakasögur og lýsingar

“….Allir strákar sem voru unglingar á árunum 1940 – 1970 muna eftir og eða tóku þátt í því að smíða sér kajaka. Nokkuð sem vel var stundað af krökkum á aldrinum 10-16 ára.  Villimannahverfið í norðurbænum var engin undantekning. Frekar en krakkar í suðurbænum nálægt Leirunum.

Kajakarnir voru smíðar úr bárujárni. Byrjað var á því að leita á haugum eftir hentugri plötu sem ekki voru of mörg naglagöt á. Síðan var platan flött út með ýmsum aðferðum hömrum sleggjum og fleiru tiltæku.  

Þá voru fundin á haugunum eða hjá einhverju tréverkstæðanna um 40-50 sm. langir timburbútar oftast 1½ tomma x 6“ sem notað var sem stefni og skutur.

Plötuendarnir voru síðan beygðir að spýtunum og negldir lauslega til að byrja með helt bráðnu stálbik á milli og neglt síðan að fullu. 

Bátslagið var mótað nokkuð jöfnum höndum þar til allir voru ánægðir en tveir til þrír hjálpuðust oftast að við smíðina. 

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ég var engin undantekning um að hunsa boð og bönn foreldra, nágranna og lögreglu. 

Sum okkar voru synt önnur ekki en flestir gættu þess að hafa tóman smurolíubrúsa með í för og að fara ekki of fjarri landi svona allflestir að minnsta kosti.

Oft hringdi einhverjir fullorðnir á lögregluna þegar kajakarnir voru í notkun og  siglt var með stolti á nýjum og gömlum fleytum….”


Ljósmynd og texti lánað úr sögu frá Steingrími Kristinssyni : Hrekkir Strákaleikir í Villimannahverfinu á árunum 1942 +/-

Í 2. hluta sögunnar um horfin ævintýraheim Siglfirska barna skulum við skreppa í göngu og kæjakatúra og staldra við á ýmsum dularfullum stöðum sem voru okkur kærir.

Ræða aðeins um bardaga á milli Húna, Brekkugutta, Villó og Bakkagutta og þeirra yfirráðasvæði.

Og reyna að komast að niðurstöðum um hver draugurinn í Gránu var í rauninni….

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 2. HLUTI

Sérstakar þakkir fyrir hjálp við að ná þessu öllum saman vill ég senda til:

Steingríms Kristins, Leó Óla, Örlygs Kristfinns og Anitu Elefssen sem og til allra sem gáfu mér leyfi til að nota myndefni frá þeim þeim sjálfum sem og látnum ættingjum.

Lifið heil og bestu kveðjur

Nonni Björgvins.

Texti og samantekt:
Jón Ólafur Björgvinsson

Ljósmyndir: Ljósmyndasafn Siglufjarðar, og ýmsar aðrar ljósmyndir og textar eru birtar með leyfi eigenda og er vísað í þær allar í gegnum slóðir í greininni.

Aðrar sögulegar greina eftir Jón Ólaf Björgvinsson finnur þú hér á trolli.is.