Vildarvinir Siglufjarðar og Siglfirðingafélagið voru með opið hús í Síldarminjasafninu föstudaginn 31. júlí.

Tilefnið var að lokið var við uppfærslu á öllu því myndefni sem fylgja átti afmælisgjöf félaganna til Fjallabyggðar og Síldarminjasafnsins í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Siglufjarðar 20. maí 2018.

Mikið efni hefur bæst við í safnið frá þeim tíma og skal þar fyrst nefna sjónvarpsþættina Siglufjörður – saga bæjar, kvikmyndaefni frá afkomendum Helga Sveinssonar og þættir N4 um Göng á Tröllaskaga.

Að lokinni kynningu og afhendingu gjafarinnar til forseta bæjarstjórnar Ingibjargar Guðlaugar Jónsdóttur og safnstjórans Anitu Elefsen var SSS færð afmælisgjöf í tilefni 100 ára afmælis félagsins en hún er allt að 200 minnislyklar með sjónvarpsþáttunum “Siglufjörður-saga bæjar” sem þeir munu selja á næstu misserum til að fjármagna lokaáfanga töfrateppisins í Siglufjarðarskarði.


Hægt er að smella á myndir til að sjá þær stærri


Að lokum veittu Vildarvinir Golfklúbbi Siglufjarðar 100 þúsund krónu styrk til eflingar barna- og unglingastarfs félagsins en GKS varð 50 ára þann 19. júlí sl.

Vildarvinir vildu koma á framfæri þökkum til allra sem greiddu götu þáttargerðarfólks RÚV við gerð þáttanna auk allra þeirra fjölmörgu viðmælenda sem komu fram í þáttunum.

Á forsíðumynd eru þeir fyrir hönd Vildarvina Siglufjarðar og Siglfirðingafélagsins, Jónas Skúlason, Gunnar Trausti, Árni Jörgensen og Guðmundur Stefán Jónsson.


Myndir: Rakel Björnsdóttir