Um þessar mundir er útvarpsstöðin FM Trölli 10 ára.

Það var um sumarið 2010 þegar undirbúningur fyrir Síldarævintýrið á Siglufirði var á lokastigi, að upp kom sú hugmynd að reka litla útvarpsstöð á Síldarævintýrinu. 

Ég hafði frá unglingsárum haft gríðarlegan áhuga á útvarps sendingum og grúskað ýmislegt í gegnum tíðina.  Skömmu fyrir síðustu aldamót var ég m.a. tæknistjóri Bylgjunnar og seinna Hljóðmeistari Íslenska útvarpsfélagsins, sem þá var og hét.  Það þurfti því ekki að hvetja mig mikið til þess að kanna hvort hægt væri að vera með útvarp í stuttan tíma þarna um sumarið. 

Haft var samband við STEF og alla aðra nauðsynlega aðila og stofnanir til að fá leyfi til að reka stöðina.  Við fengum lánaðan lítinn sendi og fengum að setja upp stúdíó í húsnæði Leikfélags Siglufjarðar í námunda við torgið þar sem hátíðahöldin fóru fram.  Þetta útvarpsbrölt í okkur mæltist vel fyrir og ákveðið var að endurtaka leikinn sumarið eftir.

Þetta vakti útvarpsbakteríuna heldur betur, og eftir að vera með stöðina þrjú Síldarævintýri í röð á mismunandi stöðum í bænum fannst mér ómögulegt að þurfa alltaf að hætta eftir Síldarævintýrið.

Það var svo árið 2012 að fengin voru langtíma leyfi til að reka stöðina allt árið.  Þórarinn Hannesson var svo elskulegur að leyfa okkur að setja upp stúdíó á efri hæð Ljóðaseturs Íslands, sem hann á og rekur.  Nú var starfsemin komin í varanlegt húsnæði og því ekkert að vanbúnaði til þess að stöðin gæti verið í loftinu allt árið.

Þegar hér var komið sögu vorum við komin með sendi fyrir Siglufjörð í strompi Ketilstöðvarinnar, sem var hluti af Síldarvinnslu Ríkisins hér á árum áður.

Svo var ákveðið að færa út kvíarnar og settir voru upp sendar í Ólafsfirði og Hrísey.  Það var svo sumarið 2016 að settur var upp sendir og stúdíó á Hvammstanga.  Um nokkurt skeið vorum við með beinar útsendingar frá Hvammstanga.  Haustið 2016 voru gerðar endurbætur á loftnetum og búnaði í Hrísey til að ná vel inn í Eyjafjörðinn og út með Ólafsfjarðarmúla.  1. júlí 2019 var svo settur upp sendir á Sauðárkróki, sem þjónar stórum hluta Skagafjarðar.  Stöðin næst líka á internetinu á vefslóðinni https://trolli.is, í appi sem heitir Spilarinn og á Tune-in sem er bæði app og vefsíða líkt og Spilarinn.

Margir þáttastjórnendur hafa verið með þætti á FM Trölla á þessum tíu árum, en þessa dagana stjórnar Andri Hrannar þættinum Undralandið á virkum dögum, “Tröllahjónin” Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason eru með þáttinn Tíu Dropar á sunnudögum og Skotinn Brian Callaghan er með þáttinn The Brian Callaghan Radio Show á laugardögum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim fjölmörgu dagskrárgerðarmönnum og konum sem lagt hafa hönd á plóg.

FM Trölli hlakkar til að komast á táningsaldurinn og flytja hlustendum tónlist og annað efni áfram sem hingað til.

Gunnar Smári Helgason.

Trölli – skiptir máli.