Laugardaginn 21. maí brautskráðust 37 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þar af eru tólf búsettir í Fjallabyggð en í meirihluta eru fjarnemar frá þrettán stöðum á landinu, einn býr í Frakklandi og annar í Danmörku. Þetta var 24. brautskráning skólans og alls hafa 464 nemendur lokið námi með formlegum hætti frá skólanum.

Fjölmenni var í skólanum í dag og rífandi stemning þegar hljómsveitin Ástarpungarnir léku en þrír hljómsveitarmanna voru að útskrifast og einn lauk námi fyrir jól. Þeir hafa verið einskonar óopinber skólahljómsveit undanfarin ár og meðal annars unnið söngkeppni framhaldsskólanna. Fyrra lagið sem þeir fluttu var Kletturinn eftir Mugison en þegar þeir léku gamla ABBA slagarann Waterloo gátu nokkrar af kennslukonum skólans ekki stillt sér um að dilla sér með Ástarpungunum aftast í salnum.

Það var létt yfir nýstúdentunum enda mikill áfangi að baki og aðgöngumiði að áframhaldandi námi í hönd. Mestallan námstímann hafa þau með mikilli þrautseigju og aðlögunarhæfni náð að stunda nám sitt í skugga heimsfaraldurs og verulega íþyngjandi sóttvarnarreglna. Vikum saman var skólinn lokaður og samfélagið lamað en þetta fólk er jákvætt og lausnamiðað og uppskáru eftir því.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi hlutu Sara Sigurbjörnsdóttir, Mikael Sigurðsson, Tryggvi Þorvaldsson og Júlíus Þorvaldsson en hann er dúx skólans að þessu sinni. Einnig hlutu Jónína Guðný Gunnarsdóttir, Rakel Sera Jónsdóttir, Valgeir Valgeirsson og Sigrún Ósk viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.

Flest útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut eða ellefu og níu af listabraut, ýmist á myndlistar-, tónlistar- eða ljósmyndunarsviði. Af kjörnámsbraut útskrifuðust fjórir nemendur og jafn margir af stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Að auki tók einn nemandi við prófskírteini sínu í skólanum, en hún útskrifast af sjúkraliðabraut frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

Eins og fyrr segir eru fjarnemar í miklum meirihluta í skólanum. Á þessari önn töldu þeir 85% en alls voru 510 nemendur voru skráðir í skólann á þessari önn og hafa aldrei verið fleiri. Tæpur helmingur fjarnemanna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir eru búsettir erlendis. Það má því með sanni segja að Menntaskólinn á Tröllaskaga teygi anga sína víða enda býður skólinn upp á námsaðferðir sem henta fjölbreyttum hópi nemenda á öllum aldri.

Hægt er að horfa á upptöku frá athöfninni á Facebook síðu MTR

Mynd/Gísli Kristinsson