Bryggjur virðast koma og fara eins og bátar…
… er óhætt að segja, þegar maður skoðar gamlar myndir í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Frá einu ári til annars virðist manni að ein og önnur bryggja hverfi og aðrar birtist í staðinn. Landfylling eykur vissulega hægt og rólega vinnsluplássið í landi, en það er samt lengi vel plássleysi á eyrinni sem drífur áfram öra uppbyggingu af löngum bryggjum og bryggjueyjum suður undir Hafnargötubakkanum, en þar er mjög aðgrunnt.

ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér og stækka með því að smella á hvaða mynd sem er og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að lesa myndaskýringartexta og aðrar sögur og útskýringar sem fylgja með þessum einstöku ljósmyndum.

Á forsíðu ljósmyndinni sem er tekin 1929 sést Anleggið vel sunnan við aðalhafnarsvæðið, ásamt annarri minni landfastri bryggjueyju með stórum húsum og þar sést líka löng bryggja í Hvanneyrarkróknum. Í ljósmyndasafninu er þessi mynd skráð á Akureyrar ljósmyndarann fræga, Vigfús Sigurgeirsson.

Mjög svo gömul ljósmynd sem sýnir vel hversu lítil eyrin var upphaflega. Ljósmyndari: Óþekktur.
Margar langar bryggjur og lítið um landfyllingu á þessari mynd. Sunnan af eyrinni sjást byggingar á staurum langt úti í sjó. Ljósmyndari óþekktur.

Ástæðurnar fyrir þessum breytileika er ekki bara hraðinn í uppbyggingu síldariðnaðarins, heldur líka óblítt Siglfirsk vetrarveðurfar sem braut margt og bramlaði, síðan þurftu líka margar bryggjur að beygja sig fyrir þrýstingi frá hafís sem bruddi bryggjur jafn auðveldlega eins og við bruddum kandís og bolsíur í barnæsku.

Eftir stóðu dularfullir yfirgefnir bryggjustaurar í áratugi, sem minningarstyttur um merkileg horfin mannvirki.

Siglfirska LOGNIÐ og gamlir yfirgefnir bryggjustaurar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Síðan snýst þetta líka einfaldlega um plássleysi í landi

Þessi merkilega ljósmynd frá (1937 – 39+/-) sem Steingrímur Kristinsson setti saman úr tveimur glerfilmum frá Kristfinni Guðjónssyni segir okkur mikla sögu. Þarna sjáum við að plássleysið á eyrinni og að sandfyllt grunn syðri höfnin þvingar fram lausnir eins og langar bryggjur og jafnvel bryggjueyjur með húsum. (Anleggið)
Fyrir miðri mynd liggja sænskir reknetabátar í röð við sænsku staurana svokölluðu. Seinna koma síðan uppfyllingar á svæðinu kringum smábátahöfnina og það er jafnvel skorið úr Hafnargötubakkanum til að skapa pláss fyrir byggingar og vinnsluplön.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Þegar notuð eru leitarorðin „An(n)legg / ið“ koma ekki upp margar myndir í Ljósmyndasafni Siglufjarðar og það sama gildir um þegar maður Googlar og leitar eftir heimildum um þetta merkilega stóra Siglfirska mannvirki og orðið “Anlegg” hefur margskonar þýðingu á bæði norsku og sænsku.

Sjá meira hér um orðið Anlegg i DINORDBOK.se


En eins og alltaf, þá lumar Siglufjarðarfræðimaðurinn Steingrímur Kristinsson á ýmsu bitastæðu.

Þessi flotta samsetta ljósmynd hér ofar birtist í vor hér á trölli.is í myndasyrpusögunni:
HORFIN ERU HÚS OG HEILL ÆSKUHEIMUR! 1 HLUTI. 55 MYNDIR og strax þar á eftir fékk Steingrímur upplýsingar um upprunalegu sögu Anleggsins og vitnar hann þar í orð og þýðingar frá Sigtryggi Jónssyni.

Bræðrasynirnir: Elias K.O. Roald og Ole Andreas Olsen Tynes
Sigtryggur Jónsson: skrifar á Facebook 22. maí 2021.

En þar segir meðal annars í nýlegri samantekt á heimildasíðu Steingríms á www.sk2102.com/ :


ANLEGGIÐ

Árið 1912 hóf Ole Andreas Tynes eigið fyrirtæki og leigði land fyrir saltstaði neðst á Hafnarbakkanum. Hér er grunnt eins og hjá afa. Ole og afi byggði síðan stóra söltunar pallettu sem stóðu á staurum langt út í sjó, og stígur frá þeim til lands.

Söltunarstöðin (Anleggið) á Siglufirði fékk síld frá 8 gufuskipum. Það var hægt að stækka plássið með tiltölulega litlum tilkostnaði, til að taka á móti 12 skipum.”

Til viðbótar má lesa eftirfarandi á bls. 149 í “Síldarannáll Hreins Ragnarssonar” sem hægt er að skoða ókeypis á heimasíðu Síldarminjasafns Íslands:

1919…

„… í sumar voru menn ekki lengur háðir hinum miklu takmörkunum sem stríðið hefur búið mönnum undanfarinn ár.
Margir hugsuðu því gott til glóðarinnar í veiðum og verkum.

Viðbúnaður var að venju mestur á Siglufirði.
Þar var nú hafist handa á ný við byggingu svokallaðs „Anleggs“, söltunarstöðvar á leirunum fyrir botni fjarðarins.

Framkvæmdir hófust 1916 en hafa legið niðri þar til nú. Anleggið er s.k. eyja eða hólmi án tengsla við land…“

Einnig er minnst á Anleggið á bls. 209 – 210.

1934…

…. Dagana 26. – 27. Október í haust gekk óvenjulegt fárviðri yfir landið.
Veðrið var harðast á Norðurlandi og varð Siglufjörður einna verst úti. Sjór gekk yfir alla Eyrina og flæddi inn í kjallara og olli stórtjóni á eignum fólks. Um tíma máti fara um sumar götur á bátum. Hver einasta bryggja, allt utan úr Bakka suður á suðausturhorn Eyrarinnar, eyðilagðist eða stórskemmdist, að bryggjum Síldaverksmiðja ríkisins undanskildum. Þá urðu einnig miklar skemmdir á Anlegginu. Eignir þessar eru misvel tryggðar og er ekki að efa að mikið af tjóninu lendir á eigendunum. Það þarf aldeilis að taka til hendi við viðgerðir og endurbyggingu í vetur eigi allar bryggjur að verða til reiðu á komandi vori.

Úr safni Sillu – Flóð á Siglufirði 1934. Séð út Lækjargötu, Bjöndalshúsið áberandi. Ljósmyndari óþekktur – Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 27. október, gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi og olli miklu tjóni. Einna mest tjón varð á Siglufirði. \”Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi yfir nærri því alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja heimili sín í dauðans ofboði,\” segir í Morgunblaðinu 28. október. Svo hátt var flóðið að á Lækjargötunni \”var vatnið mittisdjúpt\”. \”Í sumum húsum varð vatnið svo hátt að rúmstæði flutu upp,\” segir í Einherja 2. nóvember. Í Siglfirðingi segir 3. nóvember: \“Braut sjórótið ásamt stórflóði meirihluta allra bryggja og söltunarpalla á austanverðri Eyrinni og víðar.\” Morgunblaðið segir: \”Á Siglunesi tók sjórinn alla báta, sem þar voru, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn.\” Ennfremur eyðilagðist þar ný bryggja. Aðrar heimildir herma að sjór hafi fallið yfir Siglunes og ekki munað miklu að bryti að fullu burt eiðið þar sem nesið er lægst. Þá brotnaði einnig norðan af strönd nessins og vestan af því. Sagt er frá því í Siglfirðingi 1. desember að tjón \”af völdum veturnóttafárviðrisins\” hafi verið metið og að 68 tjónþolar hafi gefið sig fram. Heimild: Þ. Ragnar Jónasson: Siglfirskur annáll, 1998.
Úr safni Sillu – Flóð á Siglufirði 1934. Séð til suðvesturs. Hús Jóa í vatnsveitunni til hægri (löngu horfið). Ljósmyndari óþekktur.
Úr safni Sillu – 1934 – MITTISDJÚPT VATN Á LÆKJARGÖTUNNI. Ljósmyndari óþekktur.

Anleggið…

( Bryggjueyjan stóra ) svokallaða sem og aðrar löngu horfnar bryggjur, í og norðan við Hvanneyrarkrókinn hafa verið mér og eflaust mögum öðrum hugleikin.

Pistla höfundur hefur í mörg ár og eftir mikið grúskandi í myndasafninu, haldið til haga og safnað myndum sem oft fyrir tilviljun sýna okkur þessa merkilegu bryggjueyju í bakgrunninum. Ein sú allra besta sem sýnir okkur vel staðsetninguna á báðu þessum ofannefndu bryggjueyjum tók ljósmyndameistarinn Kristfinnur Guðjónsson einhvern tíman kringum 1937-39.

ATH. Það skal skýrt tekið fram að höfundur þessarar samantektar er ekki sagnfræðingur og að allar söguviðbætur eru vel þegnar frá mér fróðara fólki.

Eftirfarandi viðbótaupplýsingar bárust pistahöfundi 16 ágúst 2021.

Ólöf Benediktsdóttir skrifar:

“Í kaflanum Söltunarstaðir á 20 öld, í “Silfri hafsins”, í samantekt Hreins Ragnarssonar segir nokkuð frá Anlegginu þar sem fjallað er um Siglufjörð. Frásögnin er þó ítarlegri í hefti ” Síldarsöltunarstöðvar á Siglufirði”, (óútgefið) sem pabbi, Benedikt Sigurðsson, samdi til undirbúnings samantektar Hreins.
Þar segir m.a. að eftir að síldarsöltun þar lauk árið 1934 hafi staurar úr því verið notaðir til viðgerða á öðrum bryggjum vegna timburskorts á stríðsárunum. Skeiðsfossvirkjun hafi fengið lánuð brautarspor þess. Það var samt dálítið notað áfram sem útgerðarstöð fyrir þorskveiðibáta.
Síðasta nýting þess hafi líklega verið afnot trillusjómanna af húsum til línubeitninga og upphengingu á fiski til herslu.”

Anleggið lengst til hægri í mynd og þar eru sjáanlegir staurar sem sýna líklega leifar eftir gamla landtengingu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Stór bygging á landfastri bryggjueyju, framan við Roaldsbrakka (Síldarminjasafn Íslands) og gamlir sýnilegir staurar lengst til hægri eru líklega leifar eftir landfasta göngubrú út í sjálft Anleggið. Ljósmyndari og kona óþekkt.
Brú að Anlegginu. Ljósmyndari: óþekktur.
Myndin er líklegast tekin á svölunum hjá Eggerti Theodórs á Suðurgötu 43. Ekki er vitað hver stúlkan er. Það sést í Anleggið eins og það var kallað. ( flotbryggja ? ) ljósmyndari óþekktur.

Einstaklega skemmtilegar viðbótar upplýsingar bárust pistlahöfundi 29 ágúst, gegnum Facebook grúppuna “Gamlar ljósmyndir”:

Á þessari máðu mynd sést einnig dularfull tenging við Anleggið frá annarri landfastri bryggjueyju? Ljósmyndari óþekktur.
Landtenging við Anleggið skáhalt frá annarri bryggjueyju. Ljósmyndari óþekktur.

Það gætir margra grasa á heimildarsíðu Steingríms, en þar er meðal annars að finna tilvísanir í greinar frá 1916 – 1917 um hugmyndir varðandi hafnarmál og götunöfn og. fl. í Siglfirska bæjarblaðinu Fram og þar kemur skýrt fram vandamálin varðandi bæði pláss- og hafnarleysi fjarðarins, en hér er mest verið að rökræða um framtíðar staðsetningu Hafnarbryggjunnar:

“…Höfnin.

Engum sem kunnugur er staðháttum hér á Siglufirði, dylst það, að framtíð hans sem blómlegs fiskiþorps og kauptúns eins atvinnumesta pláss landsins – og innan fárra ára eins álitlegasta bæjar á landinu, ef rétt er áhaldið — stendur og fellur með höfninni. Hitt vitum vér líka, að höfninni til bóta hefir ekkert — alls ekkert verið gjört, sem til framkvæmda hefir komið, fram til þessa dags, því ég tel ekki ljósmerkið á Selvíkurnefi, sem, þó það sé betra en ekkert, gjörir ekki nægilegt gagn sem leiðarljós fyrir fjörðinn.…”

“… Vér sem kunnugir erum orðnir mætti íss og ægis hér á Siglufirði og ég tel okkur hafa betri þekkingu í þeim efnum en alla landsins verkfræðinga — vitum það að bryggja þarna útfrá þarf að vera mjög ramgjörð eigi hún að standa óhögguð, og við höfum ekki efni á að fita okkur áfram með tilraunum, þó landssjóður hefði það með flóðgarðinn. Að bryggjan verði því afar dýr þarna, um það eru víst allir sammála. En til þess að því fé sé eigi að meira eða minna leiti á glæ kastað, þarf notagildið að vera tilsvarandi…”

Anleggið séð úr SR-strompinum 1946. Svört lína þar sunnar er byrjun á uppfyllingaráætlunum hins svokallaða Leirutanga. Ljósmyndari er sagður óþekktur, en þessi mynd líkist annarri mynd sem Ástvaldur Kristjánsson tók þegar hann var að vinna við byggingu strompsins 1946.

Sjá fleiri myndir hér:

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 myndir)
Siglufjörður 1930-31 (Kirkjan í byggingu). Á þessari mynd sést stærðin á Anlegginu á þessum tíma vel. Ljósmyndari óþekktur.
Siglufjörður um og eftir 1935. Heilmikil landfylling sýnileg við smábáta dokkina. Anleggið og langar bryggjur undir Hafnarbakka sýnilegar i bakgrunninum og ferhyrnt bæjarskipulag á eyrinni. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari óþekktur. ATH. Þarna sést einnig löng bryggja í Hvanneyrarkróknum.
Horft til vesturs. Anleggið og Leirutanga byrjun fyrir miðri mynd. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. (Kroppað úr mynd G-2279)
Ljósmyndari óþekktur.
Ljósmyndari óþekktur.

Pistlahöfundur er of ungur til þess að muna endalok þessarar dularfullu bryggjueyju, man bara eftir helling af bryggjustaurum á þessu svæði úr gömlum minningarmyndum um kajakaferðir við Leirutanga. Upplýsingar og ljósmyndir um endalok Anleggsins eru vel þegnar.

FRAMTÍÐIN SEM ALDREI KOM

Siglufjörður kringum 1960. Annleggið horfið. Leirutangi byrjaður að formast samkvæmt skipulagsteikningum þess tíma. Ljósmyndari: Sigurður B Jóhannesson.

Sjá meira hér af Siglufjarðar ljósmyndum Sigurðar hér:

Myndasyrpa: Siglufjörður um 1960
Ljósmynd af skipulagskorti frá 1969. Ljósmyndari: Guðmundur Gauti Sveinsson

Það er alltaf svo auðvelt að vera gáfaður eftir á, við getum kannski í flissað og hlegið af þessum stórsinntu framtíðarhugmyndum sem sköpuðust hjá fólkinu sem bjó á Siglufirði á þessum tíma. En síldin var reyndar ekki formlega búin að tilkynna að hún væri farin og vonin um að hún væri bara í sumarleyfi og að hún kæmi nú fljótlega aftur lifði enn……..
…. og bærinn gat eiginlega vegna landsskorts bara vaxið í suður átt. Beint inn í þekkt snjóflóða hættusvæði.

Með tilkomu Leirutanga átti höfnin að stækka verulega og skapa meira landrými og samtímis hindra árframburð í að fylla innri höfnina.

AÐ LOKUM…

…BRYGGJUR Í OG NORÐAN VIð HVANNEYRARKRÓK.

Árið 1923 hóf Óskar Halldórsson síldarsöltun í Bakka ( neðan við Hvanneyrarbraut ) en þar hafði Pétur J. Thorsteinsson saltað síld í nokkur ár.

Í Óskars sögu Halldórssonar segir að hann hafi saltað í Bakka til ársins 1934 og frá 1937 til 1941. Síðar saltaði Óskar einnig á Jarlsstöð.

Í bókinni segir: ,, Óskar reisti og rak lýsisbræðslu á Bakka og reisti þar frystihús og frysti síld til beitu. “

Bryggjurnar í Bakka skemmdust oft af brimi á vetrum, en voru reistar aftur að vori.”

Heimildir:
Siglfirskur annáll eftir Þ. Ragnar Jónasson.

Sjá meira hér og fræga mynd af Óskari Halldórs sem er talinn vera fyrirmynd “Íslands-Bersa” í skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness.

Mynd vikunnar- HF Bakki
sksiglo.is | Almennt | 03.04.2011| Helga Sigurbjörnsdóttir.

Bryggjur við söltunarstöð Óskars Halldórssonar í Bakka, ásamt fleiri bryggjum í Hvanneyrarkrók í bakgrunninum. Ljósmyndari óþekktur.
Bryggjur og Bakki hf. Íshús. Ljósmyndari Vigfús Sigurgeirsson.
Skip við bryggju í Hvanneyrarkróknum. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónson.
Olíubryggja Shell og BP. Hvanneyrarprestsetrið og gamla Rafstöðin í bakgrunninum. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Bryggja í Hvanneyrarkrók. Ljósmyndari óþekktur.
Bryggja í Hvanneyrarkrók og lítil byggð úti í Bakka. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Forsíðu ljósmyndin í fullri stærð. Siglufjörður 1929. Ljósmyndari: Vigfús Sigurgeirsson.

Hægt er að sjá fleiri merkilegar ljósmyndir af Anlegginu fræga og breytilegu bryggjuumhverfi Siglufjarðar hér:

ANLEGGIÐ! Fleiri stórmerkilegar myndir

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Vigfús Sigurgeirsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfir frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í heimildir gegnum slóðir í greinartexta.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir aðstoð, góð ráð og yfirlestur.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 og 2 HLUTI. 130 MYNDIR

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir