Þriðjudaginn 30. apríl varð íslenska líftæknifyrirtækið Primex Iceland 20 ára, það hóf framleiðslu á Siglufirði árið 1999. Í tilefni dagsins komu starfsmenn Primex saman á Harbour House í blíðskapar veðri og skáluðu í kampavíni. “Á tímamótum sem þessum þá horfir maður óhjákvæmilega til baka og sér svo skýrt hversu vegurinn frá hugmynd til hagnýtingar getur verið langur og strangur, en afmælisbarnið dafnar vel og framtíðin er björt hvað varðar rekstur félagsins”.

Primex Iceland sérhæfir sig í þróun og sölu á kítósanvörum fyrir fæðubótarefni, snyrtivörur, græðandi vörur, lækningatæki og ýmsa aðra notkun og hefur unnið að því að breyta hráefni sem áður var úrgangur í verðmætar afurðir sem bæta lífsgæði manna og dýra. Árið 2012 hlaut Primex Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir að breyta úrgangi í verðmæti sem og að ná góðum árangri á mörkuðum erlendis.

Fyrirtækið nýtir alla rækjuskel á Íslandi sem fellur til við pillun og notar einungis skel af tegundinni Pandalus borealis sem veiðist í Norður-Atlantshafi. Ætla má að það séu ófá kolefnissporin sem hafa sparast á þessum tuttugu árum miðað við ef öll þessi skel hefði verið urðuð. Hreinleiki og sjálfbærni eru lykilatriði þegar framleiða á hágæðavöru og selja hana á mörkuðum um allan heim.

Sigríður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri og Rúnar Marteinsson verksmiðjustjóri í Primex

Í vísindaheiminum er kítósan oft nefnt sem undraefni framtíðar vegna margvíslegra eiginleika þess auk þess að vera náttúrulegt trefjaefni.

Primex hefur framleitt hráefni til græðandi notkunar til fjölda ára og hefur í samstarfi við bandarískan samstarfsaðila þróað vörur sem notaðar eru af atvinnumönnum til fyrstu hjálpar víða um heim.

Nýju ChitoCare Medical græðandi vörurnar voru nýlega skráðar sem lækningatæki og virka vel á örmyndun, sviða, roða og kláða ásamt því að vera náttúrulega græðandi. Þetta eru vörur sem ættu að vera til taks í ísskápnum á hverju heimili, ef t.d. um bruna er að ræða þá virkar mjög vel að úða geli eða spreyi yfir húðina strax eftir bruna, þannig dregur úr líkunum á blöðrumyndun og sársauka.

ChitoCare línan

Nýlega voru kynntar tvær nýjar vörur í ChitoCare línunni, sem kallast Body Scrub og Body Lotion og er Primex í þróun á fleiri snyrtivörum sem koma á markaðinn með sumrinu. Það sem gerir snyrtivörurnar einstakar er að í þær er notað sama virka efnið og í græðandi vörurnar. Þess vegna hafa þær verið að koma sérstaklega vel út fyrir viðkvæma- og exemkennda húð en eru auk þess sérstaklega rakagefandi og veita góða vörn þar sem kítósan myndar filmu.

ChitoCare Beauty voru á dögunum tilnefndar til Pure Beauty Global Awards í Dubai og kepptu þar til úrslita. Það vakti mikla athygli að ChitoCare Beauty sem eru glænýjar vörur væri tilnefndar ásamt þekktustu vörumerkjum heims. Þetta er okkur mikil hvatning í að halda áfram í þeirri þróunarvinnu sem við höfum lagt upp með.

ChitoCare Beauty voru á dögunum tilnefndar til Pure Beauty Global Awards í Dubai. Myndin er tekin í Dubai.

 

Primex framleiðir einnig LipoSan línu, sem er fæðubótarefni, og er von á fleiri vörum í þeirri línu einnig. LipoSan hefur verið eitt mest selda íslenska fæðubótarefnið og allt frá árinu 2004 hefur það verið selt sem hráefni til annarra framleiðenda svo sem Herbalife, Nowfoods og fleiri aðila. Jákvæð hleðsla LipoSan gerir það ólíkt öðrum trefjum, en þessi hleðsla gerir það að verurm að LipoSan dregur í sig sindurefni. LipoSan er vel til þess fallið að stjórna þyngd og kólesteróli.

Það hefur góð áhrif á þarmaflóru og meltingu auk þess að geta stuðlað að meiri andoxunarvikrni og minna oxunarálagi sem hafa áhrif gegn öldrun.

 

Veðrið lék við starfsmenn Primex